Wednesday, January 2, 2013

Ljósmóðirin

Ég var að ljúka við Ljósmóðurina eftir Eyrúnu Ingadóttur. Ljósmóðirin er söguleg skáldsaga. Hún segir frá Þórdísi Símonardóttur  sem var ljósmóðir á Eyrarbakka fyrir og eftir aldamótin 1900. Þórdís þessi virðist hafa átt sérsaklega áhugavert æviskeið. Á kápunni segir  t.d. eftirfarandi um söguþráð bókarinnar og Þórdísi:

Tvívegis fann hún ástina og tvívegis glataði hún henni. Hún barðist gegn yfirgangi og kúgun valdamanna sem beittu öllum ráðum til að beygja hana niður í duftið. Hún gafst aldrei upp, reis á fætur þegar hún var snúin niður og glataði aldrei trúnni á hugsjónir sínar.

Áður en að ég hóf lesturinn taldi ég því eðlilega að ég ætti þó nokkra dramatík í vændum. Sú varð ekki raunin. Aðeins í eitt skipti fannst mér sagan virkilega dramatísk og það var þegar erfiðri barnsfæðingu var lýst. Þórdís glataði ástinni vissulega tvisvar og það var ítrekað reynt að beygja hana en frá þessu var ekki sagt á dramatískan hátt að mínu mati. Ég kippti mér a.m.k. lítið upp við þessa atburði alla saman. Það er eins og höfundurinn, sem er sagnfræðingur að mennt, hafi haft úr of miklum sögulegum efniviði að moða. Það er eins og allar staðreyndirnar hafi flækst fyrir. Eins og það hafi ekki verið rúm fyrir almennilega persónusköpun, spennu og dramatík. Svo að ég taki persónuna Þórdísi sem dæmi þá tengdist ég henni furðulega lítið, ég hvorki hélt með henni né lét hana fara í taugarnar á mér. Ég skildi hana ekki - ég skildi ekki hvers vegna hún gerði það sem hún gerði eða af hverju hún sagði það sem hún sagði. Það sama gildir um tvo höfuðóvini Þórdísar, þá Guðmund og Jóhann. Það er ekki nóg að höfundur segi lesandanum einfaldlega að hann sé að lesa um litríka og áhugaverða persónu - persónan verður að vera þannig að lesandinn upplifi hana sem litríka og áhugaverða án þess að vera sagt það.

Annað sem ég verð að nefna er að í sögunni er flakkað talsvert fram og aftur í tíma. Mér finnst tímaflakk í skáldsögum oft koma vel út en í þetta sinn fannst mér það mistakast. Sagan hefst við jarðarför Þórdísar árið 1930. Síðan er til skiptis sagt frá síðasta æviári hennar (1929) og ævi hennar í réttri tímaröð frá því að hún flutti til Eyrarbakka (um 1886). Sá einkennilegi háttur er oft hafður á að í köflunum frá 1929 eru rifjaðir upp atburðir úr ævi Þórdísar áður en sagt er frá þeim í köflunum sem eru í réttri tímaröð. Þetta verður til þess að eyða mest allri spennu og kaflarnir sem eru í réttri tímaröð missa marks. Það hefði verið alveg nóg að hafa einn til tvo kafla um síðasta æviár Þórdísar í upphafi bókar til þess einmitt að gera lesandann spenntan fyrir framhaldinu og svo kannski í lok bókar til að fara yfir farinn veg.

Ljósmóðirin er þrátt fyrir allt ofangreint ekki alslæm bók - a.m.k. ekki ef maður er fyrir sögulegar skáldsögur. Ég vona a.m.k. að Eyrún Ingadóttir reyni aftur og gefi út sögu sem er bæði söguleg og almennilegur skáldskapur. Ljósmóðirin er því miður bara annað af þessu tvennu.

No comments:

Post a Comment