Friday, September 21, 2012

Shadow of Night

Ég gat ekki setið lengur á mér og ákvað að lesa aðra bókina í All Souls Trilogy eftir Deborah Harkness. (Fyrsta bókin er A Discovery of Witches sem ég fjallaði um hér). Bókin heitir því drungalega nafni Shadow of Night og er beint framhald af fyrri bókinni. Ein bók í viðbót er væntanleg í seríunni en það liggur þó ekki fyrir hvenær hún kemur út.

Ég ætla ekki að vera langorð um söguþráðinn í ljósi þess að ég hef þegar fjallað nokkuð um megin atriði sögunnar. Þess skal þó getið að í byrjun bókar ferðast Diana og Matthew aftur til ársins 1591 (ef ég man rétt), bæði til að forðast ákveðin illmenni og til að leita að dularfullri bók sem er þeim mjög mikilvæg. Í leiðinni ætlar Diana að finna norn sem getur hjálpað henni að læra á sína eigin yfirnáttúrulegu hæfileika.

Í fortíðinni eru þau Diana og Matthew í félagskap mjög margra frægra einstaklinga, t.d. leikritahöfundanna Christopher Marlowe og William Shakespeare sem og kanóna eins og Elísabetar I Englandsdrottningar. Þó að ég sé viss um að sagnfræðingurinn Harkness sé með flestar staðreyndir varðandi þessar persónur á hreinu fór þessi samblöndun á skáldskap og raunveruleika eitthvað í taugarnar á mér. Í fyrsta lagi fannst mér allt "name droppið" frekar klént og í öðru lagi fannst  mér óþarfi að hafa allar þessar frægu persónur þarna í hrærigraut þar sem meiri hlutinn af þeim skiptir engu máli fyrir söguna - það hefði alveg verið hægt að gera hana áhugaverða án þeirra, þó að sumar séu kannski of mikilvægar til að sleppa.

Annar galli við bókina er að mér fannst hún frekar lengi að byrja. Ég náði mér í eintak af bókinni í Kindle og ég man að mér fannst ekkert gerast í sögunni fyrr en ég var búin með rúm 40% af henni. Við það mark hins vegar fór sagan vel af stað og ég fór að verða spennt. Svo gerðist eiginlega allt á síðustu 25% og þá var erfitt að leggja bókina frá sér.

Niðurstaða mín er sú að þetta sé ágæt bók - hún er a.m.k. betri en margar aðrar af sama tagi. Hún er samt með klassískt "mið seríu syndrome" (svipað og fimmta bókin í Harry Potter seríunni) - það gerist ekki alveg nógu mikið. Það varð til þess að mér fannst Harkness vera að reyna að teygja lopann... þannig að söguefnið dugi örugglega í þrjár bækur.

No comments:

Post a Comment