Monday, December 31, 2012

Una og Meistarinn

Ég hef nú lokið við tvær bækur í viðbót. Fyrst las ég Unu eftir Óttar M. Norðfjörð. Það er mjög stutt síðan ég las aðra bók eftir Óttar, Áttablaðarósina, og skrifaði um hana þennan pistil. Mér finnst Una mjög ólík Áttablaðarósinni sem og öðrum bókum sem ég hef lesið eftir Óttar. Hingað til hafa mér fundist bækur Óttars mjög spennandi en söguþráðurinn oft langsóttur - jafnvel ótrúverðugur  - þó að hann gæti átt sér stoð í raunveruleikanum. Þrátt fyrir það hef ég haft gaman af bókum Óttars. Ég get ekki lýst Unu á sama hátt þó að söguþráður bókarinnar sé með þeim langsóttari. Í fyrsta lagi fannst mér bókin ekki það spennandi fyrr en í lokin og í öðru lagi hafði ég ekki sérlega gaman af henni. Una er ekki bók sem lætur manni líða vel.

Í Unu er sögð saga Unu Helgu Gottskálksdóttur sem hefur nýlega misst ungan son sinn. Sonur hennar hvarf þegar þau voru tvö í lautarferð á Reykjanesi og blindbylur skall á. Þó að tíu mánuðir séu liðnir frá því að sonur Unu hvarf trúir hún því enn að hann sé á lífi og leitar hans ákaft. Leit Unu hefur leitt til skilnaðar hennar við eiginmann og barnsföður og ættingjar og vinir óttast mjög um hana.  Lesandinn fær að fylgjast með rannsóknum, pælingum og furðulegum kenningum Unu sem leiða að lokum til mjög svo dularfullrar atburðarrásar.

Ef ég ætti að lýsa Unu í einu orði þá myndi ég lýsa henni sem draugasögu. Mér finnst að sú staðreynd að Una sé draugasaga ætti að koma skýrt fram á bókarkápunni (sem það gerir ekki þó að það sé aðeins ýjað að því). Sjálf er ég nefnilega ekkert sérstaklega hrifin af draugasögum og forðast þær eftir bestu getu. Ég er reyndar svo lítið hrifin, að eftir að ég las Ég man þig eftir Yrsu Sigurðardóttur, sem er að mínu mati ógeðsleg draugasaga, þá er ég hætt að lesa bækur eftir Yrsu. Ég var þ.a.l. ekkert sérlega hrifin af Unu. Jafnvel þó ég myndi dæma Unu eingöngu út frá því að hún sé draugasaga þá fannst mér hún ekkert sérstaklega góð sem slík. Ég var t.d. ekki jafn skíthrædd og þegar ég las Ég man þig. Bókin sat ekki í mér, ég gat auðveldlega sofnað að lestri loknum og ég þurfti bara tvisvar að grípa í Símon til að fá andlegan stuðning á meðan lestrinum stóð.

Næsta bók sem ég las er Meistarinn eftir tvo sænska höfunda, þá Hjorth og Rosenfeldt. Bókin er sjálfstætt framhald bókarinnar Maðurinn sem var ekki morðingi sem kom út í fyrra. Aðalpersóna bókaseríunnar er réttarsálfræðingurinn Sebastian Bergman. Sebastian á mjög glæsta fortíð sem rannsakandi hjá morðdeild lögreglunnar en má muna sinn fífil fegri. Hann hefur orðið fyrir áfalli og miklum missi og á erfitt með að vinna sig út úr því. Hann er ekkert sérstaklega viðkunnanleg persóna en áhugaverð. Maður heldur með honum og vonar að hann taki sér tak.

Þegar Meistarinn hefst þá hafa þrjár konur verið myrtar. Lögreglan telur ljóst að um sé að ræða hermikráku, þ.e. raðmorðingja sem hermir eftir öðrum þekktum raðmorðingja. Sebastian átti þátt í að handtaka fyrirmyndina sem hefur verið í fangelsi í fjórtán ár þegar bókin hefst ef ég man rétt. Sebastian treður sér í rannsóknarteymi morðdeildarinnar, þrátt fyrir  mikla mótstöðu, og fær  að taka þátt í rannsókninni.

Mér finnst Meistarinn virkilega góð glæpasaga og því miður miklu betri en þær íslensku glæpasögur sem ég hef lesið þetta árið. Mér finnst einfaldlega mun meira í hana lagt, bæði fléttuna og persónurnar. Fléttan heldur manni spenntum allan tímann. Af þeim fimm "jólabókum" sem ég er búin að lesa að svo komnu mæli ég sem sagt mest með Meistaranum. Ég vil samt taka fram að bókin er mikill doðrantur, rúmar 500 bls., og því sannarlega ekkert léttmeti ef fólk er að leita að slíku. 

Friday, December 28, 2012

Ár kattarins, Rof og Reykjavíkurnætur

Jæja, þrjár búnar - mjög margar eftir! Fyrsta "jólabókin" sem ég las í ár var Ár kattarins eftir Árna Þórarinsson. Ár kattarins er áttunda bók Árna um þrautseiga blaðamanninn Einar. Ég held að ég hafi lesið þær flestar (því miður ekki allar) og hef alltaf haft frekar gaman af Einari og pælingum hans um lífið og tilveruna. Það er nokkuð margt að gerast í þessari bók. Einar kemur bæði að lausn morðmáls og  alvarlegs líkamsárásarmáls en auk þess lendir hann í miðjunni á pólítískum  átökum innan stjórnmálaflokks (Jafnaðarbandalagsins svokallaða). Mér fannst morðmálið verst útfært af þessum þremur meginþáttum sögunnar en hitt fannst mér nokkuð vel gert. Morðmálið er í sjálfu sér mjög áhugavert og óvenjulegt. Mér fannst þó allt of lítið lagt í lausn málsins. Lausnin kom einhvern veginn af sjálfu sér og án allra skemmtilegra vísbendinga.

Ég myndi ekki segja að Ár kattarins væri ein af þeim bókum sem eru svo spennandi að maður getur ekki lagt þær frá sér. Hún er ekki ofurspennandi. Hún mallar samt ágætlega áfram og þar sem maður er farinn að kannast við persónurnar er manni ekki sama hvernig er farið með þær. Mér finnast samtímalýsingar Árna svo mjög skemmtilegar og finnst hann oft mjög fyndinn. Hann er einn af fáum rithöfundum sem mér finnst takast að skrifa um samtímann, með vott af ádeilu, án þess að það verði tilgerðarlegt eða "besservisseralegt". Sem dæmi má nefna eftirfarandi klausu þar sem Einar fer yfir fréttir dagsins, sjá bls. 113: 

Ríkisstjórnin stendur ekki við neitt, segir ASÍ. Höfum staðið við allt, segir forsætisráðherra. Borgarstjórinn í Reykjavík vill gera höfuðborgina að griðastað fyrir geitunga á norðurhveli jarðar. Háskólarektor undirritar samstarfssamning við LÍÚ um fjármögnun hlutlægrar rannsóknar á kostum og göllum kvótakerfisins og vill fá birta mynd af sér við þann gjörning. Unglingadrykkja dregst saman en marijúanareykingar aukast. „Áfengisverð orðið allt of hátt,“ segir álitsgjafi. Gjaldeyrishöftum kennt um aukningu innlendrar framleiðslu marijúana. Blóðug átök í Breiðholti rakin til skipulagðra glæpasamtaka. „Fráleitt,“ segir foringi þeirra. „Við erum fjölskylduvæn samtök áhugafólks um bifhjól.“

Í stuttu máli er Ár kattarins góð bók sem ég mæli með. Ég hugsa samt að þeim, sem hafa engar bækur lesið um Einar blaðamann, finnist hún ruglandi þar sem það eru margar tilvísanir í fyrri sögur.

Næsta bók sem ég las er Rof eftir Ragnar Jónasson. Rof er fjórða bókin sem Ragnar skrifar um Ara lögreglumann á Siglufirði (sem var reyndar ekki orðinn lögreglumaður í fyrstu bókinni). Hingað til hafa mér fundist bækur Ragnars fremur þunnar. Svo þunnar að ég hef getað slátrað þeim á klukkutíma eða tveim og ekki mikið setið eftir. Myrknætti, sem er þriðja bókin, fannst mér þó alveg ágæt. Að mínu mati er Rof veglegasta saga Ragnars hingað til, þó að ég hafi nú ekki verið lengi að slafra henni í mig. Sagan gerist bæði í Reykjavík og á Siglufirði sem, ótrúlegt en satt, er í sóttkví. Ari nýtur aðstoðar Ísrúnar, fréttamanns í Reykjavík, við að leysa gamalt og löngu gleymt sakamál úr Héðinsfirði en að auki fáum við að fylgjast með tveimur sakamálum í Reykjavík í gegnum starf Ísrúnar þar sem pólitískt ráðabrugg kemur við sögu.

Fyrst fannst mér allt of margt að gerast í einu og ég áttaði mig ekki á því af hverju höfundurinn væri að blanda öllum þessum sögum og persónum saman. Það kom svo í ljós að það voru tengsl á milli þráðanna svo að þessi blanda var ekki alslæm. Sagan úr Héðinsfirði er veigamest og mér fannst margt áhugavert við hana. Drungalegar lýsingar úr firðinum og daður höfundar við draugasögur urðu  reyndar þess valdandi að mig langar aldrei að koma þar í myrkri. Verst fannst mér að Ari telur sig hafa leyst gátuna án allra almennilegra sönnunargagna - það eina sem hann hefur eru getgátur og hálfkveðnar vísur. Í ljósi þess hve gamalt málið á að vera er það kannski skiljanlegt að vissu leyti en mér fannst þetta samt ekki ganga nógu vel upp. Til dæmis vegna þess að Ari er lögreglumaður og ætti að hugsa sem slíkur við lausn þessa máls sem annarra. M.v. það hvernig gátan er leyst get ég svo vel séð fyrir mér að Ari hefði getað fundið eitthvað aðeins bitastæðara.

Mér fannst Ár kattarins betri en Rof en ég hugsa samt að sú síðarnefnda falli betur í kramið hjá mörgum. Hún er auðveld aflestrar og svo virðast drungi og draugatal höfða vel til fólks um þessar mundir. Rof er besta bók Ragnars hingað til að mínu mati.

Þriðja og síðasta bókin sem ég er búin að lesa að svo komnu er Reykjavíkurnætur eftir Arnald Indriðason. Sagan gerist stuttu eftir að Erlendur hefur hafið störf hjá lögreglunni og fjallar um hans fyrsta morðmál. Dauði útigangsmanns vekur áhuga Erlendar af persónulegum ástæðum og leiðir til þess að hann fer að rannsaka málið á eigin spýtur. Ég ætla nú ekki að segja mikið um söguþráðinn þar sem flestir kannast við Erlend og hans aðferðir sem og stíl Arnaldar. 

Að mínu mati er Reykjavíkurnætur nær því að vera söguleg skáldsaga en eiginleg glæpasaga eða spennusaga. Það er vissulega glæpur þarna (eða jafnvel glæpir) en mér fannst aðaláherslan vera á annað, þ.e. á Erlend sem persónu og tengsl hans við aðrar persónur; samstarfsfólk, aðstandendur, glæpa/undirmálsmenn og kærustu. Sögupervertinum í mér fannst svo mjög skemmtilegt að lesa um störf lögreglunnar á þessum árum (sagan gerist árið 1974 að ég tel), lýsingar á höfuðborginni sem og um aðstæður útigangsmanna. 

Reykjavíkurnætur er ágætlega skrifuð bók - ekki beinlínis spennandi en samt ágæt. Fín afþreying. Ég hugsa að flestir hafi gaman af henni.

Saturday, December 22, 2012

Smákökur með lakkrískurli og ristuðum kókos

Ég hef alls ekki verið dugleg að baka í desember - það hefur enda verið nóg annað að gera. Ég ákvað í dag að ég yrði að baka eina smákökusort, til að sýna smá lit og vera jólaleg. Ég fann þessa uppskrift á síðunni hjá Joy the Baker og ákvað að laga hana að því sem ég átti til í eldhúsinu. Kökurnar urðu mjög góðar, stökkar að utan en mjúkar að innan. Blandan af lakkríks og kókos verður til þess að kökurnar bera keim af lakkrískonfekti.






Smákökur með lakkrískurli og ristuðum kókos
225 g ósaltað smjör
1 bolli sykur
3/4 bolli púðursykur
1/2 tsk vanillusykur (það er líka hægt að nota 1 tsk/1 msk af vanilludropum)
2 1/2 bolli hveiti
3/4 tsk matarsódi
1/2 - 3/4 tsk salt (eftir smekk)
1 stórt egg og 1 stór eggja rauða (ég átti bara lítil egg og notaði þrjú þeirra í staðinn)
1/4 bolli kókosflögur
1 bolli lakkrískurl

1) Stillið ofninn á 175°C. Ristið kókosflögurnar við meðalhita á pönnu, þangað til þær brúnast. Setjið þær í skál að því loknu og kælið.


2) Bræðið smjörið á pönnu við meðalhita. Ætlunin er að brúna smjörið. Fyrst eiga loftbólur að myndast og smellir að heyrast. Smjörið byrjar að brúnast þegar loftbólurnar hverfa, smellirnir hætta og lyktin af smjörinu verður karmellukennd. Þegar smjörið er brúnað, takið það af pönnunni og geymið í skál eða könnu og kælið aðeins.

3) Blandið saman hveiti, matarsóda, salti og vanillusykri í meðalstórri skál (ef þið notið vanilludropa þá fara þeir í blönduna síðar). Setjið til hliðar.

4) Setjið báðar sykurtegundir í hrærivélarskál ásamt smjörinu og hrærið, á meðalhraða, í ca. 2 mínútur. Það er í lagi þó að það sjáist ennþá móta fyrir sykurkornunum. 

5) Blandið eggjunum saman við sykurinn og smjörið og hrærið á meðalhraða í 2 mínútur. Blandan á að verða silkimjúk. (Ef þið notið vanilludropa, setjið þá í blönduna á þessum tímapunkti og hrærið aðeins).

6) Hægið á hrærivélinni og blandið þurrefnunum smátt og smátt saman við. Hrærið þar til deigið er alveg að koma saman. Takið skálina þá úr hrærivélinni og blandið kókos og lakkrískurli saman við með sleikju eða sleif. Deigið er fremur þykkt. 

7) Notið matskeið til að móta deig í kúlur og raðið hæfilega mörgum á bökunarplötur Ég stráði smá af fínu sjávarsalti yfir kökurnar áður en ég setti þær í ofninn. Bakið kökurnar í 10-12 mínútur, eða þar til þær eru rétt brúnaðar. Þær eiga að vera fremur mjúkar. Takið úr ofninum og leyfið þeim að kólna í smá stund.

8) Borðið eða geymið í kökudunk.

(Ég gerði rúmlega 50 smákökur úr þessari uppskrift).

Friday, December 14, 2012

Hefndarþorsti

Þó að ég sé að farast úr spenningi fyrir jólabókunum (án gríns) þá tókst mér að klára eina bók - n.t.t. Hefndarþorsta eftir Michael Ridpath. Hefndarþorsti kom út fyrir jólin í fyrra og er sjálfstætt framhald bókarinnar Hringnum lokað. Sögurnar fjalla um hinn íslensk/bandaríska lögreglumann Magnus Jonsson. Magnus er fæddur á Íslandi en fluttist til Bandaríkjanna þegar hann var enn barn að aldri. Sögurnar gerast á Íslandi þar sem Magnus er að reyna að fóta sig að nýju eftir langa fjarveru.

Það má segja að Hefndarþorsti sé ein af hinum svokölluðu hrunbókum. Ég man hreinlega ekki hvað eru komnar út margar glæpasögur sem fókusera á útrásarvíkingana, hrunið og öll leiðinda eftirköstin. Það er a.m.k. ein slík bók komin út eftir Ævar Örn Jósepsson og líka eftir Arnald Indriðason ef ég man rétt. Ég man ekki eftir fleirum eins og er en mér finnst afar líklegt að þær leynist þarna úti. Satt að segja þá finnst mér of snemmt að skrifa um hrunið, aðdragandann og eftirköstin. Mér finnst það a.m.k. afar vandmeðfarið, einkum vegna þess að það er svo stutt í besservisserinn. Það er svo svakalega auðvelt að vera vitur eftir á.

Söguþráður Hefndarþorsta er í stuttu máli sá að tveir menn, tengdir bönkunum og útrásinni, finnast látnir og Magnus Jonsson aðstoðar íslensku lögregluna við að finna morðingjana.  Rannsóknin teygist bæði til Bretlands og Frakklands og er í ýmsa koppa að líta. Fortíð Magnusar á Íslandi herjar mjög á hann og svo er önnur saga í sögunni - ráðgátan um morðið á föður Magnusar.  Þá gengur á ýmsu í ástarlífi Magnusar og það má því segja að það sé nóg að gerast. Mér fannst baksaga Magnusar meira spennandi heldur en hrunsagan og drápin á útrásarvíkingunum. Síðarnefndi söguþráðurinn fannst mér afskaplega fyrirsjáanlegur. Ridpath leysir reyndar ekki úr fortíðarflækjunni í þessari bók og það er því augljóst að það verða fleiri bækur í seríunni (samkvæmt Amazon er þriðja bókin þegar komin út á ensku og Ridpath virðist byrjaður á þeirri fjórðu).

Ridpath er breskur og skrifar bækurnar á ensku. Ég veit ekki hvaða tengingu hann hefur við Ísland, eða af hverju hann velur að skrifa um Ísland, en það er augljóst að hann hefur unnið heimavinnuna sína. Hann veit ótrúlega margt um Ísland og íslenskt samfélag þó að honum takist ekki alveg að forðast klisjurnar. Það var samt oft eitthvað sem truflaði mig við orðaval. Mér fannst það stundum stirt og/eða skringilegt miðað við hvað umhverfið og aðstæðurnar eru kunnuglegar. Svo að ég nefni dæmi um orðaval sem mér finnst ekki ganga upp þá segir á einum stað að Magnus hafi "notið ásta". Þá er á öðrum stað talað um að önnur persóna hafi "sorðið" aðra. Mér finnst "að njóta ásta" afskaplega tilgerðarlegt orðaval og orðið "serða" er svo sjaldan notað í íslensku talmáli að ég er ekki einu sinni viss um að ég kunni að beygja það almennilega (serða er sennilega ekki orð sem grunnskólakennarar velja sérstaklega sem dæmi í málfræðitímum).

Að mínu mati er Hefndarþorsti bók sem er allt í lagi en ekkert meira en það. 

Tuesday, December 11, 2012

84 Charing Cross Road og The Prime of Miss Jean Brodie

84 Charing Cross Road eftir Helene Hanff og The Prime of Miss Jean Brodie eftir Muriel Spark eru tvær bækur sem ég hef ágirnst lengi. Árátta mín fyrir fyrrnefndu bókinni hefur þó staðið mun lengur yfir eða allt frá því að ég las Bókmennta- og kartöflubökufélagið (The  Guernsey Literary and Potato Peel Pie Society) eftir Mary Ann Shaffer og Annie Barrows fyrir nokkrum árum síðan. Frá því að ég las þá bók hef ég verið að leita að annarri sambærilegri. Leitin hefur gengið illa. 

Bókmennta- og kartöflubökufélagið er ein af mínum uppáhalds bókum. Frá því að ég keypti hana sumarið 2010 er ég búin að lesa hana a.m.k. tvisvar á ári. Bókin segir frá Juliet Ashton, ungum rithöfundi, sem fyrir tilviljun kemst í kynni við Bókmennta- og kartöflubökufélagið á Guernsey. Sagan gerist á Englandi stuttu eftir seinna stríð, aðallega í London og á Guernsey. Meginþema sögunnar er hernám Þjóðverja á Guernsey og upplifun heimamanna á eyjunni af því. Sagan er jafnframt saga Juliet og margra kostulegra karaktera á Guernsey. Sagan er skrifuð í formi bréfa. Flest bréfin eru annað hvort skrifuð af Juliet eða til Juliet en það er þó ekki algilt. Sagan er bæði sorgleg og fyndin og svo er sögulegi vinkillinn mjög áhugaverður. Lýsingar á staðarháttum á Guernsey eru það góðar að eftir hvern lestur langar mig að heimsækja eyjuna. Höfundar sögunnar eru Mary Ann Shaffer og Annie Barrows en Shaffer á meira í henni eftir því sem ég kemst næst. Shaffer fékk frænku sína, Barrows, til að aðstoða sig við að ljúka bókinni vegna veikinda. Shaffer lést svo áður en bókin kom út og sá Barrows því um útgáfuna. Þetta er eina skáldsagan sem komið hefur út eftir Shaffer. Barrows hins vegar hefur skrifað og gefið út barnabækur.

Eftir að hafa komist að því að fleiri skáldsögur væru ekki til eftir rithöfund Bókmennta- og kartöflubökufélagsins hóf ég þessa leit að annarri sambærilegri og jafn góðri bók. Leitin hefur ekki gengið vel hingað til eins og áður sagði. Ég rakst þó fljótlega á að margir mæltu með og líktu 84 Charing Cross Road eftir Hanff við Bókmennta- og kartöflubökufélagið. Sú bók var hins vegar ekki til sem rafbók og hvað þá í íslenskum bókabúðum. Ég ætlaði að leita að henni  þegar ég var í New York í fyrra en hafði ekki tíma til þess. Ég ákvað loks, rúmum tveimur árum síðar, að panta hana af Amazon ásamt öðrum bókum sem mig vantaði sárlega.

84 Charing Cross Road er ekki löng bók. Hún er reyndar svo stutt að það er auðvelt að klára hana á einu kvöldi. Bókin  er ekki skáldsaga heldur bréfasafn. Í bókinni eru rakin 20 ára bréfaskipti höfundarins Helene Hanff við starfsmenn bókabúðar í London sem var staðsett við 84 Charing Cross Road.  Hanff, sem var búsett í New York, sendi bókabúðinni upphaflega beiðni um nokkrar fágætar bækur en samband hennar við starfsmennn búðarinnar (aðallega einn) þróast svo og verður að vináttu. Það eru það mikil líkindi með þessari bók og Bókmennta- og kartöflubökufélaginu að ég trúi ekki öðru en að annað hvort Shaffer eða Barrows hafi haft hana í huga við skrif bókarinnar. Það eru ákveðin líkindi með aðalpersónunum (eða aðalbréfaskrifurunum), húmorinn er líkur og svo snýst söguþráðurinn að miklu leyti í kringum bækur. Bréfaskrifarar ræða jafnvel um og dást af sömu bókum í báðum sögum.

Þar sem 84 Charing Cross Road er ekki skáldsaga fær maður  ekki að vita jafn mikið um persónurnar og baksöguna og maður hefði viljað. Ég hafði samt mikla ánægju af því að lesa þetta bréfasafn. Það er svo frábær tilhugsun að það hafi verið til fólk í alvörunni sem var svona fyndið og frábært. Nú langar mig að lesa allt sem komið hefur út eftir Hanff, sem var aðallega handritshöfundur en hefur þó gefið út nokkrar bækur. Þær bækur eru auðvitað ekki til sem rafbækur. Ætli það líði ekki tvö ár þangað til ég hef mig í að panta hinar..

Fyrir jólin í fyrra kom út í íslenskri þýðingu bókin Langur vegur frá Kensington (A Far Cry From Kensington) eftir Muriel Spark. Ég las hana þá og líkaði stíllinn og söguþráðurinn vel. Það er það langt síðan ég las söguna að ég man söguþráðinn ekki nógu vel til að geta endursagt hann en ég man að þessi lestur varð til þess að mig langaði til að lesa meira eftir Spark. Eftir stutta könnun komst ég að því að bókin The Prime of Miss Jean Brodie væri frægasta og jafnframt besta bók Spark og beit því í mig að lesa hana sem fyrst. Ég lenti hins vegar í sömu vandræðum með hana og með 84 Charing Cross Road og fékk bókina því ekki í hendurnar fyrr en með pöntuninni um daginn.

The Prime of Miss Jean Brodie er mjög sérstök bók. Hún segir sögu Jean Brodie, kennara í klassískum stúlknaskóla í Edinborg sem notar óhefbundnar kennsluaðferðir. Sagan er ekki sögð af Brodie sjálfri heldur byggir hún á upplifun sex stúlkna úr nemendahóp Brodie sem hún tók að sér. Stúlknahópurinn er nefndur "the Brodie set" en stúlkurnar eiga það sameiginlegt að vera allar frægar fyrir eitthvað í skólanum, hvort sem það eru hæfileikar eða útlit.  Lesandinn fær í raun aldrei að vita mikið um Brodie, aðeins það sem stúlkurnar hafa eftir henni eða halda um hana. Sagan varpar ekki beinlínis ljósi á það hvernig Brodie hlúir að sambandi sínu við stúlkurnar þar sem lesandinn hefur aðeins þeirra orð fyrir því að hún sé frábær. Mér fannst alveg óskiljanlegt af hverju þær dást að henni og halda tryggð við hana. Það sem stendur upp úr er að Brodie endurtekur í sífellu nokkur slagorð,  t.d. að hún sé "in her prime" og að hún ætli að gera stúlkurnar sex að "crème de la crème" í skólanum, og svo segir hún stúlkunum frá og gerir þær jafnvel að þáttakendum í ástarlífi sínu. Að lokum svíkur ein stúlknanna Brodie sem verður til þess að hún er rekin úr skólanum og deyr svo stuttu seinna.

Stíll þessarar bókar er nokkuð sérstakur. Höfundurinn hoppar til dæmis fram og aftur í tíma, oft í sama kaflanum, og veður úr einu í annað. Það tók mig smá tíma að venjast þessu en þetta hafðist að lokum. The Prime of Miss Jean Brodie er svona bók sem ég veit ekki hvað mér finnst um. Ég veit að það er einhver boðskapur þarna en ég er ekki alveg viss hver hann er. Það endar sennilega með því að ég les hana aftur bara til að átta mig betur á henni.