Thursday, October 18, 2012

Skúffukökukrem

Um daginn bakaði ég í allra fyrsta skipti skúffuköku - ótrúlegt en satt. Tilefnið var ærið. Símon átti afmæli og það eina sem hann langaði til að ég bakaði var skúffukaka - ekki svo erfitt að hafa fyrir honum.

Kakan sem ég bakaði er í bókinni eftir Joy The Baker og heitir Texas Sheet Cake. Sú kaka virðist vera bandarískur jafningi hefðbundinnar íslenskrar skúffuköku. Það er hægt að finna margar uppskriftir af Texas Sheet Cake á netinu, t.d. hér og hér, og eru flestar uppskriftir svipaðar hvað varðar innihaldsefni og bökunaraðferð (tip: ég myndi skipta út vatni fyrir heitt kaffi, það dregur fram súkkulaðibragðið).

Í dag ætla ég ekki að skrifa um kökuna sjálfa heldur kremið. Kremið með kökunni er mjög gott og er nú mitt uppáhalds skúffukökukrem. Það er mikill heiður því sérstakt skúffukökukrem, sem amma einnar bestu vinkonu minnar gerir, hefur átt þetta pláss frá því að ég var barn (það krem er samt eiginlega tvö krem, því hún setur fyrst myntukrem ofan á kökuna og svo súkkulaðikrem - mjög gott saman). Uppskriftin að nýja uppáhalds skúffukökukreminu mínu, með nokkrum breytingum frá mér, er hér eftirfarandi.

Súkkulaði- og pecanhnetukrem fyrir skúffuköku
115 g ósaltað smjör
4 ríflegar msk kakóduft
5 msk rjómi
300-400 g flórsykur
100 g gróft saxaðar pecanhnetur

1) Bræðið saman smjör, kakóduft og rjóma í meðalstórum potti. Ekki hafa of háan hita. (Það er  best að byrja á þessu á meðan kakan er að bakast því það á að hella kreminu heitu á hana).

2) Þegar smjörið er  bráðnað og blandan er án kekkja, takið pottinn af hitanum og sigtið flórsykurinn út í kremið. Hrærið sykurinn svo saman við.
3) Setjið pecanhneturnar síðast út í blönduna og hrærið varlega saman. Hellið kreminu svo yfir kökuna heita og leyfið henni að kólna í ca. klukkutíma.
Helsti gallinn við þetta krem er sá að það er frekar subbulegt að eiga við það á meðan það og kakan er heit. Þess vegna borgar sig að bíða a.m.k. í klukkutíma með að skera kökuna eftir að kremið hefur verið sett á.

No comments:

Post a Comment