Þessi uppskrift, appelsínu-skonsur með súkkulaði eftir Joy the Baker, er ein af mínum uppáhalds þessa dagana. Skonsurnar eru mjög góðar, það er auðvelt að búa þær til og þær eru fáránlega krúttlegar.
Skonsurnar eru ekta bakkelsi til að borða ylvolgar (með nóg af smjöri) í morgun- eða hádegisverð um helgar. Þær eru það góðar að þær bæta manni upp erfiða vinnuviku.
Skonsurnar eru ekta bakkelsi til að borða ylvolgar (með nóg af smjöri) í morgun- eða hádegisverð um helgar. Þær eru það góðar að þær bæta manni upp erfiða vinnuviku.
Skonsuppskriftin, löguð að íslenskum aðstæðum og hráefnum (og með viðbótum frá mér), er hér fyrir neðan.
Appelsínuskonsur með súkkulaði
1 1/2 bolli hveiti
2 msk sykur
Rifinn börkur af einni appelsínu
2 1/4 tsk lyftiduft
1/4 tsk matarsódi
1/2 tsk salt
90 g ósaltað smjör (kalt)
1 eggjarauða (stór)
1/4 bolli + 2 msk súrmjólk (köld)
1/2 bolli dökkir súkkulaðibitar
1) Hitið ofninn í 215°C. Sigtið hveiti, sykur, lyftiduft, matarsóda og salt saman í skál. Hrærið og blandið appelsínuberkinum saman við.
2) Skerið smjörið í bita og blandið saman við þurrefnablönduna. Það er best að nota hendurnar til að blanda smjörinu við þurrefnin. Deigið verður eins og hálfgerð mylsna þegar þessu er lokið.
3) Setjið eggjarauðu og súrmjólk í aðra skál. Hrærið létt saman með gaffli. Hellið blöndunni svo saman við hina og hrærið þangað til að blandan verður að mjúku deigi. Blandið súkkulaðibitunum síðast saman við.
4) Stráið smá hveiti á borðplötuna, takið deigið úr skálinni og hnoðið lítillega. Deigið á að vera mjög meðfærilegt. Mótið deigið þannig að það verði ca. 1,5-2 cm á þykkt og kassalaga. Skerið deigið í fjóra stóra bita eða sex minni (ég hef stundum gert aðeins fleiri en ef þið gerið það þá þarf að fylgjast vel með þeim í ofninum og stytta bökunartímann aðeins).
5) Setjið bökunarpappír á ofnplötu og raðið skonsunum á hana með hæfilegu millibili (þær lyfta sér og stækka nokkuð). Setjið í ofninn og bakið í ca. 12-15 mínútur. Það er best að borða skonsurnar á meðan þær eru heitar.
(Það er mjög auðvelt að breyta þessari uppskrift. Það er t.d. hægt að sleppa appelsínuberkinum og/eða setja eitthvað annað í staðinn fyrir súkkulaði. Ég hef sett rúsínur í staðinn fyrir súkkulaði en mér dettur í hug að það sé líka gott að setja þurrkuð bláber, einhver önnur þurrkuð ber, ristaðar pecanhnetur o.s.frv. o.s.frv.)
No comments:
Post a Comment