Ég var að ljúka við Áttablaðarósina eftir Óttar M. Norðfjörð. Bókin kom út fyrir jólin 2010 en ég var fyrst að rekast á hana núna. Það er reyndar eins og Óttar hafi farið fram hjá mér hingað til, því ég hef aðeins lesið eina aðra bók eftir hann - Lygarann sem kom út fyrir jólin í fyrra.
Sagan er að mínu mati nokkuð klassísk glæpasaga og alveg ágæt sem slík. Sögusviðið er Reykjavík stuttu eftir hrun. Þó að hrunið komi eitthvað við sögu þá er það ekki aðalatriði söguþráðarins eins og í svo mörgum öðrum glæpasögum e. hr. Spilling í íslenskum viðskiptum er þó áberandi. Gamlir og löngu gleymdir atburðir koma einnig við sögu sem mér finnst alltaf skemmtilegt.
Sagan er sögð frá sjónarhorni nokkurra persóna en þó oftast frá sjónarhorni þeirra Gabríels, Áróru og Egils. Gabríel er nemandi í MR, Áróra er fjölmiðlafræðingur með lögfræðilegan bakgrunn og Egill er einn ríkasti maður Íslands. Nokkuð óljóst er í fyrstu hvað tengir þessar persónur saman en tengingin kemur smátt og smátt í ljós. Ef ég ætti að finna eitthvað að sögunni þá væri það helst að mér fannst hún oft frekar óraunveruleg og jafnvel ótrúverðug á köflum (það sama fannst mér reyndar um Lygarann). Það gæti þó talist kostur - þetta er jú skáldsaga. Kannski er ég orðin of samdauna þessari hefðbundnu raunsæju norrænu glæpasögu... Það virðist a.m.k. vera kominn tími til að kíkja aðeins út úr kassanum og vera opin fyrir einhverju nýju.
Bókmenntafræðingar geta mögulega fundið eitthvað að stílnum, persónusköpun og fleiru (klisjum?) en Áttablaðarósin er í það minnsta mjög spennandi. Þrátt fyrir að sagan sé 450 bls. (og að ég hafi almennt nóg að gera) þá gleypti ég hana í mig á rétt rúmum tveimur dögum. Ætli það séu ekki bestu meðmæli sögunnar?
No comments:
Post a Comment