Saturday, August 18, 2012

Smælki

Þessa dagana er ég með æði fyrir því að hafa smælki með grillmatnum (og öllu öðru) frekar en bakaðar kartöflur eða eitthvað annað kartöflukyns. Nýtt smælki er eitt af því besta sem ég fæ. Þessi nýtilkomna aðdáun mín á smælki er nokkuð einkennileg og óvænt í ljósi þess að ég borðaði varla neinar kartöflur nema franskar þar til ég varð sautján ára. Svona getur maður verið vitlaus.

Mér finnst best að léttsjóða smælkið með smá salti í potti og steikja það svo í stutta stund á pönnu - upp úr smjöri, ferskum kryddjurtum úr garðinum (steinselju, kóríander, graslauk o.s.frv.), almennilegu salti og pipar. Mér finnst smælkið svo gott þegar það er eldað svona að það liggur við að ég gæti borðað það eitt sem aðalrétt (ég fæ vatn í munninn bara við að hugsa um þetta núna).

Ég prófaði í fyrsta skipti nú í sumar að kaupa rauðar kartöflur (og þá á ég auðvitað við rautt smælki) í staðinn fyrir gullauga, premier eða hvað þessar gulu heita nú. Þessar rauðu eru miklu betri og ég trúi varla að ég hafi farið á mis við þær í öll þessi ár. Sælgæti.

Ég veit að þessi pistill er hvorki um bækur né bakstur en ég stóðst ekki mátið. Aðdáun mín á  glænýju smælki er engum takmörkunum háð. 

No comments:

Post a Comment