Sunday, December 15, 2013

Kókostoppar

Til að taka aðeins þátt í jólabrjálæðinu þá bakaði ég kókostoppa í gær. Uppskriftina, sem ég hafði til hliðsjónar, fann ég aftan á kókosflögupokanum sem ég hafði keypt (mjög amerískur kókos úr Kosti). Ég sé ekki eftir því að hafa prófað þá uppskrift. Að öðrum kókostoppum ólöstuðum þá eru þetta bestu kókostoppar sem ég hef smakkað. Þetta var líka mjög fljótlegt. Uppskriftin er eftirfarandi og ég mæli rosalega mikið með henni.

Kókostoppar:
1 poki af Baker's Angel Flake Sweetened Coconut (fæst í Kosti, sjá mynd hér fyrir neðan)
2/3 bolli sykur
6 msk hveiti
1/2 tsk Maldon salt
4 eggjahvítur (ég var með svo lítil egg að ég þurfti að nota 5 til að deigið yrði nógu blautt)
2 tsk vanilludropar
200 g suðusúkkulaði (ca.)

1) Hitið ofninn í 160°C. Hrærið saman kókosflögur, sykur, hveiti og salt í stórri skál.
 

2) Hrærið eggjahvíturnar og vanilludropana vel saman við. Það er ágæt regla að brjóta eggin og setja í aðra skál en deigskálina fyrst. Ef eggin skyldu vera skemmd þá kemur það í veg fyrir að allt deigið eyðileggist. 

3) Setjið bökunarpappír á tvær ofnplötur. Notið matskeið til að búa til litlar kúlur úr deiginu og setjið á plöturnar. 


4) Bakið í ca. 20 mínútur eða þar til kökurnar eru farnar að brúnast aðeins. Takið plötuna þá úr ofninum og setjið kökurnar strax á grind til að kæla þær. 


5) Bræðið súkkulaðið þegar kökurnar eru orðnar alveg kaldar. Hjúpið helming af hverri köku með súkkulaði og bíðið þar til súkkulaðið kólnar.

No comments:

Post a Comment