Sunday, September 9, 2012

Red Velvet

Red Velvet kaka er uppáhalds kakan mín. Þið sem hafið smakkað slíka köku skiljið það sennilega en þið hinir.. í guðanna bænum smakkið. Mín Red Velvet uppskrift er eftirfarandi.






Red Velvet
2 bollar hveiti
1 tsk matarsódi
1 tsk lyftiduft
1 tsk salt
2 msk kakóduft
2 bollar sykur
1 bolli grænmetisolía 
2 egg
1 bolli súrmjólk
2 tsk vanilludropar
30-60 ml rauður matarlitur (ég nota alltaf eina flösku af Rayner's matarlit)
1 tsk hvítvínsedik
1/2 bolli heitt kaffi

1) Stillið ofninn á 165°C. Blandið hveiti, matarsóda, lyftidufti, salti og kakódufti saman í meðalstórri skál.

2) Blandið  sykri og olíu saman í annarri skál, fremur stórri.

3) Blandið eggjum, súrmjólk, vanilludropum og matarlit saman við olíuna og sykurinn. 

4) Blandið kaffinu og edikinu saman við rauðu blönduna.

5) Setjið þurrefnablönduna smátt og smátt saman við rauðu blönduna á meðan þið hrærið. Ég nota þeytara til að blanda þessu vel saman en hef hann á lágum hraða.

6) Setjið deigið í tvö smurð form (níu eða tíu tommu) og bakið í 30-40 mín. Fylgjist vel með kökunni og notið tannstöngulsaðferðina til að athuga hvort hún sé tilbúin. Kælið kökuna svo á meðan kremið er gert.
Ég fékk þá flugu í höfuðið þegar ég var að baka kökuna í dag að baka frekar cupcakes þó að deigið sé ekki miðað við það sérstaklega. Ég gerði tólf cupcakes úr ca. helmingnum af deiginu en þar sem það heppnaðist ekkert sérlega vel (sennilega þar sem ég setti of mikið í formin) ákvað ég að gera einn tíu tommu botn úr restinni af deiginu. Það er samt hefðbundið að gera tvo stóra botna (döh).

Mér finnst kakan best með rjómaostakremi líkt og er almennt með Red Velvet. Það er hins vegar miklu fallegra að setja frosting  á hana - því það er svo svakalega hvítt og contrastar mjög fallega við rauða litinn.  Mér finnst frosting samt ekki jafn gott með og rjómaostakremið - það er of sætt. Svo er agalegt vesen að búa það til. Hér á eftir eru uppskriftir af báðum kremum. Ég gerði rjómaostakrem með kökunni í dag og skreytti með kókosflögum sem ég ristaði stuttlega á pönnu.

Rjómaostakrem
220 g philadelphia rjómaostur (við stofuhita)
100 g ósaltað smjör (við stofuhita)
Klípa af salti
2 bollar flórsykur
2 tsk vanilludropar

1) Hrærið rjómaostinn með þeytara eða í hrærivél í ca. eina mínútu - eða þangað til að hann verður mjúkur og meðfærilegur. Stoppið þeytarann og skrapið ostinn niður með hliðunum á skálinni með sleikju. 

2) Bætið smjörinu við og hrærið aftur í ca. eina mínútu - eða þar til þetta er vel blandað saman. Stoppið og skrapið aftur niður með hliðunum á skálinni.

3) Bætið saltinu og vanilludropunum við og sigtið flórsykurinn í blönduna. Þeytið á lágum hraða þangað til þetta er næstum blandað saman. Stoppið þá þeytarann og skrapið niður með hliðunum á skálinni. Þeytið svo stuttlega þar til allt er komið saman. Kremið á að vera flauelsmjúkt.
Frosting
300 g sykur
2 dl vatn
6 eggjahvítur
1 1/2 msk síróp
1 1/2 tsk vanilludropar

Sjóðið sykur og vatn saman í potti í ca. 12-15 mínútur eða þangað til blandan þykknar. Á meðan eru eggjahvíturnar þeyttar í hrærivél. Hellið sykurleginum svo út í eggjahvíturnar í mjórri bunu ásamt sírópinu og vanilludropunum. Þeytið blönduna þar til hún kólnar og berið strax á kökuna (kremið er mjög ómeðfærilegt ef það er látið bíða, þess vegna er mikilvægt að búa það ekki til fyrr en kakan er kólnuð).

No comments:

Post a Comment