Wednesday, October 24, 2012

Elizabeth Gaskell

Í pistlinum sem ég skrifaði um Jane Austen í ágúst sl. minntist ég aðeins á rithöfundinn Elizabeth Gaskell. Elizabeth var uppi á svipuðum tíma og Austen (reyndar aðeins seinna, eða frá 1810 til 1865) og skrifaði skáldsögur sem að sumu leyti svipa til sagna Austen. Höfundarnir tveir eru oft bornir saman.

Það sem sögur Gaskell og Austen eiga sameiginlegt er að þær fjalla fyrst og fremst um konur og þeirra líf. Báðir höfundar sköpuðu mjög kraftmikla kvenkaraktera. Ég myndi þó ekki segja að stíll þeirra sé mjög líkur. Gaskell er þekkt fyrir að skrifa samfélagsádeilur og eru fátækt og aðstæður fólks, sem minna mega sín, oft áberandi í sögum hennar. Sögur Austen hins vegar eru yfirleitt í léttari tón. Ég vil taka fram að ég er alls ekki að segja að það séu engar ádeilur í bókum Austen og að sögur hennar séu með einhverju móti léttvægar. Austen var t.d. að mörgu leyti á undan sinni samtíð hvað kvenréttindi varðar, sbr. umfjöllun hennar um erfðarétt í P&P sem og óbein gagnrýni hennar á hvað konur á hennar tíma voru hjálparlausar án eiginmanns. Þá má nefna að ein bók Austen, Northanger Abbey, er augljóslega satíra um hinar svokölluðu gotnesku skáldsögur sem voru mjög vinsælar á tíma Austen (en eru það ekki lengur af einhverjum ástæðum..) Svo að það komi fram, þá kemst Gaskell ekki með tærnar þar sem Austen var með hælana hvað húmor varðar.

Gaskell skrifaði sex skáldsögur í fullri lengd líkt og Austen. Þær eru eftirfarandi, í útgáfuröð:
  1. Mary Barton.
  2. Cranford.
  3. Ruth.
  4. North and South.
  5. Sylvia's Lovers.
  6. Wives and Daughters.
Ég hef lesið þrjár þekktustu bækur Gaskell, þ.e. Cranford, North and South og Wives and Daughters. Af þeim þremur fannst mér Cranford best. Cranford er ekki hefðbundin skáldsaga hvað formið varðar (og þykir raunar nokkuð ólík hinum sögum Gaskell hvað varðar stíl einnig) þar sem hún samanstendur af nokkrum stuttum sögum eða þáttum. Þessir sögur gerast allar í sama bænum og sömu aðalpersónur eru þungamiðjan í þeim öllum. Annað óvenjulegt við bókina er að hún er sögð frá sjónarhorni sögumanns sem er ekki ein aðalpersónanna. Raunar fær maður ekki að vita hver sögumaðurinn er fyrr en nokkuð er liðið á bókina. Þrátt fyrir að hafa lesið bókina, og líkað hún vel, á ég fremur erfitt með að segja frá söguþræði hennar. Það eina sem ég get sagt er að sagan fjallar um nokkrar konur, enda fáir menn búsettir í Cranford, og þeirra hversdagslíf. Ég myndi ekki segja að bókin væri spennandi en það er eitthvað mjög ánægjulegt við að lesa hana.

North and South er mun átakameiri en Cranford. Hún fjallar um hina kraftmiklu og siðprúðu Margaret Hale sem, vegna fjölskylduaðstæðna, neyðist til að flytja frá heimili sínu, í sveitinni í Suður-Englandi, til alvöru iðnaðarbæjar í Norður-Englandi. Þar þarf Margaret að takast á við lífið með öðrum hætti en í suðrinu - líf sem er ekki alveg jafn einfalt og hún hélt. Margaret kynnist bæði verkamönnum í verksmiðjunum í bænum sem og eigendum verksmiðjanna, þ.á.m. hinum groddalega en samt svo elskulega John Thornton. Fátækt, barátta verkamanna og stéttaskipting er mjög áberandi í sögunni þó að meginumfjöllunarefnið séu ástir og líf Margaret. Ég verð að segja að mér fannst sérstaklega skemmtilegt að lesa um hvað hinir ensku eru fordómafullir og líta niður á alla þá sem starfa við iðnað (e. those in trade) jafnvel þó að viðkomandi sé moldríkur verksmiðjueigandi. Stéttaskipting, eins fáránleg og hún er, er áhugavert umfjöllunarefni. Það sem truflaði mig við söguna er mikil trúarleg umfjöllun. Ég nenni almennt ekki að lesa um slíkt. Að lokum, mjög margar persónur í sögunni deyja.

Wives and Daughters þykir almennt besta bók Gaskell - meistaraverkið hennar jafnvel. Sagan fjallar um líf Molly Gibson, með mikilli áherslu á  sambönd hennar við aðra; föður sinn, vini, mögulegt eiginmannsefni, stjúpmóður og stjúpsystur. Líf Molly var nánast fullkomið þar til faðir hennar giftist konu (sem hann gerir nb. bara til þess að Molly fái almennilegt uppeldi) sem er ekki jafn frábær og flestir halda við fyrstu sýn. Molly er voða góð stúlka en það sem gerir hana áhugaverða er hvernig hún tekur á vandamálum og leysir, bæði sín og annarra. Sagan er ágæt, reyndar frekar löng, en helsti galli hennar er að hún er ókláruð. Gaskell dó áður en skriftum lauk. Ég vissi það ekki fyrr en í sögulok og verð að segja að ég varð frekar vonsvikin. Það liggur þó fyrir hvernig Gaskell ætlaði sögunni að enda og upplýsingar um það koma fram í lok bókar.

Fleiri bækur eftir Gaskell hef ég ekki lesið en ég vonast til að hafa færi á að lesa fleiri fljótlega. Ég hugsa að ég myndi þá lesa þær í útgáfuröð; Mary Barton fyrst, svo Ruth og loks Sylvia's Lovers. Ég las hinar þrjár í öfugri útgáfuröð og sé eftir því núna. Það er áhugavert að fylgjast með því hvernig rithöfundar þróa og betrumbæta stíl sinn eftir því sem líður á.

Ég vil að lokum geta þess að BBC hefur gert þætti eftir bókum Gaskell, a.m.k. Cranford, North and South og Wives and Daughters. Ég hef horft á tvær síðarnefndu þáttaseríurnar og fannst þær mjög góðar - báðar betri en bækurnar að ákveðnu leyti. Í North and South sleppur maður að mestu við helgislepjuna og maður fær almennilegan endi á Wives and Daughters.

No comments:

Post a Comment