Monday, December 31, 2012

Una og Meistarinn

Ég hef nú lokið við tvær bækur í viðbót. Fyrst las ég Unu eftir Óttar M. Norðfjörð. Það er mjög stutt síðan ég las aðra bók eftir Óttar, Áttablaðarósina, og skrifaði um hana þennan pistil. Mér finnst Una mjög ólík Áttablaðarósinni sem og öðrum bókum sem ég hef lesið eftir Óttar. Hingað til hafa mér fundist bækur Óttars mjög spennandi en söguþráðurinn oft langsóttur - jafnvel ótrúverðugur  - þó að hann gæti átt sér stoð í raunveruleikanum. Þrátt fyrir það hef ég haft gaman af bókum Óttars. Ég get ekki lýst Unu á sama hátt þó að söguþráður bókarinnar sé með þeim langsóttari. Í fyrsta lagi fannst mér bókin ekki það spennandi fyrr en í lokin og í öðru lagi hafði ég ekki sérlega gaman af henni. Una er ekki bók sem lætur manni líða vel.

Í Unu er sögð saga Unu Helgu Gottskálksdóttur sem hefur nýlega misst ungan son sinn. Sonur hennar hvarf þegar þau voru tvö í lautarferð á Reykjanesi og blindbylur skall á. Þó að tíu mánuðir séu liðnir frá því að sonur Unu hvarf trúir hún því enn að hann sé á lífi og leitar hans ákaft. Leit Unu hefur leitt til skilnaðar hennar við eiginmann og barnsföður og ættingjar og vinir óttast mjög um hana.  Lesandinn fær að fylgjast með rannsóknum, pælingum og furðulegum kenningum Unu sem leiða að lokum til mjög svo dularfullrar atburðarrásar.

Ef ég ætti að lýsa Unu í einu orði þá myndi ég lýsa henni sem draugasögu. Mér finnst að sú staðreynd að Una sé draugasaga ætti að koma skýrt fram á bókarkápunni (sem það gerir ekki þó að það sé aðeins ýjað að því). Sjálf er ég nefnilega ekkert sérstaklega hrifin af draugasögum og forðast þær eftir bestu getu. Ég er reyndar svo lítið hrifin, að eftir að ég las Ég man þig eftir Yrsu Sigurðardóttur, sem er að mínu mati ógeðsleg draugasaga, þá er ég hætt að lesa bækur eftir Yrsu. Ég var þ.a.l. ekkert sérlega hrifin af Unu. Jafnvel þó ég myndi dæma Unu eingöngu út frá því að hún sé draugasaga þá fannst mér hún ekkert sérstaklega góð sem slík. Ég var t.d. ekki jafn skíthrædd og þegar ég las Ég man þig. Bókin sat ekki í mér, ég gat auðveldlega sofnað að lestri loknum og ég þurfti bara tvisvar að grípa í Símon til að fá andlegan stuðning á meðan lestrinum stóð.

Næsta bók sem ég las er Meistarinn eftir tvo sænska höfunda, þá Hjorth og Rosenfeldt. Bókin er sjálfstætt framhald bókarinnar Maðurinn sem var ekki morðingi sem kom út í fyrra. Aðalpersóna bókaseríunnar er réttarsálfræðingurinn Sebastian Bergman. Sebastian á mjög glæsta fortíð sem rannsakandi hjá morðdeild lögreglunnar en má muna sinn fífil fegri. Hann hefur orðið fyrir áfalli og miklum missi og á erfitt með að vinna sig út úr því. Hann er ekkert sérstaklega viðkunnanleg persóna en áhugaverð. Maður heldur með honum og vonar að hann taki sér tak.

Þegar Meistarinn hefst þá hafa þrjár konur verið myrtar. Lögreglan telur ljóst að um sé að ræða hermikráku, þ.e. raðmorðingja sem hermir eftir öðrum þekktum raðmorðingja. Sebastian átti þátt í að handtaka fyrirmyndina sem hefur verið í fangelsi í fjórtán ár þegar bókin hefst ef ég man rétt. Sebastian treður sér í rannsóknarteymi morðdeildarinnar, þrátt fyrir  mikla mótstöðu, og fær  að taka þátt í rannsókninni.

Mér finnst Meistarinn virkilega góð glæpasaga og því miður miklu betri en þær íslensku glæpasögur sem ég hef lesið þetta árið. Mér finnst einfaldlega mun meira í hana lagt, bæði fléttuna og persónurnar. Fléttan heldur manni spenntum allan tímann. Af þeim fimm "jólabókum" sem ég er búin að lesa að svo komnu mæli ég sem sagt mest með Meistaranum. Ég vil samt taka fram að bókin er mikill doðrantur, rúmar 500 bls., og því sannarlega ekkert léttmeti ef fólk er að leita að slíku. 

Friday, December 28, 2012

Ár kattarins, Rof og Reykjavíkurnætur

Jæja, þrjár búnar - mjög margar eftir! Fyrsta "jólabókin" sem ég las í ár var Ár kattarins eftir Árna Þórarinsson. Ár kattarins er áttunda bók Árna um þrautseiga blaðamanninn Einar. Ég held að ég hafi lesið þær flestar (því miður ekki allar) og hef alltaf haft frekar gaman af Einari og pælingum hans um lífið og tilveruna. Það er nokkuð margt að gerast í þessari bók. Einar kemur bæði að lausn morðmáls og  alvarlegs líkamsárásarmáls en auk þess lendir hann í miðjunni á pólítískum  átökum innan stjórnmálaflokks (Jafnaðarbandalagsins svokallaða). Mér fannst morðmálið verst útfært af þessum þremur meginþáttum sögunnar en hitt fannst mér nokkuð vel gert. Morðmálið er í sjálfu sér mjög áhugavert og óvenjulegt. Mér fannst þó allt of lítið lagt í lausn málsins. Lausnin kom einhvern veginn af sjálfu sér og án allra skemmtilegra vísbendinga.

Ég myndi ekki segja að Ár kattarins væri ein af þeim bókum sem eru svo spennandi að maður getur ekki lagt þær frá sér. Hún er ekki ofurspennandi. Hún mallar samt ágætlega áfram og þar sem maður er farinn að kannast við persónurnar er manni ekki sama hvernig er farið með þær. Mér finnast samtímalýsingar Árna svo mjög skemmtilegar og finnst hann oft mjög fyndinn. Hann er einn af fáum rithöfundum sem mér finnst takast að skrifa um samtímann, með vott af ádeilu, án þess að það verði tilgerðarlegt eða "besservisseralegt". Sem dæmi má nefna eftirfarandi klausu þar sem Einar fer yfir fréttir dagsins, sjá bls. 113: 

Ríkisstjórnin stendur ekki við neitt, segir ASÍ. Höfum staðið við allt, segir forsætisráðherra. Borgarstjórinn í Reykjavík vill gera höfuðborgina að griðastað fyrir geitunga á norðurhveli jarðar. Háskólarektor undirritar samstarfssamning við LÍÚ um fjármögnun hlutlægrar rannsóknar á kostum og göllum kvótakerfisins og vill fá birta mynd af sér við þann gjörning. Unglingadrykkja dregst saman en marijúanareykingar aukast. „Áfengisverð orðið allt of hátt,“ segir álitsgjafi. Gjaldeyrishöftum kennt um aukningu innlendrar framleiðslu marijúana. Blóðug átök í Breiðholti rakin til skipulagðra glæpasamtaka. „Fráleitt,“ segir foringi þeirra. „Við erum fjölskylduvæn samtök áhugafólks um bifhjól.“

Í stuttu máli er Ár kattarins góð bók sem ég mæli með. Ég hugsa samt að þeim, sem hafa engar bækur lesið um Einar blaðamann, finnist hún ruglandi þar sem það eru margar tilvísanir í fyrri sögur.

Næsta bók sem ég las er Rof eftir Ragnar Jónasson. Rof er fjórða bókin sem Ragnar skrifar um Ara lögreglumann á Siglufirði (sem var reyndar ekki orðinn lögreglumaður í fyrstu bókinni). Hingað til hafa mér fundist bækur Ragnars fremur þunnar. Svo þunnar að ég hef getað slátrað þeim á klukkutíma eða tveim og ekki mikið setið eftir. Myrknætti, sem er þriðja bókin, fannst mér þó alveg ágæt. Að mínu mati er Rof veglegasta saga Ragnars hingað til, þó að ég hafi nú ekki verið lengi að slafra henni í mig. Sagan gerist bæði í Reykjavík og á Siglufirði sem, ótrúlegt en satt, er í sóttkví. Ari nýtur aðstoðar Ísrúnar, fréttamanns í Reykjavík, við að leysa gamalt og löngu gleymt sakamál úr Héðinsfirði en að auki fáum við að fylgjast með tveimur sakamálum í Reykjavík í gegnum starf Ísrúnar þar sem pólitískt ráðabrugg kemur við sögu.

Fyrst fannst mér allt of margt að gerast í einu og ég áttaði mig ekki á því af hverju höfundurinn væri að blanda öllum þessum sögum og persónum saman. Það kom svo í ljós að það voru tengsl á milli þráðanna svo að þessi blanda var ekki alslæm. Sagan úr Héðinsfirði er veigamest og mér fannst margt áhugavert við hana. Drungalegar lýsingar úr firðinum og daður höfundar við draugasögur urðu  reyndar þess valdandi að mig langar aldrei að koma þar í myrkri. Verst fannst mér að Ari telur sig hafa leyst gátuna án allra almennilegra sönnunargagna - það eina sem hann hefur eru getgátur og hálfkveðnar vísur. Í ljósi þess hve gamalt málið á að vera er það kannski skiljanlegt að vissu leyti en mér fannst þetta samt ekki ganga nógu vel upp. Til dæmis vegna þess að Ari er lögreglumaður og ætti að hugsa sem slíkur við lausn þessa máls sem annarra. M.v. það hvernig gátan er leyst get ég svo vel séð fyrir mér að Ari hefði getað fundið eitthvað aðeins bitastæðara.

Mér fannst Ár kattarins betri en Rof en ég hugsa samt að sú síðarnefnda falli betur í kramið hjá mörgum. Hún er auðveld aflestrar og svo virðast drungi og draugatal höfða vel til fólks um þessar mundir. Rof er besta bók Ragnars hingað til að mínu mati.

Þriðja og síðasta bókin sem ég er búin að lesa að svo komnu er Reykjavíkurnætur eftir Arnald Indriðason. Sagan gerist stuttu eftir að Erlendur hefur hafið störf hjá lögreglunni og fjallar um hans fyrsta morðmál. Dauði útigangsmanns vekur áhuga Erlendar af persónulegum ástæðum og leiðir til þess að hann fer að rannsaka málið á eigin spýtur. Ég ætla nú ekki að segja mikið um söguþráðinn þar sem flestir kannast við Erlend og hans aðferðir sem og stíl Arnaldar. 

Að mínu mati er Reykjavíkurnætur nær því að vera söguleg skáldsaga en eiginleg glæpasaga eða spennusaga. Það er vissulega glæpur þarna (eða jafnvel glæpir) en mér fannst aðaláherslan vera á annað, þ.e. á Erlend sem persónu og tengsl hans við aðrar persónur; samstarfsfólk, aðstandendur, glæpa/undirmálsmenn og kærustu. Sögupervertinum í mér fannst svo mjög skemmtilegt að lesa um störf lögreglunnar á þessum árum (sagan gerist árið 1974 að ég tel), lýsingar á höfuðborginni sem og um aðstæður útigangsmanna. 

Reykjavíkurnætur er ágætlega skrifuð bók - ekki beinlínis spennandi en samt ágæt. Fín afþreying. Ég hugsa að flestir hafi gaman af henni.

Saturday, December 22, 2012

Smákökur með lakkrískurli og ristuðum kókos

Ég hef alls ekki verið dugleg að baka í desember - það hefur enda verið nóg annað að gera. Ég ákvað í dag að ég yrði að baka eina smákökusort, til að sýna smá lit og vera jólaleg. Ég fann þessa uppskrift á síðunni hjá Joy the Baker og ákvað að laga hana að því sem ég átti til í eldhúsinu. Kökurnar urðu mjög góðar, stökkar að utan en mjúkar að innan. Blandan af lakkríks og kókos verður til þess að kökurnar bera keim af lakkrískonfekti.






Smákökur með lakkrískurli og ristuðum kókos
225 g ósaltað smjör
1 bolli sykur
3/4 bolli púðursykur
1/2 tsk vanillusykur (það er líka hægt að nota 1 tsk/1 msk af vanilludropum)
2 1/2 bolli hveiti
3/4 tsk matarsódi
1/2 - 3/4 tsk salt (eftir smekk)
1 stórt egg og 1 stór eggja rauða (ég átti bara lítil egg og notaði þrjú þeirra í staðinn)
1/4 bolli kókosflögur
1 bolli lakkrískurl

1) Stillið ofninn á 175°C. Ristið kókosflögurnar við meðalhita á pönnu, þangað til þær brúnast. Setjið þær í skál að því loknu og kælið.


2) Bræðið smjörið á pönnu við meðalhita. Ætlunin er að brúna smjörið. Fyrst eiga loftbólur að myndast og smellir að heyrast. Smjörið byrjar að brúnast þegar loftbólurnar hverfa, smellirnir hætta og lyktin af smjörinu verður karmellukennd. Þegar smjörið er brúnað, takið það af pönnunni og geymið í skál eða könnu og kælið aðeins.

3) Blandið saman hveiti, matarsóda, salti og vanillusykri í meðalstórri skál (ef þið notið vanilludropa þá fara þeir í blönduna síðar). Setjið til hliðar.

4) Setjið báðar sykurtegundir í hrærivélarskál ásamt smjörinu og hrærið, á meðalhraða, í ca. 2 mínútur. Það er í lagi þó að það sjáist ennþá móta fyrir sykurkornunum. 

5) Blandið eggjunum saman við sykurinn og smjörið og hrærið á meðalhraða í 2 mínútur. Blandan á að verða silkimjúk. (Ef þið notið vanilludropa, setjið þá í blönduna á þessum tímapunkti og hrærið aðeins).

6) Hægið á hrærivélinni og blandið þurrefnunum smátt og smátt saman við. Hrærið þar til deigið er alveg að koma saman. Takið skálina þá úr hrærivélinni og blandið kókos og lakkrískurli saman við með sleikju eða sleif. Deigið er fremur þykkt. 

7) Notið matskeið til að móta deig í kúlur og raðið hæfilega mörgum á bökunarplötur Ég stráði smá af fínu sjávarsalti yfir kökurnar áður en ég setti þær í ofninn. Bakið kökurnar í 10-12 mínútur, eða þar til þær eru rétt brúnaðar. Þær eiga að vera fremur mjúkar. Takið úr ofninum og leyfið þeim að kólna í smá stund.

8) Borðið eða geymið í kökudunk.

(Ég gerði rúmlega 50 smákökur úr þessari uppskrift).

Friday, December 14, 2012

Hefndarþorsti

Þó að ég sé að farast úr spenningi fyrir jólabókunum (án gríns) þá tókst mér að klára eina bók - n.t.t. Hefndarþorsta eftir Michael Ridpath. Hefndarþorsti kom út fyrir jólin í fyrra og er sjálfstætt framhald bókarinnar Hringnum lokað. Sögurnar fjalla um hinn íslensk/bandaríska lögreglumann Magnus Jonsson. Magnus er fæddur á Íslandi en fluttist til Bandaríkjanna þegar hann var enn barn að aldri. Sögurnar gerast á Íslandi þar sem Magnus er að reyna að fóta sig að nýju eftir langa fjarveru.

Það má segja að Hefndarþorsti sé ein af hinum svokölluðu hrunbókum. Ég man hreinlega ekki hvað eru komnar út margar glæpasögur sem fókusera á útrásarvíkingana, hrunið og öll leiðinda eftirköstin. Það er a.m.k. ein slík bók komin út eftir Ævar Örn Jósepsson og líka eftir Arnald Indriðason ef ég man rétt. Ég man ekki eftir fleirum eins og er en mér finnst afar líklegt að þær leynist þarna úti. Satt að segja þá finnst mér of snemmt að skrifa um hrunið, aðdragandann og eftirköstin. Mér finnst það a.m.k. afar vandmeðfarið, einkum vegna þess að það er svo stutt í besservisserinn. Það er svo svakalega auðvelt að vera vitur eftir á.

Söguþráður Hefndarþorsta er í stuttu máli sá að tveir menn, tengdir bönkunum og útrásinni, finnast látnir og Magnus Jonsson aðstoðar íslensku lögregluna við að finna morðingjana.  Rannsóknin teygist bæði til Bretlands og Frakklands og er í ýmsa koppa að líta. Fortíð Magnusar á Íslandi herjar mjög á hann og svo er önnur saga í sögunni - ráðgátan um morðið á föður Magnusar.  Þá gengur á ýmsu í ástarlífi Magnusar og það má því segja að það sé nóg að gerast. Mér fannst baksaga Magnusar meira spennandi heldur en hrunsagan og drápin á útrásarvíkingunum. Síðarnefndi söguþráðurinn fannst mér afskaplega fyrirsjáanlegur. Ridpath leysir reyndar ekki úr fortíðarflækjunni í þessari bók og það er því augljóst að það verða fleiri bækur í seríunni (samkvæmt Amazon er þriðja bókin þegar komin út á ensku og Ridpath virðist byrjaður á þeirri fjórðu).

Ridpath er breskur og skrifar bækurnar á ensku. Ég veit ekki hvaða tengingu hann hefur við Ísland, eða af hverju hann velur að skrifa um Ísland, en það er augljóst að hann hefur unnið heimavinnuna sína. Hann veit ótrúlega margt um Ísland og íslenskt samfélag þó að honum takist ekki alveg að forðast klisjurnar. Það var samt oft eitthvað sem truflaði mig við orðaval. Mér fannst það stundum stirt og/eða skringilegt miðað við hvað umhverfið og aðstæðurnar eru kunnuglegar. Svo að ég nefni dæmi um orðaval sem mér finnst ekki ganga upp þá segir á einum stað að Magnus hafi "notið ásta". Þá er á öðrum stað talað um að önnur persóna hafi "sorðið" aðra. Mér finnst "að njóta ásta" afskaplega tilgerðarlegt orðaval og orðið "serða" er svo sjaldan notað í íslensku talmáli að ég er ekki einu sinni viss um að ég kunni að beygja það almennilega (serða er sennilega ekki orð sem grunnskólakennarar velja sérstaklega sem dæmi í málfræðitímum).

Að mínu mati er Hefndarþorsti bók sem er allt í lagi en ekkert meira en það. 

Tuesday, December 11, 2012

84 Charing Cross Road og The Prime of Miss Jean Brodie

84 Charing Cross Road eftir Helene Hanff og The Prime of Miss Jean Brodie eftir Muriel Spark eru tvær bækur sem ég hef ágirnst lengi. Árátta mín fyrir fyrrnefndu bókinni hefur þó staðið mun lengur yfir eða allt frá því að ég las Bókmennta- og kartöflubökufélagið (The  Guernsey Literary and Potato Peel Pie Society) eftir Mary Ann Shaffer og Annie Barrows fyrir nokkrum árum síðan. Frá því að ég las þá bók hef ég verið að leita að annarri sambærilegri. Leitin hefur gengið illa. 

Bókmennta- og kartöflubökufélagið er ein af mínum uppáhalds bókum. Frá því að ég keypti hana sumarið 2010 er ég búin að lesa hana a.m.k. tvisvar á ári. Bókin segir frá Juliet Ashton, ungum rithöfundi, sem fyrir tilviljun kemst í kynni við Bókmennta- og kartöflubökufélagið á Guernsey. Sagan gerist á Englandi stuttu eftir seinna stríð, aðallega í London og á Guernsey. Meginþema sögunnar er hernám Þjóðverja á Guernsey og upplifun heimamanna á eyjunni af því. Sagan er jafnframt saga Juliet og margra kostulegra karaktera á Guernsey. Sagan er skrifuð í formi bréfa. Flest bréfin eru annað hvort skrifuð af Juliet eða til Juliet en það er þó ekki algilt. Sagan er bæði sorgleg og fyndin og svo er sögulegi vinkillinn mjög áhugaverður. Lýsingar á staðarháttum á Guernsey eru það góðar að eftir hvern lestur langar mig að heimsækja eyjuna. Höfundar sögunnar eru Mary Ann Shaffer og Annie Barrows en Shaffer á meira í henni eftir því sem ég kemst næst. Shaffer fékk frænku sína, Barrows, til að aðstoða sig við að ljúka bókinni vegna veikinda. Shaffer lést svo áður en bókin kom út og sá Barrows því um útgáfuna. Þetta er eina skáldsagan sem komið hefur út eftir Shaffer. Barrows hins vegar hefur skrifað og gefið út barnabækur.

Eftir að hafa komist að því að fleiri skáldsögur væru ekki til eftir rithöfund Bókmennta- og kartöflubökufélagsins hóf ég þessa leit að annarri sambærilegri og jafn góðri bók. Leitin hefur ekki gengið vel hingað til eins og áður sagði. Ég rakst þó fljótlega á að margir mæltu með og líktu 84 Charing Cross Road eftir Hanff við Bókmennta- og kartöflubökufélagið. Sú bók var hins vegar ekki til sem rafbók og hvað þá í íslenskum bókabúðum. Ég ætlaði að leita að henni  þegar ég var í New York í fyrra en hafði ekki tíma til þess. Ég ákvað loks, rúmum tveimur árum síðar, að panta hana af Amazon ásamt öðrum bókum sem mig vantaði sárlega.

84 Charing Cross Road er ekki löng bók. Hún er reyndar svo stutt að það er auðvelt að klára hana á einu kvöldi. Bókin  er ekki skáldsaga heldur bréfasafn. Í bókinni eru rakin 20 ára bréfaskipti höfundarins Helene Hanff við starfsmenn bókabúðar í London sem var staðsett við 84 Charing Cross Road.  Hanff, sem var búsett í New York, sendi bókabúðinni upphaflega beiðni um nokkrar fágætar bækur en samband hennar við starfsmennn búðarinnar (aðallega einn) þróast svo og verður að vináttu. Það eru það mikil líkindi með þessari bók og Bókmennta- og kartöflubökufélaginu að ég trúi ekki öðru en að annað hvort Shaffer eða Barrows hafi haft hana í huga við skrif bókarinnar. Það eru ákveðin líkindi með aðalpersónunum (eða aðalbréfaskrifurunum), húmorinn er líkur og svo snýst söguþráðurinn að miklu leyti í kringum bækur. Bréfaskrifarar ræða jafnvel um og dást af sömu bókum í báðum sögum.

Þar sem 84 Charing Cross Road er ekki skáldsaga fær maður  ekki að vita jafn mikið um persónurnar og baksöguna og maður hefði viljað. Ég hafði samt mikla ánægju af því að lesa þetta bréfasafn. Það er svo frábær tilhugsun að það hafi verið til fólk í alvörunni sem var svona fyndið og frábært. Nú langar mig að lesa allt sem komið hefur út eftir Hanff, sem var aðallega handritshöfundur en hefur þó gefið út nokkrar bækur. Þær bækur eru auðvitað ekki til sem rafbækur. Ætli það líði ekki tvö ár þangað til ég hef mig í að panta hinar..

Fyrir jólin í fyrra kom út í íslenskri þýðingu bókin Langur vegur frá Kensington (A Far Cry From Kensington) eftir Muriel Spark. Ég las hana þá og líkaði stíllinn og söguþráðurinn vel. Það er það langt síðan ég las söguna að ég man söguþráðinn ekki nógu vel til að geta endursagt hann en ég man að þessi lestur varð til þess að mig langaði til að lesa meira eftir Spark. Eftir stutta könnun komst ég að því að bókin The Prime of Miss Jean Brodie væri frægasta og jafnframt besta bók Spark og beit því í mig að lesa hana sem fyrst. Ég lenti hins vegar í sömu vandræðum með hana og með 84 Charing Cross Road og fékk bókina því ekki í hendurnar fyrr en með pöntuninni um daginn.

The Prime of Miss Jean Brodie er mjög sérstök bók. Hún segir sögu Jean Brodie, kennara í klassískum stúlknaskóla í Edinborg sem notar óhefbundnar kennsluaðferðir. Sagan er ekki sögð af Brodie sjálfri heldur byggir hún á upplifun sex stúlkna úr nemendahóp Brodie sem hún tók að sér. Stúlknahópurinn er nefndur "the Brodie set" en stúlkurnar eiga það sameiginlegt að vera allar frægar fyrir eitthvað í skólanum, hvort sem það eru hæfileikar eða útlit.  Lesandinn fær í raun aldrei að vita mikið um Brodie, aðeins það sem stúlkurnar hafa eftir henni eða halda um hana. Sagan varpar ekki beinlínis ljósi á það hvernig Brodie hlúir að sambandi sínu við stúlkurnar þar sem lesandinn hefur aðeins þeirra orð fyrir því að hún sé frábær. Mér fannst alveg óskiljanlegt af hverju þær dást að henni og halda tryggð við hana. Það sem stendur upp úr er að Brodie endurtekur í sífellu nokkur slagorð,  t.d. að hún sé "in her prime" og að hún ætli að gera stúlkurnar sex að "crème de la crème" í skólanum, og svo segir hún stúlkunum frá og gerir þær jafnvel að þáttakendum í ástarlífi sínu. Að lokum svíkur ein stúlknanna Brodie sem verður til þess að hún er rekin úr skólanum og deyr svo stuttu seinna.

Stíll þessarar bókar er nokkuð sérstakur. Höfundurinn hoppar til dæmis fram og aftur í tíma, oft í sama kaflanum, og veður úr einu í annað. Það tók mig smá tíma að venjast þessu en þetta hafðist að lokum. The Prime of Miss Jean Brodie er svona bók sem ég veit ekki hvað mér finnst um. Ég veit að það er einhver boðskapur þarna en ég er ekki alveg viss hver hann er. Það endar sennilega með því að ég les hana aftur bara til að átta mig betur á henni.

Wednesday, November 28, 2012

Pecanhnetubaka

Um síðustu helgi eldaði ég kalkún í félagi við Trausta vin okkar Símons. Þetta var frumraun okkar beggja í kalkúnaeldamennsku sem gekk líka svona ljómandi vel. Kalkúninn var vel eldaður, bragðgóður og alls ekki of þurr - kannski ekki skrýtið þar við jusum bræddu smjöri yfir hann á hálftíma fresti.

Til að halda réttu stemmingunni ákvað ég að baka pecanhnetuböku til að hafa í eftirrétt og hafði uppskrift úr Back In the Day Bakery Cookbook til hliðsjónar. Ég hef aldrei bakað svona hefðbundna böku áður en ég hélt satt að segja að það væri algjört vesen. Ég hafði rangt fyrir mér - þetta hefði varla getað verið einfaldara. Þetta var a.m.k. mun auðveldara en að baka tveggja laga köku með kremi og tilheyrandi veseni.

Pecanhnetubaka
Botninn:
1 1/2 bolli hveiti
1/4 bolli ljós púðursykur
1/2 tsk fínt malað sjávarsalt (alvöru)
165 g ósaltað smjör, brætt

1) Hrærið saman hveiti, sykur og salt. Hellið smjörinu rólega saman við þurrefnin og hrærið með gaffli á meðan. Deigið á að vera fremur blautt og eins og hálfgerð mylsna.

2) Setjið deigið í bökuform (ég held að mitt sé 9 eða 10 tommur) og ýtið því jafnt yfir botninn og upp hliðarnar. Setjið deigið svo til hliðar og vinnið í fyllingunni.
Fyllingin:
1/2 bolli sykur
1/4 bolli ljós púðursykur
1 1/4 bolli sýróp
1/2 tsk fínt malað sjávarsalt (alvöru)
1 1/2 tsk hveiti
3 stór egg
1 1/2 tsk vanilludropar
2 msk viský
23 g ósaltað smjör, brætt
1 3/4 bolli pecanhnetur

1) Hitið ofninn í 175°C. Í meðalstórri skál, blandið saman báðum tegundum af sykri, sýrópi, salti, hveiti og eggjum og hrærið í 1-2 mínútur. Blandan á að vera vel hrærð.

2) Hrærið vanilludropunum, vískýinu og smjörinu því næst vel saman við. Setjið pecanhneturnar síðast út í og hrærið lítillega.

3) Hellið fyllingunni yfir deigið í forminu. Bakið í tæplega 1 klst. og 15 mínútur. Fylgist vel með. Takið bökuna svo út og kælið í a.m.k. 1 klst. áður en bragðað er á henni.

4) Berið fram með þeyttum rjóma og njótið.

Tuesday, November 27, 2012

Appelsínuskonsur með súkkulaði

Þessi uppskrift, appelsínu-skonsur með súkkulaði eftir Joy the Baker, er ein af mínum uppáhalds þessa dagana. Skonsurnar eru mjög góðar, það er auðvelt að búa þær til og þær eru fáránlega krúttlegar.

Skonsurnar eru ekta bakkelsi til að borða ylvolgar (með nóg af smjöri) í morgun- eða hádegisverð um helgar. Þær eru það góðar að þær bæta manni upp erfiða vinnuviku. 

Skonsuppskriftin, löguð að íslenskum aðstæðum og hráefnum (og með viðbótum frá mér), er hér fyrir neðan.

Appelsínuskonsur með súkkulaði 
1 1/2 bolli hveiti
2 msk sykur
Rifinn börkur af einni appelsínu
2 1/4 tsk lyftiduft
1/4 tsk matarsódi
1/2 tsk salt
90 g ósaltað smjör (kalt)
1 eggjarauða (stór)
1/4 bolli + 2 msk súrmjólk (köld)
1/2 bolli dökkir súkkulaðibitar

1) Hitið ofninn í 215°C. Sigtið hveiti, sykur, lyftiduft, matarsóda og salt saman í skál. Hrærið og blandið appelsínuberkinum saman við.
2)  Skerið smjörið í bita og blandið saman við þurrefnablönduna. Það er best að nota hendurnar til að blanda smjörinu við þurrefnin. Deigið verður eins og hálfgerð mylsna þegar þessu er lokið.

3) Setjið eggjarauðu og súrmjólk í aðra skál. Hrærið létt saman með gaffli. Hellið blöndunni svo saman við hina og hrærið þangað til að blandan verður að mjúku deigi. Blandið súkkulaðibitunum síðast saman við. 

4) Stráið smá hveiti á borðplötuna, takið deigið úr skálinni og hnoðið lítillega. Deigið á að vera mjög meðfærilegt. Mótið deigið þannig að það verði ca. 1,5-2 cm á þykkt og kassalaga. Skerið deigið í fjóra stóra bita eða sex minni (ég hef stundum gert aðeins fleiri en ef þið gerið það þá þarf að fylgjast vel með þeim í ofninum og stytta bökunartímann aðeins).

5) Setjið bökunarpappír á ofnplötu og raðið skonsunum á hana með hæfilegu millibili (þær lyfta sér og stækka nokkuð). Setjið í ofninn og bakið í ca. 12-15 mínútur. Það er best að borða skonsurnar á meðan þær eru heitar.
(Það er mjög auðvelt að breyta þessari uppskrift. Það er t.d. hægt að sleppa appelsínuberkinum og/eða setja eitthvað annað í staðinn fyrir súkkulaði. Ég hef sett rúsínur í staðinn fyrir súkkulaði en mér dettur í hug að það sé líka gott að setja þurrkuð bláber, einhver önnur þurrkuð ber, ristaðar pecanhnetur o.s.frv. o.s.frv.)

Wednesday, November 21, 2012

Áttablaðarósin

Ég var að ljúka við Áttablaðarósina eftir Óttar M. Norðfjörð. Bókin kom út fyrir jólin 2010 en ég var fyrst að rekast á hana núna. Það er reyndar eins og Óttar hafi farið fram hjá mér hingað til, því ég hef  aðeins lesið eina aðra bók eftir hann - Lygarann sem kom út fyrir jólin í fyrra.

Sagan er að mínu mati nokkuð klassísk glæpasaga og alveg ágæt sem slík. Sögusviðið er Reykjavík stuttu eftir hrun. Þó að hrunið komi eitthvað við sögu þá er það ekki aðalatriði söguþráðarins eins og í svo mörgum öðrum glæpasögum e. hr. Spilling í íslenskum viðskiptum er þó áberandi. Gamlir og löngu gleymdir atburðir koma einnig við sögu sem mér finnst alltaf skemmtilegt.

Sagan er sögð frá sjónarhorni nokkurra persóna en þó oftast frá sjónarhorni þeirra Gabríels, Áróru og Egils. Gabríel er nemandi í  MR, Áróra er fjölmiðlafræðingur með lögfræðilegan bakgrunn og Egill er einn ríkasti maður Íslands. Nokkuð óljóst er í fyrstu hvað tengir þessar persónur saman en tengingin kemur smátt og smátt í ljós. Ef ég ætti að finna eitthvað að sögunni þá væri það helst að mér fannst hún oft frekar óraunveruleg og jafnvel ótrúverðug á köflum (það sama fannst mér reyndar um Lygarann). Það gæti þó talist kostur - þetta er jú skáldsaga. Kannski er ég orðin of samdauna þessari hefðbundnu raunsæju norrænu glæpasögu... Það virðist a.m.k. vera kominn tími til að kíkja aðeins út úr kassanum og vera opin fyrir einhverju nýju.

Bókmenntafræðingar geta mögulega fundið eitthvað að stílnum, persónusköpun og fleiru (klisjum?)  en Áttablaðarósin er í það minnsta mjög spennandi. Þrátt fyrir að sagan sé 450 bls. (og að ég hafi almennt nóg að gera) þá gleypti ég hana í mig á rétt rúmum tveimur dögum. Ætli það séu ekki bestu meðmæli sögunnar?

Sunday, November 11, 2012

Jane Austen II

Ég veit að ég er búin að skrifa um Austen og skáldsögurnar hennar sex, sjá hér, en ég verð að bæta við það. Ég ákvað, í ljósi ómældrar aðdáunar minnar, að lesa allt annað sem ég gæti fundið eftir Austen (eða um Austen) og keypti í þeim tilgangi þrjár rafbækur; Love and Friendship, Lady Susan og Memoir of Jane Austen. Síðastnefnda bókin er ekki skrifuð af Austen, heldur af frænda hennar, um hennar líf og persónu. Ástæðan fyrir því að ég tók hana með er sú að í lýsingunni á Amazon kom fram að bréf eftir Austen væru birt í bókinni.

Love and Friendship (upphaflega skrifað Love and Freindship) er safn af stuttum sögum, og reyndar einni ókláraðri skáldsögu, sem Austen skrifaði þegar hún var ung. Safnið var tekið saman  og birt eftir andlát Austen. Ég las einhvers staðar að nánasta fjölskylda Austen hefði ekki viljað birta þessar sögur, sennilega vegna þess að þær þóttu of léttvægar, en sem betur voru þær gefnar út síðar. Sögurnar eru mjög léttar og skemmtilegar. Austen virðist fyrst og fremst hafa skrifað þær til að skemmta fjölskyldunni og eru margar þeirra tileinkaðar einhverjum sérstökum. Sögurnar eru sumar farsakenndar og bera jafnvel keim af sápuóperum. Margar eru skrifaðar í bréfaformi, þar sem aðalpersónurnar senda bréf sín á milli og segja frá lífi sínu. Mér fannst gaman að lesa sögurnar. Húmor Austen er allsráðandi  - sem dæmi má nefna að Austen skrifar mjög svo óhefðbundna útgáfu af sögu Englands þar sem hún gerir m.a. grín af stíl sagnfræðinga og tilraunum þeirra til að vera hlutlausir. Titill sögunnar er: "The History of England from the reign of Henry the 4th to the death of Charles the 1st. By a partial, prejudiced, & ignorant Historian." Sagan var í upphaflegu útgáfunni myndskreytt af systur Austen, Cassandra, sem hún var nánust af systkinum sínum, t.d. með myndinni hér fyrir ofan. Mér finnst augljóst að með þessum stuttu sögum er Austen að leggja drög að öðrum sögum sínum - maður kannast vel við sum karaktereinkenni og hún notar persónunöfn sem koma fyrir í skáldsögum hennar, t.d. Willoughby, og vísar í götur og staði sem maður þekkir. Ég mæli með þessu sagnasafni fyrir aðra aðdáendur Austen. Flestum öðrum finnst sennilega kjánalegt að eyða tíma í að lesa það.
 
Lady Susan er stutt skáldsaga - samt ekki smásaga. Hún er aldrei talin með hinum sex skáldsögum Austen, sennilega vegna þess hversu stutt hún er. Sagan er skrifuð í bréfaformi. Þar sem bréfaritarar eru nokkrir fær maður oft fleiri en eina lýsingum á atvikum - sem er áhugavert þar sem persónurnar hafa sjaldnast sömu skoðanir á þeim. Aðalpersónan er hin eigingjarna, stjórnsama og daðurgjarna Lady Susan - sem er vægast sagt mjög óforskömmuð. Hún er svo óforskömmuð reyndar að það kom mér á óvart. Ég hélt að prúðir Englendingar þessa tíma viðurkenndu ekki að svona persónur væru til. Söguþráðurinn snýst allur í kringum Lady Susan, hún býr til allskonar drama sem hinar persónurnar hneykslast á, eða hrífast af, og tala um sín á milli. Sagan er ekkert sérstakt bókmenntalegt afrek en ég held að hún sé ágætis upphafspunktur fyrir þá sem vilja lesa bækur Austen en hafa ekki treyst sér í það. Hún er mjög auðveld aflestrar.

Memoir of Jane Austen er ekkert svakalega skemmtileg og ég hef, af þeim sökum, ekki lokið við hana enn sem komið er. Stíll höfundarins er frekar þurr og hann á það til að skrifa langar lýsingar á staðarháttum og fjarskyldum ættingjum Austen sem segja ekki neitt um hennar persónu og líf. Í bókinni eru birt nokkur bréf Austen (reyndar stundum bara útdrættir sem maður græðir ekki mikið á) sem er forvitnilegt að lesa. Efni sumra bréfanna er ósköp hversdagslegt en maður sér þó að Austen hefur eitthvað sótt í eigið líf við skrif bóka sinna. Maður sér líka að hún gefur þeim persónum sínum, sem henni líkar vel við, oft eitthvað af eigin karakter (ég held t.d. að hún gefi Elizabeth Bennet og Emmu sérstaklega mikið af sjálfri sér). Ég nenni ekki að skrifa meira um þessa bók og ég mæli ekki með henni nema fyrir hörðustu aðdáendur.

Það eru svo til a.m.k. tvær "sögur" í viðbót eftir Austen sem eru fáanlegar á Amazon. Það eru tvær ókláraðar skáldsögur sem heita The Watsons og Sanditon. Ég lagði ekki í að lesa þær að svo komnu. Það er eitthvað svo svekkjandi og dapurlegt við það að byrja á bók sem maður fær ekki að vita hvernig endar (tala nú ekki um ef bókin er góð). Margir höfundar  hafa spreytt sig á að ljúka við þessar sögur en ég hef  því miður ekki mikla trú á þeim. Kannski síðar.

P.S. Rafbækurnar þrjár kosta allar 0 kr. á Amazon.

P.S.2. Mig langar að vekja athygli lesenda á að Emma, í íslenskri þýðingu, er meðal bóka í jólabókaflóðinu svokallaða þetta árið. 

Viðbót 22.11.2012: Ég hef nú lokið við Memoir of Jane Austen en hef ekki miklu við ofangreint að bæta. Ágætis kafli var um ritstörf Austen sem slík og afstöðu hennar til þeirra og í lok bókar var birtur lokakafli Persuasion, sem Austen tók út og breytti á síðustu stundu, sem og útdráttur af því sem hún var búin að skrifa af Sanditon.

Saturday, November 10, 2012

Limekaka með rjómaostakremi

Ég var að ljúka við að baka þessa köku hér frá Bakerella. Ég nennti reyndar ekki að skreyta kökuna  eins fallega og Bakerella gerði og ég gerði bara tvo botna í staðinn fyrir fjóra. Leti.
Ég hef aldrei áður bakað svona svampbotna. Allar kökur sem ég hef gert eru með súkkulaði eða kakó (fyrir utan vanillubollakökurnar sem ég reyni að baka reglulega en þær eru ekki kökur).
Mér fannst þessi kaka ágætis tilbreyting frá öllu súkkulaðinu. Hún er skemmtilega öðruvísi og mér fannst hún betri með hverjum bitanum. Ég þurfti bara aðeins að venjast henni. Botninn fannst mér líka skemmtilega passlegur, þéttur í sér en samt ekki þurr og ekki of blautur. 
Þar sem ég gerði bara tvo botna gerði ég bara hálfa uppskrift af kremi. Það var meira en nóg. Annað, þar sem ég hef átt í erfiðleikum með rjómaostakrem (þ.e. með að láta smjörið og rjómaostinn blandast fallega saman) ákvað ég að gæta fyllstu varúðar í þetta sinn. Í fyrsta lagi þá lét ég smjörið og rjómaostinn standa nánast hálfan daginn á borðinu (þannig að bæði væri nú örugglega við stofuhita) og í öðru lagi þá þeytti ég rjómaostinn fyrst sér og smjörið sér áður en ég blandaði því saman og þeytti. Kremið var mjög fallegt og blandaðist fullkomlega saman.

Saturday, October 27, 2012

Súkkulaðivöfflur

Í dag átti ég von á gestum í kaffitímanum en hafði takmarkaðan tíma (sökum leti í morgun) til að undirbúa eitthvað gott. Ég greip til þess ráðs að gera súkkulaðivöfflur. Það er afar fljótlegt að búa súkkulaðivöfflurnar til þar sem þær eru gerðar úr súkkulaðikökudeigi frá Betty Crocker. Þetta er hugmynd sem ég fékk frá síðunni Hugmyndir fyrir heimilið fyrir einhverju síðan en hef bara notað einu sinni áður - sem er skrýtið í ljósi þess hversu einfalt og þægilegt þetta er. Í dag bar ég vöfflurnar fram með þeyttum rjóma og hindberjasósu.

Súkkulaðivöfflur með rjóma og hindberjasósu
1 kassi Chocolate Fudge Cake Mix frá Betty Crocker + það sem á að blanda saman við duftið samkvæmt leiðbeiningum á kassanum (ef ég man rétt eru það 3 egg, 70 ml grænmetisolía og 250 ml vatn)
1 (lítill) poki frosin hindber
1 slurkur af hunangi/sírópi
1 peli rjómi
1) Hitið vöfflujárnið. Hrærið deigið saman eftir leiðbeiningunum á kassanum. Bakið vöfflurnar.

2) Setjið hindberin í pott ásamt slurk af hunangi/sírópi (ég notaði hunang í dag en bara af því að ég átti ekki síróp) og hitið á meðan vöfflurnar bakast. Hrærið og fylgist með. Lækkið hitann þegar suðan kemur upp. Sjóðið við lágan hita í ca. 5 mín.

3) Þeytið rjómann.

4) Borðið og njótið.

Wednesday, October 24, 2012

Elizabeth Gaskell

Í pistlinum sem ég skrifaði um Jane Austen í ágúst sl. minntist ég aðeins á rithöfundinn Elizabeth Gaskell. Elizabeth var uppi á svipuðum tíma og Austen (reyndar aðeins seinna, eða frá 1810 til 1865) og skrifaði skáldsögur sem að sumu leyti svipa til sagna Austen. Höfundarnir tveir eru oft bornir saman.

Það sem sögur Gaskell og Austen eiga sameiginlegt er að þær fjalla fyrst og fremst um konur og þeirra líf. Báðir höfundar sköpuðu mjög kraftmikla kvenkaraktera. Ég myndi þó ekki segja að stíll þeirra sé mjög líkur. Gaskell er þekkt fyrir að skrifa samfélagsádeilur og eru fátækt og aðstæður fólks, sem minna mega sín, oft áberandi í sögum hennar. Sögur Austen hins vegar eru yfirleitt í léttari tón. Ég vil taka fram að ég er alls ekki að segja að það séu engar ádeilur í bókum Austen og að sögur hennar séu með einhverju móti léttvægar. Austen var t.d. að mörgu leyti á undan sinni samtíð hvað kvenréttindi varðar, sbr. umfjöllun hennar um erfðarétt í P&P sem og óbein gagnrýni hennar á hvað konur á hennar tíma voru hjálparlausar án eiginmanns. Þá má nefna að ein bók Austen, Northanger Abbey, er augljóslega satíra um hinar svokölluðu gotnesku skáldsögur sem voru mjög vinsælar á tíma Austen (en eru það ekki lengur af einhverjum ástæðum..) Svo að það komi fram, þá kemst Gaskell ekki með tærnar þar sem Austen var með hælana hvað húmor varðar.

Gaskell skrifaði sex skáldsögur í fullri lengd líkt og Austen. Þær eru eftirfarandi, í útgáfuröð:
  1. Mary Barton.
  2. Cranford.
  3. Ruth.
  4. North and South.
  5. Sylvia's Lovers.
  6. Wives and Daughters.
Ég hef lesið þrjár þekktustu bækur Gaskell, þ.e. Cranford, North and South og Wives and Daughters. Af þeim þremur fannst mér Cranford best. Cranford er ekki hefðbundin skáldsaga hvað formið varðar (og þykir raunar nokkuð ólík hinum sögum Gaskell hvað varðar stíl einnig) þar sem hún samanstendur af nokkrum stuttum sögum eða þáttum. Þessir sögur gerast allar í sama bænum og sömu aðalpersónur eru þungamiðjan í þeim öllum. Annað óvenjulegt við bókina er að hún er sögð frá sjónarhorni sögumanns sem er ekki ein aðalpersónanna. Raunar fær maður ekki að vita hver sögumaðurinn er fyrr en nokkuð er liðið á bókina. Þrátt fyrir að hafa lesið bókina, og líkað hún vel, á ég fremur erfitt með að segja frá söguþræði hennar. Það eina sem ég get sagt er að sagan fjallar um nokkrar konur, enda fáir menn búsettir í Cranford, og þeirra hversdagslíf. Ég myndi ekki segja að bókin væri spennandi en það er eitthvað mjög ánægjulegt við að lesa hana.

North and South er mun átakameiri en Cranford. Hún fjallar um hina kraftmiklu og siðprúðu Margaret Hale sem, vegna fjölskylduaðstæðna, neyðist til að flytja frá heimili sínu, í sveitinni í Suður-Englandi, til alvöru iðnaðarbæjar í Norður-Englandi. Þar þarf Margaret að takast á við lífið með öðrum hætti en í suðrinu - líf sem er ekki alveg jafn einfalt og hún hélt. Margaret kynnist bæði verkamönnum í verksmiðjunum í bænum sem og eigendum verksmiðjanna, þ.á.m. hinum groddalega en samt svo elskulega John Thornton. Fátækt, barátta verkamanna og stéttaskipting er mjög áberandi í sögunni þó að meginumfjöllunarefnið séu ástir og líf Margaret. Ég verð að segja að mér fannst sérstaklega skemmtilegt að lesa um hvað hinir ensku eru fordómafullir og líta niður á alla þá sem starfa við iðnað (e. those in trade) jafnvel þó að viðkomandi sé moldríkur verksmiðjueigandi. Stéttaskipting, eins fáránleg og hún er, er áhugavert umfjöllunarefni. Það sem truflaði mig við söguna er mikil trúarleg umfjöllun. Ég nenni almennt ekki að lesa um slíkt. Að lokum, mjög margar persónur í sögunni deyja.

Wives and Daughters þykir almennt besta bók Gaskell - meistaraverkið hennar jafnvel. Sagan fjallar um líf Molly Gibson, með mikilli áherslu á  sambönd hennar við aðra; föður sinn, vini, mögulegt eiginmannsefni, stjúpmóður og stjúpsystur. Líf Molly var nánast fullkomið þar til faðir hennar giftist konu (sem hann gerir nb. bara til þess að Molly fái almennilegt uppeldi) sem er ekki jafn frábær og flestir halda við fyrstu sýn. Molly er voða góð stúlka en það sem gerir hana áhugaverða er hvernig hún tekur á vandamálum og leysir, bæði sín og annarra. Sagan er ágæt, reyndar frekar löng, en helsti galli hennar er að hún er ókláruð. Gaskell dó áður en skriftum lauk. Ég vissi það ekki fyrr en í sögulok og verð að segja að ég varð frekar vonsvikin. Það liggur þó fyrir hvernig Gaskell ætlaði sögunni að enda og upplýsingar um það koma fram í lok bókar.

Fleiri bækur eftir Gaskell hef ég ekki lesið en ég vonast til að hafa færi á að lesa fleiri fljótlega. Ég hugsa að ég myndi þá lesa þær í útgáfuröð; Mary Barton fyrst, svo Ruth og loks Sylvia's Lovers. Ég las hinar þrjár í öfugri útgáfuröð og sé eftir því núna. Það er áhugavert að fylgjast með því hvernig rithöfundar þróa og betrumbæta stíl sinn eftir því sem líður á.

Ég vil að lokum geta þess að BBC hefur gert þætti eftir bókum Gaskell, a.m.k. Cranford, North and South og Wives and Daughters. Ég hef horft á tvær síðarnefndu þáttaseríurnar og fannst þær mjög góðar - báðar betri en bækurnar að ákveðnu leyti. Í North and South sleppur maður að mestu við helgislepjuna og maður fær almennilegan endi á Wives and Daughters.

Friday, October 19, 2012

Súkkulaðihjúpur

Um daginn bakaði systir mín þessar fallegu bollakökur hér til vinstri (í tilefni af afmæli Símons líkt og skúffukökubaksturinn). Ég varð að koma þeim á framfæri því mér finnst mjög sniðug hugmynd að hjúpa krem á bollakökum með bráðnu súkkulaði - smá auka "twist" sem gefur kökunum bæði meira bragð og fallegt útlit.

Ég velti samt fyrir mér hvort sum krem, t.d. smjörkrem, séu of viðkvæm fyrir hita til að þola svona hjúpun. Veit það einhver? Ég fann því miður ekkert um það þrátt fyrir nokkuð umfangsmikla leit á Google.

Kremið á kökunum hér til vinstri er svokallaður "ítalskur marengs" (sem er svipaður því sem er inni í kókosbollum - þeyttar eggjahvítur og sykur). Kremið er ýmist hjúpað með súkkulaði eða brennt með gasbrennara.

The Hand That First Held Mine

Ég var að ljúka við The Hand That First Held Mine eftir Maggie O´Farrell. Fyrir nokkrum árum síðan keypti ég af rælni bók eftir O´Farrell sem heitir The Vanishing Act of Esme Lennox, án þess að vita nokkuð um hana, og fannst hún svo góð að ég ákvað að lesa aðra bók eftir hana. Ég lét verða af því fyrst núna  því miður) og sé ekki eftir því. 

Mér fannst The Hand That First Held Mine vera mjög góð. Sagan er eiginlega tvær sögur sem þó tengjast í lok bókar. Önnur sagan gerist í London um árið 1950 en hin í nútímanum. Mér fannst fyrrnefnda sagan sérstaklega skemmtileg - bæði vegna þess að ég er með blæti fyrir sögulegum skáldskap (tala nú ekki um þegar söguþráðurinn tengist listasögu eins og í þessu tilviki) og vegna þess að aðalpersónur sögunnar, Lexie og Innes, voru frábærar. Þau eru svona persónur sem maður vildi óska að maður þekkti og gæti  boðið í partý. Þau voru samt eiginlega of frábær og þess vegna byrjaði mig strax að gruna að eitthvað slæmt myndi koma fyrir þau. Sem því miður gerðist. Hin sagan í sögunni virðist í fyrstu einkum fjalla um hvernig það er að vera nýbakað foreldri  - og jafnvel hvernig konur og karlmenn taka því á mismunandi hátt - en það kemur í ljós þegar líður á að sagan er ekki alveg svo einföld. Lengi vel var ég miklu spenntari yfir því sem var að gerast í fyrri sögunni en eftir því sem nær dró endinum þá varð ég líka spennt fyrir málalokum í hinni seinni.

Það er ekkert mjög erfitt að átta sig á því hvernig sögurnar tvær tengjast - en það fór ekki í taugarnar á mér hversu augljóst það var. Ýmis smáatriði komu mér á óvart og svo var tengingin mjög vel gerð. Sérstaklega í lok bókar, þegar ég hélt að allt væri vonlaust, tókst O´Farrell að koma mér á óvart með ákveðnu smáatriði (þegar ég pæli í því eftir á þá held ég að maður hefði getað áttað sig á því fyrr ) og bjarga þannig endinum. Vel undirbúið og vel gert.

Mér finnst O´Farrell skrifa mjög fallegan texta - oft angurværan og jafnvel sorgmæddan. Ekki beint ljóðrænan en mjög myndrænan. O´Farrell vekur upp með mér mjög blendnar tilfinningar. Ég smitast af undirtóninum í textanum og verð hálf leið en samt svo innilega glöð yfir því að vera lesa eitthvað svona fallegt og vel gert. Ég man að mér leið eins þegar ég las hina bókina eftir hana og mér líður oft svipað þegar ég les bækur eftir Jón Kalman Stefánsson. Fallegt.

Ég vona að ég hafi ekki hrakið ykkur frá bókinni með þessum pistli því mér fannst hún virkilega góð. 

Thursday, October 18, 2012

Skúffukökukrem

Um daginn bakaði ég í allra fyrsta skipti skúffuköku - ótrúlegt en satt. Tilefnið var ærið. Símon átti afmæli og það eina sem hann langaði til að ég bakaði var skúffukaka - ekki svo erfitt að hafa fyrir honum.

Kakan sem ég bakaði er í bókinni eftir Joy The Baker og heitir Texas Sheet Cake. Sú kaka virðist vera bandarískur jafningi hefðbundinnar íslenskrar skúffuköku. Það er hægt að finna margar uppskriftir af Texas Sheet Cake á netinu, t.d. hér og hér, og eru flestar uppskriftir svipaðar hvað varðar innihaldsefni og bökunaraðferð (tip: ég myndi skipta út vatni fyrir heitt kaffi, það dregur fram súkkulaðibragðið).

Í dag ætla ég ekki að skrifa um kökuna sjálfa heldur kremið. Kremið með kökunni er mjög gott og er nú mitt uppáhalds skúffukökukrem. Það er mikill heiður því sérstakt skúffukökukrem, sem amma einnar bestu vinkonu minnar gerir, hefur átt þetta pláss frá því að ég var barn (það krem er samt eiginlega tvö krem, því hún setur fyrst myntukrem ofan á kökuna og svo súkkulaðikrem - mjög gott saman). Uppskriftin að nýja uppáhalds skúffukökukreminu mínu, með nokkrum breytingum frá mér, er hér eftirfarandi.

Súkkulaði- og pecanhnetukrem fyrir skúffuköku
115 g ósaltað smjör
4 ríflegar msk kakóduft
5 msk rjómi
300-400 g flórsykur
100 g gróft saxaðar pecanhnetur

1) Bræðið saman smjör, kakóduft og rjóma í meðalstórum potti. Ekki hafa of háan hita. (Það er  best að byrja á þessu á meðan kakan er að bakast því það á að hella kreminu heitu á hana).

2) Þegar smjörið er  bráðnað og blandan er án kekkja, takið pottinn af hitanum og sigtið flórsykurinn út í kremið. Hrærið sykurinn svo saman við.
3) Setjið pecanhneturnar síðast út í blönduna og hrærið varlega saman. Hellið kreminu svo yfir kökuna heita og leyfið henni að kólna í ca. klukkutíma.
Helsti gallinn við þetta krem er sá að það er frekar subbulegt að eiga við það á meðan það og kakan er heit. Þess vegna borgar sig að bíða a.m.k. í klukkutíma með að skera kökuna eftir að kremið hefur verið sett á.

Saturday, October 6, 2012

Fifty Shades of Grey

Ég hef verið mjög hugsi yfir því hvort ég ætti að skrifa pistil um Fifty Shades of Grey eða ekki. Ég veit að það er varla þörf á því, nóg er nú búið að skrifa um bókina (ég mæli sérstaklega með þessari umsögn). Ég ætla þess vegna að hafa þennan pistil stuttan. Yfirleitt eru umsagnir um Fifty Shades of Grey annað hvort mjög jákvæðar eða mjög neikvæðar. Með hliðsjón af því hvernig bókin er þá held ég að það sé ekkert mitt á milli. Svo að þið vitið, þá er þessi pistill einn af þessum neikvæðu.

Það er nokkuð síðan ég las bókina. Þegar ég byrjaði þá vissi ég lítið um hana, annað en að hún var búin að vera sú vinsælasta á Amazon.com í lengri tíma. Þegar leið á lesturinn varð ég alltaf meira og meira hissa. Í stuttu máli þá fannst mér bókin mjög illa skrifuð. Bókin er reyndar það illa skrifuð að stundum fer hún allan hringinn og dramatíkin sem á að vera svo svakaleg verður óstjórnanlega fyndin. Svo fyndin að ég skellihló stundum. Það er, að ég tel, ekki það sem E.L. James ætlaði sér með skrifunum. Ég hugsa að það sé hin besta skemmtun að lesa bókina upphátt í góðra vina hópi. Það er ómögulegt að segja sumt sem fram kemur í bókinni upphátt án þess að skellihlægja, svo asnalegur er söguþráðurinn og orðanotkunin. Nokkur dæmi (og þá meina ég örlítið brotabrot): 
“Does this mean you’re going to make love to me tonight, Christian?” Holy shit. Did I just say that? His mouth drops open slightly, but he recovers quickly.
“No, Anastasia it doesn’t. Firstly, I don’t make love. I fuck… hard. Secondly, there’s a lot more paperwork to do, and thirdly, you don’t yet know what you’re in for. You could still run for the hills. Come, I want to show you my playroom.”
My mouth drops open. Fuck hard! Holy shit, that sounds so… hot. But why are we looking at a playroom? I am mystified.  - E.L. James, Fifty Shades of Grey.
“He's naked except for those soft ripped jeans, top button casually undone. Jeez, he looks so freaking hot. My subconscious is frantically fanning herself, and my inner goddess is swaying and writhing to some primal carnal rhythm.” - E.L. James, Fifty Shades of Grey.
“Oh Ana!" he cries out loudly as he finds his release, holding me in place as he pours himself into me. He collapses, panting hard beside me, and he pulls me on top of him and buries his face in my hair, hold me close. "Oh baby," he breathes. "Welcome to my world.” - E.L. James, Fifty Shades of Grey.
En já, til að það komi fram þá fannst mér bæði söguþráðurinn slappur og aðalpersónurnar ótrúverðugar. Hin varnarlausa og saklausa en samt svo klára Anastasia Steele er fáránleg og hinn fullkomni en samt svo gallaði milljarðamæringur Christan Grey er óþolandi. Báðar persónur eru mjög klisjukenndar staðalímyndir. Þetta eru svona persónur sem maður myndi sparka í og öskra: "Hvað er  að þér? Hunskastu nú til að gera eitthvað að viti!" ef maður væri svo heppinn/óheppinn að hitta þær í raunveruleikanum.

Eins og flestir vita þá er ansi mikið um kynlífslýsingar í bókinni, og þá aðallega lýsingar á BDSM kynlífi, og kannski er það ástæðan fyrir öllum vinsældunum. Ég skal ekki segja. Ég veit ekki mikið um BDSM kynlíf og á því erfitt með að meta hversu raunsæjar lýsingarnar í bókinni eru en oft á tímum fundust mér lýsingarnar kjánalegar. Verst finnst mér að Anastasia virðist ekki vilja beygja sig undir vald Christian (í BDSM kynlífinu þ.e.) en hún lætur samt tilleiðast vegna þess að hún er svo svakalega hrifin, ef ekki ástfangin, af honum strax í upphafi sambandsins. Óþolandi. Fáránlegt. Ég gæti komið með mörg fleiri dæmi um það hvað er rangt við samband Anastasia og Christian en ég hef hvorki tíma né nennu til að telja þau öll upp.
 
Þrátt fyrir ofangreint þá mæli ég með að fólk lesi, eða a.m.k. gluggi í, Fifty Shades of Grey (og það helst án þess að kaupa bókina því hún er svo sannarlega ekkert hillustáss). Mér finnst brýnt að sem flestir kynni sér bókina og velti í framhaldinu upp spurningunni: Af hverju er þetta vinsælasta bókin í dag? Og: Finnst okkur eðlilegt að ungt fólk lesi bækur sem þessar? Bíddu, hvað er aftur þetta með virðingu og jafnrétti? Ég vil taka fram að það er ekki vegna kynlífslýsinganna sem slíkra sem ég velti þessum spurningum upp, heldur vegna staðalímyndanna og hugmyndanna í bókinni um hlutverk karla og kvenna.

Það hlýtur að vera hægt að skrifa erótíska sögu þar sem báðar sögupersónur samþykkja og eru ánægðar með kynlífið sem um er fjallað. Af hverju er það ekki gert?

"Chick lit"

Ég les stundum svokallaðar "chick lit" bækur - sérstaklega ef mig langar að lesa eitthvað létt og þægilegt. Ef að þið kannist ekki við fyrirbærið þá eru það bækur sem eru sérstaklega skrifaðar fyrir konur, yfirleitt í léttum dúr og mjög oft um rómantík (samt ekki á sama hátt og bækurnar í rauðu seríunni) en ekki endilega. Sem dæmi um þekktar chick lit bækur mætti nefna Bridget Jones's Diary, Confessions of a Shopaholic og The Devil Wears Prada. 

Margir eru fordómafullir gagnvart chick lit bókum en ég sé enga ástæðu til að vera það. Það sama gildir um chick lit og önnur skálsagnaform - sumar chick lit bækur eru góðar en aðrar ekki. Hvort það eru til fleiri slæmar chick lit bækur en t.d. slæmar glæpasögur er erfitt að segja til um. Reyndar, ef chick lit sögur eru slæmar þá eru þær mjög fljótar að verða yfirþyrmandi kjánalegar og óþolandi og kannski er það þess vegna sem chick lit er yfirleitt nefnt í sama mund og eitthvað neikvætt. Bókakápurnar gætu líka spilað inn í þetta, þær eru oft asnalegar, of stelpulegar/væmnar/óþolandi bleikar, og fólk gæti stimplað bækurnar drasl vegna þeirra.

Í þessum pistli ætla ég að fjalla aðeins um uppáhalds chick lit rithöfundinn minn, Emily Giffin. Giffin er búin að skrifa sex bækur en þekktust þeirra er sennilega Something Borrowed sem búið er að gera kvikmynd eftir. Bækur Giffin fjalla ekki bara um rómantík (þó að hún spili yfirleitt stóran þátt). Þær fjalla yfirleitt um eitthvað annað líka, eitthvað þema eða vandamál, t.d. vináttu, barneignir  foreldrahlutverkið o.s.frv. Aðalsögupersónur Giffin eru heldur ekki heilalaus bimbó sem hugsa bara um að finna "hinn rétta" og gifta sig. Aðalkosturinn við bækur Giffin er að mínu mati að henni tekst  að skrifa texta sem er léttur, þægilegur en samt spennandi. Bækurnar eru auðveldar aflestrar og maður þarf ekki að hugsa of mikið en eru samt ekki þannig að þær misbjóði vitsmunalegri getu manns. Auka plús við bækur Giffin er að sögusvið þeirra er mjög oft New York sem ég get ekki lesið nóg um (og get heldur ekki beðið eftir að heimsækja aftur).

Bækur Giffin eru eftirfarandi í útgáfuröð:
  1. Something Borrowed.
  2. Something Blue.
  3. Baby Proof.
  4. Love the One You're With.
  5. Heart of the Matter.
  6. Where We Belong.
Mér finnst fyrsta og frægasta bók Giffin, Something Borrowed, vera best (það er yfirleitt ástæða fyrir frægðinni). Síst finnst mér Heart of the Matter en hinna get ég ekki gert upp á milli. Sennilega finnst mér þessi nýjasta, Where We Belong, vera næst best, svo Something Blue, því næst Love the One You're With og næst síst Baby Proof en ég er ekki alveg viss. Ég mæli a.m.k. með þeim öllum nema kannski Heart of the Matter, sbr. það sem á eftir kemur. Fyrir þá sem hafa séð myndina Something Borrowed þá vil ég nefna að söguþráður bókarinnar er ekki nákvæmlega sá sami og myndarinnar þó að aðalatriðin séu þau sömu.

Það er eitt neikvætt sem ég verð að nefna við sögur Giffin. Giffin virðist framhjáhald af einhverjum ástæðum mjög hugleikið og það er aðalatriði í þremur bókum hennar, Something Borrowed, Love the One You're With og Heart of the Matter.  Ástæða þess að mér finnst Heart of the Matter síst af bókum Giffin er sennilega sú að ég var orðin frekar þreytt á þessu stefi - mér finnst framhjáhald bara ekki svona áhugavert (ég verð að nefna að framhjáhaldið í Something Borrowed truflaði mig ekki neitt... sennilega vegna þess að aðalpersónan Rachel er svo sympatísk og auðvelt að tengja við hana). Framhjáhaldið í Heart of the Matter er líka langverst (ég er ekki að segja að það sé gott og fallegt í hinum bókunum en samt aðeins skárra) og það var á köflum óþægilegt að lesa bókina. Í þeirri bók er ekkert sem réttlætir framhjáhaldið - það er enginn "vondur kall" (eins og Darcy í Something Borrowed á klárlega að vera).  Endirinn er líka óþægilegur. Þegar ég var búin að lesa bókina fannst mér sagan öll ákaflega tilgangslaus og ég var svekkt eftir að hafa lesið um vanlíðan allra sögupersóna bara til að sitja uppi með endi sem leysir ekki neitt og kemur engri þeirra í betri stöðu. Það vantaði svo smá persónuþroska í lok bókar sem annars er alltaf til staðar í sögum Giffin.

Annað skemmtilegt um Giffin. Giffin skapaði sér víst miklar óvinsældir eftir að Where We Belong kom út nú í sumar. Ef ég skil málið rétt þá byrjaði það þannig að einhver skrifaði neikvæða umsögn um bókina á Amazon.com. Eiginmaður Giffin ákvað að svara umsögninni og kallaði þá/þann sem hana skrifaði m.a. "psycho".  Giffin mun í kjölfarið hafa tekið undir orð eiginmanns síns og kvatt aðdáendur sína til að gera það sama og hann. Tjah, vont er ef satt er. Þó að svona atvik geri mig mögulega fráhverfa Giffin sem persónu þá gerir þetta mig ekki fráhverfa henni sem rithöfundi. Smá persónuleg geðveiki skiptir mig engu máli á meðan bækurnar hennar skila sínu.

Sunday, September 30, 2012

Krispí eplapæ með kanil

Fyrir helgi gaf samstarfskona mín mér nokkur epli sem hún ræktar í garðinum sínum hér í Reykjavík (nei, ég er ekki að plata). Eplin eru mjög falleg, græn og fremur lítil, en mjög súr á bragðið. Ég átti von á gestum í dag og ákvað í tilefni þess að nota eplin og baka eplapæ. Bæði gerir sykurinn og bökunin eplin æt og svo er  svo notalega haustlegt eitthvað að borða heitt eplapæ. Eftirfarandi uppskrift er aðeins breytt uppskrift frá Joy the Baker (er í Joy the Baker Cookbook) og er mjög góð. Mér varð oft hugsað til Nigella Lawson þegar ég var að útbúa deigið - þar sem það þarf að nota hendurnar svo mikið (þið sem hafið horft á þættina hennar skiljið) og vegna þess er ég kannski enn hrifnari af þessari uppskrift en ella - enda er ég mikill aðdáandi eldunaraðferða hennar.

Krispí eplapæ með kanil
Fylling:
7 meðalstór epli (ég notaði tíu af þessum litlu grænu og svo tvö meðalstór rauðgul).
5 tsk sykur
2 1/2 tsk kanill

1) Hitið ofninn í 175°C. Smyrjið fremur stórt eldfast mót með smjöri. 

2) Flysjið eplin og skerið í litla bita. Setjið bitana í mótið.

3) Blandið saman sykri og kanil í lítilli skál. Stráið kanilsykrinum jafnt yfir eplabitana. Notið hendurnar til að blanda þessu jafnt og vel saman. Setjið mótið svo til hliðar og undirbúið deigið.
Deigið:
2 bollar hveiti
2 bollar púðursykur
1 tsk kanill
1 bolli saxaðar pecanhnetur (ca. 100 g poki)
2/3 bolli haframjöl
1 bolli mjúkt ósaltað smjör (ca. 225 g)

1) Blandið hveiti, púðursykri, kanil, hnetum og haframjöli saman í stórri skál.

2) Skerið smjörið í litla bita og notið hendurnar til að blanda því saman við þurrefnablönduna.

3) Takið lófafylli af deiginu og setjið saman við eplin. Notið hendurnar til að blanda þessu jafnt saman. 

4) Setjið restina af deiginu jafnt yfir eplin.
5) Bakið í 50-60 mínútur - eða þangað til það byrjar að "bubbla" í eplunum og deigið er dökknað. (Ég hafði álpappír yfir mótinu fyrstu 25 mínúturnar svo að deigið myndi ekki verða of dökkt).

6) Takið pæið úr ofninum og kælið það aðeins áður en þið borðið. Berið fram með vanilluís eða þeyttum rjóma. Njótið.