Nýja uppáhaldið mitt til að baka eru kanilsnúðar með súkkulaði. Þeir eru syndsamlega góðir - sérstaklega ylvolgir með kaldri mjólk. Ég er búin að baka snúðana sl. tvær helgar og í bæði skiptin hafa þeir gufað upp á undraskömmum tíma (okkur til varnar þá hef ég í bæði skiptin aðeins gert hálfa uppskrift).
Kanilsnúðar með súkkulaði:
100 - 150 g smjör
1/2 l mjólk eða vatn (ég nota oftast fjörmjólk eða undanrennu - með góðum árangri)
850 g hveiti
1/2 tsk salt
1 1/2 dl sykur
50 g ger (einn pakki)
200-300 g suðusúkkulaði
mjúkt smjör eftir smekk
kanilsykur eftir smekk
1) Hitið smjörið og mjólkina/vatnið saman í potti þar til smjörið er
bráðnað. Það þarf að passa vel að blandan verði ekki of heit - hún á að
vera handvolg. Kælið blönduna ef hún hitnar of mikið.
2) Á meðan smjörið er að bráðna, blandið öllum þurrefnunum saman í stórri skál. Hellið svo mjólkurblöndunni saman við þurrefnin og hnoðið deigið saman.
2) Á meðan smjörið er að bráðna, blandið öllum þurrefnunum saman í stórri skál. Hellið svo mjólkurblöndunni saman við þurrefnin og hnoðið deigið saman.
3) Látið deigið hefast í skálinni, undir röku viskustykki, í ca. 45 mín. Eftir það er best að hnoða deigið aðeins á borðplötunni, þangað til það verður meðfærilegt, og bæta við hveiti eftir þörfum ef það er mjög klístrað.
4) Saxið súkkulaðið. Passið að það verði ekki of stórir bitar.
4) Fletjið deigið út (mér finnst best að reyna að hafa það ílangt og eins ferhyrningslaga og ég get). Smyrjið deigið með mjúku smjöri, eins jafnt og þið getið. Stráið súkkulaði og kanilsykri yfir eftir smekk.
5) Rúllið deiginu upp í lengju, skerið í jafna í bita og raðið á bökunarplötu með
hæfilegu millibili. Leyfið snúðunum að hefast aftur í 60 mín. Stillið ofninn
á 180°C.
6) Bakið snúðana í miðjum ofni þar til þeir verða gullinbrúnir (ca. 15 - 20 mínútur en það er best að fylgjast vel með þeim). Hægt er að pensla snúðana með mjólk/eggi (eða bæði saman) áður og þá glansa þeir aðeins og verða fallegri.
No comments:
Post a Comment