Sunday, December 15, 2013

Andköf og Gröfin á fjallinu

Ég er búin að lesa tvær glæpasögur úr flóðinu þetta árið. Annars vegar Andköf, eftir Ragnar Jónsson, og hins vegar Gröfina á fjallinu, eftir Hjorth og Rosenfeldt. Í stuttu máli þá var ég ekkert sérlega hrifin af þessum bókum en ekkert sérlega ósátt við þær heldur. Þær voru báðar lala.

Ég hafði sérstakan áhuga á Andköfum þar sem mínar heimaslóðir eru sögusvið bókarinnar. Sögurþráðurinn er í stuttu máli sá að ung kona finnst látin í Kálfshamarsvík út á Skaga. Konan hafði alist upp í Kálfshamarsvík en flutt þaðan í burtu eftir miklar hörmungar, bæði móðir hennar og lítil systir létust á dularfullan hátt á staðnum. Ari, lögreglumaður á Siglufirði, sem er aðalpersónan í sögum Ragnars, er fenginn til að koma að rannsókn málsins. 

Mér fannst sami galli á þessari bók Ragnars og öðrum bókum sem ég hef lesið eftir hann (sem ég held að séu allar bækurnar hans, sjá t.d. umfjöllun hér). Hún er allt of þunn. Í upphafi bókar er lagt upp með rosalega ráðgátu og þ.a.l. býst maður við rosalegri fléttu. Þessi rosalega flétta kemur hins vegar aldrei. Gátan er eiginlega engin gáta og er allt of auðveldlega leyst - án almennilegra sönnunargagna. Niðurstaðan verður vonbrigði. Mér fannst sögusviðið líka illa nýtt en ég er kannski ekki alveg hlutlaus hvað það varðar. Andköf er samt ágætis afþreying sé maður að leita að slíku. Fljótlesin bók.

Gröfin á fjallinu er þriðja bók Hjorth og Rosenfeldt um réttarsálfræðinginn Sebastian Bergmann. Áður hafa verið gefnar út hér bækurnar Maðurinn sem var ekki morðingi og Meistarinn um Sebastian, sjá mína umfjöllun hér. Maðurinn sem var ekki morðingi er að mínu mati ein besta norræna glæpasagan sem gefin hefur verið út á íslensku og því les ég samviskusamlega allar bækur sem á eftir koma.

Sagan hefst með því að fjöldagröf finnst upp á fjalli og morðdeildin, sem Sebastian starfar með, er kölluð til. Rannsóknin gengur illa til að byrja með, það reynist erfitt að bera kennsl á hin látnu og þ.a.l. að rekja slóð þeirra og morðingjans. Þá eru lögreglumennirnir og Sebastian sjálfur að glíma við
mörg persónuleg vandamál. Vegna þeirra ákveður Sebastian að yfirgefa rannsóknina, rétt eftir að hún hefst. Ég vil ekki segja of mikið um lausn málsins en ég vil þó segja að mér að mér fannst hún of keimlík söguþræðinum í Millennium bókum Stieg Larsson - sænskt samsæri. Ég er ekki nógu hrifin af samsærum.

Mér fannst Gröfin á fjallinu vera sísta bókin í seríunni hingað til. Kannski af því að Sebastian, sem er ósvífnasti og jafnframt skemmtilegasti karakterinn í bókunum, kom svo lítið að rannsókninni. Hann var fyrst og fremst að glíma við vandræði í sínu einkalífi í bókinni og er almennt mjög aumkunarverður alla bókina. Það er bara ekki jafn áhugavert ef hann er ekki samhliða að sýna hversu mikill snillingur hann er. Gröfin á fjallinu er samt engan veginn versta glæpasaga sem ég hef lesið og það er auðvitað nauðsynlegt að lesa hana ef maður er sérstakur áhugamaður um Sebastian eins og ég.

No comments:

Post a Comment