Thursday, August 30, 2012

Tvær matreiðslubækur

Nýlega pantaði ég mér tvær matreiðslubækur á Amazon, annars vegar Joy The Baker Cookbook og hins vegar The Back in the Day Bakery Cookbook.

Þær komu fyrir svona mánuði síðan og síðan þá er búin að fletta þeim báðum fram og til baka. Ljósmyndirnar í báðum bókum eru einkar fallegar... svo fallegar reyndar að fyrsta kvöldið eftir að ég fékk þær, og byrjaði að skoða, neyddist ég til að senda Símon út eftir ís - ég var orðin svo sætindasvöng. Báðar bækurnar eru aðallega með uppskriftum að kökum og öðru sætmeti þó að ýmislegt annað skemmtilegt leynist inn á milli. Bækurnar eiga það líka sameiginlegt að höfundarnir skrifa inngang að hverri uppskrift, t.d. söguna af því hvernig viðkomandi uppskrift varð til eða frá hverjum hún kemur, við hvaða tækifæri hún er helst notuð o.fl. Mér finnast svona uppskriftasögur mjög skemmtilegar og finnst jafn gaman að lesa þær og skoða myndirnar af kökunum (og ímynda mér að ég sé að borða þær). 

Joy the Baker er uppáhalds bloggarinn minn og það fyrst og fremst var hvatinn að því að ég keypti bókina hennar. Hún skrifar þetta blogg hér sem ég kíki inn á nánast daglega (og stundum tvisvar á dag). Það sem mér finnst svo skemmtilegt við Joy er að þó að hún starfi sem kokkur (og komi úr mikilli mataráhugafjölskyldu) er hún ekki lærð sem slíkur. Joy hefur komið sér áfram í þessum bökunarheimi þrátt fyrir að vera ómenntuð - með því einu að leggja sig fram og vera frábær í því sem hún gerir. Bókin hennar finnst mér að mörgu leyti skemmtileg. Það eru  mjög fjölbreyttar uppskriftir í henni og svo eru fallegar myndir með hverri uppskrift. Annað skemmtilegt við bókina er að sumar uppskriftir Joy innihalda mjög óvenjulegar samsetningar. Joy er t.d. mikill aðdáandi beikons og hnetusmjörs og má finna annað hvort í hinum ótrúlegustu uppskriftum - t.d. er uppskrift af beikonvöfflum sem Joy ber fram með sírópi og smjöri (Joy sparar almennt ekki við sig hitaeiningar). Það eru líka nokkrar klassískar grunnuppskriftir í bókinni, t.d. af ýmsum kremum, og góðar almennar leiðbeiningar varðandi ýmislegt tengdu bakstri. Ég er búin að prófa tvær uppskriftir, vanillubollakökur (sem voru mjög góðar - mjúkar að innan, stökkar að utan og ljúfar á bragðið) og hnetusmjörsköku (kremið með uppskriftinni er eitt af því besta og fallegasta sem ég hef búið til) en ég tók því miður ekki myndir af bökunarferlinu. Þær uppskriftir sem eru í bókinni eru, eðlilega, ekki birtar á bloggsíðu Joy. Á heimasíðunni eru samt margar góðar uppskriftir - það margar að maður þarf ekkert á þessari bók á halda þó maður sé fanatískur aðdáandi Joy. Ég hef prófað nokkrar uppskriftir af heimasíðunni og hef yfirleitt verið ánægð með útkomuna. Ég hef t.d. prófað þessa uppskrift að breskum skonsum sem er mjög góð. Í uppskriftinni eru súkkulaði og appelsínubörkur til að gefa skonsunum bragð en það er hægt að skipta þeim út fyrir allt mögulegt, t.d. hnetur, ber (fersk/þurrkuð), rúsínur o.s.frv. ef manni langar að hafa eitthvað annað. Skemmtileg bók og samkvæmt minni reynslu eru uppskriftir Joy góðar uppskriftir.

The Back in the Day Bakery Cookbook er bökunarbiblía - það er hægt að finna uppskrift að nánast öllu bökunarkyns í bókinni. Bókin er skrifuð af hjónunum Cheryl og Griffith Day sem reka bakarí í Savannah í Georgíu. Þau kynntust, fundu að þau áttu sameiginlegt áhugamál (mat og eldamennsku) og urðu ástfangin. Síðan stofnuðu þau ofurkrúttlegt bakarí, sem mig langar núna að heimsækja, og skrifuðu þessa fallegu bók. Það eru myndir, mjög fallegar, með langflestum uppskriftum í bókinni en því miður ekki öllum. Annar galli við bókina er að það eru voða oft vesenis (bandarísk) innihaldsefni í uppskriftunum sem er hvergi hægt að finna hér á landi - t.d.  nota þau oft sérstakt cake flour... hvar fær maður það? Ég var vongóð um að það væri kannski til í Kosti en þrátt fyrir að þar sé mjööög margar hveititegundir að finna er ekki til þetta sérstaka kökuhveiti (ég er alvarlega að hugsa um að senda Jóni Gerald Sullenberger fyrirspurn um þetta). Ef ykkur langar að sjá sýnishorn af uppskriftum þeirra Cheryl og Griffith þá má finna eina hér. Þetta er uppskrift sem ég rakst á og er jafnframt ástæða þess að ég varð að kaupa þessa bók. Ég er bara búin að prófa eina uppskrift í bókinni, bláberjamuffins (sjá myndir hér fyrir neðan) og hún var mjög góð og einföld. Samstarfskona mín er svo búin að prófa tvær aðrar, klassíska súkkulaðiköku og sítrónurjómastykki.  Henni fannst súkkulaðikakan ekkert sérstök en sítrónustykkin fundust henni æðisleg. Þó að ég sé ekki búin að prófa fleiri af uppskriftum Cheryl og Griffith mæli ég hiklaust með bókinni  - ef ekki til að nota við bakstur þá bara til að horfa á og fletta.
Einn annar uppáhaldsbloggarinn minn, smitten kitchen, er líka að gefa út matreiðslubók sem kemur út þann 30. október nk. Ég er ansi hrædd um að ég verði að panta hana líka en ég ætla samt að reyna að sitja á mér... a.m.k. fram að jólum.
 

No comments:

Post a Comment