Sunday, May 19, 2013

Svikalogn og Hinir réttlátu

Ég er búin að lesa tvær glæpasögur nýlega. Sú fyrri er Svikalogn eftir hina sænsku Vivecu Sten. Bókin er sú fyrsta, sem kemur út í íslenskri þýðingu, í frekar langri seríu um lögreglumanninn Thomas og vinkonu hans, lögfræðinginn Noru. Sögurnar gerast allar á sumarleyfiseyjunni Sandhamn, sem er í skerjafirðinum fyrir utan Stokkhólm í Svíþjóð.

Sögum Vivecu er oft líkt við sögur Camillu Läckberg. Ég hef lesið nokkrar bækur Camillu og samlíkingin er ekki ástæðulaus. Sögur Camillu gerast nefnilega líka á sumarleyfisstað í Svíþjóð og báðar skrifa sögur sem mér finnast vera soft glæpasögur - það eru glæpasögur þar sem lítið er um algjöran viðbjóð, þær gerast ekki í undirheimum stórborga, aðalpersónurnar eru nokkuð heilsteyptar og þær snúast yfirleitt um að leysa eitt morðmál.

Mér fannst Svikalogn vera ágæt sem svona saga. Hún rúllaði vel, karakterarnir voru trúverðugir og ég var alveg nokkuð spennt, þó að ég væri ekki að fara yfirum. Strax í byrjun gat ég giskað á hver morðinginn væri en það pirraði mig ekkert. Sagan var ágæt þrátt fyrir að vera fyrirsjáanleg. Það er mun líklegra að ég lesi næstu bók eftir Vivecu Sten en næstu bók eftir Camillu Läckberg, enda er ég komin með smá leið á þeirri síðarnefndu. Hún þarf aðeins að fara að breyta til.

Seinni bókin sem ég las er Hinir réttlátu eftir Sólveigu Pálsdóttur. Hinir réttlátu er önnur bók Sólveigar en í fyrra kom út eftir hana bókin Leikarinn. Ég las Leikarann og fannst hún ágæt. Það var smá byrjendabragur á henni en söguþráðurinn fannst mér mjög spennandi. Ég var ekki jafn hrifin af Hinum réttlátu. 

Aðalpersónurnar í bókinni eru flestar þær sömu og í Leikaranum en þær gengu einhvern veginn ekki jafn vel upp. Maður fær meira að vita um bakgrunn þeirra og þeirra persónulega líf og mér fannst það ekki áhugavert. Allt of mikið um upphrópanir og klisjur. Morðmálið og rannsóknin, sem sagan snýst um, fannst mér svo lítið spennandi. Þegar ég var hálfnuð með bókina var ekkert að gerast sem hvatti mig til að lesa áfram. Aftur var það frekar fyrirsjáanlegt hver morðinginn var en hann var einhvern veginn verr skrifaður inn í söguna en í Svikalogni. 

Sem sagt, þó að mér finnist leiðinlegt að taka sænska bók fram yfir íslenska, þá mæli ég frekar með að þið lesið Svikalogn en Hina réttlátu.


Mæli með: Súkkulaðibitakökum Joy með poppi

Ég mæli með að þið prófið þessa uppskrift frá Joy the Baker að súkkulaðibitakökum með poppi. Þessi uppskrift hélt fyrir mér vöku um nætur þar til ég prófaði hana. 


Ég stytti mér smá leið þegar ég bakaði kökurnar og notaði örbylgjupopp (Joy segir að það sé í lagi) en ég hef grun um að kökurnar séu betri ef maður gerir það ekki. 

 
Deigið var sjúklega gott og kökurnar líka - sérstaklega nýbakaðar með kaldri mjólk (en það sama gildir nú eiginlega um allar súkkulaðibitakökur)!


Ég bið ykkur svo að afsaka sérlega langt bloggleysi. Dagarnir hafa hreinlega þotið hjá undanfarið og ég komið litlu í verk.