Saturday, December 22, 2012

Smákökur með lakkrískurli og ristuðum kókos

Ég hef alls ekki verið dugleg að baka í desember - það hefur enda verið nóg annað að gera. Ég ákvað í dag að ég yrði að baka eina smákökusort, til að sýna smá lit og vera jólaleg. Ég fann þessa uppskrift á síðunni hjá Joy the Baker og ákvað að laga hana að því sem ég átti til í eldhúsinu. Kökurnar urðu mjög góðar, stökkar að utan en mjúkar að innan. Blandan af lakkríks og kókos verður til þess að kökurnar bera keim af lakkrískonfekti.






Smákökur með lakkrískurli og ristuðum kókos
225 g ósaltað smjör
1 bolli sykur
3/4 bolli púðursykur
1/2 tsk vanillusykur (það er líka hægt að nota 1 tsk/1 msk af vanilludropum)
2 1/2 bolli hveiti
3/4 tsk matarsódi
1/2 - 3/4 tsk salt (eftir smekk)
1 stórt egg og 1 stór eggja rauða (ég átti bara lítil egg og notaði þrjú þeirra í staðinn)
1/4 bolli kókosflögur
1 bolli lakkrískurl

1) Stillið ofninn á 175°C. Ristið kókosflögurnar við meðalhita á pönnu, þangað til þær brúnast. Setjið þær í skál að því loknu og kælið.


2) Bræðið smjörið á pönnu við meðalhita. Ætlunin er að brúna smjörið. Fyrst eiga loftbólur að myndast og smellir að heyrast. Smjörið byrjar að brúnast þegar loftbólurnar hverfa, smellirnir hætta og lyktin af smjörinu verður karmellukennd. Þegar smjörið er brúnað, takið það af pönnunni og geymið í skál eða könnu og kælið aðeins.

3) Blandið saman hveiti, matarsóda, salti og vanillusykri í meðalstórri skál (ef þið notið vanilludropa þá fara þeir í blönduna síðar). Setjið til hliðar.

4) Setjið báðar sykurtegundir í hrærivélarskál ásamt smjörinu og hrærið, á meðalhraða, í ca. 2 mínútur. Það er í lagi þó að það sjáist ennþá móta fyrir sykurkornunum. 

5) Blandið eggjunum saman við sykurinn og smjörið og hrærið á meðalhraða í 2 mínútur. Blandan á að verða silkimjúk. (Ef þið notið vanilludropa, setjið þá í blönduna á þessum tímapunkti og hrærið aðeins).

6) Hægið á hrærivélinni og blandið þurrefnunum smátt og smátt saman við. Hrærið þar til deigið er alveg að koma saman. Takið skálina þá úr hrærivélinni og blandið kókos og lakkrískurli saman við með sleikju eða sleif. Deigið er fremur þykkt. 

7) Notið matskeið til að móta deig í kúlur og raðið hæfilega mörgum á bökunarplötur Ég stráði smá af fínu sjávarsalti yfir kökurnar áður en ég setti þær í ofninn. Bakið kökurnar í 10-12 mínútur, eða þar til þær eru rétt brúnaðar. Þær eiga að vera fremur mjúkar. Takið úr ofninum og leyfið þeim að kólna í smá stund.

8) Borðið eða geymið í kökudunk.

(Ég gerði rúmlega 50 smákökur úr þessari uppskrift).

No comments:

Post a Comment