Wednesday, August 8, 2012

Jane Austen

Jane Austen er ein af mínum uppáhalds rithöfundum. Það eru ekki nema ca. tvö ár síðan ég hafði mig í að byrja lesa Austen. Ég hafði vissulega horft á myndir eftir einhverjum bókum hennar og haft gaman af en hélt alltaf að það væri of erfitt fyrir mig að lesa bækur Austen, einkum í ljósi þess að þær eru skrifaðar 18. aldar ensku (þær eru reyndar líka skrifaðar snemma á 19. öld). Aðeins ein bóka Austen hefur verið þýdd á íslensku eftir því sem ég best veit, þ.e. Pride & Prejudice (eða Hroki og hleypidómar). Ég ætla ekki að segja að mér hafi þótt auðvelt að lesa fyrstu bókina eftir Austen sem ég las (sem var auðvitað Pride & Prejudice) þar sem málið er oft skrýtið og uppskrúfað. Ég hafði það samt af án mikillar fyrirhafnar og það varð svo auðveldara að skilja Austen með hverri bókinni. Ég þurfti bara aðeins að venjast henni. Það hjálpaði einnig mikið að þekkja meginsöguþráðinn fyrir eins og var raunin með mig og Pride & Prejudice (hver þekkir annars ekki þann söguþráð?)

Austen skrifaði því miður aðeins sex skáldsögur en það liggja einnig eftir hana einhverjar smásögur, ljóð, bréf og fleira. Ég hef aðeins lesið skáldsögurnar sex sem eru (í réttri útgáfutímaröð) Sense & Sensibility, Pride & Prejudice, Mansfield Park, Emma, Northanger Abbey og Persuasion. Þó að umgjörðin sé alltaf svipuð, þ.e. ensk sveit á 18. öld (eða í byrjun 19. aldar) með viðkomu í London eða Bath, og að söguefnið sé alltaf það sama, sambönd ungra kvenna við unga menn (og reyndar stundum eldri menn), finnast mér bækur Austen mjög fjölbreyttar. Annað sem mér finnst skemmtilegt við bækur Austen er hversu margir karakterar hennar gætu átt heima í nútíma samfélagi. Ég ætla skrifa aðeins um allar bækurnar hér á eftir - byrja á þeirri verstu að mínu mati og enda á þeirri bestu.

6. Mansfield Park: Mér finnst Mansfield Park vera versta bók Austen af þeirri einföldu ástæðu að aðalpersónurnar tvær, Fanny og Edmund, og eru svo ótrúlega óspennandi og leiðinlegar - virkilega góðar, guðræknar og fullkomnar persónur í alla staði miðað við standarda þessa tíma - og þ.a.l. ekki áhugaverðar. Edmund er reyndar aðeins breyskari en Fanny en þó ekki svo að nokkru varði. Aukapersónurnar og systkinin Henry og Mary Crawford eru miklu skemmtilegri persónur að mínu mati en þau eru líka "vondu kallarnir" í sögunni. Það er ekki oft sem ég upplifi að vera svekkt þegar vondu kallarnir tapa (eins og gerist auðvitað í Mansfield Park) en það gerðist sem sagt þegar ég las bókina og þ.a.l. var fátt sem gladdi mig við lesturinn. Bókin er líka í lengri kantinum en þrátt fyrir það virðist Austen ekki hafa pláss til að skrifa endinn almennilega - sem mér finnst miður. Óbilandi áhugi minn á Austen veldur því þó að ég hef ekki gefið bókina upp á bátinn og mun sennilega gefa henni annað tækifæri.

5. Emma: Emma er eina bók Austen sem ég varð stundum þreytt á og þurfti að leggja frá mér. Aðrar las ég í einum rykk. Emma er aðeins erfiðari en hinar aflestrar að mínu mati - kannski helst vegna þess að það gerist lítið og söguþráðurinn felst að stóru leyti í samræðum persónanna. Aðalpersónan, Emma, er þó mun meira spennandi en Fanny í Mansfield Park. Hún er afskiptasöm, gerir mistök og heldur að hún sé ofboðslega klár sem hún er alls ekki. Pabbi Emmu, sem ég man nú ekki hvað heitir í svipinn, er líka að mörgu leyti skemmtileg persóna og virkar stundum eins og hálfgert comic relief. Margar aðrar skemmtilegar persónur eru í bókinni, Harriet hin kjánalega vinkonu Emmu og hinn heillandi Frank Churchill, en mér fannst söguþráðurinn samt stirður á köflum. Það hjálpar ekki til að sá sem Emma endar með, Mr. Knightley, er ekki alveg nógu spennandi þó að hann sé ágætis kall.

4. Northanger Abbey: Northanger Abbey er sennilega kjánalegasta bók Austen - en hún hefur sennilega ætlað að svo yrði. Ég hafði gaman af bókinni þrátt fyrir öll kjánalegheitin. Catherine, aðalpersóna bókarinnar, er mjög ung og (surprise) hálfgerður kjáni. Hún og "besta" vinkona hennar eru mjög uppteknar af einhverskonar horror-rómönsum sem þær lesa í sífellu og lifa sig inn í - með ekki svo góðum afleiðingum. "Karlhetja" bókarinnar, Henry Tilney, er svo skemmtilega kaldhæðinn og gerir óspart grín af Catherine. Ég er mikil áhugamanneskja um kaldhæðni og þ.a.l. fílaði ég Mr. Tilney í botn. Mér fannst reyndar stundum ótrúverðugt að Mr. Tilney gæti virkilega verið hrifinn af Catherine en þetta virkaði allt saman í lok bókar. Mér finnst Northanger Abbey léttasta bók Austen.

3. Sense & Sensibility: Sense & Sensibility er sennilega næst þekktust af bókum Austen á eftir Pride & Prejudice. Aðalpersónurnar eru Dashwood systurnar Elinor og Marianne. Stjúpbróðir þeirra fer mjög illa með þær fjárhagslega eftir andlát föður þeirra og þær systur eru sennilega þær af aðalpersónum Austen sem búa við hvað verst kjör (fyrir utan Fanny kannski). Systurnar eru áhugaverðar og skemmtilegar persónur að mínu mati. Þær búa við sama vandamál (ástarsorg) en leysa það á mjög ólíkan hátt - enda eru þær mjög ólíkar að eðlisfari. Helsti galli bókarinnar að mínu mati er hvað "karlhetjurnar" eru óspennandi. Það er aðallega þess vegna sem bókin nær bara 3. sæti hjá mér. Mest fer í taugarnar á mér að Edward berjist ekki meira fyrir Elinor og láti Lucy Steele kúga sig - hann gerir ekkert af viti fyrr en Lucy er alveg búin að sleppa af honum hendinni. Austen hefur sennilega þótt það sýna hvað hann væri mikill heiðursmaður en mér finnst það sem sagt slappt. Góður söguþráður engu að síður og mikið um skemmtilegan misskilning.

2. Persuasion: Ég veit ekki hvað það er við Persuasion sem veldur því að mér finnist hún  eiga 2. sætið skilið. Karakterarnir eru svo sem ekkert betri en í öðrum bókum Austen en það er eitthvað við söguþráðinn sem höfðar til mín. Bókin er full af trega og eftirsjá aðalpersónunnar Anne Elliot sem sleit trúlofun sinni við hinn myndarlega Frederick Wentworth vegna fortalna frá föður sínum, systur og vinkonu. Þó að Anne sé engin Elizabeth Bennet verð ég alltaf svo spennt fyrir hennar hönd og vona innilega að hún nái aftur saman við Frederick (sem er auðvitað það sem gerist). Systur Anne og faðir eru mjög kjánalegar persónur, hégómlegar, eigingjarnar og jafnvel hálf illkvittnar á köflum. Alltaf gaman að lesa um, pirra sig á og hlægja af slíkum bjánum. Það fór stundum í taugarnar á mér hvað Anne er mikil push-over en ég erfi það ekki við hana - hún bætir sig þegar líður á bókina. Ein ástæðan fyrir því að ég kann svo vel við bókina gæti verið sú að hún kom mér á óvart þegar ég las hana fyrst enda vissi ég lítið um hana fyrir. Bókin er líka sú af bókum Austen sem hún skrifaði síðast (og var raunar gefin út að henni látinni) og kannski hefur það eitthvað að segja.

1. Pride & Prejudice: Það kemur kannski ekki á óvart að Pride & Prejudice vermi 1. sætið. P&P er þekktasta og jafnframt vinsælasta bók Austen og það er ekki að ástæðulausu - hún er einfaldlega best. Mér finnst allt skemmtilegt við þessa bók. Elizabeth Bennet er óumdeilanlega aðalpersóna eins og þær gerast bestar. Hún er hnyttin, kaldhæðin og fær um einstaklega skemmtileg tilsvör - en alls ekki fullkomin (sem gerir hana auðvitað fullkomna sem persónu). Svo er sennilega óþarft að nefna hvað Mr. Darcy er frábær jafnvel þó að hann sé hrokafullur, snobbaður og algjör leiðindagaur á köflum. Ég verð að játa að ég verð alltaf spennt þegar ég bíð eftir því að þau nái saman í lokin. Margar aukapersónur í bókinni eru einnig mjög skemmtilegar (og sumar skemmtilega kjánalegar) og er þá einkum hægt að nefna Mr. Bennet, Lydiu og Mary Bennet, Bingley systurnar, Mr. Collins, Lady Catherine de Bourgh o.fl. Bókin er full af gullkornum og húmor og er á topp fimm listanum yfir mínar uppáhalds bækur.

Aðdáun mín á bókum Austen leiddi svo til þess að ég fór að lesa aðrar bækur frá svipuðum tíma. Ég las eitthvað eftir
Brontë systur, Jane Eyre og Wuthering Hights, en var ekki svo hrifin af þeim (ég reyndi líka við Villette en gafst upp á henni). Það er eitthvað horror stef í bókunum þeirra sem ég fíla ekki. Ég las svo eitthvað af bókum Elizabeth Gaskell, þ.e. Cranford, North & South og Wives & Daugthers. Ég kunni ágætlega við bækur Gaskell en mér fannst Cranford sennilega best af þeim. Þó að það gerist ekki mikið í þeirri bók var eitthvað við hana sem varð til þess að ég tætti hana í mig.  Ég skrifa kannski meira um Gaskell síðar.

Margir rithöfundar hafa reynt að skrifa framhald af bókum Austen. Ég er frekar skeptísk á slíkar framhaldsögur (er þetta ekki bara hálfgert fanfiction?) en lét mig hafa það að lesa eina, Death Comes to Pemberley eftir P.D. James, sem á að vera framhald af P&P. Ég hafði einhvers staðar heyrt að P.D. James skrifaði góða krimma og ákvað því að lesa þessa bók. Ég sé eftir því núna, söguþráðurinn var slappur og James dettur mjög oft í þá gryfju að endursegja söguþráðinn í P&P. Eftir þessa reynslu er ég því enn neikvæðari en áður gagnvart svona "framhaldssögum". Ég gef slíkum sögum kannski annað tækifæri síðar. 

Lokaniðurstaða þessa pistils er sem sagt sú að ég mæli með bókum Jane Austen (eins og mátti kannski einnig skilja af upphafsorðum hans).


No comments:

Post a Comment