Tuesday, January 14, 2014

Jólabókaflóðið

Jæja. Ég er búin að lesa sex bækur frá jólum og hef því miður ekki verið nægilega dugleg að punkta hjá mér hvað mér fannst um þær. Obbosí. Vegna þess ætla ég að leyfa mér að skrifa einn pistil og fjalla aðeins stuttlega um þær allar.

Fiskarnir hafa enga fætur eftir Jón Kalman Stefánsson: Ég er mikill aðdáandi Jóns Kalmans og hann olli mér ekki vonbrigðum með þessari bók. Fiskarnir hafa enga fætur er fjölskyldusaga. Hún gerist á þremur plönum; fyrir tíð aðalpersónunnar Ara, í fortíð Ara og í nútíð Ara. Mér fannst sérstaklega skemmtileg sagan sem gerist fyrir tíð Ara sem er saga afa hans og ömmu á Norðfirði. Fortíð Ara er einnig áhugaverð. Hann ólst upp í Keflavík og sambúð Keflvíkinga og hersins er mjög stormasöm - og þar með áhugaverð. 

Það kom mér á óvart hvað Fiskarnir hafa enga fætur er mikil kvennasaga. Konur eru oft fókus sögunnar og höfundur leggur mikið á sig til að koma þeirra sögum (og misrétti) á framfæri. Þetta er með feminískari bókum sem ég hef lesið þar sem höfundurinn er karlkyns. Textinn er fallegur og svo er Jón Kalman oft fyndinn. Endirinn er þannig að það hlýtur að koma framhald.


Skuggasund eftir Arnald Indriðason: Skuggasund er klassísk Arnaldarsaga. Ef þið eruð yfirleitt hrifin af Arnaldi þá finnst ykkur þetta góð bók. Ég er samt ekki sammála því að þetta sé besta bók Arnaldar - mitt uppáhald er ennþá Grafarþögn. Í Skuggasundi er Arnaldur með nýjar aðalpersónur (engan Erlend) og tvö sögusvið; Reykjavík á stríðsárunum og samtímann. Aðalpersónurnar gripu mig ekki sérstaklega en Arnaldur dregur upp góða mynd af Reykjavík fyrri tíma. 




Krákustelpan og Hungureldur eftir Erik Axl Sund: Þessar bækur eru fyrsta og önnur bókin í þríleiknum um Victoriu Bergman. Virkilega góðir krimmar. Ég myndi segja að söguþráðurinn sé frekar óhefðbundinn m.v. glæpasögu en hann á samt eitthvað skylt við Millennium þríleik Stieg Larsson. Það kemur ekki að sök að mínu mati. Þessar bækur héldu mér alveg og ég get ekki beðið eftir næstu bók. Eins og er þá get ég ekki ímyndað mér hvernig þetta endar. 

Höfundarnir eru tveir (Jerker Eriksson og Håkan Axlander Sundquisten) en hafa tekið sér þetta sameiginlega höfundanafn. Mér finnst þeir alveg vera með þetta - alltaf þegar að ég held að ég sé búin að fatta plottið þá koma þeir með eitthvað nýtt sem kemur mér á óvart. 


The Rehearsal eftir Eleanor Catton: Þessi bók, sem er verðlaunuð í bak og fyrir, fannst mér frekar skrýtin. Ekki endilega leiðinleg en skrýtin. Ég er ennþá að velta fyrir mér um hvað hún var. Þegar ég var búin að lesa endirinn varð ég hálf rugluð. Mér fannst bókin ekki vera búin. Það er vika síðan ég kláraði hana og ég hugsa enn til hennar af og til. Um hvað var hún? 






Arabella eftir Georgette Heyer: Ef ykkur langar að lesa eitthvað sem svipar mjög til Pride and Prejudice þá er Arabella málið fyrir ykkur... England árið 1817, tvær heillandi aðalpersónur (fátæk ung, skemmtileg stúlka og ríkur myndarlegur maður), misskilningur í samskiptum og góður endir. Austen fannst þetta gott plott og það fannst Georgette Heyer líka - bara 130 árum seinna en Austen. Ekkert mjög frumleg...

Þetta er ein af bókunum sem Goodreads ráðlagði mér að lesa, með hliðsjón af því hvað ég hef lesið áður, og ég sé svo sem ekkert eftir því að hafa farið eftir þeim ágætu ráðleggingum. Arabella er ágætis afþreying. Bókin er sennilega aðeins auðveldari aflestrar fyrir þá sem eru að byrja að lesa svona bækur en bækurnar eftir Austen sjálfa þar sem hún er skrifuð aðeins seinna.