Monday, August 13, 2012

Súkkulaðikaka með vanillusmjörkremi og ganache

Ein uppáhaldskakan mín til að baka er þessi súkkulaðikaka frá Bakerella. Þetta er ekki alveg venjuleg súkkulaðikaka þar sem hún er ekki með einföldu súkkulaðikremi, heldur er fyrst sett  á hana vanillusmjörkrem og síðan ganache (sem er rjómi og súkkulaði brætt saman) yfir allt saman. Kakan er vægast sagt mjög góð - þó að hún toppi ekki aðaluppáhaldið mitt sem er Red Velvet kaka. Meira um  hana síðar. 

Kökuna sjálfa er mjög auðvelt að baka og lítið um það að segja - uppskriftin gæti varla verið einfaldari. Ég geri þó eina breytingu á henni, þ.e. set heitt kaffi í staðinn fyrir heitt vatn. Ég notaði vatn þegar ég gerði hana fyrst en finnst muna miklu að setja kaffi í staðinn. Það verður ekkert kaffibragð af kökunni en kaffið dregur fram súkkulaðibragðið. Ég nota ekki hrærivél frekar en venjulega en það er mjög auðvelt að hræra deigið saman með sleif eða sleikju. Annað, ég á ekki níu tommu form líkt og Bakerella notar fyrir þessa uppskrift. Formin sem ég nota eru að ég held tíu tommu og þ.a.l. stytti ég bökunartímann og baka kökuna aðeins í rúmt korter. Þó að þið eigið níu tommu form myndi ég fylgjast vel með bökuninni, með því að stinga tannstöngli eða öðru oddmjóu í kökuna. 28-30 mín. er frekar langur tími þó að formið sé minna. Þegar tannstöngullinn kemur hreinn út þá er kakan tilbúin. Ef kakan er bökuð of lengi þá verður hún þurr og þar með ekki jafn góð.
Ég hef átt í vandræðum með ganache-ið á þessari köku. Það er svo lengi að stífna hjá mér.  Ég er búin að reyna ýmislegt í því sambandi. Í fyrsta skiptið þá hellti ég ganache-inu bara yfir kökuna þó að það væri þunnt. Það breytti svo sem engu fyrir bragðið en það fór ganache út um allt í prósessinu. Í annað skiptið sem ég gerði kökuna þá sleppti ég smjörinu í uppskriftinni en það breytti engu. Bragðið var jafn gott sem fyrr en ganache-ið var ekki fljótara að stífna. Ég hef svo prófað að gera ganache-ið fyrst af öllu, áður en ég geri kökuna sjálfa og smjörkremið, en það dugir ekki heldur til - jafnvel þó að ég kæli það í ísskápnum á meðan ég vinn. Ég er farin að halda að bandarískur "heavy cream" sé einfaldlega þykkari en rjóminn okkar og að það sé ástæða þessara vandræða. Ef sú er raunin er a.m.k. ljóst að ég þarf að finna einhverja aðra uppskrift að ganache til að nota með kökunni. Kannski er hægt að auka aðeins súkkulaðimagnið eða minnka rjómann/smjörið. Ég þarf að kynna mér það betur. Samkvæmt hinni góðu heimild Wikipediu er hefðbundið að hafa hlutföllin af súkkulaði/rjóma einn á móti einum þegar nota á ganache í hjúp sem þennan. Eigi að nota ganache-ið til fyllingar hins vegar eru hlutföllin tveir af súkkulaði á móti einum af rjóma - sem sagt mun meira af súkkulaði. Þar er einnig gefin sú ábending að þeyta ganache-ið ef það á nota til að hjúpa köku. Þar sem ég hef ekki enn komist að góðri niðurstöðu um þetta efni, og hafði ekki tíma til frekari rannsókna/tilrauna í þetta sinn, ákvað ég að gera ganache-ið vel tímanlega eða kvöldið áður en ég ætlaði að setja kökuna saman. Ég háði mikla innri baráttu varðandi það hvort ég ætti að geyma ganache-ið í kæli eða ekki yfir nóttina. Það endaði með því að ég ákvað að geyma það undir opnum glugga þar sem ég var hrædd um að það yrði of þykkt ef það yrði í ísskápnum. Röng ákvörðun. Ganache-ið varð aðeins þykkra en áður hjá mér en samt ekki nógu þykkt. 
Það er rosalegt magn af flórsykri í smjörkreminu sem fylgir kökuuppskriftinni - eða heilir sex bollar.  Það eru að ég tel rúmlega 750 g - eða einn og hálfur pakki - og það er of mikið af mínu mati. Ég set ekki meira en einn pakka (stundum minna). Svo eyk ég aðeins við vanilludropamagnið og set tvær tsk. í staðinn fyrir eina - bara af því að mér finnst ekkert passa jafnvel með súkkulaði og vanillubragð og vil ýkja það aðeins. Ég hef svo alltaf sleppt því að setja súkkulaðiflögur í kremið líkt og Bakerella gerir. Það er alveg nóg súkkulaðibragð af kökunni þó að því sé sleppt.


Kakan lítur ekki nærri því jafn vel út hjá mér og hjá Bakerella - það er augljóst að mín er heimabökuð. Í fyrsta lagi verður smjörkremið aldrei jafn hvítt á litinn hjá mér og hjá henni og í öðru lagi þá verður kakan mín ekki jafn slétt og fullkomin í hlutföllum. Ég velti því stundum fyrir mér hvort Bakerella photashoppi myndirnar af kökunum sínum - af því þær eru svo svakalega fullkomnar - en kannski er hún bara svona klár. En útlitið er ekki aðalatriðið. Aðalatriðið er að kakan er góð.
 

No comments:

Post a Comment