Monday, November 11, 2013

Rosie verkefnið og Maður sem heitir Ove

Ég er nýbúin að lesa tvær frábærar bækur, annars vegar Rosie verkefnið og hins vegar Maður sem heitir Ove. Sú fyrrnefnda er eftir ástralskan höfund, Graeme Simsion, en sú síðarnefnda eftir sænskan, Fredrik Backman. Ég hef ekki lesið bækur eftir þessa höfunda áður.

Bækurnar tvær eiga ýmislegt sameiginlegt. Ég myndi t.d. lýsa þeim báðum sem feel good bókum. Þá er aðalpersónan í báðum tilvikum sérvitur karlmaður. Svo hló ég oft upphátt við lestur þeirra beggja. Loks, ég myndi lýsa hvorugri þeirra sem bókmenntalegu afreki þó  skemmtilegar séu.

Rosie verkefnið fjallar um erfðafræðinginn Don Tillman. Það upplýsist fljótlega að Don er ekki alveg "venjulegur" en sterkar vísbendingar eru gefnar um að hann sé með Asperger heilkenni. Don, sem gengið hefur illa í kvennamálum, ákveður að finna sér eiginkonu. Hann velur óhefðbundna leið í því verkefni og er kannski helst hægt að segja að hann reyni að nota vísindalegar aðferðir til að ná takmarki sínu. Mér fannst sagan frábær og hló oft upphátt eins og áður sagði. Sumir hafa kvartað yfir því að sagan sé klisjukennd þegar að kemur að lýsingum á Asperger. Ég er ekki sammála því. Mér finnst sagan engan veginn gera lítið úr þeim sem eru með Asperger heldur þvert á móti. Fannst höfundurinn frekar leitast við að sýna okkur að a) það þurfa ekki allir að vera eins og b) það getur verið kostur að vera öðruvísi.

Maður sem heitir Ove er um eldri mann sem í upphafi sögu er á frekar slæmum stað í lífinu - og
vægast sagt pirraður út í allt og alla. Þegar nýir nágrannar flytja í hverfið breytist líf hans til hins betra - þó að hann sjálfur sé nú ekki sammála því í fyrstu. Við fáum svo að fylgjast með því hvernig líf Ove breytist smátt og smátt. Höfundur fléttar jafnframt baksögu Ove inn í söguþráðinn og við fáum að vita hvernig Ove varð eins og hann er. Mér fannst það vel gert - þ.e. fortíð Ove skýrir nútíð hans vel.

Það er mikið grín gert að Svíum í bókinni. Sögupersónur há endalaust stríð vegna ágreinings um Saab og Volvo (sem er mjöög fyndið), búsetufélög spila stóran sess, allir eiga að flokka ruslið sitt, velferðarkerfið gengur af göflunum o.s.frv. Ég man reyndar ekki eftir því að sögupersónur hafi borðað kjötbollur, því miður.

Ég mæli með báðum þessum bókum fyrir alla. Mér fannst Rosie verkefnið ívið betri en Maður sem heitir Ove þó að ég vilji helst ekki gera upp á milli þeirra.

No comments:

Post a Comment