Thursday, June 27, 2013

Rigning í nóvember

Ég var að lesa bókina Rigningu í nóvember eftir Auði Övu Ólafsdóttur. Rigning í nóvember er fyrsta bókin sem ég les eftir Auði Övu. Af einhverjum ástæðum hefur hún farið fram hjá mér þangað til nú, sem er mjög svekkjandi því mér fannst þetta frábær bók - vel skrifuð, fyndin og skemmtileg. Ég verð að lesa fleiri bækur eftir hana sem fyrst. Margir hafa mælt með  Afleggjaranum og Undantekningunni og ég ætla að reyna að koma höndum yfir þær.

Rigning í nóvember fjallar um nýfráskilda konu sem ákveður að breyta lífi sínu, bæði meðvitað og ómeðvitað. Hún tekur að sér að hugsa um heyrnarlausan og sjónskertan son vinkonu sinnar þegar sú síðarnefnda þarf að leggjast inn á spítala. Þau tvö leggja svo af stað í ferðalag austur á land þar sem óvenju blautt veðurfar o.fl. óvænt atvik há þeim... a.m.k. til að byrja með.

Aðalpersóna sögunnar starfar sem prófarkalesari og þýðandi. Hún er mjög hæfileikarík og klár en yfirleitt hálf utan við sig. Hún lætur sig reka með straumnum og er oft fjarri raunveruleikanum. Þessi karaktereinkenni leiddu oft til spaugilegra atvika, t.d. þegar maðurinn hennar segir henni, í frekar löngu máli, að hann vilji skilja:
- Ekki lengur. Þú ættir líka að vita það með alla þína víðfeðmu þekkingu - hann segir það háðslega - að órökstudd gagnrýni hjá karlmanni er ekki fjarri dulbúinni aðdáun. Karlmenn hafa ekkert á móti kvenfólki með reynslu. Ég viðurkenni að stundum vildi ég óska að þú byggir yfir víðfeðmari reynslu á þessu sviði.
Ég hegg eftir því að hann notar tvisvar orðið víðfeðmur. Ef þetta væri próförk myndi ég ósjálfrátt strika það út í annað skiptið, án þess endilega að velta fyrir mér innihaldi textans.
Í stað þess að dvelja við tilfinningar sínar til eiginmannsins og hjónabandsins er hún víðsfjarri. Hún prófarkales eiginmann sinn frekar en að "díla" við aðstæðurnar og taka þátt í samtalinu. Hún reynir hvorki að ná honum aftur né að skammast í honum á móti. Oft fara svona lufsukarakterar í taugarnar á mér en ekki í þessari bók. Auði Övu tekst vel upp með sína aðalpersónu sem er allt í senn - symptatísk, fyndin og pirrandi.

Uppáhalds persónan mín var samt móðir aðalpersónunnar. Hún er ekki bara hin fullkomna alúðlega og umhyggjusama móðir, sem fær jafnvel gerviplöntur til að vaxa, heldur er hún líka ráðagóð og mikill spekingur: 
Eftir ferð með vinkonu sinni til Kína í fyrra er hún [móðirin] byrjuð að læra kínversku, fyrsta erlenda tungumálið á eftir dönskunni.
- Þegar ég sá hvað þeir voru margir, segir hún, fannst mér ekki annað hægt. Upp á framtíðina.
Innsæi og viska móðurinnar er þannig að hún fær mann bæði til að hugsa sig um, vera betri manneskja og hafa gaman af.

Aftast í bókinni eru uppskriftir höfundar af öllum mat og drykkjum sem nefndir eru á nafn í sögunni. Uppskriftirnar eru ekki bara gagnlegar heldur líka skemmtilegar. Einkum þótti mér fyndin uppskriftin af ódrekkandi kaffi. Hún ber vott um að höfundur hafi hugsað það mál út í gegn.

Þó að það sé kannski óþarft að taka það fram, með hliðsjón af ofangreindu, þá mæli ég með að þið lesið Rigningu í nóvember. 

No comments:

Post a Comment