Sunday, September 30, 2012

Krispí eplapæ með kanil

Fyrir helgi gaf samstarfskona mín mér nokkur epli sem hún ræktar í garðinum sínum hér í Reykjavík (nei, ég er ekki að plata). Eplin eru mjög falleg, græn og fremur lítil, en mjög súr á bragðið. Ég átti von á gestum í dag og ákvað í tilefni þess að nota eplin og baka eplapæ. Bæði gerir sykurinn og bökunin eplin æt og svo er  svo notalega haustlegt eitthvað að borða heitt eplapæ. Eftirfarandi uppskrift er aðeins breytt uppskrift frá Joy the Baker (er í Joy the Baker Cookbook) og er mjög góð. Mér varð oft hugsað til Nigella Lawson þegar ég var að útbúa deigið - þar sem það þarf að nota hendurnar svo mikið (þið sem hafið horft á þættina hennar skiljið) og vegna þess er ég kannski enn hrifnari af þessari uppskrift en ella - enda er ég mikill aðdáandi eldunaraðferða hennar.

Krispí eplapæ með kanil
Fylling:
7 meðalstór epli (ég notaði tíu af þessum litlu grænu og svo tvö meðalstór rauðgul).
5 tsk sykur
2 1/2 tsk kanill

1) Hitið ofninn í 175°C. Smyrjið fremur stórt eldfast mót með smjöri. 

2) Flysjið eplin og skerið í litla bita. Setjið bitana í mótið.

3) Blandið saman sykri og kanil í lítilli skál. Stráið kanilsykrinum jafnt yfir eplabitana. Notið hendurnar til að blanda þessu jafnt og vel saman. Setjið mótið svo til hliðar og undirbúið deigið.
Deigið:
2 bollar hveiti
2 bollar púðursykur
1 tsk kanill
1 bolli saxaðar pecanhnetur (ca. 100 g poki)
2/3 bolli haframjöl
1 bolli mjúkt ósaltað smjör (ca. 225 g)

1) Blandið hveiti, púðursykri, kanil, hnetum og haframjöli saman í stórri skál.

2) Skerið smjörið í litla bita og notið hendurnar til að blanda því saman við þurrefnablönduna.

3) Takið lófafylli af deiginu og setjið saman við eplin. Notið hendurnar til að blanda þessu jafnt saman. 

4) Setjið restina af deiginu jafnt yfir eplin.
5) Bakið í 50-60 mínútur - eða þangað til það byrjar að "bubbla" í eplunum og deigið er dökknað. (Ég hafði álpappír yfir mótinu fyrstu 25 mínúturnar svo að deigið myndi ekki verða of dökkt).

6) Takið pæið úr ofninum og kælið það aðeins áður en þið borðið. Berið fram með vanilluís eða þeyttum rjóma. Njótið.

No comments:

Post a Comment