Saturday, October 27, 2012

Súkkulaðivöfflur

Í dag átti ég von á gestum í kaffitímanum en hafði takmarkaðan tíma (sökum leti í morgun) til að undirbúa eitthvað gott. Ég greip til þess ráðs að gera súkkulaðivöfflur. Það er afar fljótlegt að búa súkkulaðivöfflurnar til þar sem þær eru gerðar úr súkkulaðikökudeigi frá Betty Crocker. Þetta er hugmynd sem ég fékk frá síðunni Hugmyndir fyrir heimilið fyrir einhverju síðan en hef bara notað einu sinni áður - sem er skrýtið í ljósi þess hversu einfalt og þægilegt þetta er. Í dag bar ég vöfflurnar fram með þeyttum rjóma og hindberjasósu.

Súkkulaðivöfflur með rjóma og hindberjasósu
1 kassi Chocolate Fudge Cake Mix frá Betty Crocker + það sem á að blanda saman við duftið samkvæmt leiðbeiningum á kassanum (ef ég man rétt eru það 3 egg, 70 ml grænmetisolía og 250 ml vatn)
1 (lítill) poki frosin hindber
1 slurkur af hunangi/sírópi
1 peli rjómi
1) Hitið vöfflujárnið. Hrærið deigið saman eftir leiðbeiningunum á kassanum. Bakið vöfflurnar.

2) Setjið hindberin í pott ásamt slurk af hunangi/sírópi (ég notaði hunang í dag en bara af því að ég átti ekki síróp) og hitið á meðan vöfflurnar bakast. Hrærið og fylgist með. Lækkið hitann þegar suðan kemur upp. Sjóðið við lágan hita í ca. 5 mín.

3) Þeytið rjómann.

4) Borðið og njótið.

Wednesday, October 24, 2012

Elizabeth Gaskell

Í pistlinum sem ég skrifaði um Jane Austen í ágúst sl. minntist ég aðeins á rithöfundinn Elizabeth Gaskell. Elizabeth var uppi á svipuðum tíma og Austen (reyndar aðeins seinna, eða frá 1810 til 1865) og skrifaði skáldsögur sem að sumu leyti svipa til sagna Austen. Höfundarnir tveir eru oft bornir saman.

Það sem sögur Gaskell og Austen eiga sameiginlegt er að þær fjalla fyrst og fremst um konur og þeirra líf. Báðir höfundar sköpuðu mjög kraftmikla kvenkaraktera. Ég myndi þó ekki segja að stíll þeirra sé mjög líkur. Gaskell er þekkt fyrir að skrifa samfélagsádeilur og eru fátækt og aðstæður fólks, sem minna mega sín, oft áberandi í sögum hennar. Sögur Austen hins vegar eru yfirleitt í léttari tón. Ég vil taka fram að ég er alls ekki að segja að það séu engar ádeilur í bókum Austen og að sögur hennar séu með einhverju móti léttvægar. Austen var t.d. að mörgu leyti á undan sinni samtíð hvað kvenréttindi varðar, sbr. umfjöllun hennar um erfðarétt í P&P sem og óbein gagnrýni hennar á hvað konur á hennar tíma voru hjálparlausar án eiginmanns. Þá má nefna að ein bók Austen, Northanger Abbey, er augljóslega satíra um hinar svokölluðu gotnesku skáldsögur sem voru mjög vinsælar á tíma Austen (en eru það ekki lengur af einhverjum ástæðum..) Svo að það komi fram, þá kemst Gaskell ekki með tærnar þar sem Austen var með hælana hvað húmor varðar.

Gaskell skrifaði sex skáldsögur í fullri lengd líkt og Austen. Þær eru eftirfarandi, í útgáfuröð:
  1. Mary Barton.
  2. Cranford.
  3. Ruth.
  4. North and South.
  5. Sylvia's Lovers.
  6. Wives and Daughters.
Ég hef lesið þrjár þekktustu bækur Gaskell, þ.e. Cranford, North and South og Wives and Daughters. Af þeim þremur fannst mér Cranford best. Cranford er ekki hefðbundin skáldsaga hvað formið varðar (og þykir raunar nokkuð ólík hinum sögum Gaskell hvað varðar stíl einnig) þar sem hún samanstendur af nokkrum stuttum sögum eða þáttum. Þessir sögur gerast allar í sama bænum og sömu aðalpersónur eru þungamiðjan í þeim öllum. Annað óvenjulegt við bókina er að hún er sögð frá sjónarhorni sögumanns sem er ekki ein aðalpersónanna. Raunar fær maður ekki að vita hver sögumaðurinn er fyrr en nokkuð er liðið á bókina. Þrátt fyrir að hafa lesið bókina, og líkað hún vel, á ég fremur erfitt með að segja frá söguþræði hennar. Það eina sem ég get sagt er að sagan fjallar um nokkrar konur, enda fáir menn búsettir í Cranford, og þeirra hversdagslíf. Ég myndi ekki segja að bókin væri spennandi en það er eitthvað mjög ánægjulegt við að lesa hana.

North and South er mun átakameiri en Cranford. Hún fjallar um hina kraftmiklu og siðprúðu Margaret Hale sem, vegna fjölskylduaðstæðna, neyðist til að flytja frá heimili sínu, í sveitinni í Suður-Englandi, til alvöru iðnaðarbæjar í Norður-Englandi. Þar þarf Margaret að takast á við lífið með öðrum hætti en í suðrinu - líf sem er ekki alveg jafn einfalt og hún hélt. Margaret kynnist bæði verkamönnum í verksmiðjunum í bænum sem og eigendum verksmiðjanna, þ.á.m. hinum groddalega en samt svo elskulega John Thornton. Fátækt, barátta verkamanna og stéttaskipting er mjög áberandi í sögunni þó að meginumfjöllunarefnið séu ástir og líf Margaret. Ég verð að segja að mér fannst sérstaklega skemmtilegt að lesa um hvað hinir ensku eru fordómafullir og líta niður á alla þá sem starfa við iðnað (e. those in trade) jafnvel þó að viðkomandi sé moldríkur verksmiðjueigandi. Stéttaskipting, eins fáránleg og hún er, er áhugavert umfjöllunarefni. Það sem truflaði mig við söguna er mikil trúarleg umfjöllun. Ég nenni almennt ekki að lesa um slíkt. Að lokum, mjög margar persónur í sögunni deyja.

Wives and Daughters þykir almennt besta bók Gaskell - meistaraverkið hennar jafnvel. Sagan fjallar um líf Molly Gibson, með mikilli áherslu á  sambönd hennar við aðra; föður sinn, vini, mögulegt eiginmannsefni, stjúpmóður og stjúpsystur. Líf Molly var nánast fullkomið þar til faðir hennar giftist konu (sem hann gerir nb. bara til þess að Molly fái almennilegt uppeldi) sem er ekki jafn frábær og flestir halda við fyrstu sýn. Molly er voða góð stúlka en það sem gerir hana áhugaverða er hvernig hún tekur á vandamálum og leysir, bæði sín og annarra. Sagan er ágæt, reyndar frekar löng, en helsti galli hennar er að hún er ókláruð. Gaskell dó áður en skriftum lauk. Ég vissi það ekki fyrr en í sögulok og verð að segja að ég varð frekar vonsvikin. Það liggur þó fyrir hvernig Gaskell ætlaði sögunni að enda og upplýsingar um það koma fram í lok bókar.

Fleiri bækur eftir Gaskell hef ég ekki lesið en ég vonast til að hafa færi á að lesa fleiri fljótlega. Ég hugsa að ég myndi þá lesa þær í útgáfuröð; Mary Barton fyrst, svo Ruth og loks Sylvia's Lovers. Ég las hinar þrjár í öfugri útgáfuröð og sé eftir því núna. Það er áhugavert að fylgjast með því hvernig rithöfundar þróa og betrumbæta stíl sinn eftir því sem líður á.

Ég vil að lokum geta þess að BBC hefur gert þætti eftir bókum Gaskell, a.m.k. Cranford, North and South og Wives and Daughters. Ég hef horft á tvær síðarnefndu þáttaseríurnar og fannst þær mjög góðar - báðar betri en bækurnar að ákveðnu leyti. Í North and South sleppur maður að mestu við helgislepjuna og maður fær almennilegan endi á Wives and Daughters.

Friday, October 19, 2012

Súkkulaðihjúpur

Um daginn bakaði systir mín þessar fallegu bollakökur hér til vinstri (í tilefni af afmæli Símons líkt og skúffukökubaksturinn). Ég varð að koma þeim á framfæri því mér finnst mjög sniðug hugmynd að hjúpa krem á bollakökum með bráðnu súkkulaði - smá auka "twist" sem gefur kökunum bæði meira bragð og fallegt útlit.

Ég velti samt fyrir mér hvort sum krem, t.d. smjörkrem, séu of viðkvæm fyrir hita til að þola svona hjúpun. Veit það einhver? Ég fann því miður ekkert um það þrátt fyrir nokkuð umfangsmikla leit á Google.

Kremið á kökunum hér til vinstri er svokallaður "ítalskur marengs" (sem er svipaður því sem er inni í kókosbollum - þeyttar eggjahvítur og sykur). Kremið er ýmist hjúpað með súkkulaði eða brennt með gasbrennara.

The Hand That First Held Mine

Ég var að ljúka við The Hand That First Held Mine eftir Maggie O´Farrell. Fyrir nokkrum árum síðan keypti ég af rælni bók eftir O´Farrell sem heitir The Vanishing Act of Esme Lennox, án þess að vita nokkuð um hana, og fannst hún svo góð að ég ákvað að lesa aðra bók eftir hana. Ég lét verða af því fyrst núna  því miður) og sé ekki eftir því. 

Mér fannst The Hand That First Held Mine vera mjög góð. Sagan er eiginlega tvær sögur sem þó tengjast í lok bókar. Önnur sagan gerist í London um árið 1950 en hin í nútímanum. Mér fannst fyrrnefnda sagan sérstaklega skemmtileg - bæði vegna þess að ég er með blæti fyrir sögulegum skáldskap (tala nú ekki um þegar söguþráðurinn tengist listasögu eins og í þessu tilviki) og vegna þess að aðalpersónur sögunnar, Lexie og Innes, voru frábærar. Þau eru svona persónur sem maður vildi óska að maður þekkti og gæti  boðið í partý. Þau voru samt eiginlega of frábær og þess vegna byrjaði mig strax að gruna að eitthvað slæmt myndi koma fyrir þau. Sem því miður gerðist. Hin sagan í sögunni virðist í fyrstu einkum fjalla um hvernig það er að vera nýbakað foreldri  - og jafnvel hvernig konur og karlmenn taka því á mismunandi hátt - en það kemur í ljós þegar líður á að sagan er ekki alveg svo einföld. Lengi vel var ég miklu spenntari yfir því sem var að gerast í fyrri sögunni en eftir því sem nær dró endinum þá varð ég líka spennt fyrir málalokum í hinni seinni.

Það er ekkert mjög erfitt að átta sig á því hvernig sögurnar tvær tengjast - en það fór ekki í taugarnar á mér hversu augljóst það var. Ýmis smáatriði komu mér á óvart og svo var tengingin mjög vel gerð. Sérstaklega í lok bókar, þegar ég hélt að allt væri vonlaust, tókst O´Farrell að koma mér á óvart með ákveðnu smáatriði (þegar ég pæli í því eftir á þá held ég að maður hefði getað áttað sig á því fyrr ) og bjarga þannig endinum. Vel undirbúið og vel gert.

Mér finnst O´Farrell skrifa mjög fallegan texta - oft angurværan og jafnvel sorgmæddan. Ekki beint ljóðrænan en mjög myndrænan. O´Farrell vekur upp með mér mjög blendnar tilfinningar. Ég smitast af undirtóninum í textanum og verð hálf leið en samt svo innilega glöð yfir því að vera lesa eitthvað svona fallegt og vel gert. Ég man að mér leið eins þegar ég las hina bókina eftir hana og mér líður oft svipað þegar ég les bækur eftir Jón Kalman Stefánsson. Fallegt.

Ég vona að ég hafi ekki hrakið ykkur frá bókinni með þessum pistli því mér fannst hún virkilega góð. 

Thursday, October 18, 2012

Skúffukökukrem

Um daginn bakaði ég í allra fyrsta skipti skúffuköku - ótrúlegt en satt. Tilefnið var ærið. Símon átti afmæli og það eina sem hann langaði til að ég bakaði var skúffukaka - ekki svo erfitt að hafa fyrir honum.

Kakan sem ég bakaði er í bókinni eftir Joy The Baker og heitir Texas Sheet Cake. Sú kaka virðist vera bandarískur jafningi hefðbundinnar íslenskrar skúffuköku. Það er hægt að finna margar uppskriftir af Texas Sheet Cake á netinu, t.d. hér og hér, og eru flestar uppskriftir svipaðar hvað varðar innihaldsefni og bökunaraðferð (tip: ég myndi skipta út vatni fyrir heitt kaffi, það dregur fram súkkulaðibragðið).

Í dag ætla ég ekki að skrifa um kökuna sjálfa heldur kremið. Kremið með kökunni er mjög gott og er nú mitt uppáhalds skúffukökukrem. Það er mikill heiður því sérstakt skúffukökukrem, sem amma einnar bestu vinkonu minnar gerir, hefur átt þetta pláss frá því að ég var barn (það krem er samt eiginlega tvö krem, því hún setur fyrst myntukrem ofan á kökuna og svo súkkulaðikrem - mjög gott saman). Uppskriftin að nýja uppáhalds skúffukökukreminu mínu, með nokkrum breytingum frá mér, er hér eftirfarandi.

Súkkulaði- og pecanhnetukrem fyrir skúffuköku
115 g ósaltað smjör
4 ríflegar msk kakóduft
5 msk rjómi
300-400 g flórsykur
100 g gróft saxaðar pecanhnetur

1) Bræðið saman smjör, kakóduft og rjóma í meðalstórum potti. Ekki hafa of háan hita. (Það er  best að byrja á þessu á meðan kakan er að bakast því það á að hella kreminu heitu á hana).

2) Þegar smjörið er  bráðnað og blandan er án kekkja, takið pottinn af hitanum og sigtið flórsykurinn út í kremið. Hrærið sykurinn svo saman við.
3) Setjið pecanhneturnar síðast út í blönduna og hrærið varlega saman. Hellið kreminu svo yfir kökuna heita og leyfið henni að kólna í ca. klukkutíma.
Helsti gallinn við þetta krem er sá að það er frekar subbulegt að eiga við það á meðan það og kakan er heit. Þess vegna borgar sig að bíða a.m.k. í klukkutíma með að skera kökuna eftir að kremið hefur verið sett á.

Saturday, October 6, 2012

Fifty Shades of Grey

Ég hef verið mjög hugsi yfir því hvort ég ætti að skrifa pistil um Fifty Shades of Grey eða ekki. Ég veit að það er varla þörf á því, nóg er nú búið að skrifa um bókina (ég mæli sérstaklega með þessari umsögn). Ég ætla þess vegna að hafa þennan pistil stuttan. Yfirleitt eru umsagnir um Fifty Shades of Grey annað hvort mjög jákvæðar eða mjög neikvæðar. Með hliðsjón af því hvernig bókin er þá held ég að það sé ekkert mitt á milli. Svo að þið vitið, þá er þessi pistill einn af þessum neikvæðu.

Það er nokkuð síðan ég las bókina. Þegar ég byrjaði þá vissi ég lítið um hana, annað en að hún var búin að vera sú vinsælasta á Amazon.com í lengri tíma. Þegar leið á lesturinn varð ég alltaf meira og meira hissa. Í stuttu máli þá fannst mér bókin mjög illa skrifuð. Bókin er reyndar það illa skrifuð að stundum fer hún allan hringinn og dramatíkin sem á að vera svo svakaleg verður óstjórnanlega fyndin. Svo fyndin að ég skellihló stundum. Það er, að ég tel, ekki það sem E.L. James ætlaði sér með skrifunum. Ég hugsa að það sé hin besta skemmtun að lesa bókina upphátt í góðra vina hópi. Það er ómögulegt að segja sumt sem fram kemur í bókinni upphátt án þess að skellihlægja, svo asnalegur er söguþráðurinn og orðanotkunin. Nokkur dæmi (og þá meina ég örlítið brotabrot): 
“Does this mean you’re going to make love to me tonight, Christian?” Holy shit. Did I just say that? His mouth drops open slightly, but he recovers quickly.
“No, Anastasia it doesn’t. Firstly, I don’t make love. I fuck… hard. Secondly, there’s a lot more paperwork to do, and thirdly, you don’t yet know what you’re in for. You could still run for the hills. Come, I want to show you my playroom.”
My mouth drops open. Fuck hard! Holy shit, that sounds so… hot. But why are we looking at a playroom? I am mystified.  - E.L. James, Fifty Shades of Grey.
“He's naked except for those soft ripped jeans, top button casually undone. Jeez, he looks so freaking hot. My subconscious is frantically fanning herself, and my inner goddess is swaying and writhing to some primal carnal rhythm.” - E.L. James, Fifty Shades of Grey.
“Oh Ana!" he cries out loudly as he finds his release, holding me in place as he pours himself into me. He collapses, panting hard beside me, and he pulls me on top of him and buries his face in my hair, hold me close. "Oh baby," he breathes. "Welcome to my world.” - E.L. James, Fifty Shades of Grey.
En já, til að það komi fram þá fannst mér bæði söguþráðurinn slappur og aðalpersónurnar ótrúverðugar. Hin varnarlausa og saklausa en samt svo klára Anastasia Steele er fáránleg og hinn fullkomni en samt svo gallaði milljarðamæringur Christan Grey er óþolandi. Báðar persónur eru mjög klisjukenndar staðalímyndir. Þetta eru svona persónur sem maður myndi sparka í og öskra: "Hvað er  að þér? Hunskastu nú til að gera eitthvað að viti!" ef maður væri svo heppinn/óheppinn að hitta þær í raunveruleikanum.

Eins og flestir vita þá er ansi mikið um kynlífslýsingar í bókinni, og þá aðallega lýsingar á BDSM kynlífi, og kannski er það ástæðan fyrir öllum vinsældunum. Ég skal ekki segja. Ég veit ekki mikið um BDSM kynlíf og á því erfitt með að meta hversu raunsæjar lýsingarnar í bókinni eru en oft á tímum fundust mér lýsingarnar kjánalegar. Verst finnst mér að Anastasia virðist ekki vilja beygja sig undir vald Christian (í BDSM kynlífinu þ.e.) en hún lætur samt tilleiðast vegna þess að hún er svo svakalega hrifin, ef ekki ástfangin, af honum strax í upphafi sambandsins. Óþolandi. Fáránlegt. Ég gæti komið með mörg fleiri dæmi um það hvað er rangt við samband Anastasia og Christian en ég hef hvorki tíma né nennu til að telja þau öll upp.
 
Þrátt fyrir ofangreint þá mæli ég með að fólk lesi, eða a.m.k. gluggi í, Fifty Shades of Grey (og það helst án þess að kaupa bókina því hún er svo sannarlega ekkert hillustáss). Mér finnst brýnt að sem flestir kynni sér bókina og velti í framhaldinu upp spurningunni: Af hverju er þetta vinsælasta bókin í dag? Og: Finnst okkur eðlilegt að ungt fólk lesi bækur sem þessar? Bíddu, hvað er aftur þetta með virðingu og jafnrétti? Ég vil taka fram að það er ekki vegna kynlífslýsinganna sem slíkra sem ég velti þessum spurningum upp, heldur vegna staðalímyndanna og hugmyndanna í bókinni um hlutverk karla og kvenna.

Það hlýtur að vera hægt að skrifa erótíska sögu þar sem báðar sögupersónur samþykkja og eru ánægðar með kynlífið sem um er fjallað. Af hverju er það ekki gert?

"Chick lit"

Ég les stundum svokallaðar "chick lit" bækur - sérstaklega ef mig langar að lesa eitthvað létt og þægilegt. Ef að þið kannist ekki við fyrirbærið þá eru það bækur sem eru sérstaklega skrifaðar fyrir konur, yfirleitt í léttum dúr og mjög oft um rómantík (samt ekki á sama hátt og bækurnar í rauðu seríunni) en ekki endilega. Sem dæmi um þekktar chick lit bækur mætti nefna Bridget Jones's Diary, Confessions of a Shopaholic og The Devil Wears Prada. 

Margir eru fordómafullir gagnvart chick lit bókum en ég sé enga ástæðu til að vera það. Það sama gildir um chick lit og önnur skálsagnaform - sumar chick lit bækur eru góðar en aðrar ekki. Hvort það eru til fleiri slæmar chick lit bækur en t.d. slæmar glæpasögur er erfitt að segja til um. Reyndar, ef chick lit sögur eru slæmar þá eru þær mjög fljótar að verða yfirþyrmandi kjánalegar og óþolandi og kannski er það þess vegna sem chick lit er yfirleitt nefnt í sama mund og eitthvað neikvætt. Bókakápurnar gætu líka spilað inn í þetta, þær eru oft asnalegar, of stelpulegar/væmnar/óþolandi bleikar, og fólk gæti stimplað bækurnar drasl vegna þeirra.

Í þessum pistli ætla ég að fjalla aðeins um uppáhalds chick lit rithöfundinn minn, Emily Giffin. Giffin er búin að skrifa sex bækur en þekktust þeirra er sennilega Something Borrowed sem búið er að gera kvikmynd eftir. Bækur Giffin fjalla ekki bara um rómantík (þó að hún spili yfirleitt stóran þátt). Þær fjalla yfirleitt um eitthvað annað líka, eitthvað þema eða vandamál, t.d. vináttu, barneignir  foreldrahlutverkið o.s.frv. Aðalsögupersónur Giffin eru heldur ekki heilalaus bimbó sem hugsa bara um að finna "hinn rétta" og gifta sig. Aðalkosturinn við bækur Giffin er að mínu mati að henni tekst  að skrifa texta sem er léttur, þægilegur en samt spennandi. Bækurnar eru auðveldar aflestrar og maður þarf ekki að hugsa of mikið en eru samt ekki þannig að þær misbjóði vitsmunalegri getu manns. Auka plús við bækur Giffin er að sögusvið þeirra er mjög oft New York sem ég get ekki lesið nóg um (og get heldur ekki beðið eftir að heimsækja aftur).

Bækur Giffin eru eftirfarandi í útgáfuröð:
  1. Something Borrowed.
  2. Something Blue.
  3. Baby Proof.
  4. Love the One You're With.
  5. Heart of the Matter.
  6. Where We Belong.
Mér finnst fyrsta og frægasta bók Giffin, Something Borrowed, vera best (það er yfirleitt ástæða fyrir frægðinni). Síst finnst mér Heart of the Matter en hinna get ég ekki gert upp á milli. Sennilega finnst mér þessi nýjasta, Where We Belong, vera næst best, svo Something Blue, því næst Love the One You're With og næst síst Baby Proof en ég er ekki alveg viss. Ég mæli a.m.k. með þeim öllum nema kannski Heart of the Matter, sbr. það sem á eftir kemur. Fyrir þá sem hafa séð myndina Something Borrowed þá vil ég nefna að söguþráður bókarinnar er ekki nákvæmlega sá sami og myndarinnar þó að aðalatriðin séu þau sömu.

Það er eitt neikvætt sem ég verð að nefna við sögur Giffin. Giffin virðist framhjáhald af einhverjum ástæðum mjög hugleikið og það er aðalatriði í þremur bókum hennar, Something Borrowed, Love the One You're With og Heart of the Matter.  Ástæða þess að mér finnst Heart of the Matter síst af bókum Giffin er sennilega sú að ég var orðin frekar þreytt á þessu stefi - mér finnst framhjáhald bara ekki svona áhugavert (ég verð að nefna að framhjáhaldið í Something Borrowed truflaði mig ekki neitt... sennilega vegna þess að aðalpersónan Rachel er svo sympatísk og auðvelt að tengja við hana). Framhjáhaldið í Heart of the Matter er líka langverst (ég er ekki að segja að það sé gott og fallegt í hinum bókunum en samt aðeins skárra) og það var á köflum óþægilegt að lesa bókina. Í þeirri bók er ekkert sem réttlætir framhjáhaldið - það er enginn "vondur kall" (eins og Darcy í Something Borrowed á klárlega að vera).  Endirinn er líka óþægilegur. Þegar ég var búin að lesa bókina fannst mér sagan öll ákaflega tilgangslaus og ég var svekkt eftir að hafa lesið um vanlíðan allra sögupersóna bara til að sitja uppi með endi sem leysir ekki neitt og kemur engri þeirra í betri stöðu. Það vantaði svo smá persónuþroska í lok bókar sem annars er alltaf til staðar í sögum Giffin.

Annað skemmtilegt um Giffin. Giffin skapaði sér víst miklar óvinsældir eftir að Where We Belong kom út nú í sumar. Ef ég skil málið rétt þá byrjaði það þannig að einhver skrifaði neikvæða umsögn um bókina á Amazon.com. Eiginmaður Giffin ákvað að svara umsögninni og kallaði þá/þann sem hana skrifaði m.a. "psycho".  Giffin mun í kjölfarið hafa tekið undir orð eiginmanns síns og kvatt aðdáendur sína til að gera það sama og hann. Tjah, vont er ef satt er. Þó að svona atvik geri mig mögulega fráhverfa Giffin sem persónu þá gerir þetta mig ekki fráhverfa henni sem rithöfundi. Smá persónuleg geðveiki skiptir mig engu máli á meðan bækurnar hennar skila sínu.