Friday, December 14, 2012

Hefndarþorsti

Þó að ég sé að farast úr spenningi fyrir jólabókunum (án gríns) þá tókst mér að klára eina bók - n.t.t. Hefndarþorsta eftir Michael Ridpath. Hefndarþorsti kom út fyrir jólin í fyrra og er sjálfstætt framhald bókarinnar Hringnum lokað. Sögurnar fjalla um hinn íslensk/bandaríska lögreglumann Magnus Jonsson. Magnus er fæddur á Íslandi en fluttist til Bandaríkjanna þegar hann var enn barn að aldri. Sögurnar gerast á Íslandi þar sem Magnus er að reyna að fóta sig að nýju eftir langa fjarveru.

Það má segja að Hefndarþorsti sé ein af hinum svokölluðu hrunbókum. Ég man hreinlega ekki hvað eru komnar út margar glæpasögur sem fókusera á útrásarvíkingana, hrunið og öll leiðinda eftirköstin. Það er a.m.k. ein slík bók komin út eftir Ævar Örn Jósepsson og líka eftir Arnald Indriðason ef ég man rétt. Ég man ekki eftir fleirum eins og er en mér finnst afar líklegt að þær leynist þarna úti. Satt að segja þá finnst mér of snemmt að skrifa um hrunið, aðdragandann og eftirköstin. Mér finnst það a.m.k. afar vandmeðfarið, einkum vegna þess að það er svo stutt í besservisserinn. Það er svo svakalega auðvelt að vera vitur eftir á.

Söguþráður Hefndarþorsta er í stuttu máli sá að tveir menn, tengdir bönkunum og útrásinni, finnast látnir og Magnus Jonsson aðstoðar íslensku lögregluna við að finna morðingjana.  Rannsóknin teygist bæði til Bretlands og Frakklands og er í ýmsa koppa að líta. Fortíð Magnusar á Íslandi herjar mjög á hann og svo er önnur saga í sögunni - ráðgátan um morðið á föður Magnusar.  Þá gengur á ýmsu í ástarlífi Magnusar og það má því segja að það sé nóg að gerast. Mér fannst baksaga Magnusar meira spennandi heldur en hrunsagan og drápin á útrásarvíkingunum. Síðarnefndi söguþráðurinn fannst mér afskaplega fyrirsjáanlegur. Ridpath leysir reyndar ekki úr fortíðarflækjunni í þessari bók og það er því augljóst að það verða fleiri bækur í seríunni (samkvæmt Amazon er þriðja bókin þegar komin út á ensku og Ridpath virðist byrjaður á þeirri fjórðu).

Ridpath er breskur og skrifar bækurnar á ensku. Ég veit ekki hvaða tengingu hann hefur við Ísland, eða af hverju hann velur að skrifa um Ísland, en það er augljóst að hann hefur unnið heimavinnuna sína. Hann veit ótrúlega margt um Ísland og íslenskt samfélag þó að honum takist ekki alveg að forðast klisjurnar. Það var samt oft eitthvað sem truflaði mig við orðaval. Mér fannst það stundum stirt og/eða skringilegt miðað við hvað umhverfið og aðstæðurnar eru kunnuglegar. Svo að ég nefni dæmi um orðaval sem mér finnst ekki ganga upp þá segir á einum stað að Magnus hafi "notið ásta". Þá er á öðrum stað talað um að önnur persóna hafi "sorðið" aðra. Mér finnst "að njóta ásta" afskaplega tilgerðarlegt orðaval og orðið "serða" er svo sjaldan notað í íslensku talmáli að ég er ekki einu sinni viss um að ég kunni að beygja það almennilega (serða er sennilega ekki orð sem grunnskólakennarar velja sérstaklega sem dæmi í málfræðitímum).

Að mínu mati er Hefndarþorsti bók sem er allt í lagi en ekkert meira en það. 

No comments:

Post a Comment