Sunday, December 22, 2013

Goodreads / Neverwhere

Ég er alltaf að leita að góðum fantasíum sem eru ekki partur af seríu. Ég er orðin agalega þreytt á að byrja að lesa einhverja seríu, vera ánægð með söguna og spennt, en fá ekki að vita hvernig sagan endar fyrr en eftir mörg ár. Ég er með nógu mikið af svona í gangi og ég nenni þessu ekki lengur.

Ég er farin að nota Goodreads síðuna mikið, bæði til að halda utan um hvað ég hef lesið og til að finna bækur sem mig langar að lesa. Það eru alls konar hjálplegir fítusar á Goodreads fyrir bókaunnendur. Ég uppgötvaði nýlega að maður getur óskað eftir bókameðmælum frá öllu samfélaginu á Goodreads. Ég prófaði að setja inn beiðni um svona meðmæli. Sagðist vera að leita að góðri fantasíu sem væri ekki partur af seríu. Ég fékk þrjár ágætis uppástungur, frá fólki sem ég þekki ekki neitt, en sem vill greinilega deila gleðinni.

Ein af uppástungunum sem ég fékk var Neverwhere eftir Neil Gaiman. Ég hef ekkert lesið eftir Gaiman áður en ég komst að því þegar ég fór að kynna mér hann að bíómyndin Stardust, sem ég hafði lúmskt gaman af, var gerð eftir bók Gaiman með sama nafni. Gaiman skrifaði Neverwhere upphaflega sem handrit að þáttum fyrir BBC. Þegar serían var tekin upp fannst Gaiman of miklu sleppt þannig að hann ákvað að skrifa skáldsögu byggða á handritinu líka.

Aðalpersóna Neverwhere er Richard Mayhew sem er ósköp venjulegur breskur ungur maður sem starfar í fjármálageiranum í London. Hann á frekar fáa vini og því miður mjög leiðinlega unnustu. Líf Richard breytist þegar hann hjálpar óvenjulegri ungri stúlku sem birtist skyndilega fyrir framan hann, veikburða og blóðug. Það kemur í ljós að stúlkan, Door, tilheyrir öðrum heimi, London Below eða undirheimum Lundúnaborgar, þar sem  er (nánast) engin lög og regla og galdrar o.fl. eru enn við lýði. Richard á ekki um aðra kosti að velja en að slæpast í för með Door í London Below og lendir í ýmsum háska. 

Ég hafði gaman af Neverwhere. Það eru margar skemmtilegar persónur í sögunni, aðstoðarmaður Door, the Marquis de Carabas, er háll sem áll og leigumorðingjarnir Mr. Croup og Mr. Vandemar eru algjör viðbjóður - á spaugilegan hátt. Richard sjálfur er mjög breskur og hálfgerður auli en mjög fyndinn sem slíkur. Hann fær svo að þroskast þegar líður á söguna. Húmor Gaiman höfðaði vel til mín og þó að Neverwhere sé ekki gamansaga í grunninn þá hló ég oft upphátt við lesturinn. Nokkur dæmi:
“There are four simple ways for the observant to tell Mr. Croup and Mr. Vandemar apart: first, Mr. Vandemar is two and a half heads taller than Mr. Croup; second, Mr. Croup has eyes of a faded china blue, while Mr. Vandemar's eyes are brown; third, while Mr. Vandemar fashioned the rings he wears on his right hand out of the skulls of four ravens, Mr. Croup has no obvious jewelery; fourth, Mr. Croup likes words, while Mr. Vandemar is always hungry. Also, they look nothing at all alike.”
“What a refreshing mind you have, young man. There really is nothing quite like total ignorance, is there?”
 “Richard did not believe in angels, he never had. He was damned if he was going to start now. Still, it was much easier not to believe in something when it was not actually looking directly at you and saying your name.”
Sem sagt, ef þið hafið gaman af góðum fantasíum og breskum úrvals húmor þá mæli ég með Neverwhere. 

Sunday, December 15, 2013

Andköf og Gröfin á fjallinu

Ég er búin að lesa tvær glæpasögur úr flóðinu þetta árið. Annars vegar Andköf, eftir Ragnar Jónsson, og hins vegar Gröfina á fjallinu, eftir Hjorth og Rosenfeldt. Í stuttu máli þá var ég ekkert sérlega hrifin af þessum bókum en ekkert sérlega ósátt við þær heldur. Þær voru báðar lala.

Ég hafði sérstakan áhuga á Andköfum þar sem mínar heimaslóðir eru sögusvið bókarinnar. Sögurþráðurinn er í stuttu máli sá að ung kona finnst látin í Kálfshamarsvík út á Skaga. Konan hafði alist upp í Kálfshamarsvík en flutt þaðan í burtu eftir miklar hörmungar, bæði móðir hennar og lítil systir létust á dularfullan hátt á staðnum. Ari, lögreglumaður á Siglufirði, sem er aðalpersónan í sögum Ragnars, er fenginn til að koma að rannsókn málsins. 

Mér fannst sami galli á þessari bók Ragnars og öðrum bókum sem ég hef lesið eftir hann (sem ég held að séu allar bækurnar hans, sjá t.d. umfjöllun hér). Hún er allt of þunn. Í upphafi bókar er lagt upp með rosalega ráðgátu og þ.a.l. býst maður við rosalegri fléttu. Þessi rosalega flétta kemur hins vegar aldrei. Gátan er eiginlega engin gáta og er allt of auðveldlega leyst - án almennilegra sönnunargagna. Niðurstaðan verður vonbrigði. Mér fannst sögusviðið líka illa nýtt en ég er kannski ekki alveg hlutlaus hvað það varðar. Andköf er samt ágætis afþreying sé maður að leita að slíku. Fljótlesin bók.

Gröfin á fjallinu er þriðja bók Hjorth og Rosenfeldt um réttarsálfræðinginn Sebastian Bergmann. Áður hafa verið gefnar út hér bækurnar Maðurinn sem var ekki morðingi og Meistarinn um Sebastian, sjá mína umfjöllun hér. Maðurinn sem var ekki morðingi er að mínu mati ein besta norræna glæpasagan sem gefin hefur verið út á íslensku og því les ég samviskusamlega allar bækur sem á eftir koma.

Sagan hefst með því að fjöldagröf finnst upp á fjalli og morðdeildin, sem Sebastian starfar með, er kölluð til. Rannsóknin gengur illa til að byrja með, það reynist erfitt að bera kennsl á hin látnu og þ.a.l. að rekja slóð þeirra og morðingjans. Þá eru lögreglumennirnir og Sebastian sjálfur að glíma við
mörg persónuleg vandamál. Vegna þeirra ákveður Sebastian að yfirgefa rannsóknina, rétt eftir að hún hefst. Ég vil ekki segja of mikið um lausn málsins en ég vil þó segja að mér að mér fannst hún of keimlík söguþræðinum í Millennium bókum Stieg Larsson - sænskt samsæri. Ég er ekki nógu hrifin af samsærum.

Mér fannst Gröfin á fjallinu vera sísta bókin í seríunni hingað til. Kannski af því að Sebastian, sem er ósvífnasti og jafnframt skemmtilegasti karakterinn í bókunum, kom svo lítið að rannsókninni. Hann var fyrst og fremst að glíma við vandræði í sínu einkalífi í bókinni og er almennt mjög aumkunarverður alla bókina. Það er bara ekki jafn áhugavert ef hann er ekki samhliða að sýna hversu mikill snillingur hann er. Gröfin á fjallinu er samt engan veginn versta glæpasaga sem ég hef lesið og það er auðvitað nauðsynlegt að lesa hana ef maður er sérstakur áhugamaður um Sebastian eins og ég.

Kókostoppar

Til að taka aðeins þátt í jólabrjálæðinu þá bakaði ég kókostoppa í gær. Uppskriftina, sem ég hafði til hliðsjónar, fann ég aftan á kókosflögupokanum sem ég hafði keypt (mjög amerískur kókos úr Kosti). Ég sé ekki eftir því að hafa prófað þá uppskrift. Að öðrum kókostoppum ólöstuðum þá eru þetta bestu kókostoppar sem ég hef smakkað. Þetta var líka mjög fljótlegt. Uppskriftin er eftirfarandi og ég mæli rosalega mikið með henni.

Kókostoppar:
1 poki af Baker's Angel Flake Sweetened Coconut (fæst í Kosti, sjá mynd hér fyrir neðan)
2/3 bolli sykur
6 msk hveiti
1/2 tsk Maldon salt
4 eggjahvítur (ég var með svo lítil egg að ég þurfti að nota 5 til að deigið yrði nógu blautt)
2 tsk vanilludropar
200 g suðusúkkulaði (ca.)

1) Hitið ofninn í 160°C. Hrærið saman kókosflögur, sykur, hveiti og salt í stórri skál.
 

2) Hrærið eggjahvíturnar og vanilludropana vel saman við. Það er ágæt regla að brjóta eggin og setja í aðra skál en deigskálina fyrst. Ef eggin skyldu vera skemmd þá kemur það í veg fyrir að allt deigið eyðileggist. 

3) Setjið bökunarpappír á tvær ofnplötur. Notið matskeið til að búa til litlar kúlur úr deiginu og setjið á plöturnar. 


4) Bakið í ca. 20 mínútur eða þar til kökurnar eru farnar að brúnast aðeins. Takið plötuna þá úr ofninum og setjið kökurnar strax á grind til að kæla þær. 


5) Bræðið súkkulaðið þegar kökurnar eru orðnar alveg kaldar. Hjúpið helming af hverri köku með súkkulaði og bíðið þar til súkkulaðið kólnar.

Tuesday, November 12, 2013

Afmæliskaka Símons / Þriggja botna undrið

Símon átti afmæli fyrir nokkru (lestist: fyrir meira en mánuði síðan) og ég bakaði svaðalega köku af því tilefni. Ég blandaði saman þremur botnum, vanillubotni, súkkulaðibotni og Red Velvet og setti svo smjörkrem yfir allt saman. Mmm...


Mér fannst kakan heppnast vel og þetta kom skemmtilega út. Bæði passaði þetta ágætlega saman og var flott. Kökunni svipar kannski til regnbogakökunnar (sem sést alltaf víðar og víðar) en það sem er öðruvísi er að botnarnir eru ekki bara öðruvísi á litinn, þeir eru líka öðruvísi á bragðið. Ég náði því miður ekki nógu góðri mynd af snilldinni:


Botnauppskriftirnar komu víða að. Ég gerði eina svona bollakökuuppskrift (án súkkulaðimola) til að gera einn vanillubotn. Ég gerði hálfa svona uppskrift til að gera einn súkkulaðibotn. Svo gerði ég hálfa svona uppskrift til að gera einn Red Velvet botn. Ég neita því ekki að þetta var pínu vesen, enda voru innihaldsefnin ekki alltaf þau sömu en samt þess virði... a.m.k. svona í eitt skipti.

Smjörkremsuppskriftin var mjög hefðbundin. Mig minnir að ég hafi þurft tvöfalda svona uppskrift á þriggja laga köku (a.m.k. eina og hálfa):

Vanillusmjörkrem
250 g ósaltað smjör við stofuhita 
500 g flórsykur 
1 msk heitt vatn 
1 tsk vanilludropar

1) Hrærið smjörið á meðalhraða þangað til það er orðið vel mjúkt.

2) Bætið flórsykrinum smátt og smátt saman við og hrærið varlega eftir hverja viðbót. Notið sleikju til að skrapa af hliðunum á skálinni eftir því sem þörf er á.

3) Setjið vatnið og vanilludropana síðast saman við og hrærið.

4) Dreifið á botnana þegar þeir hafa kólnað. 

Monday, November 11, 2013

Rosie verkefnið og Maður sem heitir Ove

Ég er nýbúin að lesa tvær frábærar bækur, annars vegar Rosie verkefnið og hins vegar Maður sem heitir Ove. Sú fyrrnefnda er eftir ástralskan höfund, Graeme Simsion, en sú síðarnefnda eftir sænskan, Fredrik Backman. Ég hef ekki lesið bækur eftir þessa höfunda áður.

Bækurnar tvær eiga ýmislegt sameiginlegt. Ég myndi t.d. lýsa þeim báðum sem feel good bókum. Þá er aðalpersónan í báðum tilvikum sérvitur karlmaður. Svo hló ég oft upphátt við lestur þeirra beggja. Loks, ég myndi lýsa hvorugri þeirra sem bókmenntalegu afreki þó  skemmtilegar séu.

Rosie verkefnið fjallar um erfðafræðinginn Don Tillman. Það upplýsist fljótlega að Don er ekki alveg "venjulegur" en sterkar vísbendingar eru gefnar um að hann sé með Asperger heilkenni. Don, sem gengið hefur illa í kvennamálum, ákveður að finna sér eiginkonu. Hann velur óhefðbundna leið í því verkefni og er kannski helst hægt að segja að hann reyni að nota vísindalegar aðferðir til að ná takmarki sínu. Mér fannst sagan frábær og hló oft upphátt eins og áður sagði. Sumir hafa kvartað yfir því að sagan sé klisjukennd þegar að kemur að lýsingum á Asperger. Ég er ekki sammála því. Mér finnst sagan engan veginn gera lítið úr þeim sem eru með Asperger heldur þvert á móti. Fannst höfundurinn frekar leitast við að sýna okkur að a) það þurfa ekki allir að vera eins og b) það getur verið kostur að vera öðruvísi.

Maður sem heitir Ove er um eldri mann sem í upphafi sögu er á frekar slæmum stað í lífinu - og
vægast sagt pirraður út í allt og alla. Þegar nýir nágrannar flytja í hverfið breytist líf hans til hins betra - þó að hann sjálfur sé nú ekki sammála því í fyrstu. Við fáum svo að fylgjast með því hvernig líf Ove breytist smátt og smátt. Höfundur fléttar jafnframt baksögu Ove inn í söguþráðinn og við fáum að vita hvernig Ove varð eins og hann er. Mér fannst það vel gert - þ.e. fortíð Ove skýrir nútíð hans vel.

Það er mikið grín gert að Svíum í bókinni. Sögupersónur há endalaust stríð vegna ágreinings um Saab og Volvo (sem er mjöög fyndið), búsetufélög spila stóran sess, allir eiga að flokka ruslið sitt, velferðarkerfið gengur af göflunum o.s.frv. Ég man reyndar ekki eftir því að sögupersónur hafi borðað kjötbollur, því miður.

Ég mæli með báðum þessum bókum fyrir alla. Mér fannst Rosie verkefnið ívið betri en Maður sem heitir Ove þó að ég vilji helst ekki gera upp á milli þeirra.

Saturday, October 12, 2013

Crown of Midnight

Munið þið eftir Throne of Glass sem ég skrifaði um hér? Nei, auðvitað ekki. En ég var sem sagt að lesa bók nr. 2 í þessari seríu um launmorðingjann Celaenu Sardothien sem heitir Crown of Midnight.

Eins og kom fram í pistli mínum um Throne of Glass þá eru þessar bækur skrifaðar fyrir young adult. Stundum elska ég að lesa bækur sem geta ekki talist neitt annað en algjört léttmeti - eða jafnvel heilafrí. Crown of Midnight og Throne of Glass eru ekki alveg þannig en næstum því.

Mér fannst Crown of Midnight skemmtileg bók - eiginlega skemmtilegri en Throne of Glass. Aðalpersónan, Celaena Sardothien, er ekki alveg jafn naív og hún var í fyrstu bókinni og ég kunni betur að meta hana sem persónu. Celaena er nú orðin sérstakur launmorðingi konungsins í Aderlan - sem er erfitt fyrir hana því hún hatar konunginn af öllu hjarta. Við fáum að vita meira um baksögu hennar en áður og samband hennar við Chaol (sem er Captain of the Guards) þróast áfram. Persóna krónprinsins, Dorian, fær einnig að þróast og hann fær að vera meira en myndarlegur prins í uppreisn gegn föður sínum - sem er það eina sem hann var í Throne of Glass. 

Sagan var ágætlega spennandi (ég las hana a.m.k. í einum rykk) og góð sem fantasía. Það verður auðvitað að hafa í huga að bókin er "skrifuð fyrir" unglinga og hún er ekkert sérlega flókin eða djúp. Ég var í þannig stuði þegar ég var að lesa hana að mér fannst það kostur en ekki galli.

Ég mæli líka með Novellunum eða smásögunum um Celaenu sem gerast áður en Throne of Glass byrjar. Þær heita The Assassin and the Pirate Lord, The Assassin and the Desert, The Assassin and the Underworld og The Assassin and the Empire og fást á Amazon gegn vægu gjaldi.

Monday, September 2, 2013

Sumarið - Undantekningin - Skýrsla 64

Ég var mjög löt við blogg í sumar. Eins og sennilega fleiri. Þrátt fyrir að veðrið sé ekkert sérstakt þá finnur maður sér alltaf eitthvað annað að gera en að hanga í tölvunni... eins og að taka tilgangslausar myndir af rósinni við svefnherbergisgluggann.





Ég bakaði líka þessa köku, úr The Back in the Day Bakery Cookbook (sem ég skrifaði um hér), sem inniheldur hvorki meira né minna en hálft kg af súkkulaði:


Kakan var virkilega góð en ég hugsa að ég baki hana ekki of oft. Hún er frekar mikið.

Ég bragðaði á þessum líka dásamlega ís í Valdís (nokkrum sinnum reyndar þrátt fyrir langar raðir):
 

Og eðlilega, eftir öll þessi sætindi, þá nennti ég lítið að elda og vesenast í eldhúsinu. Besti kvöldmaturinn var því svona:
 
 
Ég las einhverjar bækur en var því miður ekki dugleg að punkta niður  hvað mér fannst um þær. Ég las t.d. Skýrslu 64 eftir Jussi Adler Olsen. Mér fannst hún allt í lagi en ekkert meira en það. Mér fannst uppbygging textans og stíllinn eitthvað ruglingslegur. Bókin er reyndar í miðjunni á einhverri seríu um nokkra lögreglumenn, sem ég hef ekkert kynnt mér áður og enga aðra bók í henni lesið, og það skýrir kannski eitthvað. Það er samt mín skoðun að góðir krimmar eigi að vera þannig að maður þurfi ekki að hafa lesið sögurnar sem á undan komu til að fatta um hvað málið snýst.

Ég las líka Undantekninguna eftir Auði Övu Ólafsdóttur, sem mig langaði til
að lesa eftir að ég las Rigningu í nóvember, sjá hér. Mér fannst Undantekningin ekki jafn skemmtileg og Rigning í nóvember - aðalpersónan var ekki jafn skemmtileg og söguþráðurinn sem slíkur ekki nógu spennandi heldur. Aðalplottið  hins vegar var nokkuð töff og aukapersónan Perla áhugaverð. Ágæt bók.

Núna er ég að lesa þríleikinn Skurðir í rigningu - Sumarið bakvið brekkuna - Birtan á fjöllunum eftir Jón Kalman Stefánsson. Ég er nýbyrjuð á þriðju bókinni og kann vel að meta hingað til. Vonandi meira um það síðar.


Súpa með chilli og sætri kartöflu

Jæja, þá er haustið komið. Í tilefni þess ætla ég að birta þessa uppskrift að súpu með chilli og sætri kartöflu sem ég gerði fyrir nokkru síðan (í júlí - það var líka haust þá). Ég nota þessa "uppskrift" oft og laga hana bara að því sem ég á í ísskápnum hverju sinni. Það er ekkert heilagt við þessa súpu. Það er nánast hægt að skipta grænmetistegundunum í súpunni út fyrir hvaða aðra tegund sem er (eða bæta við tegundum) en mér finnst samt alltaf best að nota sæta kartöflu sem grunn. Venjulegar kartöflur og gulrætur geta þó vel komið í staðinn fyrir hana. Annað sem er í uppskriftinni á ég oftast til í eldhúsinu.

Súpa með chilli og sætri kartöflu
3 chilli (án stilks og fræhreinsuð nema þið viljið hafa súpuna mjög sterka)
1 sæt kartafla (flysjuð og skorin í 4-5 bita)
1 laukur (afhýddur og skorinn í tvennt)
klípa af salti
160 ml kókosmjólk
8 dl vatn 
1/4 dl limesafi
4 msk Bong kjúklinga- og/eða nautakraftur (eða einn og hálfur teningur af öðrum krafti)
1 tsk túrmerik
3 msk rjómaostur (ég notaði Philadelphia sweet chilli rjómaost í þetta skipti)
1 msk hunang
1 tsk maldon salt

1) Setjið grænmetið í pott ásamt vatni og klípu af salti og sjóðið þar til það er tilbúið.

2) Sigtið grænmetið frá vatninu og maukið það í matvinnsluvél. 

3) Setjið maukaða grænmetið aftur í pott ásamt 8 dl af vatni (þið getið hvort sem er notað vatn úr krananum eða vatnið sem þið notuðuð til að sjóða grænmetið í áður - ef þið gerið það síðarnefnda myndi ég samt sigta mesta gruggið úr) og sjóðið.

4) Bætið restinni af innihaldsefnunum út í súpuna og hitið að suðu. Leyfið súpunni að malla við lágan hita í nokkrar mínútur eftir að suðan hefur komið upp. 

6) Berið fram með brauði eða öðru góðgæti og njótið.


Friday, July 5, 2013

Djöflatindur

Ég hef nýlokið við bókina Djöflatind eftir Deon Meyer, suður-afrískan höfund, og hún er með betri glæpasögum sem ég hef lesið undanfarið.

Sagan gerist í Höfðaborg í Suður-Afríku og er aðallega sögð frá sjónarhorni rannsóknar-lögreglumannsins og alkóhólistans Benny Griessel sem fær afar erfitt mál til úrslausnar - að finna raðmorðingja sem drepur aðeins barnaníðinga. Málið er ekki bara flókið vegna þess að vísbendingar eru fáar heldur einnig vegna þess að morðinginn verður nokkuð vinsæll. Margir telja hann vinna þarft verk. Rannsóknin fær svo snöggan endi þegar lögreglumenn leiða morðingjann í gildru en ekki er allt sem sýnist...

Benny er ekki eini sögumaðurinn því þeir eru tveir í viðbót, morðinginn sjálfur og vændiskonan Christine. Saga þeirrar síðarnefndu fléttast smátt og smátt inn í söguna - á vel gerðan hátt.
 
Sagan er frekar spennandi. Maður fær ekki aðeins að fylgjast með þessu eina tiltekna máli heldur einnig persónulegum erfiðleikum Benny, morðingjans og Christine. Benny tekst á við alkóhólisma, og þá staðreynd að konan hans hefur hent honum út (klassískt), Christine stríðir við kúnnana og erfiða fortíð og morðinginn við missi barns. Sagan er því mjög fjölbreytt en þrátt fyrir alla vandamálasúpuna er hún ekki langdregin eða erfið aflestrar.

Mér fannst einnig mjög áhugavert að lesa um suður-afrískt samfélag - fá innsýn í stéttaskiptinguna, allar öryggisráðstafanir og eftirlitið (sem þykir eðlilegt) og kynþáttamismunina - sem er nú ekki bara neikvæð heldur líka jákvæð. Ég sá viðtal við höfundinn í Kiljunni fyrir ekki svo löngu og þá vildi hann meina að suður-afrískt samfélag væri ekkert hættulegra en almennt gengur og gerist (ef ég man rétt). Það var ekki tilfinningin sem ég fékk þegar ég las þessa bók, sbr. allar öryggisgirðingarnar og eftirlitið sem viðgengst í betri hverfum Höfðaborgar. Það virðist t.d. ekki þykja eðlilegt að svartir menn séu á vappi í "hvítum hverfum" - ef svo ber undir eru allir á varðbergi.

Ég mæli með Djöflatindi. Ágætis krimmi til að lesa í sumarfríinu.

Thursday, June 27, 2013

Rigning í nóvember

Ég var að lesa bókina Rigningu í nóvember eftir Auði Övu Ólafsdóttur. Rigning í nóvember er fyrsta bókin sem ég les eftir Auði Övu. Af einhverjum ástæðum hefur hún farið fram hjá mér þangað til nú, sem er mjög svekkjandi því mér fannst þetta frábær bók - vel skrifuð, fyndin og skemmtileg. Ég verð að lesa fleiri bækur eftir hana sem fyrst. Margir hafa mælt með  Afleggjaranum og Undantekningunni og ég ætla að reyna að koma höndum yfir þær.

Rigning í nóvember fjallar um nýfráskilda konu sem ákveður að breyta lífi sínu, bæði meðvitað og ómeðvitað. Hún tekur að sér að hugsa um heyrnarlausan og sjónskertan son vinkonu sinnar þegar sú síðarnefnda þarf að leggjast inn á spítala. Þau tvö leggja svo af stað í ferðalag austur á land þar sem óvenju blautt veðurfar o.fl. óvænt atvik há þeim... a.m.k. til að byrja með.

Aðalpersóna sögunnar starfar sem prófarkalesari og þýðandi. Hún er mjög hæfileikarík og klár en yfirleitt hálf utan við sig. Hún lætur sig reka með straumnum og er oft fjarri raunveruleikanum. Þessi karaktereinkenni leiddu oft til spaugilegra atvika, t.d. þegar maðurinn hennar segir henni, í frekar löngu máli, að hann vilji skilja:
- Ekki lengur. Þú ættir líka að vita það með alla þína víðfeðmu þekkingu - hann segir það háðslega - að órökstudd gagnrýni hjá karlmanni er ekki fjarri dulbúinni aðdáun. Karlmenn hafa ekkert á móti kvenfólki með reynslu. Ég viðurkenni að stundum vildi ég óska að þú byggir yfir víðfeðmari reynslu á þessu sviði.
Ég hegg eftir því að hann notar tvisvar orðið víðfeðmur. Ef þetta væri próförk myndi ég ósjálfrátt strika það út í annað skiptið, án þess endilega að velta fyrir mér innihaldi textans.
Í stað þess að dvelja við tilfinningar sínar til eiginmannsins og hjónabandsins er hún víðsfjarri. Hún prófarkales eiginmann sinn frekar en að "díla" við aðstæðurnar og taka þátt í samtalinu. Hún reynir hvorki að ná honum aftur né að skammast í honum á móti. Oft fara svona lufsukarakterar í taugarnar á mér en ekki í þessari bók. Auði Övu tekst vel upp með sína aðalpersónu sem er allt í senn - symptatísk, fyndin og pirrandi.

Uppáhalds persónan mín var samt móðir aðalpersónunnar. Hún er ekki bara hin fullkomna alúðlega og umhyggjusama móðir, sem fær jafnvel gerviplöntur til að vaxa, heldur er hún líka ráðagóð og mikill spekingur: 
Eftir ferð með vinkonu sinni til Kína í fyrra er hún [móðirin] byrjuð að læra kínversku, fyrsta erlenda tungumálið á eftir dönskunni.
- Þegar ég sá hvað þeir voru margir, segir hún, fannst mér ekki annað hægt. Upp á framtíðina.
Innsæi og viska móðurinnar er þannig að hún fær mann bæði til að hugsa sig um, vera betri manneskja og hafa gaman af.

Aftast í bókinni eru uppskriftir höfundar af öllum mat og drykkjum sem nefndir eru á nafn í sögunni. Uppskriftirnar eru ekki bara gagnlegar heldur líka skemmtilegar. Einkum þótti mér fyndin uppskriftin af ódrekkandi kaffi. Hún ber vott um að höfundur hafi hugsað það mál út í gegn.

Þó að það sé kannski óþarft að taka það fram, með hliðsjón af ofangreindu, þá mæli ég með að þið lesið Rigningu í nóvember. 

Tuesday, June 25, 2013

Ekki þessi týpa

Ég var að lesa bókina Ekki þessi týpa eftir Björgu Magnúsdóttur. Sagan er frumraun höfundar í skáldsagnagerð. Í stuttu máli þá fjallar hún um fjórar vinkonur  og samskipti þeirra við hvor aðra, fjölskyldur þeirra, vinnufélaga og svo auðvitað karlmenn. Björg lætur vinkonurnar fjórar skiptast á að vera sögumenn eftir því hvað hentar söguþræðinum hverju sinni.

Ekki þessi týpa er ekki besta bók sem ég hef lesið en samt alveg ágætis afþreying. Ég þurfti aldrei að hvíla mig á henni (en það þarf ég stundum að gera þegar ég les "chick lit" bækur - þær geta verið svo yfirþyrmandi væmnar). Ekki þessi týpa var reyndar mjög fljótlesin - tók ca. kvöldstund eða svo.

Helsti gallinn við söguna er að það er allt of mikið blaður í henni. Það eru heilu blaðsíðurnar, og jafnvel kaflarnir, þar sem ekkert á sér stað nema misgáfuleg samtöl. Það voru einstaka spaugileg atriði en þau voru þó frekar vandræðaleg en spaugileg. Mér fannst höfundi takast best upp í persónusköpuninni - þegar hún leyfði manni að vita hvað persónan var að hugsa en ekki endilega hvað hún gerði eða sagði. Sýndi oft gott innsæi þá.

Annar galli við söguna er endirinn. Lokasenan í bókinni er frekar ótrúverðug og ýkt m.v. íslenskan nútíma sem sagan þó gerist í. Eftir þá senu er svo frekar snubbóttur endir. Ég varð fyrir vonbrigðum með endinn og fannst að suma þræði sögunnar hefði mátt hnýta betur. Með aðeins betri endi væri þetta miklu betri bók. 

Wednesday, June 19, 2013

Frönsk súkkulaðikaka með karamellu

Ég bakaði franska súkkulaðiköku með karamellu í tilefni af 17. júní. Mmmm nammi! Þó að ég hafi bakað hana aðeins of lengi var hún mjög góð - karamellan lyftir kökunni á hærra plan. Meira ætla ég ekki að segja um uppskriftina sem fylgir hér á eftir.





Frönsk súkkulaðikaka með karamellu
250 g suðusúkkulaði
175 g smjör
1 msk fínmalað espressokaffiduft
2 dl sykur
4 egg
1 1/2 tsk vanillusykur
1/2 lyftiduft
1/2 dl hveiti

1) Stillið ofninn á 175°C. Takið til 24 cm/10 tommu form (eftir því hvað þið eigið) og smyrjið.

2) Brjótið súkkulaðið í litla bita og setjið í pott ásamt smjörinu og kaffinu. Bræðið saman við vægan hita og hrærið reglulega í á meðan. Takið pottinn af hitanum og látið blönduna kólna aðeins.

2) Hrærið eggjum og sykri saman í skál. Setjið saman við súkkulaðiblönduna þegar hún hefur kólnað og hrærið saman þar til blandan verður slétt.

3) Blandið vanillusykri, lyftidufti og hveiti saman í annarri skál og sigtið svo ofan í súkkulaðiblönduna. Hrærið saman þar til blandan verður slétt.

4) Setjið blönduna í formið og bakið í neðri hluta ofnsins í 45-55 mínútur (ég hugsa að það dugi að baka kökuna í 45 mínútur ef þið eruð með 10 tommu form eins og ég notaði). Kælið aðeins eftir bakstur.
 

Karamella
1 poki af Góu kúlum
1/2 dl rjómi
smá Maldon salt

1) Setjið kúlurnar, rjómann og saltið í pott og bræðið saman við vægan hita. Hrærið reglulega í á meðan blandan bráðnar saman.

2) Kælið karamelluna aðeins en samt ekki of lengi því þá verður hún of þykk. Takið kökuna úr forminu og hellið karamellunni yfir hana. Dreifið úr henni með sleikju ef þörf er á (og hafið hraðar hendur því hún er fljót að kælast á þessu stigi).

3) Berið fram með þeyttum rjóma og jarðarberjum. Njótið!

Monday, June 17, 2013

Red Velvet bollakökur

Ég bakaði Red Velvet bollakökur um daginn. Red Velvet kökur eru uppáhaldið mitt en ég hef ekki náð fullkomnun í bollakökum ennþá. Þessar komust ansi nálægt því. Við Símon tímdum a.m.k. ekki að bjóða neinum í kaffi og átum þær allar upp til agna á innan við tveimur dögum. Uppskrift og myndir fylgja hér á eftir. Því miður nýtur rauði liturinn sín ekki / sést ekki nógu vel á myndunum.


Red Velvet bollakökur (ca. 12)
60 g ósaltað smjör við stofuhita
3/4 bolli sykur
1 egg
2 1/2 msk kakóduft
3 msk rauður matarlitur
1 tsk vanilludropar
1/2 bolli "buttermilk" (setjið rúma tsk af sítrónusafa í hálft-bollamál, fyllið upp með nýmjólk og látið standa í 10 mínútur / eða notið súrmjólk)
1 bolli og 2 msk hveiti
1/2 tsk salt
1/2 matarsódi
1 1/2 tsk ljóst edik (ég nota hvítvínsedik)

1) Stillið ofninn á 175°C. Takið til bollakökuform.

2) Hrærið smjör og sykur á meðalhraða í hrærivél þangað til blandan verður létt og ljós. Það ætti að taka ca. 3 mínútur. Aukið hraðann og bætið egginu við. Notið sleikju til að skrapa blönduna af hliðum skálarinnar ef þörf er á og hrærið svo vel saman.

3) Blandið saman kakó, vanilludropum og rauðum matarlit í lítilli skál þannig að úr verði þykkt krem. Setjið það saman við blönduna í hrærivélinni og hrærið svo vel saman á meðalhraða. Notið sleikju til að skrapa blönduna af hliðum skálarinnar ef þörf er á til að þetta blandist vel saman.

4) Minnkið hraðann og blandið helmingnum af "buttermilk" varlega saman við. Setjið svo helminginn af hveitinu saman við á sama hátt. Notið sleikju til að skrapa blönduna af hliðum skálarinnar ef þörf er á til að þetta blandist vel saman. Endurtakið ferlið með restinni af "buttermilk" og hveitinu og hrærið á miklum hraða þar til blandan er slétt.

5) Minnkið hraðann og setjið saltið, matarsódann og edikið saman við. Aukið hraðann aftur og hrærið í nokkrar mínútur. 

6) Skiptið deiginu á milli bollakökuforma og bakið í ca. 20 mínútur. Kælið kökurnar alveg áður en kremið er sett á.
 

Rjómaostakrem*
110 g ósaltað smjör við stofuhita
110 g philadelphia rjómaostur við stofuhita
2 1/2 bolli flórsykur
1 tsk vanilludropar
1 msk sítrónusafi

1) Athugið að það er mjög mikilvægt að bæði smjörið og rjómaosturinn séu við stofuhita. Ef svo er ekki er hægt við að kremið mistakist.

2) Hrærið smjörið í hærirvélinni á miklum hraða í nokkrar mínútur (flestar uppskriftir ráðleggja manni að nota þeytarann en mér finnst betra að nota "hræruna"- smjörið og osturinn eiga það til að skilja sig ef maður notar þeytarann).  

3) Skrapið smjörið af hliðum skálarinnar með sleikju og blandið svo rjómaostinum saman við. Hrærið saman á rúmum meðalhraða. Notið sleikjuna ef þörf er á til að ná blöndunni af hliðum skálarinnar.

4) Þegar smjörið og osturinn eru vel blandaðir saman, minnkið hraðann og setjið flórsykurinn varlega saman við, smátt og smátt. Notið sleikjuna ef þörf er á.

5) Setjið vanilludropana og sítrónusafann saman við og hrærið á meðalhraða þar til kremið er orðið slétt og létt í sér. 


* Þessi kremuppskrift er ætluð fyrir tólf bollakökur en helmingurinn af henni dugir mér - mér finnst betra að hafa ekki of mikið krem.

Sunday, May 19, 2013

Svikalogn og Hinir réttlátu

Ég er búin að lesa tvær glæpasögur nýlega. Sú fyrri er Svikalogn eftir hina sænsku Vivecu Sten. Bókin er sú fyrsta, sem kemur út í íslenskri þýðingu, í frekar langri seríu um lögreglumanninn Thomas og vinkonu hans, lögfræðinginn Noru. Sögurnar gerast allar á sumarleyfiseyjunni Sandhamn, sem er í skerjafirðinum fyrir utan Stokkhólm í Svíþjóð.

Sögum Vivecu er oft líkt við sögur Camillu Läckberg. Ég hef lesið nokkrar bækur Camillu og samlíkingin er ekki ástæðulaus. Sögur Camillu gerast nefnilega líka á sumarleyfisstað í Svíþjóð og báðar skrifa sögur sem mér finnast vera soft glæpasögur - það eru glæpasögur þar sem lítið er um algjöran viðbjóð, þær gerast ekki í undirheimum stórborga, aðalpersónurnar eru nokkuð heilsteyptar og þær snúast yfirleitt um að leysa eitt morðmál.

Mér fannst Svikalogn vera ágæt sem svona saga. Hún rúllaði vel, karakterarnir voru trúverðugir og ég var alveg nokkuð spennt, þó að ég væri ekki að fara yfirum. Strax í byrjun gat ég giskað á hver morðinginn væri en það pirraði mig ekkert. Sagan var ágæt þrátt fyrir að vera fyrirsjáanleg. Það er mun líklegra að ég lesi næstu bók eftir Vivecu Sten en næstu bók eftir Camillu Läckberg, enda er ég komin með smá leið á þeirri síðarnefndu. Hún þarf aðeins að fara að breyta til.

Seinni bókin sem ég las er Hinir réttlátu eftir Sólveigu Pálsdóttur. Hinir réttlátu er önnur bók Sólveigar en í fyrra kom út eftir hana bókin Leikarinn. Ég las Leikarann og fannst hún ágæt. Það var smá byrjendabragur á henni en söguþráðurinn fannst mér mjög spennandi. Ég var ekki jafn hrifin af Hinum réttlátu. 

Aðalpersónurnar í bókinni eru flestar þær sömu og í Leikaranum en þær gengu einhvern veginn ekki jafn vel upp. Maður fær meira að vita um bakgrunn þeirra og þeirra persónulega líf og mér fannst það ekki áhugavert. Allt of mikið um upphrópanir og klisjur. Morðmálið og rannsóknin, sem sagan snýst um, fannst mér svo lítið spennandi. Þegar ég var hálfnuð með bókina var ekkert að gerast sem hvatti mig til að lesa áfram. Aftur var það frekar fyrirsjáanlegt hver morðinginn var en hann var einhvern veginn verr skrifaður inn í söguna en í Svikalogni. 

Sem sagt, þó að mér finnist leiðinlegt að taka sænska bók fram yfir íslenska, þá mæli ég frekar með að þið lesið Svikalogn en Hina réttlátu.