Í gær bakaði ég súkkulaðisnúða (mmm). Ég hafði þessa uppskrift frá smitten kitchen til hliðsjónar. Þetta er frekar einföld og þægileg uppskrift. Uppskriftirnar á smitten kitchen eru svo þægilegri en á mörgum öðrum bandarískum bloggsíðum að því leyti að sú sem skrifar bloggið setur líka inn mælieiningar úr metrakerfinu en ekki bara þessar skrýtnu bandarísku. Ég bý reyndar ekki svo vel að eiga eldhúsvog, eins hræðilegt og það nú er, þannig að ég er búin að venja mig á að nota nánast eingöngu bandarísk bollamál þegar ég baka.
Ég bætti aðeins við gerskammtinn í upprunalegu uppskriftinni í samræmi við viðbótarleiðbeiningar smitten kitchen frá 1. ágúst sl. og setti heilar 2 tsk. Það kom vel út. Þar sem ég á ekki hitamæli þá mældi ég ekki nákvæmlega hitastigið á mjólkinni en ég reyndi að miða við að hún væri handvolg. Ég hélt að ég hefði eyðilagt deigið með því að setja gerið í mjólkina of heita, aðallega vegna þess að mér fannst deigið ekkert hefast, en það var ekki raunin. Þó að deigið tvöfaldaðist ekki að stærð, eins og smitten talar um í uppskriftinni, þá var það mjög mjúkt og meðfærilegt og ég náði auðveldlega að fletja það. Það dugði svo í átján snúða en ekki bara tólf eins og uppskriftin gerir ráð fyrir. Mínir snúðar voru þó sennilega aðeins minni en þeir hjá smitten en ég held að það sé bara jákvætt í ljósi mikils súkkulaðimagns þeirra. Það er smá tækjaskortur í eldhúsinu hjá mér, því ég á heldur ekki hrærivél, og því notaði ég aðallega hendurnar til að hnoða deigið. Það gekk vel þó að deigið yrði mjög klístrað eftir að ég bætti smjörinu við síðast.
Þar sem ég á ekki mixer (tækjaskorturinn er sem sagt mjög alvarlegur) notaði ég blandarann minn til að koma fyllingunni saman. Það er í vafasamari kantinum en ég reyndi að saxa súkkulaðið vel áður en ég skellti blandaranum af stað. Svo er sennilega hægt að sleppa öllu tækjavafstri og smyrja einfaldlega
útflatt deigið með smjöri og strá söxuðu súkkulaðinu yfir - ég efast a.m.k. um að það sé verra. Ef ég geri þessa snúða aftur þá myndi ég breyta fyllingunni aðeins, setja meira smjör og minnka sykurinn (jafnvel sleppa honum alveg). Ég held að fyllingin væri enn betri og að hún myndi molna minna ef smjörskammturinn væri aukinn aðeins. Snúðarnir myndu líka tolla betur saman. Ég bakaði snúðana bara í korter sem var mjög passlegt. Þeir voru mjög góðir nýbakaðir, volgir með ískaldri mjólk, en þeir voru líka góðir daginn eftir - hvorki þurrir né of harðir þó að þeir væru auðvitað betri volgir úr ofninum.
Mig langar mikið að prófa að nota gerbakstursuppskriftina hennar ömmu og gera snúða með sambærilegri súkkulaðifyllingu. Sú uppskrift er aðeins meira vesen, og aðeins stærri, en hún er virkilega góð og það er hægt að nota hana í allt - snúða, skinkuhorn og bollur - ef maður breytir bara sykurmagninu aðeins. Grunnuppskriftin er svona:
100 - 150 g smjör
1/2 l mjólk eða vatn (ég hef stundum notað undanrennu - með góðum árangri)
850 g hveiti
1/2 tsk salt
1 1/2 dl sykur (má minnka)
50 g ger (einn pakki)
1) Hitið smjörið og mjólkina/vatnið saman í potti þar til smjörið er bráðnað. Það þarf að passa vel að blandan verði ekki of heit - hún á að vera handvolg.
2) Á meðan smjörið er að bráðna, blandið þurrefnunum (líka gerinu) saman í stórri skál. Hellið svo mjólkurblöndunni saman við þurrefnin og hnoðið deigið saman. Ég hnoða deigið alltaf í höndum.
3) Látið deigið hefast í skálinni, undir viskustykki, í ca. 45 mín. Eftir það er best að hnoða deigið aðeins á borðplötunni, þangað til það verður meðfærilegt, og bæta við hveiti eftir þörfum ef það er mjög klístrað.
4) Fletjið deigið út eftir því hvað er gert úr því og setjið fyllinguna á sinn stað (nú eða mótið deigið í kúlur). Raðið á bökunarplötur með hæfilegu millibili og leyfið að hefast aftur í 60-70 mín. Stillið ofninn á 180°C.
5) Bakið snúðana/bollurnar/hornin í miðjum ofni þar til þau verða gullinbrún. Hægt er að pensla snúðana/bollurnar/hornin með mjólk/eggi (eða bæði saman) og þá glansa þau aðeins og verða fallegri.
2) Á meðan smjörið er að bráðna, blandið þurrefnunum (líka gerinu) saman í stórri skál. Hellið svo mjólkurblöndunni saman við þurrefnin og hnoðið deigið saman. Ég hnoða deigið alltaf í höndum.
3) Látið deigið hefast í skálinni, undir viskustykki, í ca. 45 mín. Eftir það er best að hnoða deigið aðeins á borðplötunni, þangað til það verður meðfærilegt, og bæta við hveiti eftir þörfum ef það er mjög klístrað.
4) Fletjið deigið út eftir því hvað er gert úr því og setjið fyllinguna á sinn stað (nú eða mótið deigið í kúlur). Raðið á bökunarplötur með hæfilegu millibili og leyfið að hefast aftur í 60-70 mín. Stillið ofninn á 180°C.
5) Bakið snúðana/bollurnar/hornin í miðjum ofni þar til þau verða gullinbrún. Hægt er að pensla snúðana/bollurnar/hornin með mjólk/eggi (eða bæði saman) og þá glansa þau aðeins og verða fallegri.
No comments:
Post a Comment