Friday, December 28, 2012

Ár kattarins, Rof og Reykjavíkurnætur

Jæja, þrjár búnar - mjög margar eftir! Fyrsta "jólabókin" sem ég las í ár var Ár kattarins eftir Árna Þórarinsson. Ár kattarins er áttunda bók Árna um þrautseiga blaðamanninn Einar. Ég held að ég hafi lesið þær flestar (því miður ekki allar) og hef alltaf haft frekar gaman af Einari og pælingum hans um lífið og tilveruna. Það er nokkuð margt að gerast í þessari bók. Einar kemur bæði að lausn morðmáls og  alvarlegs líkamsárásarmáls en auk þess lendir hann í miðjunni á pólítískum  átökum innan stjórnmálaflokks (Jafnaðarbandalagsins svokallaða). Mér fannst morðmálið verst útfært af þessum þremur meginþáttum sögunnar en hitt fannst mér nokkuð vel gert. Morðmálið er í sjálfu sér mjög áhugavert og óvenjulegt. Mér fannst þó allt of lítið lagt í lausn málsins. Lausnin kom einhvern veginn af sjálfu sér og án allra skemmtilegra vísbendinga.

Ég myndi ekki segja að Ár kattarins væri ein af þeim bókum sem eru svo spennandi að maður getur ekki lagt þær frá sér. Hún er ekki ofurspennandi. Hún mallar samt ágætlega áfram og þar sem maður er farinn að kannast við persónurnar er manni ekki sama hvernig er farið með þær. Mér finnast samtímalýsingar Árna svo mjög skemmtilegar og finnst hann oft mjög fyndinn. Hann er einn af fáum rithöfundum sem mér finnst takast að skrifa um samtímann, með vott af ádeilu, án þess að það verði tilgerðarlegt eða "besservisseralegt". Sem dæmi má nefna eftirfarandi klausu þar sem Einar fer yfir fréttir dagsins, sjá bls. 113: 

Ríkisstjórnin stendur ekki við neitt, segir ASÍ. Höfum staðið við allt, segir forsætisráðherra. Borgarstjórinn í Reykjavík vill gera höfuðborgina að griðastað fyrir geitunga á norðurhveli jarðar. Háskólarektor undirritar samstarfssamning við LÍÚ um fjármögnun hlutlægrar rannsóknar á kostum og göllum kvótakerfisins og vill fá birta mynd af sér við þann gjörning. Unglingadrykkja dregst saman en marijúanareykingar aukast. „Áfengisverð orðið allt of hátt,“ segir álitsgjafi. Gjaldeyrishöftum kennt um aukningu innlendrar framleiðslu marijúana. Blóðug átök í Breiðholti rakin til skipulagðra glæpasamtaka. „Fráleitt,“ segir foringi þeirra. „Við erum fjölskylduvæn samtök áhugafólks um bifhjól.“

Í stuttu máli er Ár kattarins góð bók sem ég mæli með. Ég hugsa samt að þeim, sem hafa engar bækur lesið um Einar blaðamann, finnist hún ruglandi þar sem það eru margar tilvísanir í fyrri sögur.

Næsta bók sem ég las er Rof eftir Ragnar Jónasson. Rof er fjórða bókin sem Ragnar skrifar um Ara lögreglumann á Siglufirði (sem var reyndar ekki orðinn lögreglumaður í fyrstu bókinni). Hingað til hafa mér fundist bækur Ragnars fremur þunnar. Svo þunnar að ég hef getað slátrað þeim á klukkutíma eða tveim og ekki mikið setið eftir. Myrknætti, sem er þriðja bókin, fannst mér þó alveg ágæt. Að mínu mati er Rof veglegasta saga Ragnars hingað til, þó að ég hafi nú ekki verið lengi að slafra henni í mig. Sagan gerist bæði í Reykjavík og á Siglufirði sem, ótrúlegt en satt, er í sóttkví. Ari nýtur aðstoðar Ísrúnar, fréttamanns í Reykjavík, við að leysa gamalt og löngu gleymt sakamál úr Héðinsfirði en að auki fáum við að fylgjast með tveimur sakamálum í Reykjavík í gegnum starf Ísrúnar þar sem pólitískt ráðabrugg kemur við sögu.

Fyrst fannst mér allt of margt að gerast í einu og ég áttaði mig ekki á því af hverju höfundurinn væri að blanda öllum þessum sögum og persónum saman. Það kom svo í ljós að það voru tengsl á milli þráðanna svo að þessi blanda var ekki alslæm. Sagan úr Héðinsfirði er veigamest og mér fannst margt áhugavert við hana. Drungalegar lýsingar úr firðinum og daður höfundar við draugasögur urðu  reyndar þess valdandi að mig langar aldrei að koma þar í myrkri. Verst fannst mér að Ari telur sig hafa leyst gátuna án allra almennilegra sönnunargagna - það eina sem hann hefur eru getgátur og hálfkveðnar vísur. Í ljósi þess hve gamalt málið á að vera er það kannski skiljanlegt að vissu leyti en mér fannst þetta samt ekki ganga nógu vel upp. Til dæmis vegna þess að Ari er lögreglumaður og ætti að hugsa sem slíkur við lausn þessa máls sem annarra. M.v. það hvernig gátan er leyst get ég svo vel séð fyrir mér að Ari hefði getað fundið eitthvað aðeins bitastæðara.

Mér fannst Ár kattarins betri en Rof en ég hugsa samt að sú síðarnefnda falli betur í kramið hjá mörgum. Hún er auðveld aflestrar og svo virðast drungi og draugatal höfða vel til fólks um þessar mundir. Rof er besta bók Ragnars hingað til að mínu mati.

Þriðja og síðasta bókin sem ég er búin að lesa að svo komnu er Reykjavíkurnætur eftir Arnald Indriðason. Sagan gerist stuttu eftir að Erlendur hefur hafið störf hjá lögreglunni og fjallar um hans fyrsta morðmál. Dauði útigangsmanns vekur áhuga Erlendar af persónulegum ástæðum og leiðir til þess að hann fer að rannsaka málið á eigin spýtur. Ég ætla nú ekki að segja mikið um söguþráðinn þar sem flestir kannast við Erlend og hans aðferðir sem og stíl Arnaldar. 

Að mínu mati er Reykjavíkurnætur nær því að vera söguleg skáldsaga en eiginleg glæpasaga eða spennusaga. Það er vissulega glæpur þarna (eða jafnvel glæpir) en mér fannst aðaláherslan vera á annað, þ.e. á Erlend sem persónu og tengsl hans við aðrar persónur; samstarfsfólk, aðstandendur, glæpa/undirmálsmenn og kærustu. Sögupervertinum í mér fannst svo mjög skemmtilegt að lesa um störf lögreglunnar á þessum árum (sagan gerist árið 1974 að ég tel), lýsingar á höfuðborginni sem og um aðstæður útigangsmanna. 

Reykjavíkurnætur er ágætlega skrifuð bók - ekki beinlínis spennandi en samt ágæt. Fín afþreying. Ég hugsa að flestir hafi gaman af henni.

No comments:

Post a Comment