Í dag átti ég von á gestum í kaffitímanum en hafði takmarkaðan tíma (sökum leti í morgun) til að undirbúa eitthvað gott. Ég greip til þess ráðs að gera súkkulaðivöfflur. Það er afar fljótlegt að búa súkkulaðivöfflurnar til þar sem þær eru gerðar úr súkkulaðikökudeigi frá Betty Crocker. Þetta er hugmynd sem ég fékk frá síðunni Hugmyndir fyrir heimilið fyrir einhverju síðan en hef bara notað einu sinni áður - sem er skrýtið í ljósi þess hversu einfalt og þægilegt þetta er. Í dag bar ég vöfflurnar fram með þeyttum rjóma og hindberjasósu.
Súkkulaðivöfflur með rjóma og hindberjasósu
1 kassi Chocolate Fudge Cake Mix frá Betty Crocker + það sem á að blanda saman við duftið samkvæmt leiðbeiningum á kassanum (ef ég man rétt eru það 3 egg, 70 ml grænmetisolía og 250 ml vatn)
1 (lítill) poki frosin hindber
1 slurkur af hunangi/sírópi
1 peli rjómi
1) Hitið vöfflujárnið. Hrærið deigið saman eftir leiðbeiningunum á kassanum. Bakið vöfflurnar.
2) Setjið hindberin í pott ásamt slurk af hunangi/sírópi (ég notaði hunang í dag en bara af því að ég átti ekki síróp) og hitið á meðan vöfflurnar bakast. Hrærið og fylgist með. Lækkið hitann þegar suðan kemur upp. Sjóðið við lágan hita í ca. 5 mín.
3) Þeytið rjómann.
No comments:
Post a Comment