Saturday, January 26, 2013

Kanilsnúðar með súkkulaði

Nýja uppáhaldið mitt til að baka eru kanilsnúðar með súkkulaði. Þeir eru syndsamlega góðir - sérstaklega ylvolgir með kaldri mjólk. Ég er búin að baka snúðana sl. tvær helgar og í bæði skiptin hafa þeir gufað upp á undraskömmum tíma (okkur til varnar þá hef ég í bæði skiptin aðeins gert hálfa uppskrift).




Kanilsnúðar með súkkulaði:
100 - 150 g smjör
1/2 l mjólk eða vatn (ég nota oftast fjörmjólk eða undanrennu - með góðum árangri)
850 g hveiti
1/2 tsk salt
1 1/2 dl sykur
50 g ger (einn pakki)
200-300 g suðusúkkulaði
mjúkt smjör eftir smekk
kanilsykur eftir smekk

1) Hitið smjörið og mjólkina/vatnið saman í potti þar til smjörið er bráðnað. Það þarf að passa vel að blandan verði ekki of heit - hún á að vera handvolg. Kælið blönduna ef hún hitnar of mikið.

2) Á meðan smjörið er að bráðna, blandið öllum þurrefnunum saman í stórri skál. Hellið svo mjólkurblöndunni saman við þurrefnin og hnoðið deigið saman. 

3) Látið deigið hefast í skálinni, undir röku viskustykki, í ca. 45 mín. Eftir það er best að hnoða deigið aðeins á borðplötunni, þangað til það verður meðfærilegt, og bæta við hveiti eftir þörfum ef það er mjög klístrað.

4) Saxið súkkulaðið. Passið að það verði ekki of stórir bitar.

4) Fletjið deigið út (mér finnst best að reyna að hafa það ílangt og eins ferhyrningslaga og ég get). Smyrjið deigið með mjúku smjöri, eins jafnt og þið getið. Stráið súkkulaði og kanilsykri yfir eftir smekk. 
 
 
5) Rúllið deiginu upp í lengju, skerið í jafna í bita og raðið á bökunarplötu með hæfilegu millibili. Leyfið snúðunum að hefast aftur í 60 mín. Stillið ofninn á 180°C.
 

6) Bakið snúðana í miðjum ofni þar til þeir verða gullinbrúnir (ca. 15 - 20 mínútur en það er best að fylgjast vel með þeim). Hægt er að pensla snúðana með mjólk/eggi (eða bæði saman) áður og þá glansa þeir aðeins og verða fallegri.


Vanillubollakökur með súkkulaðimola

Uppáhalds bollakökurnar mínar eru vanillubollakökur - þær eru einfaldar, mjög góðar og fallegar - og þess vegna baka ég þær nokkuð oft. 

Eftir jól átti ég of mikið af súkkulaðimolum og konfekti sem ég vildi endilega losna við. Ég ákvað því að baka vanillubollakökur með nýju twisti - súkkulaðimola í miðjunni.  Það var ágætt en ég verð samt að játa að mér finnast kökurnar betri án súkkulaðimola. Súkkulaðimolarnir voru með allskonar fyllingu og mér fundust kökurnar líka misgóðar eftir því hvernig fylling var í molanum. Best fannst mér að hafa piparmyntu- eða karamellufyllingu.

Vanillubollakökur með súkkulaðimolum (12-15):
1 1/3 bolli hveiti
3/4 tsk lyftiduft
1/4 tsk salt
115 g ósaltað smjör
1 bolli sykur
2 stór egg
3 tsk vanilludropar
1/2 bolli mjólk
12-15 súkkulaðimolar

1) Stillið ofninn á 175°C. Takið til form fyrir bollakökur.

2) Blandið hveiti, lyftidufti og salti saman í meðalstórri skál. Setjið til hliðar.

3) Hrærið smjör og sykur saman þar til blandan verður létt og ljós, í ca. 3-5 mínútur. Bætið svo við öðru egginu og hrærið í eina mínútu. Bætið hinu egginu við og hrærið aftur.

4) Hrærið vanilludropana saman við. Setjið síðan helminginn af hveitiblöndunni saman við og hrærið á litlum hraða. Setjið mjólkina því næst í blönduna og hrærið.

5) Setjið restina af hveitiblöndunni saman við og hrærið þar til blandan er nánast fullkomlega blönduð saman. Takið þá skálina úr hrærivélinni og notið sleikju til að hræra deigið alveg saman.

6) Skiptið deiginu á milli bollakökuforma.  Setjið einn súkkulaðimola í hvert form fyrir miðju.


7) Bakið í 20-25 mínútur eða þar til kökurnar byrja að brúnast. Kælið kökurnar og setjið svo kremið á.


Vanillusmjörkrem (dugir á 12-15 bollakökur):
90 g ósaltað smjör
1 bolli flórsykur
1 tsk mjólk
3/4 tsk vanilludropar

1) Hrærið smjörið í nokkrar mínútur, þar til það verður létt og ljóst.

2) Skrapið niður hliðarnar á skálinni og bætið flórsykrinum við. Hrærið á litlum hraða fyrst en aukið svo hraðann þar til þetta blandast vel saman.

3) Blandið mjólkinni og vanilludropunum saman við og hrærið á miklum hraða í ca. 1 mínútu.

4) Sprautið á kökurnar. (Mér finnst betra að hafa frekar lítið krem á hverri köku, þetta er því frekar lítil uppskrift). 

 

Heilhveitibrauð með fræjum og múslí

Ég hef verið mjög löt undanfarna daga (vikur) og er það ástæða bloggleysisins. Nú ætla ég að reyna að bæta mig.

Hér fyrir neðan er uppskrift að mjög góðu (og mögulega hollu) brauði. Þessi uppskrift er mjög meðfærileg þar sem það er mjög auðvelt að breyta henni eftir því hvað maður á í skápunum hverju sinni.
 

Heilhveitibrauð með fræjum og múslí:
3 3/4 dl heilhveiti
1 3/4 dl múslí
1 1/4 dl sólkjarnafræ
1 1/4 dl graskersfræ/sesamfræ eða önnur fræ
1 1/4 dl rúsínur eða önnur þurrkuð ber
1/2 msk lyftiduft
1 tsk gott sjávarsalt
1 dl vatn
3 1/2 dl ab-mjólk

1) Stillið ofninn á 200°C.

2) Blandið öllum þurrefnunum saman í skál og hrærið saman.

3) Blandið vatninu og ab-mjólkinni saman við og hrærið varlega. (Í eitt skipti, þegar ég var byrjuð að baka þetta brauð, áttaði ég mig á því að ég átti ekki ab-mjólk. Þar sem öll þurrefnin voru komin í skál ákvað ég að redda mér og sett í staðinn blöndu af fjörmjólk og vanilluskyri með mjög góðum árangri).

4) Látið deigið í smurt formkökuform (eða hyljið formið með smjörpappír). Skreytið með fræjum eftir smekk og bakið í u.þ.b. klst.


Fyrir jól ákvað ég að búa til og/eða föndra nokkrar jólagjafir. Ég hafði nokkrar hugmyndir  þar að lútandi en niðurstaðan varð sú að nota þessa uppskrift og gefa fólki "brauð" í jólagjöf. Ég setti þurrefnin í krukkur sem ég keypti í IKEA og skrifaði svo leiðbeiningar um blöndun blautefna og bakstursaðferðina, eins fallega og ég gat, á litla miða og hengdi utan á krukkurnar sem ég skreytti svo. Ég held (og vona) að flestir hafi verið ánægðir með brauðið sitt. Ég sé a.m.k. fyrir mér að þetta sé sniðug gjöf við mörg tækifæri - t.d. innflutningsgjöf.

 

Wednesday, January 2, 2013

Ljósmóðirin

Ég var að ljúka við Ljósmóðurina eftir Eyrúnu Ingadóttur. Ljósmóðirin er söguleg skáldsaga. Hún segir frá Þórdísi Símonardóttur  sem var ljósmóðir á Eyrarbakka fyrir og eftir aldamótin 1900. Þórdís þessi virðist hafa átt sérsaklega áhugavert æviskeið. Á kápunni segir  t.d. eftirfarandi um söguþráð bókarinnar og Þórdísi:

Tvívegis fann hún ástina og tvívegis glataði hún henni. Hún barðist gegn yfirgangi og kúgun valdamanna sem beittu öllum ráðum til að beygja hana niður í duftið. Hún gafst aldrei upp, reis á fætur þegar hún var snúin niður og glataði aldrei trúnni á hugsjónir sínar.

Áður en að ég hóf lesturinn taldi ég því eðlilega að ég ætti þó nokkra dramatík í vændum. Sú varð ekki raunin. Aðeins í eitt skipti fannst mér sagan virkilega dramatísk og það var þegar erfiðri barnsfæðingu var lýst. Þórdís glataði ástinni vissulega tvisvar og það var ítrekað reynt að beygja hana en frá þessu var ekki sagt á dramatískan hátt að mínu mati. Ég kippti mér a.m.k. lítið upp við þessa atburði alla saman. Það er eins og höfundurinn, sem er sagnfræðingur að mennt, hafi haft úr of miklum sögulegum efniviði að moða. Það er eins og allar staðreyndirnar hafi flækst fyrir. Eins og það hafi ekki verið rúm fyrir almennilega persónusköpun, spennu og dramatík. Svo að ég taki persónuna Þórdísi sem dæmi þá tengdist ég henni furðulega lítið, ég hvorki hélt með henni né lét hana fara í taugarnar á mér. Ég skildi hana ekki - ég skildi ekki hvers vegna hún gerði það sem hún gerði eða af hverju hún sagði það sem hún sagði. Það sama gildir um tvo höfuðóvini Þórdísar, þá Guðmund og Jóhann. Það er ekki nóg að höfundur segi lesandanum einfaldlega að hann sé að lesa um litríka og áhugaverða persónu - persónan verður að vera þannig að lesandinn upplifi hana sem litríka og áhugaverða án þess að vera sagt það.

Annað sem ég verð að nefna er að í sögunni er flakkað talsvert fram og aftur í tíma. Mér finnst tímaflakk í skáldsögum oft koma vel út en í þetta sinn fannst mér það mistakast. Sagan hefst við jarðarför Þórdísar árið 1930. Síðan er til skiptis sagt frá síðasta æviári hennar (1929) og ævi hennar í réttri tímaröð frá því að hún flutti til Eyrarbakka (um 1886). Sá einkennilegi háttur er oft hafður á að í köflunum frá 1929 eru rifjaðir upp atburðir úr ævi Þórdísar áður en sagt er frá þeim í köflunum sem eru í réttri tímaröð. Þetta verður til þess að eyða mest allri spennu og kaflarnir sem eru í réttri tímaröð missa marks. Það hefði verið alveg nóg að hafa einn til tvo kafla um síðasta æviár Þórdísar í upphafi bókar til þess einmitt að gera lesandann spenntan fyrir framhaldinu og svo kannski í lok bókar til að fara yfir farinn veg.

Ljósmóðirin er þrátt fyrir allt ofangreint ekki alslæm bók - a.m.k. ekki ef maður er fyrir sögulegar skáldsögur. Ég vona a.m.k. að Eyrún Ingadóttir reyni aftur og gefi út sögu sem er bæði söguleg og almennilegur skáldskapur. Ljósmóðirin er því miður bara annað af þessu tvennu.