Sunday, September 23, 2012

Dönsk frönsk súkkulaðikaka

Ég fann eftirfarandi uppskrift af franskri súkkulaðiköku í dönsku blaði (sem ég man því miður ekki hvað heitir) sem samstarfskona mín lánaði mér. Kakan er vægast sagt mjög góð, ekki of yfirþyrmandi og það er frekar auðvelt að búa hana til þar sem það þarf t.d. ekki að vesenast við að bræða súkkulaðið.   
  



Dönsk frönsk súkkulaðikaka
150 g möndlur
150 g heslihnetur 
300 g gott suðusúkkulaði
2 msk (ríflegar) kakóduft
200 g mjúkt smjör
100 g sykur
1 tsk vanillusykur
6 egg

1) Hitið ofninn í 175°C. Maukið möndlur og heslihnetur saman í matvinnsluvél þar til þær verða að mjöli (Ég notaði blandarann minn til að gera þetta og til að auðvelda honum verkið keypti ég möndlur og hnetur sem var þegar búið að hakka).

2) Saxið súkkulaðið og blandið saman við hnetu- og möndlumjölið í stórri skál. Blandið því næst kakódufti, smjöri, sykri og vanillusykri saman við. Ég skar smjörið í litla kubba til þess að það væri auðveldara að blanda því saman við þurrefnin. Mér fannst svo best að nota hendurnar við að koma deiginu saman. (Á þessum tímapunkti leist mér ekkert á deigið. Það var mjög gróft og hálfgerð klessa. Ég hélt að ég hefði þýtt uppskriftina vitlaust en það kom svo í ljós að það var allt í lagi með það).
3) Skiptið eggjunum í hvítur og rauður. Setjið rauðurnar saman við deigið og hrærið lítillega en setjið hvíturnar í aðra skál og stífþeytið þær. Blandið hvítunum varlega saman við deigið þegar þær eru stífþeyttar.

4) Setjið deigið í spring- eða sílikonform og bakið í ca. 30 mín. (Ég notaði 10" sílikonform en uppskriftin gerir ráð fyrir springformi sem er 25 cm í þvermál).  NB. þetta er bara einn botn. Takið kökuna út og kælið áður en kremið er sett á.
Krem
1 dl sýrður rjómi (í uppskriftinni segir 38% en þar sem það var ekki til keypti ég 18%)
2 dl rjómi
Hnetur og möndlur til að skreyta

1) Hrærið sýrða rjómann. Stífþeytið rjómann í annarri skál. Blandið varlega saman. (Ég bætti við örlitlum vanillusykri). Setjið blönduna ofan á kökuna og skreytið hana með söxuðum hnetum og möndlum.

2) Borðið.

No comments:

Post a Comment