Sunday, August 19, 2012

A Discovery of Witches

Ég er mikill sucker fyrir alls konar ævintýrasögum. Í gegnum tíðina hef ég gleypt í mig alls kyns seríur - Harry Potter (eins og annað hvert mannsbarn), Artemis Fowl, Game of Thrones, True Blood bækurnar o.fl. o.fl. Í ljósi þessa áhuga míns sótti ég mér bókina A Discovery of Witches í Kindle í síðustu viku. Bókin er sú fyrsta af þremur um nornina Diana Bishop og hefur fengið góða dóma. (Önnur bókin, Shadow of Night, kom út núna í sumar en sú þriðja er ekki komin út enn). 

Þó að eitthvað sé um klisjur í söguþræðinum er sagan nokkuð frumleg að mínu mati. Eitt aðalþema sögunnar er að rannsaka og skýra tilvist yfirnátturlegra vera eins og norna, vampíra og djöfla (ég er ekki viss um þessa djöflaþýðingu - verurnar eru alltaf kallaðar "daemons" í bókunum en ekki demons) með vísindalegum aðferðum, t.d. DNA-greiningum. Þróunarkenningin spilar einnig stórt hlutverk. Þetta er eitthvað sem ég hef ekki rekist á áður í sambærilegum sögum. Þá er mikið um sagnfræði (sem mér finnst alltaf skemmtilegt) en það ætti kannski ekki að koma á óvart í ljósi þess að Deborah Harkness er sagnfræðingur líkt og aðalpersónan Diana. Annað sem mér finnst frumlegt við söguna er að Harkness hengir sig ekki í allar sögusagnir um yfirnáttúrulegar verur og lifnaðarhætti þeirra. Hún útskýrir þessar sögusagnir með hneigingu mannfólksins til að spinna sögur í kringum það sem það óttast og skilur ekki (mannfólk er álitið heimskt af þónokkrum karakterum í bókinni). Til að ég nefni sem dæmi þá eru vampírurnar í sögunni ekki viðkvæmar fyrir sólarljósi. Þær geta vel gengið um í sólinni en þær reyna að forðast það vegna þess að þá er auðveldara fyrir mannfólkið að taka eftir þeim. Vampírur eru svo fölar á hörund, og auðvitað svo svakalega fagrar, að mannfólkið getur ekki annað en séð að þær eru eitthvað öðruvísi þegar sólin skín beint á þær. Þess vegna hefur sú saga spunnist að vampírum sé ófært að ganga um í dagsljósi. Svo að það komi fram þá glitra vampírurnar í sögunni ekki - sem betur fer.

Það sem mér fannst klisjukennt í sögunni er að Diana verður ástfangin af ævafornri vampíru, Matthew Clairmont, sem er dökkur, hættulegur og svona svakalega fallegur. Það er mjög fyrirsjáanlegt strax frá byrjun hvernig þeirra samband á eftir að þróast. Nú velti ég fyrir mér hversu margar sögur snúast um það nákvæmlega sama - (næstum) mennsk kona verður ástfangin af vampíru sem er alltaf með þessi sömu útlitseinkenni. Allir aðrir óttast eða forðast vampíruna í upphafi sögu en ekki hún... Mér detta a.m.k. í hug True Blood bækurnar, Twilight og The Vampire Diaries og ég er nokkuð viss um að það eru til fleiri sögur sem byggja á þessu sama konsepti. Best að ég taki fram að ég hef enga bók lesið í síðarnefndu seríunum tveim og til að ég gæti allrar sanngirni þá tek ég líka fram að þetta er aðeins öðruvísi í Dracula eftir Bram Stoker. Þar eltist vampíran við konuna þvert gegn vilja hennar. En af hverju er það alltaf karlinn sem er vampíra en konan mennsk (varnarlaus)? Af hverju er þetta aldrei öfugt? Finnst rithöfundunum óhugsandi að skrifa um sambönd þar sem konan er sterkari og hættulegri en karlinn? Kannski eru til einhverjar sögur þar sem þetta er öfugt en ég hef a.m.k. ekki rekist á þær.

Annar galli við bókina að mínu mati er að Harkness segir stundum frá of mörgum smáatriðum. Ég reyndi að láta það ekki fara of mikið í taugarnar á mér. Henni tekst samt að gera bókina spennandi og ég átti erfitt með að slíta mig frá henni -  sem kom illa niður á húsverkunum í síðustu viku vegna þess hve bókin er löng.

Það er margt óútskýrt eftir þessa fyrstu bók. Þó að mikið sé um tákn og vísbendingar um það sem koma skal ætla ég ekki einu sinni að reyna að halda því fram að ég hafi skilið allt og viti nákvæmlega hvað á eftir að gerast. Þetta er ekki einföld saga og ég mæli ekki með henni fyrir þá sem langar að lesa eitthvað án þess að þurfa að hugsa á meðan. Ég ætla a.m.k. að taka mér smá pásu áður en ég byrja á bók nr. tvö.

No comments:

Post a Comment