Sunday, September 30, 2012

Krispí eplapæ með kanil

Fyrir helgi gaf samstarfskona mín mér nokkur epli sem hún ræktar í garðinum sínum hér í Reykjavík (nei, ég er ekki að plata). Eplin eru mjög falleg, græn og fremur lítil, en mjög súr á bragðið. Ég átti von á gestum í dag og ákvað í tilefni þess að nota eplin og baka eplapæ. Bæði gerir sykurinn og bökunin eplin æt og svo er  svo notalega haustlegt eitthvað að borða heitt eplapæ. Eftirfarandi uppskrift er aðeins breytt uppskrift frá Joy the Baker (er í Joy the Baker Cookbook) og er mjög góð. Mér varð oft hugsað til Nigella Lawson þegar ég var að útbúa deigið - þar sem það þarf að nota hendurnar svo mikið (þið sem hafið horft á þættina hennar skiljið) og vegna þess er ég kannski enn hrifnari af þessari uppskrift en ella - enda er ég mikill aðdáandi eldunaraðferða hennar.

Krispí eplapæ með kanil
Fylling:
7 meðalstór epli (ég notaði tíu af þessum litlu grænu og svo tvö meðalstór rauðgul).
5 tsk sykur
2 1/2 tsk kanill

1) Hitið ofninn í 175°C. Smyrjið fremur stórt eldfast mót með smjöri. 

2) Flysjið eplin og skerið í litla bita. Setjið bitana í mótið.

3) Blandið saman sykri og kanil í lítilli skál. Stráið kanilsykrinum jafnt yfir eplabitana. Notið hendurnar til að blanda þessu jafnt og vel saman. Setjið mótið svo til hliðar og undirbúið deigið.
Deigið:
2 bollar hveiti
2 bollar púðursykur
1 tsk kanill
1 bolli saxaðar pecanhnetur (ca. 100 g poki)
2/3 bolli haframjöl
1 bolli mjúkt ósaltað smjör (ca. 225 g)

1) Blandið hveiti, púðursykri, kanil, hnetum og haframjöli saman í stórri skál.

2) Skerið smjörið í litla bita og notið hendurnar til að blanda því saman við þurrefnablönduna.

3) Takið lófafylli af deiginu og setjið saman við eplin. Notið hendurnar til að blanda þessu jafnt saman. 

4) Setjið restina af deiginu jafnt yfir eplin.
5) Bakið í 50-60 mínútur - eða þangað til það byrjar að "bubbla" í eplunum og deigið er dökknað. (Ég hafði álpappír yfir mótinu fyrstu 25 mínúturnar svo að deigið myndi ekki verða of dökkt).

6) Takið pæið úr ofninum og kælið það aðeins áður en þið borðið. Berið fram með vanilluís eða þeyttum rjóma. Njótið.

Sunday, September 23, 2012

Dönsk frönsk súkkulaðikaka

Ég fann eftirfarandi uppskrift af franskri súkkulaðiköku í dönsku blaði (sem ég man því miður ekki hvað heitir) sem samstarfskona mín lánaði mér. Kakan er vægast sagt mjög góð, ekki of yfirþyrmandi og það er frekar auðvelt að búa hana til þar sem það þarf t.d. ekki að vesenast við að bræða súkkulaðið.   
  



Dönsk frönsk súkkulaðikaka
150 g möndlur
150 g heslihnetur 
300 g gott suðusúkkulaði
2 msk (ríflegar) kakóduft
200 g mjúkt smjör
100 g sykur
1 tsk vanillusykur
6 egg

1) Hitið ofninn í 175°C. Maukið möndlur og heslihnetur saman í matvinnsluvél þar til þær verða að mjöli (Ég notaði blandarann minn til að gera þetta og til að auðvelda honum verkið keypti ég möndlur og hnetur sem var þegar búið að hakka).

2) Saxið súkkulaðið og blandið saman við hnetu- og möndlumjölið í stórri skál. Blandið því næst kakódufti, smjöri, sykri og vanillusykri saman við. Ég skar smjörið í litla kubba til þess að það væri auðveldara að blanda því saman við þurrefnin. Mér fannst svo best að nota hendurnar við að koma deiginu saman. (Á þessum tímapunkti leist mér ekkert á deigið. Það var mjög gróft og hálfgerð klessa. Ég hélt að ég hefði þýtt uppskriftina vitlaust en það kom svo í ljós að það var allt í lagi með það).
3) Skiptið eggjunum í hvítur og rauður. Setjið rauðurnar saman við deigið og hrærið lítillega en setjið hvíturnar í aðra skál og stífþeytið þær. Blandið hvítunum varlega saman við deigið þegar þær eru stífþeyttar.

4) Setjið deigið í spring- eða sílikonform og bakið í ca. 30 mín. (Ég notaði 10" sílikonform en uppskriftin gerir ráð fyrir springformi sem er 25 cm í þvermál).  NB. þetta er bara einn botn. Takið kökuna út og kælið áður en kremið er sett á.
Krem
1 dl sýrður rjómi (í uppskriftinni segir 38% en þar sem það var ekki til keypti ég 18%)
2 dl rjómi
Hnetur og möndlur til að skreyta

1) Hrærið sýrða rjómann. Stífþeytið rjómann í annarri skál. Blandið varlega saman. (Ég bætti við örlitlum vanillusykri). Setjið blönduna ofan á kökuna og skreytið hana með söxuðum hnetum og möndlum.

2) Borðið.

Friday, September 21, 2012

Shadow of Night

Ég gat ekki setið lengur á mér og ákvað að lesa aðra bókina í All Souls Trilogy eftir Deborah Harkness. (Fyrsta bókin er A Discovery of Witches sem ég fjallaði um hér). Bókin heitir því drungalega nafni Shadow of Night og er beint framhald af fyrri bókinni. Ein bók í viðbót er væntanleg í seríunni en það liggur þó ekki fyrir hvenær hún kemur út.

Ég ætla ekki að vera langorð um söguþráðinn í ljósi þess að ég hef þegar fjallað nokkuð um megin atriði sögunnar. Þess skal þó getið að í byrjun bókar ferðast Diana og Matthew aftur til ársins 1591 (ef ég man rétt), bæði til að forðast ákveðin illmenni og til að leita að dularfullri bók sem er þeim mjög mikilvæg. Í leiðinni ætlar Diana að finna norn sem getur hjálpað henni að læra á sína eigin yfirnáttúrulegu hæfileika.

Í fortíðinni eru þau Diana og Matthew í félagskap mjög margra frægra einstaklinga, t.d. leikritahöfundanna Christopher Marlowe og William Shakespeare sem og kanóna eins og Elísabetar I Englandsdrottningar. Þó að ég sé viss um að sagnfræðingurinn Harkness sé með flestar staðreyndir varðandi þessar persónur á hreinu fór þessi samblöndun á skáldskap og raunveruleika eitthvað í taugarnar á mér. Í fyrsta lagi fannst mér allt "name droppið" frekar klént og í öðru lagi fannst  mér óþarfi að hafa allar þessar frægu persónur þarna í hrærigraut þar sem meiri hlutinn af þeim skiptir engu máli fyrir söguna - það hefði alveg verið hægt að gera hana áhugaverða án þeirra, þó að sumar séu kannski of mikilvægar til að sleppa.

Annar galli við bókina er að mér fannst hún frekar lengi að byrja. Ég náði mér í eintak af bókinni í Kindle og ég man að mér fannst ekkert gerast í sögunni fyrr en ég var búin með rúm 40% af henni. Við það mark hins vegar fór sagan vel af stað og ég fór að verða spennt. Svo gerðist eiginlega allt á síðustu 25% og þá var erfitt að leggja bókina frá sér.

Niðurstaða mín er sú að þetta sé ágæt bók - hún er a.m.k. betri en margar aðrar af sama tagi. Hún er samt með klassískt "mið seríu syndrome" (svipað og fimmta bókin í Harry Potter seríunni) - það gerist ekki alveg nógu mikið. Það varð til þess að mér fannst Harkness vera að reyna að teygja lopann... þannig að söguefnið dugi örugglega í þrjár bækur.

Sunday, September 9, 2012

Red Velvet

Red Velvet kaka er uppáhalds kakan mín. Þið sem hafið smakkað slíka köku skiljið það sennilega en þið hinir.. í guðanna bænum smakkið. Mín Red Velvet uppskrift er eftirfarandi.






Red Velvet
2 bollar hveiti
1 tsk matarsódi
1 tsk lyftiduft
1 tsk salt
2 msk kakóduft
2 bollar sykur
1 bolli grænmetisolía 
2 egg
1 bolli súrmjólk
2 tsk vanilludropar
30-60 ml rauður matarlitur (ég nota alltaf eina flösku af Rayner's matarlit)
1 tsk hvítvínsedik
1/2 bolli heitt kaffi

1) Stillið ofninn á 165°C. Blandið hveiti, matarsóda, lyftidufti, salti og kakódufti saman í meðalstórri skál.

2) Blandið  sykri og olíu saman í annarri skál, fremur stórri.

3) Blandið eggjum, súrmjólk, vanilludropum og matarlit saman við olíuna og sykurinn. 

4) Blandið kaffinu og edikinu saman við rauðu blönduna.

5) Setjið þurrefnablönduna smátt og smátt saman við rauðu blönduna á meðan þið hrærið. Ég nota þeytara til að blanda þessu vel saman en hef hann á lágum hraða.

6) Setjið deigið í tvö smurð form (níu eða tíu tommu) og bakið í 30-40 mín. Fylgjist vel með kökunni og notið tannstöngulsaðferðina til að athuga hvort hún sé tilbúin. Kælið kökuna svo á meðan kremið er gert.
Ég fékk þá flugu í höfuðið þegar ég var að baka kökuna í dag að baka frekar cupcakes þó að deigið sé ekki miðað við það sérstaklega. Ég gerði tólf cupcakes úr ca. helmingnum af deiginu en þar sem það heppnaðist ekkert sérlega vel (sennilega þar sem ég setti of mikið í formin) ákvað ég að gera einn tíu tommu botn úr restinni af deiginu. Það er samt hefðbundið að gera tvo stóra botna (döh).

Mér finnst kakan best með rjómaostakremi líkt og er almennt með Red Velvet. Það er hins vegar miklu fallegra að setja frosting  á hana - því það er svo svakalega hvítt og contrastar mjög fallega við rauða litinn.  Mér finnst frosting samt ekki jafn gott með og rjómaostakremið - það er of sætt. Svo er agalegt vesen að búa það til. Hér á eftir eru uppskriftir af báðum kremum. Ég gerði rjómaostakrem með kökunni í dag og skreytti með kókosflögum sem ég ristaði stuttlega á pönnu.

Rjómaostakrem
220 g philadelphia rjómaostur (við stofuhita)
100 g ósaltað smjör (við stofuhita)
Klípa af salti
2 bollar flórsykur
2 tsk vanilludropar

1) Hrærið rjómaostinn með þeytara eða í hrærivél í ca. eina mínútu - eða þangað til að hann verður mjúkur og meðfærilegur. Stoppið þeytarann og skrapið ostinn niður með hliðunum á skálinni með sleikju. 

2) Bætið smjörinu við og hrærið aftur í ca. eina mínútu - eða þar til þetta er vel blandað saman. Stoppið og skrapið aftur niður með hliðunum á skálinni.

3) Bætið saltinu og vanilludropunum við og sigtið flórsykurinn í blönduna. Þeytið á lágum hraða þangað til þetta er næstum blandað saman. Stoppið þá þeytarann og skrapið niður með hliðunum á skálinni. Þeytið svo stuttlega þar til allt er komið saman. Kremið á að vera flauelsmjúkt.
Frosting
300 g sykur
2 dl vatn
6 eggjahvítur
1 1/2 msk síróp
1 1/2 tsk vanilludropar

Sjóðið sykur og vatn saman í potti í ca. 12-15 mínútur eða þangað til blandan þykknar. Á meðan eru eggjahvíturnar þeyttar í hrærivél. Hellið sykurleginum svo út í eggjahvíturnar í mjórri bunu ásamt sírópinu og vanilludropunum. Þeytið blönduna þar til hún kólnar og berið strax á kökuna (kremið er mjög ómeðfærilegt ef það er látið bíða, þess vegna er mikilvægt að búa það ekki til fyrr en kakan er kólnuð).

Saturday, September 1, 2012

Hin ótrúlega pílagrímsganga Harolds Fry

Ég gær lauk ég við Hina ótrúlegu pílagrímsgöngu Harolds Fry. Bókin hefur notið mikilla vinsælda hér á landi (sem og annars staðar) og er ein mest selda bók sumarsins. Bókin er svo tilnefnd til hinna virtu Booker verðlauna. Af einhverjum ástæðum fór þessi bók alveg fram hjá þar til nú í lok ágúst þegar ég keypti hana - eftir að hafa heyrt fleiri en eina lofræðu um hvað hún væri frábær. Mér finnst ekki gott að lesa bækur sem aðrir hafa áður hype-að upp fyrir mér en ég fell þó mjög oft í þá gryfju. Enda get ég ekki lifað með því að ég missi mögulega af frábærri bók. 

Mér fannst saga Harolds Fry ekki jafn frábær og mörgum öðrum  Söguefnið er vissulega áhugavert og frumlegt en það gerist varla neitt - og það sem gerist gerist mjög hægt. Sagan fjallar um Harold Fry sem er kominn á eftirlaun, er í ástlausu hjónabandi og lifir frekar tilbreytingarlausu lífi. Harold Fry er mjög enskur. Hann er svaka kurteis og talar ekki við aðra nema hann nauðsynlega þurfi þess og er þá afskaplega vandræðalegur. Einn daginn fær Harold bréf frá fyrrum samstarfs- og vinkonu sinni. Í bréfinu kemur fram að hún sé að deyja og vilji kveðja Harold. Harold vandræðast eitthvað með bréfið, ákveður svo að svara því en þegar hann er að fara með svarbréfið út í póstkassa ákveður hann að ganga til hennar - til að bjarga lífi hennar. Harold á heima mjög sunnarlega á Englandi en vinkonan mjög norðarlega og þetta er því nokkuð löng gönguferð, sérstaklega í ljósi þess að Harold undirbýr sig ekkert og tekur engan göngubúnað með sér. Á göngunni rifjar Harold upp ævi sína og kynnist sjálfum sér betur  - sem og mörgum öðrum skrýtnum karakterum. Sagan er eiginlega þroskasaga Harolds sem verður loksins reiðubúinn að horfast í augu við og gera upp sína eigin ævi á meðan göngunni stendur - og breyta því sem þarf að breyta. Gangan verður líka til þess að eiginkona Harolds ákveður að hugsa sinn gang.

Mér leiddist eiginlega á meðan lestrinum stóð. Mér leiddist að lesa sífellt um landslagið sem Harold gekk fram hjá, endalausar (stuttar) lýsingar á skrýtnu fólki sem hann hitti og hvað honum leið afskaplega illa oftast nær. Í bland við eitthvað meira áhugavert hefði verið skemmtilegt að lesa um þetta en eitt og sér fannst mér þetta ekki nóg. Svo fannst mér allt við endinn afskaplega fyrirsjáanlegt. Höfundurinn leynir mann ákveðnum upplýsingum lengi vel en það er samt frekar augljóst allan tímann hverjar þær eru. Bókin er svo sem ágætis dægradvöl ef manni langar að lesa eitthvað þægilegt og viðburðasnautt.

Á meðan lestrinum stóð varð mér oft hugsað til annarar bókar, sem ég las fyrir nokkru, sem fjallar líka um enskan herramann sem er á sínum efri árum - Major Pettigrew's Last Stand. Sú bók er líka eins konar þroskasaga en miklu fyndnari  en Hin ótrúlega pílagrímsganga Harold Fry. Í þeirri bók er mikil áhersla lögð á hvað Major Pettigrew er svakalega enskur, líkt og Harold, en það er gert á mun kómískari hátt. Pettigrew er kominn á eftirlaun líkt og Harold en eiginkona hans er látin. Hann einnig lifir frekar viðburðasnauðu lífi - allt þar til bróðir hans deyr. Það setur allt á annan endann í lífi hans og verður  óbeint til þess að hann verður ástfanginn á nýjan leik og þarf að hugsa alveg upp á nýtt hvernig lífi hann vilji lifa. Mér fannst bókin um Pettigrew miklu skemmtilegri en pílagrímsganga Harolds en hennar helsti galli er þó að hún er ívið of löng. Mér leiddist þó aldrei á meðan lestrinum stóð. Ég mæli a.m.k. með henni fyrir þá sem fíluðu Harold.