Wednesday, August 22, 2012

Throne of Glass

Eftir að hafa lesið A Discovery of Witches var ég vel stemmd fyrir fleiri ævintýri. Ég sótti mér því aðra slíka sögu í Kindle, sem heitir Throne of Glass, og hellti mér í lesturinn. 

Throne of Glass kom út núna í sumar. Hún fjallar um hina ungu Celaena Sardothien sem er 18 ára vel þjálfaður leigumorðingi í konungsríkinu Adarlan - sem er í einhverjum allt öðrum heimi en okkar. Þegar sagan byrjar er Celaena fangelsuð. Hún hafði verið gripin ári fyrr við sín vafasöm störf og sett í þrælabúðir. Hún er svo heimsótt af krónprinsinum í Adarlan sem býður henni annað tækifæri - tækifæri á frelsi. Celaena ákveður að grípa það tækifæri en frelsið er ákveðnum skilyrðum háð. Sagan fylgir svo baráttu Celaenu í glerkastalanum í höfuðborginni Rifthold og félagslífi hennar við hirðina. Fljótlega byrjar samband krónprinsins og Celaenu að þróast í átt að einhverju meira en það ætti að vera - en það eru fleiri um hituna. Samkvæmt upplýsingum frá höfundi bókarinnar er söguþráðurinn lauslega byggður á sögunni um Öskubusku. Að hennar sögn kviknaði hugmyndin að sögunni  þegar hún  ímyndaði sér hvað hefði gerst ef Öskubuska hefði farið á ballið til að drepa prinsinn í staðinn fyrir að dansa og verða ástfangin.

Aðalpersónan Celaena fannst mér ekki alltaf nógu sannfærandi. Mér fannst hún full ungæðingsleg og hrokafull miðað við stöðu hennar og fyrri störf, eða ekki nógu þroskuð, og ég lét það stundum fara í taugarnar á mér. Markhópur bókarinnar er reyndar Young Adult og kannski er ég, sem er kominn hátt í þrítugsaldurinn, einfaldlega of gömul fyrir hana. Ég held (og vona) samt að það sé ekki málið. Throne of Glass er reyndar fyrsta skáldsaga Sarah J. Maas og það gæti haft eitthvað að segja. Af endi bókarinnar að dæma er augljóst að Maas ætlar að skrifa bókaseríu um Celaenu. Á heimasíðu Maas fann ég upplýsingar um að hún væri þegar búin að skrifa þrjár fyrstu bækurnar og að hún ætlaði að þetta yrði löng sería. Ég vona því að Maas  eigi eftir að þróa og betrumbæta persónu Celaenu meira. Sagan er fljótlesin og hálfgert léttmeti en hún lofar samt góðu. Ég er a.m.k. forvitin að vita hvernig líf Celaenu þróast. Í bókinni byrjar reyndar klassískur ástarþríhyrningur að myndast. Mér finnast svona ástarþríhyrningar oft hvimleiðir - þeir geta leitt til þess að eilífar vangaveltur um það með hverjum aðalpersónan endar verða aðalatriði sögunnar. Maas tókst að gera ástarþríhyrningin að aukaatriði í þessari fyrstu bók.

Svo að það komi fram þá er Maas búin að gefa út fjórar smásögur, eða Novellur, sem eru bara til í rafbókarformi. Þær sögur gerast áður en Throne of Glass byrjar og segja okkur forsöguna, frá þjálfun Celaenu, fyrstu ástinni og frá því að hún var fangelsuð. Sögurnar eru mjög fljótlesnar og ég er strax búin að lesa fyrstu tvær, The Assassin and the Pirate Lord og The Assassin and the Desert. Þar sem ég er ótrúlega forvitin býst ég fastlega við að lesa líka hinar tvær (The Assassin and the Underworld (sem ég finn því miður ekki á Amazon) og The Assassin and the Empire). Oft finnst mér óþægilegt að byrja á svona bókaseríum - fyrir mig er þetta skuldbindandi. Ég  er svo óforbetranlega forvitin að ég verð að vita hvernig sagan endar og finnst ég þannig bundin við að lesa allar bækurnar. Þetta er ein af ástæðunum fyrir því að ég var mjög treg til að byrja á Game of Thrones á sínum tíma - ég vissi að það stefndi í langt  og erfitt samband. Ég hef það sama á tilfinningunni núna og finnst mjög óþægilegt að vita ekki hversu margar bækurnar um Celaenu verða og hvenær næsta bók kemur út.

Svona bækur eins og Throne of Glass eru mitt guilty pleasure. Eitthvað segir mér að ég eigi að vera lesa eitthvað menningarlegra en ég reyni eftir bestu getu að hunsa það. Það að lesa snýst ekki bara um menntun, fræðslu o.s.frv. - lestur er líka afþreying. Maður má nú stundum gera eitthvað bara af því að það er skemmtilegt.

Viðbót 23.08.2012: Á bloggsíðu Maas fann ég upplýsingar um að næsta bók komi sennilega út haustið 2013. Jafnframt um að hún væri með samning um útgáfu þriggja bóka eins og er en hún hafi alltaf áætlað að bækurnar yrðu sex talsins.

No comments:

Post a Comment