Thursday, August 9, 2012

Sherlock Holmes

Áður en ég fór í sumarfrí sótti ég mér rafbókina The Complete Sherlock Holmes í Kindle. Í henni eru sem sagt allar sögurnar sem Sir Arthur Conan Doyle skrifaði um hinn þekkta spæjara Sherlock Holmes - í ekki nema einni rafbók og á spottprís. (Svo að þið vitið þá er líka hægt að kaupa margar sögurnar í rafbók, einar og sér, á því góða verði 0 pund á Amazon). Ég er núna búin með þrjár af sögunum, A Study in Scarlet, The Sign of Four og The Adventures of Sherlock Holmes. Fyrri sögurnar tvær eru fremur stuttar sögur, hvor um eina ráðgátu, en sú síðasta er saman sett úr mörgum mjög stuttum sögum, hver af einni ráðgátu, sem gerast ekkert endilega í réttri tímaröð. Eftir að hafa lokið þriðju sögunni ákvað ég að ég  ætti skilið pásu frá hinum mjög svo klára Holmes og Dr. Watson, sem er ekki bara aðstoðarmaður Holmes heldur einnig hans dyggasti aðdáandi, og lokaði bókinni í bili. Ég er ekkert svo spennt að halda lestrinum áfram en sögurnar eru mjög fljótlesnar og ég klára þær sennilega í einhverju bókahallærinu.

Sögurnar um Holmes eru mjög ólíkar nútíma glæpasögum. Þær eru t.d. ekkert sérstaklega spennandi og maður fær voða lítið að vita um það sem er að gerast fyrr en Holmes er búinn að leysa gátuna. Í upphafi sögu fær lesandinn sömu vitneskju og Holmes en það kemur mjög oft fyrir að Holmes veit eitthvað fyrir sem tengist málinu sem lesandinn fær ekkert að vita um. Hann notar svo þá vitneskju til að leysa gátuna - stundum á frekar ótrúverðugan hátt. Sögurnar sem ég las eru allar sagðar frá sjónarhorni Watson og þrátt fyrir að hann og Holmes séu vinir, og að Watson sé aðstoðarmaður Holmes, fær hann oft ekkert að vita heldur fyrr en í lokin. Aðferðafræði Holmes er samt mjög einföld í grunninn - hún felst í því að hann tekur eftir öllu í kringum sig  (og þá meina ég öllu) og dregur svo mjög augljósar (langsóttar) ályktanir af því sem hann sér. Hann er nánast alvitur (þó að félagsleg færni hans sé reyndar ekki góð) og ekkert fer fram hjá honum - sem er leiðigjarnt til lengdar. Holmes hefur almennt ekki áhuga á konum, sýnir litla tilfinningasemi og hans einu lestir virðist vera þeir að hann reykir pípu og tekur kókaín af og til. Holmes á því lítið sameiginlegt með hinni hefðbundnu þunglyndu söguhetju skandinavískra glæpasagna sem er langt frá því að leysa allar gátur fullkomlega og á yfirleitt við fjölbreytt persónuleg vandamál að stríða. Mest pirrandi við sögurnar finnst mér óbilandi aðdáun Watson á Holmes sem og karlremba Holmes - sem heldur að konur ráði ekki við einföldustu hluti.

Það sem mér finnst skemmtilegast við sögurnar um Holmes er að lesa um aðstæður í London á þessum tíma (ca. 1880 til 1915) og tíðarandann almennt. Sem glæpasögur eða spennasögur eru þær ekkert spes - hinn alvitri Holmes er ekki áhugaverður til lengdar og það er leiðinlegt að geta ekki giskað sjálfur hver "vondi kallinn" er. Vondu kallarnir eru algjört aukatriði í sögunum og maður fær ekkert að vita frá þeirra sjónarhorni eða um þeirra aðstæður fyrr en Holmes hefur leyst gátuna  - og þá oft í mjög löngu máli. Mér fannst reyndar gaman að átta mig á því hversu langt kvikmyndir og þættir sem gerðir eru um Holmes eru frá upprunalega karakternum og söguþræðinum. Niðurstaða mín er því sú að sögurnar séu ágætar í litlum skömmtum og ég mæli með því að fólk lesi a.m.k. eina þeirra til að kynna sér þennan víðfræga karakter.

Annað mál. Ég las Leikarann eftir Sólveigu Pétursdóttur um daginn sem einnig er glæpasaga. Þó að söguþráðurinn sé ekkert sérstakur, stundum of tilviljanakenndur og að ég hafi fengið einstaka kjánahroll, fannst mér sagan sem slík skila sínu. Sólveigu tókst a.m.k. að gera mig spennta og ég lagði bókina varla frá mér fyrr en ég hafði klárað hana. Leikarinn er fyrsta bók Sólveigar og ég held að það verði gaman að fylgjast með því hvað kemur frá henni í framtíðinni.

No comments:

Post a Comment