Thursday, August 30, 2012

Tvær matreiðslubækur

Nýlega pantaði ég mér tvær matreiðslubækur á Amazon, annars vegar Joy The Baker Cookbook og hins vegar The Back in the Day Bakery Cookbook.

Þær komu fyrir svona mánuði síðan og síðan þá er búin að fletta þeim báðum fram og til baka. Ljósmyndirnar í báðum bókum eru einkar fallegar... svo fallegar reyndar að fyrsta kvöldið eftir að ég fékk þær, og byrjaði að skoða, neyddist ég til að senda Símon út eftir ís - ég var orðin svo sætindasvöng. Báðar bækurnar eru aðallega með uppskriftum að kökum og öðru sætmeti þó að ýmislegt annað skemmtilegt leynist inn á milli. Bækurnar eiga það líka sameiginlegt að höfundarnir skrifa inngang að hverri uppskrift, t.d. söguna af því hvernig viðkomandi uppskrift varð til eða frá hverjum hún kemur, við hvaða tækifæri hún er helst notuð o.fl. Mér finnast svona uppskriftasögur mjög skemmtilegar og finnst jafn gaman að lesa þær og skoða myndirnar af kökunum (og ímynda mér að ég sé að borða þær). 

Joy the Baker er uppáhalds bloggarinn minn og það fyrst og fremst var hvatinn að því að ég keypti bókina hennar. Hún skrifar þetta blogg hér sem ég kíki inn á nánast daglega (og stundum tvisvar á dag). Það sem mér finnst svo skemmtilegt við Joy er að þó að hún starfi sem kokkur (og komi úr mikilli mataráhugafjölskyldu) er hún ekki lærð sem slíkur. Joy hefur komið sér áfram í þessum bökunarheimi þrátt fyrir að vera ómenntuð - með því einu að leggja sig fram og vera frábær í því sem hún gerir. Bókin hennar finnst mér að mörgu leyti skemmtileg. Það eru  mjög fjölbreyttar uppskriftir í henni og svo eru fallegar myndir með hverri uppskrift. Annað skemmtilegt við bókina er að sumar uppskriftir Joy innihalda mjög óvenjulegar samsetningar. Joy er t.d. mikill aðdáandi beikons og hnetusmjörs og má finna annað hvort í hinum ótrúlegustu uppskriftum - t.d. er uppskrift af beikonvöfflum sem Joy ber fram með sírópi og smjöri (Joy sparar almennt ekki við sig hitaeiningar). Það eru líka nokkrar klassískar grunnuppskriftir í bókinni, t.d. af ýmsum kremum, og góðar almennar leiðbeiningar varðandi ýmislegt tengdu bakstri. Ég er búin að prófa tvær uppskriftir, vanillubollakökur (sem voru mjög góðar - mjúkar að innan, stökkar að utan og ljúfar á bragðið) og hnetusmjörsköku (kremið með uppskriftinni er eitt af því besta og fallegasta sem ég hef búið til) en ég tók því miður ekki myndir af bökunarferlinu. Þær uppskriftir sem eru í bókinni eru, eðlilega, ekki birtar á bloggsíðu Joy. Á heimasíðunni eru samt margar góðar uppskriftir - það margar að maður þarf ekkert á þessari bók á halda þó maður sé fanatískur aðdáandi Joy. Ég hef prófað nokkrar uppskriftir af heimasíðunni og hef yfirleitt verið ánægð með útkomuna. Ég hef t.d. prófað þessa uppskrift að breskum skonsum sem er mjög góð. Í uppskriftinni eru súkkulaði og appelsínubörkur til að gefa skonsunum bragð en það er hægt að skipta þeim út fyrir allt mögulegt, t.d. hnetur, ber (fersk/þurrkuð), rúsínur o.s.frv. ef manni langar að hafa eitthvað annað. Skemmtileg bók og samkvæmt minni reynslu eru uppskriftir Joy góðar uppskriftir.

The Back in the Day Bakery Cookbook er bökunarbiblía - það er hægt að finna uppskrift að nánast öllu bökunarkyns í bókinni. Bókin er skrifuð af hjónunum Cheryl og Griffith Day sem reka bakarí í Savannah í Georgíu. Þau kynntust, fundu að þau áttu sameiginlegt áhugamál (mat og eldamennsku) og urðu ástfangin. Síðan stofnuðu þau ofurkrúttlegt bakarí, sem mig langar núna að heimsækja, og skrifuðu þessa fallegu bók. Það eru myndir, mjög fallegar, með langflestum uppskriftum í bókinni en því miður ekki öllum. Annar galli við bókina er að það eru voða oft vesenis (bandarísk) innihaldsefni í uppskriftunum sem er hvergi hægt að finna hér á landi - t.d.  nota þau oft sérstakt cake flour... hvar fær maður það? Ég var vongóð um að það væri kannski til í Kosti en þrátt fyrir að þar sé mjööög margar hveititegundir að finna er ekki til þetta sérstaka kökuhveiti (ég er alvarlega að hugsa um að senda Jóni Gerald Sullenberger fyrirspurn um þetta). Ef ykkur langar að sjá sýnishorn af uppskriftum þeirra Cheryl og Griffith þá má finna eina hér. Þetta er uppskrift sem ég rakst á og er jafnframt ástæða þess að ég varð að kaupa þessa bók. Ég er bara búin að prófa eina uppskrift í bókinni, bláberjamuffins (sjá myndir hér fyrir neðan) og hún var mjög góð og einföld. Samstarfskona mín er svo búin að prófa tvær aðrar, klassíska súkkulaðiköku og sítrónurjómastykki.  Henni fannst súkkulaðikakan ekkert sérstök en sítrónustykkin fundust henni æðisleg. Þó að ég sé ekki búin að prófa fleiri af uppskriftum Cheryl og Griffith mæli ég hiklaust með bókinni  - ef ekki til að nota við bakstur þá bara til að horfa á og fletta.
Einn annar uppáhaldsbloggarinn minn, smitten kitchen, er líka að gefa út matreiðslubók sem kemur út þann 30. október nk. Ég er ansi hrædd um að ég verði að panta hana líka en ég ætla samt að reyna að sitja á mér... a.m.k. fram að jólum.
 

Wednesday, August 22, 2012

Throne of Glass

Eftir að hafa lesið A Discovery of Witches var ég vel stemmd fyrir fleiri ævintýri. Ég sótti mér því aðra slíka sögu í Kindle, sem heitir Throne of Glass, og hellti mér í lesturinn. 

Throne of Glass kom út núna í sumar. Hún fjallar um hina ungu Celaena Sardothien sem er 18 ára vel þjálfaður leigumorðingi í konungsríkinu Adarlan - sem er í einhverjum allt öðrum heimi en okkar. Þegar sagan byrjar er Celaena fangelsuð. Hún hafði verið gripin ári fyrr við sín vafasöm störf og sett í þrælabúðir. Hún er svo heimsótt af krónprinsinum í Adarlan sem býður henni annað tækifæri - tækifæri á frelsi. Celaena ákveður að grípa það tækifæri en frelsið er ákveðnum skilyrðum háð. Sagan fylgir svo baráttu Celaenu í glerkastalanum í höfuðborginni Rifthold og félagslífi hennar við hirðina. Fljótlega byrjar samband krónprinsins og Celaenu að þróast í átt að einhverju meira en það ætti að vera - en það eru fleiri um hituna. Samkvæmt upplýsingum frá höfundi bókarinnar er söguþráðurinn lauslega byggður á sögunni um Öskubusku. Að hennar sögn kviknaði hugmyndin að sögunni  þegar hún  ímyndaði sér hvað hefði gerst ef Öskubuska hefði farið á ballið til að drepa prinsinn í staðinn fyrir að dansa og verða ástfangin.

Aðalpersónan Celaena fannst mér ekki alltaf nógu sannfærandi. Mér fannst hún full ungæðingsleg og hrokafull miðað við stöðu hennar og fyrri störf, eða ekki nógu þroskuð, og ég lét það stundum fara í taugarnar á mér. Markhópur bókarinnar er reyndar Young Adult og kannski er ég, sem er kominn hátt í þrítugsaldurinn, einfaldlega of gömul fyrir hana. Ég held (og vona) samt að það sé ekki málið. Throne of Glass er reyndar fyrsta skáldsaga Sarah J. Maas og það gæti haft eitthvað að segja. Af endi bókarinnar að dæma er augljóst að Maas ætlar að skrifa bókaseríu um Celaenu. Á heimasíðu Maas fann ég upplýsingar um að hún væri þegar búin að skrifa þrjár fyrstu bækurnar og að hún ætlaði að þetta yrði löng sería. Ég vona því að Maas  eigi eftir að þróa og betrumbæta persónu Celaenu meira. Sagan er fljótlesin og hálfgert léttmeti en hún lofar samt góðu. Ég er a.m.k. forvitin að vita hvernig líf Celaenu þróast. Í bókinni byrjar reyndar klassískur ástarþríhyrningur að myndast. Mér finnast svona ástarþríhyrningar oft hvimleiðir - þeir geta leitt til þess að eilífar vangaveltur um það með hverjum aðalpersónan endar verða aðalatriði sögunnar. Maas tókst að gera ástarþríhyrningin að aukaatriði í þessari fyrstu bók.

Svo að það komi fram þá er Maas búin að gefa út fjórar smásögur, eða Novellur, sem eru bara til í rafbókarformi. Þær sögur gerast áður en Throne of Glass byrjar og segja okkur forsöguna, frá þjálfun Celaenu, fyrstu ástinni og frá því að hún var fangelsuð. Sögurnar eru mjög fljótlesnar og ég er strax búin að lesa fyrstu tvær, The Assassin and the Pirate Lord og The Assassin and the Desert. Þar sem ég er ótrúlega forvitin býst ég fastlega við að lesa líka hinar tvær (The Assassin and the Underworld (sem ég finn því miður ekki á Amazon) og The Assassin and the Empire). Oft finnst mér óþægilegt að byrja á svona bókaseríum - fyrir mig er þetta skuldbindandi. Ég  er svo óforbetranlega forvitin að ég verð að vita hvernig sagan endar og finnst ég þannig bundin við að lesa allar bækurnar. Þetta er ein af ástæðunum fyrir því að ég var mjög treg til að byrja á Game of Thrones á sínum tíma - ég vissi að það stefndi í langt  og erfitt samband. Ég hef það sama á tilfinningunni núna og finnst mjög óþægilegt að vita ekki hversu margar bækurnar um Celaenu verða og hvenær næsta bók kemur út.

Svona bækur eins og Throne of Glass eru mitt guilty pleasure. Eitthvað segir mér að ég eigi að vera lesa eitthvað menningarlegra en ég reyni eftir bestu getu að hunsa það. Það að lesa snýst ekki bara um menntun, fræðslu o.s.frv. - lestur er líka afþreying. Maður má nú stundum gera eitthvað bara af því að það er skemmtilegt.

Viðbót 23.08.2012: Á bloggsíðu Maas fann ég upplýsingar um að næsta bók komi sennilega út haustið 2013. Jafnframt um að hún væri með samning um útgáfu þriggja bóka eins og er en hún hafi alltaf áætlað að bækurnar yrðu sex talsins.

Monday, August 20, 2012

Bláber með rjóma

Ég fór og tíndi nokkuð af bláberjum í gær. Mér finnst gaman að tína og berin góð. Svo er allt morandi í þeim núna. Gæti ekki verið betra. Mér, eins og flestum öðrum, finnst best að borða berin nýtínd og fersk með þeyttum rjóma. Allra best finnst mér að þeyta rjómann með púðursykri. Púðursykurinn finnst mér passa einkar vel með súrunni í berjunum. Fæstir þurfa nú uppskrift að bláberjum og þeyttum rjóma en einmitt þess vegna ætla ég að láta eina slíka fylgja með:

1 peli rjómi
2 msk púðursykur
bláber

Rjóminn er þeyttur með sykrinum. Mér finnst betra að hafa hann léttþeyttan. Bláberjunum er svo blandað saman við rjómann, hvort sem er í eina stóra skál eða hver og einn blandar fyrir sig. (Það er hægt, og raunar mjög gott, að nota frosin ber, þ.e. ef maður hefur tínt þau sjálfur en ekki keypt þau í poka í Bónus). Fínn skammtur fyrir þrjá til fjóra.

Sunday, August 19, 2012

A Discovery of Witches

Ég er mikill sucker fyrir alls konar ævintýrasögum. Í gegnum tíðina hef ég gleypt í mig alls kyns seríur - Harry Potter (eins og annað hvert mannsbarn), Artemis Fowl, Game of Thrones, True Blood bækurnar o.fl. o.fl. Í ljósi þessa áhuga míns sótti ég mér bókina A Discovery of Witches í Kindle í síðustu viku. Bókin er sú fyrsta af þremur um nornina Diana Bishop og hefur fengið góða dóma. (Önnur bókin, Shadow of Night, kom út núna í sumar en sú þriðja er ekki komin út enn). 

Þó að eitthvað sé um klisjur í söguþræðinum er sagan nokkuð frumleg að mínu mati. Eitt aðalþema sögunnar er að rannsaka og skýra tilvist yfirnátturlegra vera eins og norna, vampíra og djöfla (ég er ekki viss um þessa djöflaþýðingu - verurnar eru alltaf kallaðar "daemons" í bókunum en ekki demons) með vísindalegum aðferðum, t.d. DNA-greiningum. Þróunarkenningin spilar einnig stórt hlutverk. Þetta er eitthvað sem ég hef ekki rekist á áður í sambærilegum sögum. Þá er mikið um sagnfræði (sem mér finnst alltaf skemmtilegt) en það ætti kannski ekki að koma á óvart í ljósi þess að Deborah Harkness er sagnfræðingur líkt og aðalpersónan Diana. Annað sem mér finnst frumlegt við söguna er að Harkness hengir sig ekki í allar sögusagnir um yfirnáttúrulegar verur og lifnaðarhætti þeirra. Hún útskýrir þessar sögusagnir með hneigingu mannfólksins til að spinna sögur í kringum það sem það óttast og skilur ekki (mannfólk er álitið heimskt af þónokkrum karakterum í bókinni). Til að ég nefni sem dæmi þá eru vampírurnar í sögunni ekki viðkvæmar fyrir sólarljósi. Þær geta vel gengið um í sólinni en þær reyna að forðast það vegna þess að þá er auðveldara fyrir mannfólkið að taka eftir þeim. Vampírur eru svo fölar á hörund, og auðvitað svo svakalega fagrar, að mannfólkið getur ekki annað en séð að þær eru eitthvað öðruvísi þegar sólin skín beint á þær. Þess vegna hefur sú saga spunnist að vampírum sé ófært að ganga um í dagsljósi. Svo að það komi fram þá glitra vampírurnar í sögunni ekki - sem betur fer.

Það sem mér fannst klisjukennt í sögunni er að Diana verður ástfangin af ævafornri vampíru, Matthew Clairmont, sem er dökkur, hættulegur og svona svakalega fallegur. Það er mjög fyrirsjáanlegt strax frá byrjun hvernig þeirra samband á eftir að þróast. Nú velti ég fyrir mér hversu margar sögur snúast um það nákvæmlega sama - (næstum) mennsk kona verður ástfangin af vampíru sem er alltaf með þessi sömu útlitseinkenni. Allir aðrir óttast eða forðast vampíruna í upphafi sögu en ekki hún... Mér detta a.m.k. í hug True Blood bækurnar, Twilight og The Vampire Diaries og ég er nokkuð viss um að það eru til fleiri sögur sem byggja á þessu sama konsepti. Best að ég taki fram að ég hef enga bók lesið í síðarnefndu seríunum tveim og til að ég gæti allrar sanngirni þá tek ég líka fram að þetta er aðeins öðruvísi í Dracula eftir Bram Stoker. Þar eltist vampíran við konuna þvert gegn vilja hennar. En af hverju er það alltaf karlinn sem er vampíra en konan mennsk (varnarlaus)? Af hverju er þetta aldrei öfugt? Finnst rithöfundunum óhugsandi að skrifa um sambönd þar sem konan er sterkari og hættulegri en karlinn? Kannski eru til einhverjar sögur þar sem þetta er öfugt en ég hef a.m.k. ekki rekist á þær.

Annar galli við bókina að mínu mati er að Harkness segir stundum frá of mörgum smáatriðum. Ég reyndi að láta það ekki fara of mikið í taugarnar á mér. Henni tekst samt að gera bókina spennandi og ég átti erfitt með að slíta mig frá henni -  sem kom illa niður á húsverkunum í síðustu viku vegna þess hve bókin er löng.

Það er margt óútskýrt eftir þessa fyrstu bók. Þó að mikið sé um tákn og vísbendingar um það sem koma skal ætla ég ekki einu sinni að reyna að halda því fram að ég hafi skilið allt og viti nákvæmlega hvað á eftir að gerast. Þetta er ekki einföld saga og ég mæli ekki með henni fyrir þá sem langar að lesa eitthvað án þess að þurfa að hugsa á meðan. Ég ætla a.m.k. að taka mér smá pásu áður en ég byrja á bók nr. tvö.

Saturday, August 18, 2012

Smælki

Þessa dagana er ég með æði fyrir því að hafa smælki með grillmatnum (og öllu öðru) frekar en bakaðar kartöflur eða eitthvað annað kartöflukyns. Nýtt smælki er eitt af því besta sem ég fæ. Þessi nýtilkomna aðdáun mín á smælki er nokkuð einkennileg og óvænt í ljósi þess að ég borðaði varla neinar kartöflur nema franskar þar til ég varð sautján ára. Svona getur maður verið vitlaus.

Mér finnst best að léttsjóða smælkið með smá salti í potti og steikja það svo í stutta stund á pönnu - upp úr smjöri, ferskum kryddjurtum úr garðinum (steinselju, kóríander, graslauk o.s.frv.), almennilegu salti og pipar. Mér finnst smælkið svo gott þegar það er eldað svona að það liggur við að ég gæti borðað það eitt sem aðalrétt (ég fæ vatn í munninn bara við að hugsa um þetta núna).

Ég prófaði í fyrsta skipti nú í sumar að kaupa rauðar kartöflur (og þá á ég auðvitað við rautt smælki) í staðinn fyrir gullauga, premier eða hvað þessar gulu heita nú. Þessar rauðu eru miklu betri og ég trúi varla að ég hafi farið á mis við þær í öll þessi ár. Sælgæti.

Ég veit að þessi pistill er hvorki um bækur né bakstur en ég stóðst ekki mátið. Aðdáun mín á  glænýju smælki er engum takmörkunum háð. 

Monday, August 13, 2012

Súkkulaðikaka með vanillusmjörkremi og ganache

Ein uppáhaldskakan mín til að baka er þessi súkkulaðikaka frá Bakerella. Þetta er ekki alveg venjuleg súkkulaðikaka þar sem hún er ekki með einföldu súkkulaðikremi, heldur er fyrst sett  á hana vanillusmjörkrem og síðan ganache (sem er rjómi og súkkulaði brætt saman) yfir allt saman. Kakan er vægast sagt mjög góð - þó að hún toppi ekki aðaluppáhaldið mitt sem er Red Velvet kaka. Meira um  hana síðar. 

Kökuna sjálfa er mjög auðvelt að baka og lítið um það að segja - uppskriftin gæti varla verið einfaldari. Ég geri þó eina breytingu á henni, þ.e. set heitt kaffi í staðinn fyrir heitt vatn. Ég notaði vatn þegar ég gerði hana fyrst en finnst muna miklu að setja kaffi í staðinn. Það verður ekkert kaffibragð af kökunni en kaffið dregur fram súkkulaðibragðið. Ég nota ekki hrærivél frekar en venjulega en það er mjög auðvelt að hræra deigið saman með sleif eða sleikju. Annað, ég á ekki níu tommu form líkt og Bakerella notar fyrir þessa uppskrift. Formin sem ég nota eru að ég held tíu tommu og þ.a.l. stytti ég bökunartímann og baka kökuna aðeins í rúmt korter. Þó að þið eigið níu tommu form myndi ég fylgjast vel með bökuninni, með því að stinga tannstöngli eða öðru oddmjóu í kökuna. 28-30 mín. er frekar langur tími þó að formið sé minna. Þegar tannstöngullinn kemur hreinn út þá er kakan tilbúin. Ef kakan er bökuð of lengi þá verður hún þurr og þar með ekki jafn góð.
Ég hef átt í vandræðum með ganache-ið á þessari köku. Það er svo lengi að stífna hjá mér.  Ég er búin að reyna ýmislegt í því sambandi. Í fyrsta skiptið þá hellti ég ganache-inu bara yfir kökuna þó að það væri þunnt. Það breytti svo sem engu fyrir bragðið en það fór ganache út um allt í prósessinu. Í annað skiptið sem ég gerði kökuna þá sleppti ég smjörinu í uppskriftinni en það breytti engu. Bragðið var jafn gott sem fyrr en ganache-ið var ekki fljótara að stífna. Ég hef svo prófað að gera ganache-ið fyrst af öllu, áður en ég geri kökuna sjálfa og smjörkremið, en það dugir ekki heldur til - jafnvel þó að ég kæli það í ísskápnum á meðan ég vinn. Ég er farin að halda að bandarískur "heavy cream" sé einfaldlega þykkari en rjóminn okkar og að það sé ástæða þessara vandræða. Ef sú er raunin er a.m.k. ljóst að ég þarf að finna einhverja aðra uppskrift að ganache til að nota með kökunni. Kannski er hægt að auka aðeins súkkulaðimagnið eða minnka rjómann/smjörið. Ég þarf að kynna mér það betur. Samkvæmt hinni góðu heimild Wikipediu er hefðbundið að hafa hlutföllin af súkkulaði/rjóma einn á móti einum þegar nota á ganache í hjúp sem þennan. Eigi að nota ganache-ið til fyllingar hins vegar eru hlutföllin tveir af súkkulaði á móti einum af rjóma - sem sagt mun meira af súkkulaði. Þar er einnig gefin sú ábending að þeyta ganache-ið ef það á nota til að hjúpa köku. Þar sem ég hef ekki enn komist að góðri niðurstöðu um þetta efni, og hafði ekki tíma til frekari rannsókna/tilrauna í þetta sinn, ákvað ég að gera ganache-ið vel tímanlega eða kvöldið áður en ég ætlaði að setja kökuna saman. Ég háði mikla innri baráttu varðandi það hvort ég ætti að geyma ganache-ið í kæli eða ekki yfir nóttina. Það endaði með því að ég ákvað að geyma það undir opnum glugga þar sem ég var hrædd um að það yrði of þykkt ef það yrði í ísskápnum. Röng ákvörðun. Ganache-ið varð aðeins þykkra en áður hjá mér en samt ekki nógu þykkt. 
Það er rosalegt magn af flórsykri í smjörkreminu sem fylgir kökuuppskriftinni - eða heilir sex bollar.  Það eru að ég tel rúmlega 750 g - eða einn og hálfur pakki - og það er of mikið af mínu mati. Ég set ekki meira en einn pakka (stundum minna). Svo eyk ég aðeins við vanilludropamagnið og set tvær tsk. í staðinn fyrir eina - bara af því að mér finnst ekkert passa jafnvel með súkkulaði og vanillubragð og vil ýkja það aðeins. Ég hef svo alltaf sleppt því að setja súkkulaðiflögur í kremið líkt og Bakerella gerir. Það er alveg nóg súkkulaðibragð af kökunni þó að því sé sleppt.


Kakan lítur ekki nærri því jafn vel út hjá mér og hjá Bakerella - það er augljóst að mín er heimabökuð. Í fyrsta lagi verður smjörkremið aldrei jafn hvítt á litinn hjá mér og hjá henni og í öðru lagi þá verður kakan mín ekki jafn slétt og fullkomin í hlutföllum. Ég velti því stundum fyrir mér hvort Bakerella photashoppi myndirnar af kökunum sínum - af því þær eru svo svakalega fullkomnar - en kannski er hún bara svona klár. En útlitið er ekki aðalatriðið. Aðalatriðið er að kakan er góð.
 

Thursday, August 9, 2012

Sherlock Holmes

Áður en ég fór í sumarfrí sótti ég mér rafbókina The Complete Sherlock Holmes í Kindle. Í henni eru sem sagt allar sögurnar sem Sir Arthur Conan Doyle skrifaði um hinn þekkta spæjara Sherlock Holmes - í ekki nema einni rafbók og á spottprís. (Svo að þið vitið þá er líka hægt að kaupa margar sögurnar í rafbók, einar og sér, á því góða verði 0 pund á Amazon). Ég er núna búin með þrjár af sögunum, A Study in Scarlet, The Sign of Four og The Adventures of Sherlock Holmes. Fyrri sögurnar tvær eru fremur stuttar sögur, hvor um eina ráðgátu, en sú síðasta er saman sett úr mörgum mjög stuttum sögum, hver af einni ráðgátu, sem gerast ekkert endilega í réttri tímaröð. Eftir að hafa lokið þriðju sögunni ákvað ég að ég  ætti skilið pásu frá hinum mjög svo klára Holmes og Dr. Watson, sem er ekki bara aðstoðarmaður Holmes heldur einnig hans dyggasti aðdáandi, og lokaði bókinni í bili. Ég er ekkert svo spennt að halda lestrinum áfram en sögurnar eru mjög fljótlesnar og ég klára þær sennilega í einhverju bókahallærinu.

Sögurnar um Holmes eru mjög ólíkar nútíma glæpasögum. Þær eru t.d. ekkert sérstaklega spennandi og maður fær voða lítið að vita um það sem er að gerast fyrr en Holmes er búinn að leysa gátuna. Í upphafi sögu fær lesandinn sömu vitneskju og Holmes en það kemur mjög oft fyrir að Holmes veit eitthvað fyrir sem tengist málinu sem lesandinn fær ekkert að vita um. Hann notar svo þá vitneskju til að leysa gátuna - stundum á frekar ótrúverðugan hátt. Sögurnar sem ég las eru allar sagðar frá sjónarhorni Watson og þrátt fyrir að hann og Holmes séu vinir, og að Watson sé aðstoðarmaður Holmes, fær hann oft ekkert að vita heldur fyrr en í lokin. Aðferðafræði Holmes er samt mjög einföld í grunninn - hún felst í því að hann tekur eftir öllu í kringum sig  (og þá meina ég öllu) og dregur svo mjög augljósar (langsóttar) ályktanir af því sem hann sér. Hann er nánast alvitur (þó að félagsleg færni hans sé reyndar ekki góð) og ekkert fer fram hjá honum - sem er leiðigjarnt til lengdar. Holmes hefur almennt ekki áhuga á konum, sýnir litla tilfinningasemi og hans einu lestir virðist vera þeir að hann reykir pípu og tekur kókaín af og til. Holmes á því lítið sameiginlegt með hinni hefðbundnu þunglyndu söguhetju skandinavískra glæpasagna sem er langt frá því að leysa allar gátur fullkomlega og á yfirleitt við fjölbreytt persónuleg vandamál að stríða. Mest pirrandi við sögurnar finnst mér óbilandi aðdáun Watson á Holmes sem og karlremba Holmes - sem heldur að konur ráði ekki við einföldustu hluti.

Það sem mér finnst skemmtilegast við sögurnar um Holmes er að lesa um aðstæður í London á þessum tíma (ca. 1880 til 1915) og tíðarandann almennt. Sem glæpasögur eða spennasögur eru þær ekkert spes - hinn alvitri Holmes er ekki áhugaverður til lengdar og það er leiðinlegt að geta ekki giskað sjálfur hver "vondi kallinn" er. Vondu kallarnir eru algjört aukatriði í sögunum og maður fær ekkert að vita frá þeirra sjónarhorni eða um þeirra aðstæður fyrr en Holmes hefur leyst gátuna  - og þá oft í mjög löngu máli. Mér fannst reyndar gaman að átta mig á því hversu langt kvikmyndir og þættir sem gerðir eru um Holmes eru frá upprunalega karakternum og söguþræðinum. Niðurstaða mín er því sú að sögurnar séu ágætar í litlum skömmtum og ég mæli með því að fólk lesi a.m.k. eina þeirra til að kynna sér þennan víðfræga karakter.

Annað mál. Ég las Leikarann eftir Sólveigu Pétursdóttur um daginn sem einnig er glæpasaga. Þó að söguþráðurinn sé ekkert sérstakur, stundum of tilviljanakenndur og að ég hafi fengið einstaka kjánahroll, fannst mér sagan sem slík skila sínu. Sólveigu tókst a.m.k. að gera mig spennta og ég lagði bókina varla frá mér fyrr en ég hafði klárað hana. Leikarinn er fyrsta bók Sólveigar og ég held að það verði gaman að fylgjast með því hvað kemur frá henni í framtíðinni.

Wednesday, August 8, 2012

Jane Austen

Jane Austen er ein af mínum uppáhalds rithöfundum. Það eru ekki nema ca. tvö ár síðan ég hafði mig í að byrja lesa Austen. Ég hafði vissulega horft á myndir eftir einhverjum bókum hennar og haft gaman af en hélt alltaf að það væri of erfitt fyrir mig að lesa bækur Austen, einkum í ljósi þess að þær eru skrifaðar 18. aldar ensku (þær eru reyndar líka skrifaðar snemma á 19. öld). Aðeins ein bóka Austen hefur verið þýdd á íslensku eftir því sem ég best veit, þ.e. Pride & Prejudice (eða Hroki og hleypidómar). Ég ætla ekki að segja að mér hafi þótt auðvelt að lesa fyrstu bókina eftir Austen sem ég las (sem var auðvitað Pride & Prejudice) þar sem málið er oft skrýtið og uppskrúfað. Ég hafði það samt af án mikillar fyrirhafnar og það varð svo auðveldara að skilja Austen með hverri bókinni. Ég þurfti bara aðeins að venjast henni. Það hjálpaði einnig mikið að þekkja meginsöguþráðinn fyrir eins og var raunin með mig og Pride & Prejudice (hver þekkir annars ekki þann söguþráð?)

Austen skrifaði því miður aðeins sex skáldsögur en það liggja einnig eftir hana einhverjar smásögur, ljóð, bréf og fleira. Ég hef aðeins lesið skáldsögurnar sex sem eru (í réttri útgáfutímaröð) Sense & Sensibility, Pride & Prejudice, Mansfield Park, Emma, Northanger Abbey og Persuasion. Þó að umgjörðin sé alltaf svipuð, þ.e. ensk sveit á 18. öld (eða í byrjun 19. aldar) með viðkomu í London eða Bath, og að söguefnið sé alltaf það sama, sambönd ungra kvenna við unga menn (og reyndar stundum eldri menn), finnast mér bækur Austen mjög fjölbreyttar. Annað sem mér finnst skemmtilegt við bækur Austen er hversu margir karakterar hennar gætu átt heima í nútíma samfélagi. Ég ætla skrifa aðeins um allar bækurnar hér á eftir - byrja á þeirri verstu að mínu mati og enda á þeirri bestu.

6. Mansfield Park: Mér finnst Mansfield Park vera versta bók Austen af þeirri einföldu ástæðu að aðalpersónurnar tvær, Fanny og Edmund, og eru svo ótrúlega óspennandi og leiðinlegar - virkilega góðar, guðræknar og fullkomnar persónur í alla staði miðað við standarda þessa tíma - og þ.a.l. ekki áhugaverðar. Edmund er reyndar aðeins breyskari en Fanny en þó ekki svo að nokkru varði. Aukapersónurnar og systkinin Henry og Mary Crawford eru miklu skemmtilegri persónur að mínu mati en þau eru líka "vondu kallarnir" í sögunni. Það er ekki oft sem ég upplifi að vera svekkt þegar vondu kallarnir tapa (eins og gerist auðvitað í Mansfield Park) en það gerðist sem sagt þegar ég las bókina og þ.a.l. var fátt sem gladdi mig við lesturinn. Bókin er líka í lengri kantinum en þrátt fyrir það virðist Austen ekki hafa pláss til að skrifa endinn almennilega - sem mér finnst miður. Óbilandi áhugi minn á Austen veldur því þó að ég hef ekki gefið bókina upp á bátinn og mun sennilega gefa henni annað tækifæri.

5. Emma: Emma er eina bók Austen sem ég varð stundum þreytt á og þurfti að leggja frá mér. Aðrar las ég í einum rykk. Emma er aðeins erfiðari en hinar aflestrar að mínu mati - kannski helst vegna þess að það gerist lítið og söguþráðurinn felst að stóru leyti í samræðum persónanna. Aðalpersónan, Emma, er þó mun meira spennandi en Fanny í Mansfield Park. Hún er afskiptasöm, gerir mistök og heldur að hún sé ofboðslega klár sem hún er alls ekki. Pabbi Emmu, sem ég man nú ekki hvað heitir í svipinn, er líka að mörgu leyti skemmtileg persóna og virkar stundum eins og hálfgert comic relief. Margar aðrar skemmtilegar persónur eru í bókinni, Harriet hin kjánalega vinkonu Emmu og hinn heillandi Frank Churchill, en mér fannst söguþráðurinn samt stirður á köflum. Það hjálpar ekki til að sá sem Emma endar með, Mr. Knightley, er ekki alveg nógu spennandi þó að hann sé ágætis kall.

4. Northanger Abbey: Northanger Abbey er sennilega kjánalegasta bók Austen - en hún hefur sennilega ætlað að svo yrði. Ég hafði gaman af bókinni þrátt fyrir öll kjánalegheitin. Catherine, aðalpersóna bókarinnar, er mjög ung og (surprise) hálfgerður kjáni. Hún og "besta" vinkona hennar eru mjög uppteknar af einhverskonar horror-rómönsum sem þær lesa í sífellu og lifa sig inn í - með ekki svo góðum afleiðingum. "Karlhetja" bókarinnar, Henry Tilney, er svo skemmtilega kaldhæðinn og gerir óspart grín af Catherine. Ég er mikil áhugamanneskja um kaldhæðni og þ.a.l. fílaði ég Mr. Tilney í botn. Mér fannst reyndar stundum ótrúverðugt að Mr. Tilney gæti virkilega verið hrifinn af Catherine en þetta virkaði allt saman í lok bókar. Mér finnst Northanger Abbey léttasta bók Austen.

3. Sense & Sensibility: Sense & Sensibility er sennilega næst þekktust af bókum Austen á eftir Pride & Prejudice. Aðalpersónurnar eru Dashwood systurnar Elinor og Marianne. Stjúpbróðir þeirra fer mjög illa með þær fjárhagslega eftir andlát föður þeirra og þær systur eru sennilega þær af aðalpersónum Austen sem búa við hvað verst kjör (fyrir utan Fanny kannski). Systurnar eru áhugaverðar og skemmtilegar persónur að mínu mati. Þær búa við sama vandamál (ástarsorg) en leysa það á mjög ólíkan hátt - enda eru þær mjög ólíkar að eðlisfari. Helsti galli bókarinnar að mínu mati er hvað "karlhetjurnar" eru óspennandi. Það er aðallega þess vegna sem bókin nær bara 3. sæti hjá mér. Mest fer í taugarnar á mér að Edward berjist ekki meira fyrir Elinor og láti Lucy Steele kúga sig - hann gerir ekkert af viti fyrr en Lucy er alveg búin að sleppa af honum hendinni. Austen hefur sennilega þótt það sýna hvað hann væri mikill heiðursmaður en mér finnst það sem sagt slappt. Góður söguþráður engu að síður og mikið um skemmtilegan misskilning.

2. Persuasion: Ég veit ekki hvað það er við Persuasion sem veldur því að mér finnist hún  eiga 2. sætið skilið. Karakterarnir eru svo sem ekkert betri en í öðrum bókum Austen en það er eitthvað við söguþráðinn sem höfðar til mín. Bókin er full af trega og eftirsjá aðalpersónunnar Anne Elliot sem sleit trúlofun sinni við hinn myndarlega Frederick Wentworth vegna fortalna frá föður sínum, systur og vinkonu. Þó að Anne sé engin Elizabeth Bennet verð ég alltaf svo spennt fyrir hennar hönd og vona innilega að hún nái aftur saman við Frederick (sem er auðvitað það sem gerist). Systur Anne og faðir eru mjög kjánalegar persónur, hégómlegar, eigingjarnar og jafnvel hálf illkvittnar á köflum. Alltaf gaman að lesa um, pirra sig á og hlægja af slíkum bjánum. Það fór stundum í taugarnar á mér hvað Anne er mikil push-over en ég erfi það ekki við hana - hún bætir sig þegar líður á bókina. Ein ástæðan fyrir því að ég kann svo vel við bókina gæti verið sú að hún kom mér á óvart þegar ég las hana fyrst enda vissi ég lítið um hana fyrir. Bókin er líka sú af bókum Austen sem hún skrifaði síðast (og var raunar gefin út að henni látinni) og kannski hefur það eitthvað að segja.

1. Pride & Prejudice: Það kemur kannski ekki á óvart að Pride & Prejudice vermi 1. sætið. P&P er þekktasta og jafnframt vinsælasta bók Austen og það er ekki að ástæðulausu - hún er einfaldlega best. Mér finnst allt skemmtilegt við þessa bók. Elizabeth Bennet er óumdeilanlega aðalpersóna eins og þær gerast bestar. Hún er hnyttin, kaldhæðin og fær um einstaklega skemmtileg tilsvör - en alls ekki fullkomin (sem gerir hana auðvitað fullkomna sem persónu). Svo er sennilega óþarft að nefna hvað Mr. Darcy er frábær jafnvel þó að hann sé hrokafullur, snobbaður og algjör leiðindagaur á köflum. Ég verð að játa að ég verð alltaf spennt þegar ég bíð eftir því að þau nái saman í lokin. Margar aukapersónur í bókinni eru einnig mjög skemmtilegar (og sumar skemmtilega kjánalegar) og er þá einkum hægt að nefna Mr. Bennet, Lydiu og Mary Bennet, Bingley systurnar, Mr. Collins, Lady Catherine de Bourgh o.fl. Bókin er full af gullkornum og húmor og er á topp fimm listanum yfir mínar uppáhalds bækur.

Aðdáun mín á bókum Austen leiddi svo til þess að ég fór að lesa aðrar bækur frá svipuðum tíma. Ég las eitthvað eftir
Brontë systur, Jane Eyre og Wuthering Hights, en var ekki svo hrifin af þeim (ég reyndi líka við Villette en gafst upp á henni). Það er eitthvað horror stef í bókunum þeirra sem ég fíla ekki. Ég las svo eitthvað af bókum Elizabeth Gaskell, þ.e. Cranford, North & South og Wives & Daugthers. Ég kunni ágætlega við bækur Gaskell en mér fannst Cranford sennilega best af þeim. Þó að það gerist ekki mikið í þeirri bók var eitthvað við hana sem varð til þess að ég tætti hana í mig.  Ég skrifa kannski meira um Gaskell síðar.

Margir rithöfundar hafa reynt að skrifa framhald af bókum Austen. Ég er frekar skeptísk á slíkar framhaldsögur (er þetta ekki bara hálfgert fanfiction?) en lét mig hafa það að lesa eina, Death Comes to Pemberley eftir P.D. James, sem á að vera framhald af P&P. Ég hafði einhvers staðar heyrt að P.D. James skrifaði góða krimma og ákvað því að lesa þessa bók. Ég sé eftir því núna, söguþráðurinn var slappur og James dettur mjög oft í þá gryfju að endursegja söguþráðinn í P&P. Eftir þessa reynslu er ég því enn neikvæðari en áður gagnvart svona "framhaldssögum". Ég gef slíkum sögum kannski annað tækifæri síðar. 

Lokaniðurstaða þessa pistils er sem sagt sú að ég mæli með bókum Jane Austen (eins og mátti kannski einnig skilja af upphafsorðum hans).


Tuesday, August 7, 2012

Súkkulaðisnúðar

Í gær bakaði ég súkkulaðisnúða (mmm). Ég hafði þessa uppskrift frá smitten kitchen til hliðsjónar. Þetta er frekar einföld og þægileg uppskrift. Uppskriftirnar á smitten kitchen eru svo þægilegri en á mörgum öðrum bandarískum bloggsíðum að því leyti að sú sem skrifar bloggið setur líka inn mælieiningar úr metrakerfinu en ekki bara þessar skrýtnu bandarísku. Ég bý reyndar ekki svo vel að eiga eldhúsvog, eins hræðilegt og það nú er, þannig að ég er búin að venja mig á að nota nánast eingöngu bandarísk bollamál þegar ég baka.
Ég bætti aðeins við gerskammtinn í upprunalegu uppskriftinni í samræmi við viðbótarleiðbeiningar smitten kitchen frá 1. ágúst sl. og setti heilar 2 tsk. Það kom vel út. Þar sem ég á ekki hitamæli þá mældi ég ekki nákvæmlega hitastigið á mjólkinni en ég reyndi að miða við að hún væri handvolg. Ég hélt að ég hefði eyðilagt deigið með því að setja gerið í mjólkina of heita, aðallega vegna þess að mér fannst deigið ekkert hefast, en það var ekki raunin. Þó að deigið tvöfaldaðist ekki að stærð, eins og smitten talar um í uppskriftinni, þá var það mjög mjúkt og meðfærilegt og ég náði auðveldlega að fletja það. Það dugði svo í átján snúða en ekki bara tólf eins og uppskriftin gerir ráð fyrir. Mínir snúðar voru þó sennilega aðeins minni en þeir hjá smitten en ég held að það sé bara jákvætt í ljósi mikils súkkulaðimagns þeirra. Það er smá tækjaskortur í eldhúsinu hjá mér, því ég á heldur ekki hrærivél, og því notaði ég aðallega hendurnar til að hnoða deigið. Það gekk vel þó að deigið yrði mjög klístrað eftir að ég bætti smjörinu við síðast.
Þar sem ég á ekki mixer (tækjaskorturinn er sem sagt mjög alvarlegur) notaði ég blandarann minn til að koma fyllingunni saman. Það er í vafasamari kantinum en ég reyndi að saxa súkkulaðið vel áður en ég skellti blandaranum af stað. Svo er sennilega hægt að sleppa öllu tækjavafstri og smyrja einfaldlega útflatt deigið með smjöri og strá söxuðu súkkulaðinu yfir - ég efast a.m.k. um að það sé verra. Ef ég geri þessa snúða aftur þá myndi ég breyta fyllingunni aðeins, setja meira smjör og minnka sykurinn (jafnvel sleppa honum alveg). Ég held að fyllingin væri enn betri og að hún myndi molna minna ef smjörskammturinn væri aukinn aðeins. Snúðarnir myndu líka tolla betur saman. Ég bakaði snúðana bara í korter sem var mjög passlegt. Þeir voru mjög góðir nýbakaðir, volgir með ískaldri mjólk, en þeir voru líka góðir daginn eftir - hvorki þurrir né of harðir þó að þeir væru auðvitað betri volgir úr ofninum.
Mig langar mikið að prófa að nota gerbakstursuppskriftina hennar ömmu og gera snúða með sambærilegri súkkulaðifyllingu. Sú uppskrift er aðeins meira vesen, og aðeins stærri, en hún er virkilega góð og það er hægt að nota hana í allt - snúða, skinkuhorn og bollur - ef maður breytir bara sykurmagninu aðeins. Grunnuppskriftin er svona:

100 - 150 g smjör
1/2 l mjólk eða vatn (ég hef stundum notað undanrennu - með góðum árangri)
850 g hveiti
1/2 tsk salt
1 1/2 dl sykur (má minnka)
50 g ger (einn pakki)

1) Hitið smjörið og mjólkina/vatnið saman í potti þar til smjörið er bráðnað. Það þarf að passa vel að blandan verði ekki of heit - hún á að vera handvolg.

2) Á meðan smjörið er að bráðna, blandið þurrefnunum (líka gerinu) saman í stórri skál. Hellið svo mjólkurblöndunni saman við þurrefnin og hnoðið deigið saman. Ég hnoða deigið alltaf í höndum.

3) Látið deigið hefast í skálinni, undir viskustykki, í ca. 45 mín. Eftir það er best að hnoða deigið aðeins á borðplötunni, þangað til það verður meðfærilegt, og bæta við hveiti eftir þörfum ef það er mjög klístrað.

4) Fletjið deigið út eftir því hvað er gert úr því og setjið fyllinguna á sinn stað (nú eða mótið deigið í kúlur). Raðið á bökunarplötur með hæfilegu millibili og leyfið að hefast aftur í 60-70 mín. Stillið ofninn á 180°C.

5) Bakið snúðana/bollurnar/hornin í miðjum ofni þar til þau verða gullinbrún. Hægt er að pensla snúðana/bollurnar/hornin með mjólk/eggi (eða bæði saman) og þá glansa þau aðeins og verða fallegri.