Ég fór og tíndi nokkuð af bláberjum í gær. Mér finnst gaman að tína og berin góð. Svo er allt morandi í þeim núna. Gæti ekki verið betra. Mér, eins og flestum öðrum, finnst best að borða berin nýtínd og fersk með þeyttum rjóma. Allra best finnst mér að þeyta rjómann með púðursykri. Púðursykurinn finnst mér passa einkar vel með súrunni í berjunum. Fæstir þurfa nú uppskrift að bláberjum og þeyttum rjóma en einmitt þess vegna ætla ég að láta eina slíka fylgja með:
1 peli rjómi
2 msk púðursykur
bláber
Rjóminn er þeyttur með sykrinum. Mér finnst betra að hafa hann léttþeyttan. Bláberjunum er svo blandað saman við rjómann, hvort sem er í eina stóra skál eða hver og einn blandar fyrir sig. (Það er hægt, og raunar mjög gott, að nota frosin ber, þ.e. ef maður hefur tínt þau sjálfur en ekki keypt þau í poka í Bónus). Fínn skammtur fyrir þrjá til fjóra.
No comments:
Post a Comment