Ég var að ljúka við að baka þessa köku hér frá Bakerella. Ég nennti reyndar ekki að skreyta kökuna eins fallega og Bakerella gerði og ég gerði bara tvo botna í staðinn fyrir fjóra. Leti.
Ég hef aldrei áður bakað svona svampbotna. Allar kökur sem ég hef gert eru með súkkulaði eða kakó (fyrir utan vanillubollakökurnar sem ég reyni að baka reglulega en þær eru ekki kökur).
Mér fannst þessi kaka ágætis tilbreyting frá öllu súkkulaðinu. Hún er skemmtilega öðruvísi og mér fannst hún betri með hverjum bitanum. Ég þurfti bara aðeins að venjast henni. Botninn fannst mér líka skemmtilega passlegur, þéttur í sér en samt ekki þurr og ekki of blautur.
Þar sem ég gerði bara tvo botna gerði ég bara hálfa uppskrift af kremi. Það var meira en nóg. Annað, þar sem ég hef átt í erfiðleikum með rjómaostakrem (þ.e. með að láta smjörið og rjómaostinn blandast fallega saman) ákvað ég að gæta fyllstu varúðar í þetta sinn. Í fyrsta lagi þá lét ég smjörið og rjómaostinn standa nánast hálfan daginn á borðinu (þannig að bæði væri nú örugglega við stofuhita) og í öðru lagi þá þeytti ég rjómaostinn fyrst sér og smjörið sér áður en ég blandaði því saman og þeytti. Kremið var mjög fallegt og blandaðist fullkomlega saman.
No comments:
Post a Comment