Saturday, January 26, 2013

Heilhveitibrauð með fræjum og múslí

Ég hef verið mjög löt undanfarna daga (vikur) og er það ástæða bloggleysisins. Nú ætla ég að reyna að bæta mig.

Hér fyrir neðan er uppskrift að mjög góðu (og mögulega hollu) brauði. Þessi uppskrift er mjög meðfærileg þar sem það er mjög auðvelt að breyta henni eftir því hvað maður á í skápunum hverju sinni.
 

Heilhveitibrauð með fræjum og múslí:
3 3/4 dl heilhveiti
1 3/4 dl múslí
1 1/4 dl sólkjarnafræ
1 1/4 dl graskersfræ/sesamfræ eða önnur fræ
1 1/4 dl rúsínur eða önnur þurrkuð ber
1/2 msk lyftiduft
1 tsk gott sjávarsalt
1 dl vatn
3 1/2 dl ab-mjólk

1) Stillið ofninn á 200°C.

2) Blandið öllum þurrefnunum saman í skál og hrærið saman.

3) Blandið vatninu og ab-mjólkinni saman við og hrærið varlega. (Í eitt skipti, þegar ég var byrjuð að baka þetta brauð, áttaði ég mig á því að ég átti ekki ab-mjólk. Þar sem öll þurrefnin voru komin í skál ákvað ég að redda mér og sett í staðinn blöndu af fjörmjólk og vanilluskyri með mjög góðum árangri).

4) Látið deigið í smurt formkökuform (eða hyljið formið með smjörpappír). Skreytið með fræjum eftir smekk og bakið í u.þ.b. klst.


Fyrir jól ákvað ég að búa til og/eða föndra nokkrar jólagjafir. Ég hafði nokkrar hugmyndir  þar að lútandi en niðurstaðan varð sú að nota þessa uppskrift og gefa fólki "brauð" í jólagjöf. Ég setti þurrefnin í krukkur sem ég keypti í IKEA og skrifaði svo leiðbeiningar um blöndun blautefna og bakstursaðferðina, eins fallega og ég gat, á litla miða og hengdi utan á krukkurnar sem ég skreytti svo. Ég held (og vona) að flestir hafi verið ánægðir með brauðið sitt. Ég sé a.m.k. fyrir mér að þetta sé sniðug gjöf við mörg tækifæri - t.d. innflutningsgjöf.

 

No comments:

Post a Comment