Sunday, December 22, 2013

Goodreads / Neverwhere

Ég er alltaf að leita að góðum fantasíum sem eru ekki partur af seríu. Ég er orðin agalega þreytt á að byrja að lesa einhverja seríu, vera ánægð með söguna og spennt, en fá ekki að vita hvernig sagan endar fyrr en eftir mörg ár. Ég er með nógu mikið af svona í gangi og ég nenni þessu ekki lengur.

Ég er farin að nota Goodreads síðuna mikið, bæði til að halda utan um hvað ég hef lesið og til að finna bækur sem mig langar að lesa. Það eru alls konar hjálplegir fítusar á Goodreads fyrir bókaunnendur. Ég uppgötvaði nýlega að maður getur óskað eftir bókameðmælum frá öllu samfélaginu á Goodreads. Ég prófaði að setja inn beiðni um svona meðmæli. Sagðist vera að leita að góðri fantasíu sem væri ekki partur af seríu. Ég fékk þrjár ágætis uppástungur, frá fólki sem ég þekki ekki neitt, en sem vill greinilega deila gleðinni.

Ein af uppástungunum sem ég fékk var Neverwhere eftir Neil Gaiman. Ég hef ekkert lesið eftir Gaiman áður en ég komst að því þegar ég fór að kynna mér hann að bíómyndin Stardust, sem ég hafði lúmskt gaman af, var gerð eftir bók Gaiman með sama nafni. Gaiman skrifaði Neverwhere upphaflega sem handrit að þáttum fyrir BBC. Þegar serían var tekin upp fannst Gaiman of miklu sleppt þannig að hann ákvað að skrifa skáldsögu byggða á handritinu líka.

Aðalpersóna Neverwhere er Richard Mayhew sem er ósköp venjulegur breskur ungur maður sem starfar í fjármálageiranum í London. Hann á frekar fáa vini og því miður mjög leiðinlega unnustu. Líf Richard breytist þegar hann hjálpar óvenjulegri ungri stúlku sem birtist skyndilega fyrir framan hann, veikburða og blóðug. Það kemur í ljós að stúlkan, Door, tilheyrir öðrum heimi, London Below eða undirheimum Lundúnaborgar, þar sem  er (nánast) engin lög og regla og galdrar o.fl. eru enn við lýði. Richard á ekki um aðra kosti að velja en að slæpast í för með Door í London Below og lendir í ýmsum háska. 

Ég hafði gaman af Neverwhere. Það eru margar skemmtilegar persónur í sögunni, aðstoðarmaður Door, the Marquis de Carabas, er háll sem áll og leigumorðingjarnir Mr. Croup og Mr. Vandemar eru algjör viðbjóður - á spaugilegan hátt. Richard sjálfur er mjög breskur og hálfgerður auli en mjög fyndinn sem slíkur. Hann fær svo að þroskast þegar líður á söguna. Húmor Gaiman höfðaði vel til mín og þó að Neverwhere sé ekki gamansaga í grunninn þá hló ég oft upphátt við lesturinn. Nokkur dæmi:
“There are four simple ways for the observant to tell Mr. Croup and Mr. Vandemar apart: first, Mr. Vandemar is two and a half heads taller than Mr. Croup; second, Mr. Croup has eyes of a faded china blue, while Mr. Vandemar's eyes are brown; third, while Mr. Vandemar fashioned the rings he wears on his right hand out of the skulls of four ravens, Mr. Croup has no obvious jewelery; fourth, Mr. Croup likes words, while Mr. Vandemar is always hungry. Also, they look nothing at all alike.”
“What a refreshing mind you have, young man. There really is nothing quite like total ignorance, is there?”
 “Richard did not believe in angels, he never had. He was damned if he was going to start now. Still, it was much easier not to believe in something when it was not actually looking directly at you and saying your name.”
Sem sagt, ef þið hafið gaman af góðum fantasíum og breskum úrvals húmor þá mæli ég með Neverwhere. 

Sunday, December 15, 2013

Andköf og Gröfin á fjallinu

Ég er búin að lesa tvær glæpasögur úr flóðinu þetta árið. Annars vegar Andköf, eftir Ragnar Jónsson, og hins vegar Gröfina á fjallinu, eftir Hjorth og Rosenfeldt. Í stuttu máli þá var ég ekkert sérlega hrifin af þessum bókum en ekkert sérlega ósátt við þær heldur. Þær voru báðar lala.

Ég hafði sérstakan áhuga á Andköfum þar sem mínar heimaslóðir eru sögusvið bókarinnar. Sögurþráðurinn er í stuttu máli sá að ung kona finnst látin í Kálfshamarsvík út á Skaga. Konan hafði alist upp í Kálfshamarsvík en flutt þaðan í burtu eftir miklar hörmungar, bæði móðir hennar og lítil systir létust á dularfullan hátt á staðnum. Ari, lögreglumaður á Siglufirði, sem er aðalpersónan í sögum Ragnars, er fenginn til að koma að rannsókn málsins. 

Mér fannst sami galli á þessari bók Ragnars og öðrum bókum sem ég hef lesið eftir hann (sem ég held að séu allar bækurnar hans, sjá t.d. umfjöllun hér). Hún er allt of þunn. Í upphafi bókar er lagt upp með rosalega ráðgátu og þ.a.l. býst maður við rosalegri fléttu. Þessi rosalega flétta kemur hins vegar aldrei. Gátan er eiginlega engin gáta og er allt of auðveldlega leyst - án almennilegra sönnunargagna. Niðurstaðan verður vonbrigði. Mér fannst sögusviðið líka illa nýtt en ég er kannski ekki alveg hlutlaus hvað það varðar. Andköf er samt ágætis afþreying sé maður að leita að slíku. Fljótlesin bók.

Gröfin á fjallinu er þriðja bók Hjorth og Rosenfeldt um réttarsálfræðinginn Sebastian Bergmann. Áður hafa verið gefnar út hér bækurnar Maðurinn sem var ekki morðingi og Meistarinn um Sebastian, sjá mína umfjöllun hér. Maðurinn sem var ekki morðingi er að mínu mati ein besta norræna glæpasagan sem gefin hefur verið út á íslensku og því les ég samviskusamlega allar bækur sem á eftir koma.

Sagan hefst með því að fjöldagröf finnst upp á fjalli og morðdeildin, sem Sebastian starfar með, er kölluð til. Rannsóknin gengur illa til að byrja með, það reynist erfitt að bera kennsl á hin látnu og þ.a.l. að rekja slóð þeirra og morðingjans. Þá eru lögreglumennirnir og Sebastian sjálfur að glíma við
mörg persónuleg vandamál. Vegna þeirra ákveður Sebastian að yfirgefa rannsóknina, rétt eftir að hún hefst. Ég vil ekki segja of mikið um lausn málsins en ég vil þó segja að mér að mér fannst hún of keimlík söguþræðinum í Millennium bókum Stieg Larsson - sænskt samsæri. Ég er ekki nógu hrifin af samsærum.

Mér fannst Gröfin á fjallinu vera sísta bókin í seríunni hingað til. Kannski af því að Sebastian, sem er ósvífnasti og jafnframt skemmtilegasti karakterinn í bókunum, kom svo lítið að rannsókninni. Hann var fyrst og fremst að glíma við vandræði í sínu einkalífi í bókinni og er almennt mjög aumkunarverður alla bókina. Það er bara ekki jafn áhugavert ef hann er ekki samhliða að sýna hversu mikill snillingur hann er. Gröfin á fjallinu er samt engan veginn versta glæpasaga sem ég hef lesið og það er auðvitað nauðsynlegt að lesa hana ef maður er sérstakur áhugamaður um Sebastian eins og ég.

Kókostoppar

Til að taka aðeins þátt í jólabrjálæðinu þá bakaði ég kókostoppa í gær. Uppskriftina, sem ég hafði til hliðsjónar, fann ég aftan á kókosflögupokanum sem ég hafði keypt (mjög amerískur kókos úr Kosti). Ég sé ekki eftir því að hafa prófað þá uppskrift. Að öðrum kókostoppum ólöstuðum þá eru þetta bestu kókostoppar sem ég hef smakkað. Þetta var líka mjög fljótlegt. Uppskriftin er eftirfarandi og ég mæli rosalega mikið með henni.

Kókostoppar:
1 poki af Baker's Angel Flake Sweetened Coconut (fæst í Kosti, sjá mynd hér fyrir neðan)
2/3 bolli sykur
6 msk hveiti
1/2 tsk Maldon salt
4 eggjahvítur (ég var með svo lítil egg að ég þurfti að nota 5 til að deigið yrði nógu blautt)
2 tsk vanilludropar
200 g suðusúkkulaði (ca.)

1) Hitið ofninn í 160°C. Hrærið saman kókosflögur, sykur, hveiti og salt í stórri skál.
 

2) Hrærið eggjahvíturnar og vanilludropana vel saman við. Það er ágæt regla að brjóta eggin og setja í aðra skál en deigskálina fyrst. Ef eggin skyldu vera skemmd þá kemur það í veg fyrir að allt deigið eyðileggist. 

3) Setjið bökunarpappír á tvær ofnplötur. Notið matskeið til að búa til litlar kúlur úr deiginu og setjið á plöturnar. 


4) Bakið í ca. 20 mínútur eða þar til kökurnar eru farnar að brúnast aðeins. Takið plötuna þá úr ofninum og setjið kökurnar strax á grind til að kæla þær. 


5) Bræðið súkkulaðið þegar kökurnar eru orðnar alveg kaldar. Hjúpið helming af hverri köku með súkkulaði og bíðið þar til súkkulaðið kólnar.