Saturday, September 1, 2012

Hin ótrúlega pílagrímsganga Harolds Fry

Ég gær lauk ég við Hina ótrúlegu pílagrímsgöngu Harolds Fry. Bókin hefur notið mikilla vinsælda hér á landi (sem og annars staðar) og er ein mest selda bók sumarsins. Bókin er svo tilnefnd til hinna virtu Booker verðlauna. Af einhverjum ástæðum fór þessi bók alveg fram hjá þar til nú í lok ágúst þegar ég keypti hana - eftir að hafa heyrt fleiri en eina lofræðu um hvað hún væri frábær. Mér finnst ekki gott að lesa bækur sem aðrir hafa áður hype-að upp fyrir mér en ég fell þó mjög oft í þá gryfju. Enda get ég ekki lifað með því að ég missi mögulega af frábærri bók. 

Mér fannst saga Harolds Fry ekki jafn frábær og mörgum öðrum  Söguefnið er vissulega áhugavert og frumlegt en það gerist varla neitt - og það sem gerist gerist mjög hægt. Sagan fjallar um Harold Fry sem er kominn á eftirlaun, er í ástlausu hjónabandi og lifir frekar tilbreytingarlausu lífi. Harold Fry er mjög enskur. Hann er svaka kurteis og talar ekki við aðra nema hann nauðsynlega þurfi þess og er þá afskaplega vandræðalegur. Einn daginn fær Harold bréf frá fyrrum samstarfs- og vinkonu sinni. Í bréfinu kemur fram að hún sé að deyja og vilji kveðja Harold. Harold vandræðast eitthvað með bréfið, ákveður svo að svara því en þegar hann er að fara með svarbréfið út í póstkassa ákveður hann að ganga til hennar - til að bjarga lífi hennar. Harold á heima mjög sunnarlega á Englandi en vinkonan mjög norðarlega og þetta er því nokkuð löng gönguferð, sérstaklega í ljósi þess að Harold undirbýr sig ekkert og tekur engan göngubúnað með sér. Á göngunni rifjar Harold upp ævi sína og kynnist sjálfum sér betur  - sem og mörgum öðrum skrýtnum karakterum. Sagan er eiginlega þroskasaga Harolds sem verður loksins reiðubúinn að horfast í augu við og gera upp sína eigin ævi á meðan göngunni stendur - og breyta því sem þarf að breyta. Gangan verður líka til þess að eiginkona Harolds ákveður að hugsa sinn gang.

Mér leiddist eiginlega á meðan lestrinum stóð. Mér leiddist að lesa sífellt um landslagið sem Harold gekk fram hjá, endalausar (stuttar) lýsingar á skrýtnu fólki sem hann hitti og hvað honum leið afskaplega illa oftast nær. Í bland við eitthvað meira áhugavert hefði verið skemmtilegt að lesa um þetta en eitt og sér fannst mér þetta ekki nóg. Svo fannst mér allt við endinn afskaplega fyrirsjáanlegt. Höfundurinn leynir mann ákveðnum upplýsingum lengi vel en það er samt frekar augljóst allan tímann hverjar þær eru. Bókin er svo sem ágætis dægradvöl ef manni langar að lesa eitthvað þægilegt og viðburðasnautt.

Á meðan lestrinum stóð varð mér oft hugsað til annarar bókar, sem ég las fyrir nokkru, sem fjallar líka um enskan herramann sem er á sínum efri árum - Major Pettigrew's Last Stand. Sú bók er líka eins konar þroskasaga en miklu fyndnari  en Hin ótrúlega pílagrímsganga Harold Fry. Í þeirri bók er mikil áhersla lögð á hvað Major Pettigrew er svakalega enskur, líkt og Harold, en það er gert á mun kómískari hátt. Pettigrew er kominn á eftirlaun líkt og Harold en eiginkona hans er látin. Hann einnig lifir frekar viðburðasnauðu lífi - allt þar til bróðir hans deyr. Það setur allt á annan endann í lífi hans og verður  óbeint til þess að hann verður ástfanginn á nýjan leik og þarf að hugsa alveg upp á nýtt hvernig lífi hann vilji lifa. Mér fannst bókin um Pettigrew miklu skemmtilegri en pílagrímsganga Harolds en hennar helsti galli er þó að hún er ívið of löng. Mér leiddist þó aldrei á meðan lestrinum stóð. Ég mæli a.m.k. með henni fyrir þá sem fíluðu Harold.

No comments:

Post a Comment