Saturday, October 6, 2012

"Chick lit"

Ég les stundum svokallaðar "chick lit" bækur - sérstaklega ef mig langar að lesa eitthvað létt og þægilegt. Ef að þið kannist ekki við fyrirbærið þá eru það bækur sem eru sérstaklega skrifaðar fyrir konur, yfirleitt í léttum dúr og mjög oft um rómantík (samt ekki á sama hátt og bækurnar í rauðu seríunni) en ekki endilega. Sem dæmi um þekktar chick lit bækur mætti nefna Bridget Jones's Diary, Confessions of a Shopaholic og The Devil Wears Prada. 

Margir eru fordómafullir gagnvart chick lit bókum en ég sé enga ástæðu til að vera það. Það sama gildir um chick lit og önnur skálsagnaform - sumar chick lit bækur eru góðar en aðrar ekki. Hvort það eru til fleiri slæmar chick lit bækur en t.d. slæmar glæpasögur er erfitt að segja til um. Reyndar, ef chick lit sögur eru slæmar þá eru þær mjög fljótar að verða yfirþyrmandi kjánalegar og óþolandi og kannski er það þess vegna sem chick lit er yfirleitt nefnt í sama mund og eitthvað neikvætt. Bókakápurnar gætu líka spilað inn í þetta, þær eru oft asnalegar, of stelpulegar/væmnar/óþolandi bleikar, og fólk gæti stimplað bækurnar drasl vegna þeirra.

Í þessum pistli ætla ég að fjalla aðeins um uppáhalds chick lit rithöfundinn minn, Emily Giffin. Giffin er búin að skrifa sex bækur en þekktust þeirra er sennilega Something Borrowed sem búið er að gera kvikmynd eftir. Bækur Giffin fjalla ekki bara um rómantík (þó að hún spili yfirleitt stóran þátt). Þær fjalla yfirleitt um eitthvað annað líka, eitthvað þema eða vandamál, t.d. vináttu, barneignir  foreldrahlutverkið o.s.frv. Aðalsögupersónur Giffin eru heldur ekki heilalaus bimbó sem hugsa bara um að finna "hinn rétta" og gifta sig. Aðalkosturinn við bækur Giffin er að mínu mati að henni tekst  að skrifa texta sem er léttur, þægilegur en samt spennandi. Bækurnar eru auðveldar aflestrar og maður þarf ekki að hugsa of mikið en eru samt ekki þannig að þær misbjóði vitsmunalegri getu manns. Auka plús við bækur Giffin er að sögusvið þeirra er mjög oft New York sem ég get ekki lesið nóg um (og get heldur ekki beðið eftir að heimsækja aftur).

Bækur Giffin eru eftirfarandi í útgáfuröð:
  1. Something Borrowed.
  2. Something Blue.
  3. Baby Proof.
  4. Love the One You're With.
  5. Heart of the Matter.
  6. Where We Belong.
Mér finnst fyrsta og frægasta bók Giffin, Something Borrowed, vera best (það er yfirleitt ástæða fyrir frægðinni). Síst finnst mér Heart of the Matter en hinna get ég ekki gert upp á milli. Sennilega finnst mér þessi nýjasta, Where We Belong, vera næst best, svo Something Blue, því næst Love the One You're With og næst síst Baby Proof en ég er ekki alveg viss. Ég mæli a.m.k. með þeim öllum nema kannski Heart of the Matter, sbr. það sem á eftir kemur. Fyrir þá sem hafa séð myndina Something Borrowed þá vil ég nefna að söguþráður bókarinnar er ekki nákvæmlega sá sami og myndarinnar þó að aðalatriðin séu þau sömu.

Það er eitt neikvætt sem ég verð að nefna við sögur Giffin. Giffin virðist framhjáhald af einhverjum ástæðum mjög hugleikið og það er aðalatriði í þremur bókum hennar, Something Borrowed, Love the One You're With og Heart of the Matter.  Ástæða þess að mér finnst Heart of the Matter síst af bókum Giffin er sennilega sú að ég var orðin frekar þreytt á þessu stefi - mér finnst framhjáhald bara ekki svona áhugavert (ég verð að nefna að framhjáhaldið í Something Borrowed truflaði mig ekki neitt... sennilega vegna þess að aðalpersónan Rachel er svo sympatísk og auðvelt að tengja við hana). Framhjáhaldið í Heart of the Matter er líka langverst (ég er ekki að segja að það sé gott og fallegt í hinum bókunum en samt aðeins skárra) og það var á köflum óþægilegt að lesa bókina. Í þeirri bók er ekkert sem réttlætir framhjáhaldið - það er enginn "vondur kall" (eins og Darcy í Something Borrowed á klárlega að vera).  Endirinn er líka óþægilegur. Þegar ég var búin að lesa bókina fannst mér sagan öll ákaflega tilgangslaus og ég var svekkt eftir að hafa lesið um vanlíðan allra sögupersóna bara til að sitja uppi með endi sem leysir ekki neitt og kemur engri þeirra í betri stöðu. Það vantaði svo smá persónuþroska í lok bókar sem annars er alltaf til staðar í sögum Giffin.

Annað skemmtilegt um Giffin. Giffin skapaði sér víst miklar óvinsældir eftir að Where We Belong kom út nú í sumar. Ef ég skil málið rétt þá byrjaði það þannig að einhver skrifaði neikvæða umsögn um bókina á Amazon.com. Eiginmaður Giffin ákvað að svara umsögninni og kallaði þá/þann sem hana skrifaði m.a. "psycho".  Giffin mun í kjölfarið hafa tekið undir orð eiginmanns síns og kvatt aðdáendur sína til að gera það sama og hann. Tjah, vont er ef satt er. Þó að svona atvik geri mig mögulega fráhverfa Giffin sem persónu þá gerir þetta mig ekki fráhverfa henni sem rithöfundi. Smá persónuleg geðveiki skiptir mig engu máli á meðan bækurnar hennar skila sínu.

No comments:

Post a Comment