Sunday, November 11, 2012

Jane Austen II

Ég veit að ég er búin að skrifa um Austen og skáldsögurnar hennar sex, sjá hér, en ég verð að bæta við það. Ég ákvað, í ljósi ómældrar aðdáunar minnar, að lesa allt annað sem ég gæti fundið eftir Austen (eða um Austen) og keypti í þeim tilgangi þrjár rafbækur; Love and Friendship, Lady Susan og Memoir of Jane Austen. Síðastnefnda bókin er ekki skrifuð af Austen, heldur af frænda hennar, um hennar líf og persónu. Ástæðan fyrir því að ég tók hana með er sú að í lýsingunni á Amazon kom fram að bréf eftir Austen væru birt í bókinni.

Love and Friendship (upphaflega skrifað Love and Freindship) er safn af stuttum sögum, og reyndar einni ókláraðri skáldsögu, sem Austen skrifaði þegar hún var ung. Safnið var tekið saman  og birt eftir andlát Austen. Ég las einhvers staðar að nánasta fjölskylda Austen hefði ekki viljað birta þessar sögur, sennilega vegna þess að þær þóttu of léttvægar, en sem betur voru þær gefnar út síðar. Sögurnar eru mjög léttar og skemmtilegar. Austen virðist fyrst og fremst hafa skrifað þær til að skemmta fjölskyldunni og eru margar þeirra tileinkaðar einhverjum sérstökum. Sögurnar eru sumar farsakenndar og bera jafnvel keim af sápuóperum. Margar eru skrifaðar í bréfaformi, þar sem aðalpersónurnar senda bréf sín á milli og segja frá lífi sínu. Mér fannst gaman að lesa sögurnar. Húmor Austen er allsráðandi  - sem dæmi má nefna að Austen skrifar mjög svo óhefðbundna útgáfu af sögu Englands þar sem hún gerir m.a. grín af stíl sagnfræðinga og tilraunum þeirra til að vera hlutlausir. Titill sögunnar er: "The History of England from the reign of Henry the 4th to the death of Charles the 1st. By a partial, prejudiced, & ignorant Historian." Sagan var í upphaflegu útgáfunni myndskreytt af systur Austen, Cassandra, sem hún var nánust af systkinum sínum, t.d. með myndinni hér fyrir ofan. Mér finnst augljóst að með þessum stuttu sögum er Austen að leggja drög að öðrum sögum sínum - maður kannast vel við sum karaktereinkenni og hún notar persónunöfn sem koma fyrir í skáldsögum hennar, t.d. Willoughby, og vísar í götur og staði sem maður þekkir. Ég mæli með þessu sagnasafni fyrir aðra aðdáendur Austen. Flestum öðrum finnst sennilega kjánalegt að eyða tíma í að lesa það.
 
Lady Susan er stutt skáldsaga - samt ekki smásaga. Hún er aldrei talin með hinum sex skáldsögum Austen, sennilega vegna þess hversu stutt hún er. Sagan er skrifuð í bréfaformi. Þar sem bréfaritarar eru nokkrir fær maður oft fleiri en eina lýsingum á atvikum - sem er áhugavert þar sem persónurnar hafa sjaldnast sömu skoðanir á þeim. Aðalpersónan er hin eigingjarna, stjórnsama og daðurgjarna Lady Susan - sem er vægast sagt mjög óforskömmuð. Hún er svo óforskömmuð reyndar að það kom mér á óvart. Ég hélt að prúðir Englendingar þessa tíma viðurkenndu ekki að svona persónur væru til. Söguþráðurinn snýst allur í kringum Lady Susan, hún býr til allskonar drama sem hinar persónurnar hneykslast á, eða hrífast af, og tala um sín á milli. Sagan er ekkert sérstakt bókmenntalegt afrek en ég held að hún sé ágætis upphafspunktur fyrir þá sem vilja lesa bækur Austen en hafa ekki treyst sér í það. Hún er mjög auðveld aflestrar.

Memoir of Jane Austen er ekkert svakalega skemmtileg og ég hef, af þeim sökum, ekki lokið við hana enn sem komið er. Stíll höfundarins er frekar þurr og hann á það til að skrifa langar lýsingar á staðarháttum og fjarskyldum ættingjum Austen sem segja ekki neitt um hennar persónu og líf. Í bókinni eru birt nokkur bréf Austen (reyndar stundum bara útdrættir sem maður græðir ekki mikið á) sem er forvitnilegt að lesa. Efni sumra bréfanna er ósköp hversdagslegt en maður sér þó að Austen hefur eitthvað sótt í eigið líf við skrif bóka sinna. Maður sér líka að hún gefur þeim persónum sínum, sem henni líkar vel við, oft eitthvað af eigin karakter (ég held t.d. að hún gefi Elizabeth Bennet og Emmu sérstaklega mikið af sjálfri sér). Ég nenni ekki að skrifa meira um þessa bók og ég mæli ekki með henni nema fyrir hörðustu aðdáendur.

Það eru svo til a.m.k. tvær "sögur" í viðbót eftir Austen sem eru fáanlegar á Amazon. Það eru tvær ókláraðar skáldsögur sem heita The Watsons og Sanditon. Ég lagði ekki í að lesa þær að svo komnu. Það er eitthvað svo svekkjandi og dapurlegt við það að byrja á bók sem maður fær ekki að vita hvernig endar (tala nú ekki um ef bókin er góð). Margir höfundar  hafa spreytt sig á að ljúka við þessar sögur en ég hef  því miður ekki mikla trú á þeim. Kannski síðar.

P.S. Rafbækurnar þrjár kosta allar 0 kr. á Amazon.

P.S.2. Mig langar að vekja athygli lesenda á að Emma, í íslenskri þýðingu, er meðal bóka í jólabókaflóðinu svokallaða þetta árið. 

Viðbót 22.11.2012: Ég hef nú lokið við Memoir of Jane Austen en hef ekki miklu við ofangreint að bæta. Ágætis kafli var um ritstörf Austen sem slík og afstöðu hennar til þeirra og í lok bókar var birtur lokakafli Persuasion, sem Austen tók út og breytti á síðustu stundu, sem og útdráttur af því sem hún var búin að skrifa af Sanditon.

No comments:

Post a Comment