Monday, September 2, 2013

Sumarið - Undantekningin - Skýrsla 64

Ég var mjög löt við blogg í sumar. Eins og sennilega fleiri. Þrátt fyrir að veðrið sé ekkert sérstakt þá finnur maður sér alltaf eitthvað annað að gera en að hanga í tölvunni... eins og að taka tilgangslausar myndir af rósinni við svefnherbergisgluggann.





Ég bakaði líka þessa köku, úr The Back in the Day Bakery Cookbook (sem ég skrifaði um hér), sem inniheldur hvorki meira né minna en hálft kg af súkkulaði:


Kakan var virkilega góð en ég hugsa að ég baki hana ekki of oft. Hún er frekar mikið.

Ég bragðaði á þessum líka dásamlega ís í Valdís (nokkrum sinnum reyndar þrátt fyrir langar raðir):
 

Og eðlilega, eftir öll þessi sætindi, þá nennti ég lítið að elda og vesenast í eldhúsinu. Besti kvöldmaturinn var því svona:
 
 
Ég las einhverjar bækur en var því miður ekki dugleg að punkta niður  hvað mér fannst um þær. Ég las t.d. Skýrslu 64 eftir Jussi Adler Olsen. Mér fannst hún allt í lagi en ekkert meira en það. Mér fannst uppbygging textans og stíllinn eitthvað ruglingslegur. Bókin er reyndar í miðjunni á einhverri seríu um nokkra lögreglumenn, sem ég hef ekkert kynnt mér áður og enga aðra bók í henni lesið, og það skýrir kannski eitthvað. Það er samt mín skoðun að góðir krimmar eigi að vera þannig að maður þurfi ekki að hafa lesið sögurnar sem á undan komu til að fatta um hvað málið snýst.

Ég las líka Undantekninguna eftir Auði Övu Ólafsdóttur, sem mig langaði til
að lesa eftir að ég las Rigningu í nóvember, sjá hér. Mér fannst Undantekningin ekki jafn skemmtileg og Rigning í nóvember - aðalpersónan var ekki jafn skemmtileg og söguþráðurinn sem slíkur ekki nógu spennandi heldur. Aðalplottið  hins vegar var nokkuð töff og aukapersónan Perla áhugaverð. Ágæt bók.

Núna er ég að lesa þríleikinn Skurðir í rigningu - Sumarið bakvið brekkuna - Birtan á fjöllunum eftir Jón Kalman Stefánsson. Ég er nýbyrjuð á þriðju bókinni og kann vel að meta hingað til. Vonandi meira um það síðar.


Súpa með chilli og sætri kartöflu

Jæja, þá er haustið komið. Í tilefni þess ætla ég að birta þessa uppskrift að súpu með chilli og sætri kartöflu sem ég gerði fyrir nokkru síðan (í júlí - það var líka haust þá). Ég nota þessa "uppskrift" oft og laga hana bara að því sem ég á í ísskápnum hverju sinni. Það er ekkert heilagt við þessa súpu. Það er nánast hægt að skipta grænmetistegundunum í súpunni út fyrir hvaða aðra tegund sem er (eða bæta við tegundum) en mér finnst samt alltaf best að nota sæta kartöflu sem grunn. Venjulegar kartöflur og gulrætur geta þó vel komið í staðinn fyrir hana. Annað sem er í uppskriftinni á ég oftast til í eldhúsinu.

Súpa með chilli og sætri kartöflu
3 chilli (án stilks og fræhreinsuð nema þið viljið hafa súpuna mjög sterka)
1 sæt kartafla (flysjuð og skorin í 4-5 bita)
1 laukur (afhýddur og skorinn í tvennt)
klípa af salti
160 ml kókosmjólk
8 dl vatn 
1/4 dl limesafi
4 msk Bong kjúklinga- og/eða nautakraftur (eða einn og hálfur teningur af öðrum krafti)
1 tsk túrmerik
3 msk rjómaostur (ég notaði Philadelphia sweet chilli rjómaost í þetta skipti)
1 msk hunang
1 tsk maldon salt

1) Setjið grænmetið í pott ásamt vatni og klípu af salti og sjóðið þar til það er tilbúið.

2) Sigtið grænmetið frá vatninu og maukið það í matvinnsluvél. 

3) Setjið maukaða grænmetið aftur í pott ásamt 8 dl af vatni (þið getið hvort sem er notað vatn úr krananum eða vatnið sem þið notuðuð til að sjóða grænmetið í áður - ef þið gerið það síðarnefnda myndi ég samt sigta mesta gruggið úr) og sjóðið.

4) Bætið restinni af innihaldsefnunum út í súpuna og hitið að suðu. Leyfið súpunni að malla við lágan hita í nokkrar mínútur eftir að suðan hefur komið upp. 

6) Berið fram með brauði eða öðru góðgæti og njótið.