Saturday, March 23, 2013

Brauð með súkkulaðibitum o.fl.

Þegar ég vaknaði í morgun þá mundi ég að í síðasta draum næturinnar hafði ég verið að baka brauð... sem varð auðvitað til þess að mig langaði í nýbakað brauð. Ég var með eina uppskrift í huga en þar sem ég átti ekki öll innihaldsefnin ákvað ég að aðlaga uppskriftina að því sem ég átti í ísskápnum. Útkoman er þessi.

Brauð með súkkulaðibitum o.fl.:
2 bollar hveiti, ríflega
1 bolli tröllahafrar (eða venjulegir hafrar)
1/2 bolli ljós púðursykur, ríflega
2 tsk lyftiduft
1 tsk matarsódi
1/2 tsk kanill
1/2 tsk kardimommur
1/2 tsk salt
1/2 bolli saxaðar apríkósur og/eða döðlur (eða jafnvel saxaðar hnetur)
1/2 bolli grófsaxað súkkulaði
1 og 1/2 bolli súrmjólk
2 egg
55 g ósaltað smjör, brætt

1) Hitið ofninn í 175°. Blandið öllum þurrefnunum saman í stórri skál. Setjið súkkulaðið og apríkósurnar/döðlurnar síðast í blönduna - eftir að þið eruð búin að hræra hitt saman.

2) Blandið súrmjólk, eggjum og smjöri saman í meðalstórri skál og hrærið lauslega saman. Hellið blöndunni svo saman við þurrefnin og hrærið vel saman.

3) Setjið deigið annað hvort í smurt formkökuform (stórt) eða formkökuform hulið með bökunarpappír. Bakið brauðið í ca. 55 mínútur eða þangað til tannstöngull, sem stungið er í deigið, kemur hreinn út.


Brauðið var afskaplega gott, ylvolgt beint úr ofninum með þykku lagi af smjöri. Það var samt mjög erfitt að skera það á meðan það var heitt, þar sem það molnaði nokkuð (ég held að formið hafi verið of lítið hjá mér). Eftir því sem brauðið kældist varð auðveldara að skera það. Ég held að ég myndi ekki setja apríkósur í deigið næst þegar ég baka brauðið (frekar döðlur eða hnetur) en það var samt alls ekki vont að hafa þær.

 

Myndin hér að ofan sýnir hvernig ég borðaði brauðið - í molum með miklu smjöri.. namm.

Ýmsar kræsingar með aðstoð... Kitchen Aid!

Ég er búin að vera mjög ódugleg við að blogga um það sem ég hef bakað undanfarið. Ég hef samt alls ekki verið ódugleg við að baka - enda var ég svo heppin að fá Kitchen Aid hrærivél í jólagjöf frá Símoni. Vélin, sem er fallega rauð, sómir sér vel í eldhúsinu og er búin að vera mikið í notkun.
 

Fyrsta kakan sem ég bakaði með aðstoð hrærivélarinnar var þessi - the *I miss New York Berrycake*. Ég hef haft augastað á þessari uppskrift lengi en alltaf veigrað mér við að baka kökuna þar sem það þarf að þeyta alveg heilan helling og ég hef ekki nennt að gera það með handþeytaranum. Hrærivélin stóð sig með sóma og þetta er útkoman:


Ég skellti líka í sítrónu- og marengsböku (sem þarf einnig mikið að þeyta) en hún var frumraun mín í marengsgerð. Ég var ekki alveg nógu ánægð með útkomuna þó að bakan hafi verið falleg:


Svo prófaði ég þessa pecanhnetuköku með rommkremi frá Bake or Break (sem var virkilega einföld og góð):


Það má segja að þetta sé helsti afrakstur ársins 2013 hingað til - þó að ég hafi nú bakað ýmislegt annað, bæði með og án aðstoðar Kitchen Aid. Af þessum afurðum hér fyrir ofan mæli ég sterklega með pecanhnetukökunni með rommkreminu. Ég er mikill pecanhnetu aðdáandi og bragðið af þeim fær svo sannarlega að njóta sín í þessari köku.

Wednesday, March 6, 2013

Heimili fröken Peregrine fyrir sérkennileg börn

Ég fékk aðra bók lánaða hjá yngri systur minni um daginn. Bókin heitir Heimili fröken Peregrine fyrir sérkennileg börn og er jafn skringileg og nafnið ber með sér.

Sagan fjallar um Jakob sem er ósköp venjulegur bandarískur strákur. Reyndar er móðurfjölskyldan hans mjög rík og föðurafi hans mjög skrýtinn. Þessi skrýtni afi hefur í gegnum tíðina sagt Jakob ótal sögur af skrýtnum börnum sem dvöldu með honum á barnaheimili í Wales, á tímum seinni heimsstyrjaldarinnar. Sögurnar eru bæði fallegar en líka óhugnalegar þar sem ógeðsleg skrímsli koma við sögu. Á meðan Jakob er yngri trúir hann afa sínum en eftir því sem tíminn líður, og Jakob eldist, þá á hann erfiðara með að trúa. Þegar afi Jakobs deyr, á furðulegan máta, verður hann fyrir hálfgerðu áfalli. Til að vinna úr því áfalli ákveður að hann að heimsækja barnaheimilið, sem er á eyju í Wales, og reyna að leita sannleikann uppi. Þegar hann kemur á eyjuna hins vegar er ekkert barnaheimili til staðar. Jakob áttar sig þó fljótlega á að það er ekki allt sem sýnist...

Sagan hefur notið mikillar hylli erlendis. Höfundurinn, Ransom Riggs, ætlaði upphaflega að taka saman gamlar ljósmyndir í ljósmyndabók. Ljósmyndasöfnun hans varð hins vegar til þess að þessi furðulega saga varð til. Ljósmyndirnar sem hann fann, bæði óhugnalegar, sorglegar og skrýtnar, prýða bókina og eru fléttaðar inn í söguna. 

Þessi bók er ágæt. Hún er stundum "creepy", stundum spennandi en líka stundum hálf væmin. Oft fannst mér söguþráðurinn bera þess merki að höfundurinn var hálfpartinn að elta myndirnar. Hann var að láta söguna passa við þær. Þetta er sama tilfinning og ég fæ þegar ég horfi á Mamma Mia - það er of mikið gert í því að skrifa ABBA lögin inn í söguþráðinn. Ef ég á að bera Heimili fröken Peregrine fyrir sérkennileg börn saman við aðrar "young adult" bækur sem ég hef lesið undanfarið, þá fannst mér Hringurinn, sem ég skrifaði um hér, t.d. mun betur skrifuð og meira spennandi.

Ég verð að taka fram að íslenska þýðingin er ekki nógu góð. Það er of mikið um fljótfærnisvillur og skrýtna málfræði.

Sunday, March 3, 2013

Jójó og Ósjálfrátt

Bókin Jójó eftir Steinunni Sigurðardóttur kom út fyrir jólin í fyrra (held ég). Ég greip hana með mér úr Eymundsson um daginn. Bæði var  hún á tilboði og ég var líka búin að heyra að hún væri góð. Það reyndist rétt. 

Sagan ber ekki mikið yfir sér í byrjun en henni vindur hratt og óvenjulega áfram. Ég myndi helst lýsa sögunni sem eintali söguhetjunnar Martin Montag - þar sem hann rifjar upp löngu liðna atburði og samtöl - sem jafnframt er uppgjör hans við fortíðina. Í byrjun áttaði ég ekki mig á því hvernig þessi brotakennda upprifjun Martins - sem virtist mjög tilviljunakennd - tengdist því sem var að gerast í "nútíma" Martins. Martin er læknir og í upphafi sögunnar hittir hann mann, með æxli, sem slær hann út af laginu. Maðurinn og æxlið minna hann á eitthvað - og það eitthvað er það sem kemur sögunni af stað. 

Mér fannst Jójó skemmtilega uppbyggð. Ég viðurkenni að ég var pirruð á henni í byrjun, skildi ekki af hverju höfundurinn var að leggja þessa brotakenndu upprifjun fyrir mig, en svo þegar tengingin varð skýr varð ég bæði mjög sátt og hrifin. Þolinmæði er dyggð.

Ég var hrifin af Jójó en ég er enn hrifnari af Ósjálfrátt eftir Auði Jónsdóttur - sem ég var að ljúka við rétt í þessu. Ég byrjaði á henni í gær og sagan hreinlega gleypti mig. Ég lifði mig alveg inn í líf aðalsögupersónunnar Eyju. Ég var farin að tala við hana í huganum, skamma hana, óska þess að hún færi nú að taka lífið í sínar eigin hendur og pirrast á stækjunni þegar hún reykti of mikið. 

Ósjálfrátt er bæði skáldskapur og sannleikur - hálfgerð sjálfsævisaga Auðar. Við sögu koma foreldrar Eyju (Auðar), ömmur og afar, langömmur, systkini, vinkonur, frænkur og bæði fyrrverandi  og framtíðareiginmenn. Sagan gerist ekki í tímaröð en Auður flakkar á milli fortíðar, nútíðar (sem þó er í fortíðinni) og framtíðar eftir hentugleika. Hún hlífir engum, lætur allt flakka, en maður veit samt aldrei hvað er skáldskapur og hvað ekki. Sagan er bæði mjög fyndin og sorgleg. Snjóflóðið á Flateyri er mjög áberandi í sögunni og sömuleiðis alkóhólismi og fíkn. Frænka söguhetjunnar Eyju, Skíðadrottningin, sem kemur mikið við sögu, er snillingur í að koma sér í vandræðalegar og fyndnar aðstæður. Þá er skondið þegar Eyja er skilin eftir ein hjá afa sínum, þjóðskáldinu, á kvennafrídeginum. Fyndnast fannst mér þó þegar Eyja fór á miðilsfund í Kaupmannahöfn.

Auður er, eins og flestir vita, barnabarn Halldórs Laxness. Allt frá því að ég fór og heimsótti Gljúfrastein fyrir rúmu ári síðan hef ég verið mjög áhugasöm, ekki um Halldór, heldur um Auði Sveinsdóttur, eiginkonu hans og ömmu Auðar. Það er eitthvað við sögu hennar sem situr í mér og ég hef oft velt því fyrir mér hvað fékk þessa hæfileikaríku konu til að "fórna" sér fyrir þennan mann. Eins og ég sagði áðan kemur amma Eyju (Auðar) við sögu í Ósjálfrátt - og raunar nokkuð mikið. Mun meira en skáldið sjálft. Amman er mjög viðkunnanlegur og notalegur karakter - akkúrat svona karakter sem maður myndi sjálfur vilja þekkja. Hún kemur fyrir sem sterk kona, alltaf reiðubúin að hjálpa, veita stuðning og góð ráð. Af sögunni má skilja að hún hafi sjálf valið sér þetta hlutskipti í lífinu og verið sátt við það.

Auður Jónsdóttir er rithöfundur sem mér hefur fundist vera ýmist eða. Ýmist frábær eða ég botna ekkert í henni. Fólkið í kjallaranum fannst mér stórkostleg bók. Tryggðarpant skildi ég ekki og það hrakti mig frá næstu bók Auðar, Vetrarsól. Með Ósjálfrátt er ég búin að taka hana aftur í sátt.