Saturday, January 26, 2013

Vanillubollakökur með súkkulaðimola

Uppáhalds bollakökurnar mínar eru vanillubollakökur - þær eru einfaldar, mjög góðar og fallegar - og þess vegna baka ég þær nokkuð oft. 

Eftir jól átti ég of mikið af súkkulaðimolum og konfekti sem ég vildi endilega losna við. Ég ákvað því að baka vanillubollakökur með nýju twisti - súkkulaðimola í miðjunni.  Það var ágætt en ég verð samt að játa að mér finnast kökurnar betri án súkkulaðimola. Súkkulaðimolarnir voru með allskonar fyllingu og mér fundust kökurnar líka misgóðar eftir því hvernig fylling var í molanum. Best fannst mér að hafa piparmyntu- eða karamellufyllingu.

Vanillubollakökur með súkkulaðimolum (12-15):
1 1/3 bolli hveiti
3/4 tsk lyftiduft
1/4 tsk salt
115 g ósaltað smjör
1 bolli sykur
2 stór egg
3 tsk vanilludropar
1/2 bolli mjólk
12-15 súkkulaðimolar

1) Stillið ofninn á 175°C. Takið til form fyrir bollakökur.

2) Blandið hveiti, lyftidufti og salti saman í meðalstórri skál. Setjið til hliðar.

3) Hrærið smjör og sykur saman þar til blandan verður létt og ljós, í ca. 3-5 mínútur. Bætið svo við öðru egginu og hrærið í eina mínútu. Bætið hinu egginu við og hrærið aftur.

4) Hrærið vanilludropana saman við. Setjið síðan helminginn af hveitiblöndunni saman við og hrærið á litlum hraða. Setjið mjólkina því næst í blönduna og hrærið.

5) Setjið restina af hveitiblöndunni saman við og hrærið þar til blandan er nánast fullkomlega blönduð saman. Takið þá skálina úr hrærivélinni og notið sleikju til að hræra deigið alveg saman.

6) Skiptið deiginu á milli bollakökuforma.  Setjið einn súkkulaðimola í hvert form fyrir miðju.


7) Bakið í 20-25 mínútur eða þar til kökurnar byrja að brúnast. Kælið kökurnar og setjið svo kremið á.


Vanillusmjörkrem (dugir á 12-15 bollakökur):
90 g ósaltað smjör
1 bolli flórsykur
1 tsk mjólk
3/4 tsk vanilludropar

1) Hrærið smjörið í nokkrar mínútur, þar til það verður létt og ljóst.

2) Skrapið niður hliðarnar á skálinni og bætið flórsykrinum við. Hrærið á litlum hraða fyrst en aukið svo hraðann þar til þetta blandast vel saman.

3) Blandið mjólkinni og vanilludropunum saman við og hrærið á miklum hraða í ca. 1 mínútu.

4) Sprautið á kökurnar. (Mér finnst betra að hafa frekar lítið krem á hverri köku, þetta er því frekar lítil uppskrift). 

 

No comments:

Post a Comment