Monday, December 31, 2012

Una og Meistarinn

Ég hef nú lokið við tvær bækur í viðbót. Fyrst las ég Unu eftir Óttar M. Norðfjörð. Það er mjög stutt síðan ég las aðra bók eftir Óttar, Áttablaðarósina, og skrifaði um hana þennan pistil. Mér finnst Una mjög ólík Áttablaðarósinni sem og öðrum bókum sem ég hef lesið eftir Óttar. Hingað til hafa mér fundist bækur Óttars mjög spennandi en söguþráðurinn oft langsóttur - jafnvel ótrúverðugur  - þó að hann gæti átt sér stoð í raunveruleikanum. Þrátt fyrir það hef ég haft gaman af bókum Óttars. Ég get ekki lýst Unu á sama hátt þó að söguþráður bókarinnar sé með þeim langsóttari. Í fyrsta lagi fannst mér bókin ekki það spennandi fyrr en í lokin og í öðru lagi hafði ég ekki sérlega gaman af henni. Una er ekki bók sem lætur manni líða vel.

Í Unu er sögð saga Unu Helgu Gottskálksdóttur sem hefur nýlega misst ungan son sinn. Sonur hennar hvarf þegar þau voru tvö í lautarferð á Reykjanesi og blindbylur skall á. Þó að tíu mánuðir séu liðnir frá því að sonur Unu hvarf trúir hún því enn að hann sé á lífi og leitar hans ákaft. Leit Unu hefur leitt til skilnaðar hennar við eiginmann og barnsföður og ættingjar og vinir óttast mjög um hana.  Lesandinn fær að fylgjast með rannsóknum, pælingum og furðulegum kenningum Unu sem leiða að lokum til mjög svo dularfullrar atburðarrásar.

Ef ég ætti að lýsa Unu í einu orði þá myndi ég lýsa henni sem draugasögu. Mér finnst að sú staðreynd að Una sé draugasaga ætti að koma skýrt fram á bókarkápunni (sem það gerir ekki þó að það sé aðeins ýjað að því). Sjálf er ég nefnilega ekkert sérstaklega hrifin af draugasögum og forðast þær eftir bestu getu. Ég er reyndar svo lítið hrifin, að eftir að ég las Ég man þig eftir Yrsu Sigurðardóttur, sem er að mínu mati ógeðsleg draugasaga, þá er ég hætt að lesa bækur eftir Yrsu. Ég var þ.a.l. ekkert sérlega hrifin af Unu. Jafnvel þó ég myndi dæma Unu eingöngu út frá því að hún sé draugasaga þá fannst mér hún ekkert sérstaklega góð sem slík. Ég var t.d. ekki jafn skíthrædd og þegar ég las Ég man þig. Bókin sat ekki í mér, ég gat auðveldlega sofnað að lestri loknum og ég þurfti bara tvisvar að grípa í Símon til að fá andlegan stuðning á meðan lestrinum stóð.

Næsta bók sem ég las er Meistarinn eftir tvo sænska höfunda, þá Hjorth og Rosenfeldt. Bókin er sjálfstætt framhald bókarinnar Maðurinn sem var ekki morðingi sem kom út í fyrra. Aðalpersóna bókaseríunnar er réttarsálfræðingurinn Sebastian Bergman. Sebastian á mjög glæsta fortíð sem rannsakandi hjá morðdeild lögreglunnar en má muna sinn fífil fegri. Hann hefur orðið fyrir áfalli og miklum missi og á erfitt með að vinna sig út úr því. Hann er ekkert sérstaklega viðkunnanleg persóna en áhugaverð. Maður heldur með honum og vonar að hann taki sér tak.

Þegar Meistarinn hefst þá hafa þrjár konur verið myrtar. Lögreglan telur ljóst að um sé að ræða hermikráku, þ.e. raðmorðingja sem hermir eftir öðrum þekktum raðmorðingja. Sebastian átti þátt í að handtaka fyrirmyndina sem hefur verið í fangelsi í fjórtán ár þegar bókin hefst ef ég man rétt. Sebastian treður sér í rannsóknarteymi morðdeildarinnar, þrátt fyrir  mikla mótstöðu, og fær  að taka þátt í rannsókninni.

Mér finnst Meistarinn virkilega góð glæpasaga og því miður miklu betri en þær íslensku glæpasögur sem ég hef lesið þetta árið. Mér finnst einfaldlega mun meira í hana lagt, bæði fléttuna og persónurnar. Fléttan heldur manni spenntum allan tímann. Af þeim fimm "jólabókum" sem ég er búin að lesa að svo komnu mæli ég sem sagt mest með Meistaranum. Ég vil samt taka fram að bókin er mikill doðrantur, rúmar 500 bls., og því sannarlega ekkert léttmeti ef fólk er að leita að slíku. 

No comments:

Post a Comment