Saturday, February 16, 2013

Beautiful Creatures

Um daginn ég las ég bókina Beautiful Creatures. Bókin er sú fyrsta af fjórum um Lenu, sem er norn (eða reyndar "caster" eins og þau kalla það) og Ethan, sem er venjulegur strákur, a.m.k. svona við fyrstu sýn. Þau búa í smábænum Gatlin í suðurríkjum Bandaríkjanna (að mig minnir í Suður-Karólínu).

Sagan er sögð frá sjónarhorni Ethan. Þegar sagan hefst er hann orðinn frekar þreyttur á smábæjarlífinu. Hann hefur nýlega misst móður sína og er enn að vinna úr sorginni. Faðir hans tók andláti hennar vægast sagt mjög illa og hefur lokað sig af frá umheiminum - sem auðveldar Ethan heldur ekki lífið. Ethan gerir sitt besta til að falla inn í smábæjarlífið, þó að hann sé ekki hrifinn af því, og spilar körfubolta með vinsælustu strákunum í skólanum og felur áhuga sinn á bókum og umfangsmikinn lestur sem honum fylgir.

Allt breytist í lífi Ethan þegar Lena flytur í bæinn og byrjar í sama skóla og hann. Lena, sem hefur búið víða, þykir mjög skrýtin og ekki bætir úr skák að hún býr heima hjá frænda sínum sem er talinn mesti furðufugl bæjarins. Þrátt fyrir mikla andstöðu frá samfélaginu tekur Ethan upp vinskap við Lenu og þau ná mjög vel saman. Hann verður þó fljótt var við að ýmislegt skringilegt gerist í kringum hana. Áður en Ethan veit af hefst svo mjög furðuleg atburðarrás og lífinu sem hann þekkir er kollvarpað. Allt í einu eru leyndarmál, nornir, álög og jafnvel yfirnáttúruleg bókasöfn (!) eðlilegur partur af lífi hans.

Mér fannst sagan ágæt. Nokkuð spennandi og vel uppbyggð. Samband Lenu og Ethan er stundum frekar væmið en það er kannski ekki annað hægt - þetta er jú unglinga (young adult) ástarsaga. Endirinn er svo alls ekki of fyrirsjáanlegur. Það sem mér finnst verst við bókina er að hún sé hluti af fjórleik. Ég held að hún hefði alveg staðið fyrir sínu ein og stök - hún hefði kannski þurft að vera aðeins lengri en það hefði gengið upp. Mér finnst allar sögur sem ég les núna var hluti af þríleik eða fjórleik og er orðin þreytt á því. 

Ástæðan fyrir því að mér datt í hug að lesa þessa bók er  sú að ég sá sýnishorn úr samnefndri mynd sem búið er að gera eftir bókinni. Ég held að það eigi að byrja sýna myndina hér á landi um næstu helgi. Ég er að velta fyrir mér að sjá myndina líka - jafnvel bara til að geta pirrað mig á útfærslunni og ónauðsynlegum breytingum á söguþræðinum!

Thursday, February 7, 2013

Hringurinn

Ég fékk bókina Hringinn lánaða hjá systur minni um daginn. Höfundar Hringsins eru tveir og eru sænskir, þau Strandberg og Elfgren. Bókin var þýdd á íslensku fyrir þessi jól og ég held að hún sé sú fyrsta í þríleik (mér finnst að ég hafi heyrt eða lesið það einhvers staðar). Markhópur sögunnar er sennilega young adult (frekar en beinlínis unglingar) en ég setti það ekki fyrir mig - sem betur fer. 

Sagan fjallar um sex stúlkur. Þær eiga fátt sameiginlegt annað en að búa í sama smábænum í Svíþjóð og ganga í sama menntaskólann. Í upphafi sögunnar finnst einn nemandi í menntaskólanum átinn inn á salerni í skólanum. Það lítur út fyrir að hann hafi framið sjálfsmorð. Í kjölfar þess komast stúlkurnar mjög óvænt  að því að þær eru tengdar á ákveðinn  - yfirnáttúrulegan - hátt og jafnframt að samnemandi þeirra framdi alls ekkert sjálfsmorð. Stúlkurnar þurfa svo að taka höndum saman og berjast gegn óþekktu illu afli.

Mér fannst sagan mjög spennandi og vel uppbyggð. Bókin er 509 bls. en ég var samt enga stund að tæta hana í mig.

Það er eitt sérstaklega sem mér fannst mjög áhugavert við uppbyggingu sögunnar. Höfundarnir ákveða að láta fjórar af stúlkunum sex vera sögumenn til skiptis (ef ég man rétt). Tvær stúlknanna eru aldrei sögumenn. Maður fær sjónarmið þeirra því aldrei beint í æð. Þetta verður bæði til þess að maður verður tortrygginn gagnvart þeim tveim og jafnframt forvitinn um skoðanir þeirra og tilveru almennt.

Ég verð líka að taka fram að mér finnst þýðandi bókarinnar hafa unnið gott verk. Ég var sérstaklega ánægð með notkun orðsins "beturvitri" sem ég man ekki eftir að hafa séð áður á prenti en er sérlega skemmtilegt. Ég var ekki jafn ánægð með notkun orðsins "tónhlaða" (ipod eða mp3-spilari). Finnst það óþjált og auk þess man ég ekki til þess að hafa heyrt nokkurn mann nota það orð. Beturvitri verður fyrr í hvers manns tali en tónhlaða.

Góð bók sem ég mæli með fyrir alla sem fíla smá ævintýri og yfirnáttúruleg fyrirbæri.

Next to Love / Næstum eins og ástin

Fyrir jólin kom bókin Next to Love eftir Ellen Feldman út í íslenskri þýðingu. Bókin heitir Næstum eins og ástin á íslensku. Ég var búin að sjá bókina og hugsa með mér að hún væri örugglega ágætis afþreying (en þó ekki meira en það) og að ég myndi sennilega kaupa hana í einhverju hallæri í sumar. Þegar ég var heima í leti- og leiðikasti eitt kvöldið fékk ég hins vegar þá hugdettu að kaupa bókina á frummálinu í Kindle sem og ég gerði. 

Bókin fjallar um þrjár ungar konur, vinkonur, sem búa í smábæ í Bandaríkjunum á tímum seinni heimstyrjaldarinnar. Ungu konurnar þrjár eru allar nýgiftar ungum hermönnum sem hafa verið sendir til Evrópu. 

Ég myndi ekki lýsa sögunni sem ástarsögum þessara kvenna. Sagan fjallar frekar um það hvað gerist eftir að þær að verða ástfangnar, eftir að þær gifta sig, eftir að þær eru skildar eftir einar - og eftir stríðið.

Sagan er frekar þung. Alls ekkert í léttmeti eins og ég hélt. Í sögunni er fjallað um hörmulega atburði. Stríð, nauðgun, sorgir, geðsjúkdóma, fordóma,  mikil vonbrigði o.s.frv. Það tók þess vegna smá toll að lesa sig í gegnum hana. Feldman er sagnfræðingur og það er augljóst að hún hefur unnið nokkuð mikla heimildavinnu fyrir skriftirnar. Að mínu mati er sögulegi vinkillinn það besta við bókina.

Mér fannst bókin ekki slæm en samt ekki góð heldur. Kannski af því að ég hélt að hún yrði léttari. Það sem ég saknaði helst var almennilegur endir. Mér fannst ég ekki fá almennilegan endapunkt á sögur kvennanna þriggja. 

Sem sagt, ekki lesa bókina nema þið séuð til í sorgir og átök án góðs endis.