Ég var að ljúka við The Hand That First Held Mine eftir Maggie O´Farrell. Fyrir nokkrum árum síðan keypti ég af rælni bók eftir O´Farrell sem heitir The Vanishing Act of Esme Lennox, án þess að vita nokkuð um hana, og fannst hún svo góð að ég ákvað að lesa aðra bók eftir hana. Ég lét verða af því fyrst núna því miður) og sé ekki eftir því.
Mér fannst The Hand That First Held Mine vera mjög góð. Sagan er eiginlega tvær sögur sem þó tengjast í lok bókar. Önnur sagan gerist í London um árið 1950 en hin í nútímanum. Mér fannst fyrrnefnda sagan sérstaklega skemmtileg - bæði vegna þess að ég er með blæti fyrir sögulegum skáldskap (tala nú ekki um þegar söguþráðurinn tengist listasögu eins og í þessu tilviki) og vegna þess að aðalpersónur sögunnar, Lexie og Innes, voru frábærar. Þau eru svona persónur sem maður vildi óska að maður þekkti og gæti boðið í partý. Þau voru samt eiginlega of frábær og þess vegna byrjaði mig strax að gruna að eitthvað slæmt myndi koma fyrir þau. Sem því miður gerðist. Hin sagan í sögunni virðist í fyrstu einkum fjalla um hvernig það er að vera nýbakað foreldri - og jafnvel hvernig konur og karlmenn taka því á mismunandi hátt - en það kemur í ljós þegar líður á að sagan er ekki alveg svo einföld. Lengi vel var ég miklu spenntari yfir því sem var að gerast í fyrri sögunni en eftir því sem nær dró endinum þá varð ég líka spennt fyrir málalokum í hinni seinni.
Það er ekkert mjög erfitt að átta sig á því hvernig sögurnar tvær tengjast - en það fór ekki í taugarnar á mér hversu augljóst það var. Ýmis smáatriði komu mér á óvart og svo var tengingin mjög vel gerð. Sérstaklega í lok bókar, þegar ég hélt að allt væri vonlaust, tókst O´Farrell að koma mér á óvart með ákveðnu smáatriði (þegar ég pæli í því eftir á þá held ég að maður hefði getað áttað sig á því fyrr ) og bjarga þannig endinum. Vel undirbúið og vel gert.
Það er ekkert mjög erfitt að átta sig á því hvernig sögurnar tvær tengjast - en það fór ekki í taugarnar á mér hversu augljóst það var. Ýmis smáatriði komu mér á óvart og svo var tengingin mjög vel gerð. Sérstaklega í lok bókar, þegar ég hélt að allt væri vonlaust, tókst O´Farrell að koma mér á óvart með ákveðnu smáatriði (þegar ég pæli í því eftir á þá held ég að maður hefði getað áttað sig á því fyrr ) og bjarga þannig endinum. Vel undirbúið og vel gert.
Mér finnst O´Farrell skrifa mjög fallegan texta - oft angurværan og jafnvel sorgmæddan. Ekki beint ljóðrænan en mjög myndrænan. O´Farrell vekur upp með mér mjög blendnar tilfinningar. Ég smitast af undirtóninum í textanum og verð hálf leið en samt svo innilega glöð yfir því að vera lesa eitthvað svona fallegt og vel gert. Ég man að mér leið eins þegar ég las hina bókina eftir hana og mér líður oft svipað þegar ég les bækur eftir Jón Kalman Stefánsson. Fallegt.
Ég vona að ég hafi ekki hrakið ykkur frá bókinni með þessum pistli því mér fannst hún virkilega góð.
Ég vona að ég hafi ekki hrakið ykkur frá bókinni með þessum pistli því mér fannst hún virkilega góð.
No comments:
Post a Comment