Wednesday, November 28, 2012

Pecanhnetubaka

Um síðustu helgi eldaði ég kalkún í félagi við Trausta vin okkar Símons. Þetta var frumraun okkar beggja í kalkúnaeldamennsku sem gekk líka svona ljómandi vel. Kalkúninn var vel eldaður, bragðgóður og alls ekki of þurr - kannski ekki skrýtið þar við jusum bræddu smjöri yfir hann á hálftíma fresti.

Til að halda réttu stemmingunni ákvað ég að baka pecanhnetuböku til að hafa í eftirrétt og hafði uppskrift úr Back In the Day Bakery Cookbook til hliðsjónar. Ég hef aldrei bakað svona hefðbundna böku áður en ég hélt satt að segja að það væri algjört vesen. Ég hafði rangt fyrir mér - þetta hefði varla getað verið einfaldara. Þetta var a.m.k. mun auðveldara en að baka tveggja laga köku með kremi og tilheyrandi veseni.

Pecanhnetubaka
Botninn:
1 1/2 bolli hveiti
1/4 bolli ljós púðursykur
1/2 tsk fínt malað sjávarsalt (alvöru)
165 g ósaltað smjör, brætt

1) Hrærið saman hveiti, sykur og salt. Hellið smjörinu rólega saman við þurrefnin og hrærið með gaffli á meðan. Deigið á að vera fremur blautt og eins og hálfgerð mylsna.

2) Setjið deigið í bökuform (ég held að mitt sé 9 eða 10 tommur) og ýtið því jafnt yfir botninn og upp hliðarnar. Setjið deigið svo til hliðar og vinnið í fyllingunni.
Fyllingin:
1/2 bolli sykur
1/4 bolli ljós púðursykur
1 1/4 bolli sýróp
1/2 tsk fínt malað sjávarsalt (alvöru)
1 1/2 tsk hveiti
3 stór egg
1 1/2 tsk vanilludropar
2 msk viský
23 g ósaltað smjör, brætt
1 3/4 bolli pecanhnetur

1) Hitið ofninn í 175°C. Í meðalstórri skál, blandið saman báðum tegundum af sykri, sýrópi, salti, hveiti og eggjum og hrærið í 1-2 mínútur. Blandan á að vera vel hrærð.

2) Hrærið vanilludropunum, vískýinu og smjörinu því næst vel saman við. Setjið pecanhneturnar síðast út í og hrærið lítillega.

3) Hellið fyllingunni yfir deigið í forminu. Bakið í tæplega 1 klst. og 15 mínútur. Fylgist vel með. Takið bökuna svo út og kælið í a.m.k. 1 klst. áður en bragðað er á henni.

4) Berið fram með þeyttum rjóma og njótið.

Tuesday, November 27, 2012

Appelsínuskonsur með súkkulaði

Þessi uppskrift, appelsínu-skonsur með súkkulaði eftir Joy the Baker, er ein af mínum uppáhalds þessa dagana. Skonsurnar eru mjög góðar, það er auðvelt að búa þær til og þær eru fáránlega krúttlegar.

Skonsurnar eru ekta bakkelsi til að borða ylvolgar (með nóg af smjöri) í morgun- eða hádegisverð um helgar. Þær eru það góðar að þær bæta manni upp erfiða vinnuviku. 

Skonsuppskriftin, löguð að íslenskum aðstæðum og hráefnum (og með viðbótum frá mér), er hér fyrir neðan.

Appelsínuskonsur með súkkulaði 
1 1/2 bolli hveiti
2 msk sykur
Rifinn börkur af einni appelsínu
2 1/4 tsk lyftiduft
1/4 tsk matarsódi
1/2 tsk salt
90 g ósaltað smjör (kalt)
1 eggjarauða (stór)
1/4 bolli + 2 msk súrmjólk (köld)
1/2 bolli dökkir súkkulaðibitar

1) Hitið ofninn í 215°C. Sigtið hveiti, sykur, lyftiduft, matarsóda og salt saman í skál. Hrærið og blandið appelsínuberkinum saman við.
2)  Skerið smjörið í bita og blandið saman við þurrefnablönduna. Það er best að nota hendurnar til að blanda smjörinu við þurrefnin. Deigið verður eins og hálfgerð mylsna þegar þessu er lokið.

3) Setjið eggjarauðu og súrmjólk í aðra skál. Hrærið létt saman með gaffli. Hellið blöndunni svo saman við hina og hrærið þangað til að blandan verður að mjúku deigi. Blandið súkkulaðibitunum síðast saman við. 

4) Stráið smá hveiti á borðplötuna, takið deigið úr skálinni og hnoðið lítillega. Deigið á að vera mjög meðfærilegt. Mótið deigið þannig að það verði ca. 1,5-2 cm á þykkt og kassalaga. Skerið deigið í fjóra stóra bita eða sex minni (ég hef stundum gert aðeins fleiri en ef þið gerið það þá þarf að fylgjast vel með þeim í ofninum og stytta bökunartímann aðeins).

5) Setjið bökunarpappír á ofnplötu og raðið skonsunum á hana með hæfilegu millibili (þær lyfta sér og stækka nokkuð). Setjið í ofninn og bakið í ca. 12-15 mínútur. Það er best að borða skonsurnar á meðan þær eru heitar.
(Það er mjög auðvelt að breyta þessari uppskrift. Það er t.d. hægt að sleppa appelsínuberkinum og/eða setja eitthvað annað í staðinn fyrir súkkulaði. Ég hef sett rúsínur í staðinn fyrir súkkulaði en mér dettur í hug að það sé líka gott að setja þurrkuð bláber, einhver önnur þurrkuð ber, ristaðar pecanhnetur o.s.frv. o.s.frv.)

Wednesday, November 21, 2012

Áttablaðarósin

Ég var að ljúka við Áttablaðarósina eftir Óttar M. Norðfjörð. Bókin kom út fyrir jólin 2010 en ég var fyrst að rekast á hana núna. Það er reyndar eins og Óttar hafi farið fram hjá mér hingað til, því ég hef  aðeins lesið eina aðra bók eftir hann - Lygarann sem kom út fyrir jólin í fyrra.

Sagan er að mínu mati nokkuð klassísk glæpasaga og alveg ágæt sem slík. Sögusviðið er Reykjavík stuttu eftir hrun. Þó að hrunið komi eitthvað við sögu þá er það ekki aðalatriði söguþráðarins eins og í svo mörgum öðrum glæpasögum e. hr. Spilling í íslenskum viðskiptum er þó áberandi. Gamlir og löngu gleymdir atburðir koma einnig við sögu sem mér finnst alltaf skemmtilegt.

Sagan er sögð frá sjónarhorni nokkurra persóna en þó oftast frá sjónarhorni þeirra Gabríels, Áróru og Egils. Gabríel er nemandi í  MR, Áróra er fjölmiðlafræðingur með lögfræðilegan bakgrunn og Egill er einn ríkasti maður Íslands. Nokkuð óljóst er í fyrstu hvað tengir þessar persónur saman en tengingin kemur smátt og smátt í ljós. Ef ég ætti að finna eitthvað að sögunni þá væri það helst að mér fannst hún oft frekar óraunveruleg og jafnvel ótrúverðug á köflum (það sama fannst mér reyndar um Lygarann). Það gæti þó talist kostur - þetta er jú skáldsaga. Kannski er ég orðin of samdauna þessari hefðbundnu raunsæju norrænu glæpasögu... Það virðist a.m.k. vera kominn tími til að kíkja aðeins út úr kassanum og vera opin fyrir einhverju nýju.

Bókmenntafræðingar geta mögulega fundið eitthvað að stílnum, persónusköpun og fleiru (klisjum?)  en Áttablaðarósin er í það minnsta mjög spennandi. Þrátt fyrir að sagan sé 450 bls. (og að ég hafi almennt nóg að gera) þá gleypti ég hana í mig á rétt rúmum tveimur dögum. Ætli það séu ekki bestu meðmæli sögunnar?

Sunday, November 11, 2012

Jane Austen II

Ég veit að ég er búin að skrifa um Austen og skáldsögurnar hennar sex, sjá hér, en ég verð að bæta við það. Ég ákvað, í ljósi ómældrar aðdáunar minnar, að lesa allt annað sem ég gæti fundið eftir Austen (eða um Austen) og keypti í þeim tilgangi þrjár rafbækur; Love and Friendship, Lady Susan og Memoir of Jane Austen. Síðastnefnda bókin er ekki skrifuð af Austen, heldur af frænda hennar, um hennar líf og persónu. Ástæðan fyrir því að ég tók hana með er sú að í lýsingunni á Amazon kom fram að bréf eftir Austen væru birt í bókinni.

Love and Friendship (upphaflega skrifað Love and Freindship) er safn af stuttum sögum, og reyndar einni ókláraðri skáldsögu, sem Austen skrifaði þegar hún var ung. Safnið var tekið saman  og birt eftir andlát Austen. Ég las einhvers staðar að nánasta fjölskylda Austen hefði ekki viljað birta þessar sögur, sennilega vegna þess að þær þóttu of léttvægar, en sem betur voru þær gefnar út síðar. Sögurnar eru mjög léttar og skemmtilegar. Austen virðist fyrst og fremst hafa skrifað þær til að skemmta fjölskyldunni og eru margar þeirra tileinkaðar einhverjum sérstökum. Sögurnar eru sumar farsakenndar og bera jafnvel keim af sápuóperum. Margar eru skrifaðar í bréfaformi, þar sem aðalpersónurnar senda bréf sín á milli og segja frá lífi sínu. Mér fannst gaman að lesa sögurnar. Húmor Austen er allsráðandi  - sem dæmi má nefna að Austen skrifar mjög svo óhefðbundna útgáfu af sögu Englands þar sem hún gerir m.a. grín af stíl sagnfræðinga og tilraunum þeirra til að vera hlutlausir. Titill sögunnar er: "The History of England from the reign of Henry the 4th to the death of Charles the 1st. By a partial, prejudiced, & ignorant Historian." Sagan var í upphaflegu útgáfunni myndskreytt af systur Austen, Cassandra, sem hún var nánust af systkinum sínum, t.d. með myndinni hér fyrir ofan. Mér finnst augljóst að með þessum stuttu sögum er Austen að leggja drög að öðrum sögum sínum - maður kannast vel við sum karaktereinkenni og hún notar persónunöfn sem koma fyrir í skáldsögum hennar, t.d. Willoughby, og vísar í götur og staði sem maður þekkir. Ég mæli með þessu sagnasafni fyrir aðra aðdáendur Austen. Flestum öðrum finnst sennilega kjánalegt að eyða tíma í að lesa það.
 
Lady Susan er stutt skáldsaga - samt ekki smásaga. Hún er aldrei talin með hinum sex skáldsögum Austen, sennilega vegna þess hversu stutt hún er. Sagan er skrifuð í bréfaformi. Þar sem bréfaritarar eru nokkrir fær maður oft fleiri en eina lýsingum á atvikum - sem er áhugavert þar sem persónurnar hafa sjaldnast sömu skoðanir á þeim. Aðalpersónan er hin eigingjarna, stjórnsama og daðurgjarna Lady Susan - sem er vægast sagt mjög óforskömmuð. Hún er svo óforskömmuð reyndar að það kom mér á óvart. Ég hélt að prúðir Englendingar þessa tíma viðurkenndu ekki að svona persónur væru til. Söguþráðurinn snýst allur í kringum Lady Susan, hún býr til allskonar drama sem hinar persónurnar hneykslast á, eða hrífast af, og tala um sín á milli. Sagan er ekkert sérstakt bókmenntalegt afrek en ég held að hún sé ágætis upphafspunktur fyrir þá sem vilja lesa bækur Austen en hafa ekki treyst sér í það. Hún er mjög auðveld aflestrar.

Memoir of Jane Austen er ekkert svakalega skemmtileg og ég hef, af þeim sökum, ekki lokið við hana enn sem komið er. Stíll höfundarins er frekar þurr og hann á það til að skrifa langar lýsingar á staðarháttum og fjarskyldum ættingjum Austen sem segja ekki neitt um hennar persónu og líf. Í bókinni eru birt nokkur bréf Austen (reyndar stundum bara útdrættir sem maður græðir ekki mikið á) sem er forvitnilegt að lesa. Efni sumra bréfanna er ósköp hversdagslegt en maður sér þó að Austen hefur eitthvað sótt í eigið líf við skrif bóka sinna. Maður sér líka að hún gefur þeim persónum sínum, sem henni líkar vel við, oft eitthvað af eigin karakter (ég held t.d. að hún gefi Elizabeth Bennet og Emmu sérstaklega mikið af sjálfri sér). Ég nenni ekki að skrifa meira um þessa bók og ég mæli ekki með henni nema fyrir hörðustu aðdáendur.

Það eru svo til a.m.k. tvær "sögur" í viðbót eftir Austen sem eru fáanlegar á Amazon. Það eru tvær ókláraðar skáldsögur sem heita The Watsons og Sanditon. Ég lagði ekki í að lesa þær að svo komnu. Það er eitthvað svo svekkjandi og dapurlegt við það að byrja á bók sem maður fær ekki að vita hvernig endar (tala nú ekki um ef bókin er góð). Margir höfundar  hafa spreytt sig á að ljúka við þessar sögur en ég hef  því miður ekki mikla trú á þeim. Kannski síðar.

P.S. Rafbækurnar þrjár kosta allar 0 kr. á Amazon.

P.S.2. Mig langar að vekja athygli lesenda á að Emma, í íslenskri þýðingu, er meðal bóka í jólabókaflóðinu svokallaða þetta árið. 

Viðbót 22.11.2012: Ég hef nú lokið við Memoir of Jane Austen en hef ekki miklu við ofangreint að bæta. Ágætis kafli var um ritstörf Austen sem slík og afstöðu hennar til þeirra og í lok bókar var birtur lokakafli Persuasion, sem Austen tók út og breytti á síðustu stundu, sem og útdráttur af því sem hún var búin að skrifa af Sanditon.

Saturday, November 10, 2012

Limekaka með rjómaostakremi

Ég var að ljúka við að baka þessa köku hér frá Bakerella. Ég nennti reyndar ekki að skreyta kökuna  eins fallega og Bakerella gerði og ég gerði bara tvo botna í staðinn fyrir fjóra. Leti.
Ég hef aldrei áður bakað svona svampbotna. Allar kökur sem ég hef gert eru með súkkulaði eða kakó (fyrir utan vanillubollakökurnar sem ég reyni að baka reglulega en þær eru ekki kökur).
Mér fannst þessi kaka ágætis tilbreyting frá öllu súkkulaðinu. Hún er skemmtilega öðruvísi og mér fannst hún betri með hverjum bitanum. Ég þurfti bara aðeins að venjast henni. Botninn fannst mér líka skemmtilega passlegur, þéttur í sér en samt ekki þurr og ekki of blautur. 
Þar sem ég gerði bara tvo botna gerði ég bara hálfa uppskrift af kremi. Það var meira en nóg. Annað, þar sem ég hef átt í erfiðleikum með rjómaostakrem (þ.e. með að láta smjörið og rjómaostinn blandast fallega saman) ákvað ég að gæta fyllstu varúðar í þetta sinn. Í fyrsta lagi þá lét ég smjörið og rjómaostinn standa nánast hálfan daginn á borðinu (þannig að bæði væri nú örugglega við stofuhita) og í öðru lagi þá þeytti ég rjómaostinn fyrst sér og smjörið sér áður en ég blandaði því saman og þeytti. Kremið var mjög fallegt og blandaðist fullkomlega saman.