Sunday, December 22, 2013

Goodreads / Neverwhere

Ég er alltaf að leita að góðum fantasíum sem eru ekki partur af seríu. Ég er orðin agalega þreytt á að byrja að lesa einhverja seríu, vera ánægð með söguna og spennt, en fá ekki að vita hvernig sagan endar fyrr en eftir mörg ár. Ég er með nógu mikið af svona í gangi og ég nenni þessu ekki lengur.

Ég er farin að nota Goodreads síðuna mikið, bæði til að halda utan um hvað ég hef lesið og til að finna bækur sem mig langar að lesa. Það eru alls konar hjálplegir fítusar á Goodreads fyrir bókaunnendur. Ég uppgötvaði nýlega að maður getur óskað eftir bókameðmælum frá öllu samfélaginu á Goodreads. Ég prófaði að setja inn beiðni um svona meðmæli. Sagðist vera að leita að góðri fantasíu sem væri ekki partur af seríu. Ég fékk þrjár ágætis uppástungur, frá fólki sem ég þekki ekki neitt, en sem vill greinilega deila gleðinni.

Ein af uppástungunum sem ég fékk var Neverwhere eftir Neil Gaiman. Ég hef ekkert lesið eftir Gaiman áður en ég komst að því þegar ég fór að kynna mér hann að bíómyndin Stardust, sem ég hafði lúmskt gaman af, var gerð eftir bók Gaiman með sama nafni. Gaiman skrifaði Neverwhere upphaflega sem handrit að þáttum fyrir BBC. Þegar serían var tekin upp fannst Gaiman of miklu sleppt þannig að hann ákvað að skrifa skáldsögu byggða á handritinu líka.

Aðalpersóna Neverwhere er Richard Mayhew sem er ósköp venjulegur breskur ungur maður sem starfar í fjármálageiranum í London. Hann á frekar fáa vini og því miður mjög leiðinlega unnustu. Líf Richard breytist þegar hann hjálpar óvenjulegri ungri stúlku sem birtist skyndilega fyrir framan hann, veikburða og blóðug. Það kemur í ljós að stúlkan, Door, tilheyrir öðrum heimi, London Below eða undirheimum Lundúnaborgar, þar sem  er (nánast) engin lög og regla og galdrar o.fl. eru enn við lýði. Richard á ekki um aðra kosti að velja en að slæpast í för með Door í London Below og lendir í ýmsum háska. 

Ég hafði gaman af Neverwhere. Það eru margar skemmtilegar persónur í sögunni, aðstoðarmaður Door, the Marquis de Carabas, er háll sem áll og leigumorðingjarnir Mr. Croup og Mr. Vandemar eru algjör viðbjóður - á spaugilegan hátt. Richard sjálfur er mjög breskur og hálfgerður auli en mjög fyndinn sem slíkur. Hann fær svo að þroskast þegar líður á söguna. Húmor Gaiman höfðaði vel til mín og þó að Neverwhere sé ekki gamansaga í grunninn þá hló ég oft upphátt við lesturinn. Nokkur dæmi:
“There are four simple ways for the observant to tell Mr. Croup and Mr. Vandemar apart: first, Mr. Vandemar is two and a half heads taller than Mr. Croup; second, Mr. Croup has eyes of a faded china blue, while Mr. Vandemar's eyes are brown; third, while Mr. Vandemar fashioned the rings he wears on his right hand out of the skulls of four ravens, Mr. Croup has no obvious jewelery; fourth, Mr. Croup likes words, while Mr. Vandemar is always hungry. Also, they look nothing at all alike.”
“What a refreshing mind you have, young man. There really is nothing quite like total ignorance, is there?”
 “Richard did not believe in angels, he never had. He was damned if he was going to start now. Still, it was much easier not to believe in something when it was not actually looking directly at you and saying your name.”
Sem sagt, ef þið hafið gaman af góðum fantasíum og breskum úrvals húmor þá mæli ég með Neverwhere. 

No comments:

Post a Comment